En ef við nú reyndum að brjótast það beint, þó brekkurnar verði þar hærri? Vort ferðalag gengur svo grátlega seint, og gaufið og krókana höfum við reynt, — og framtíðar landið er fjærri. Að vísu er það harmur, að vísu er það böl, hvað við erum fáir og snauðir; en það verður sonunum sárari kvöl að sjá að við kúrum í þessari möl og allir til ónýtis dauðir. Þar bíða þín óðul hins ónumda lands að entum þeim klungróttu leiðum: sú friðkeypta ættjörð hvers frjálsborins manns, sem felur hin skínandi sigurlaun hans að baki þeim blágrýtis heiðum. Og munið, að ekki var urðin sú greið til áfangans, þar sem við stöndum, því mörgum á förinni fóturinn sveið, er frumherjar mannkynsins ruddu þá leið af alheimsins öldum og löndum. Og oft hefur frægasta foringjans blóð á fjöllunum klappirnar skolað, en það hefur örvað og eggjað hans þjóð, því alltaf varð greiðara þar sem hann stóð; það blóð hefur blágrýtið holað. Og meðan hin kolsvörtu miðalda ský sem myrkur á heiðunum lágu, var huggunin einasta hörmunum í að hefja sinn anda að landinu því — þar brostu við tindarnir bláu Það voru þau fjarlægu framtíðar lönd, sem faðminn við kappanum breiddu, en klerkarnir Helvíti hótuðu’ hans önd og harðstjórans skósveinar ráku’ hann í bönd og dæmdan að logunum leiddu. Þú töfraðir hetjurnar, ókomna öld, og ennþá er svipur þinn fagur, er hver maður þorir að þekkja sinn skjöld og þarf ekki að krjúpa við gull eða völd. Ó, það verður dýrlegur dagur. Og þá verður himininn heiður og skær; því hann er þá kominn til valda, sem engan viil neyða, sem öllum er kær, sem elskar hvert hjarta sem lifandi slær, og þarf ekki á Helvíti að halda. Þá verða ekki smælingjum veðrin svo hörð og vistin svo döpur á fjöllum, því skjól hefur fundið in húslausa hjörð, og hún er þá blíðari, móðir vor, jörð, og blessuð af börnunum öllum. Og væri ekki gaman að vakna upp á ný og vera á þeim gullaldar dögum, er hver maður segir að þýið sé þý og þarf ekki að bannfærast kirkjunum í, né hengjast að hegningarlögum. Ég sé þessa fjarlægu fagnaðar stund, er fólkið af hæðunum brunar og horfir þar loks yfir hauður og sund og heilsar þér, ástkæra, langþreyða grund, og ópið í dölunum dunar. Sá flokkur í neyð yfir firnindin braust, því frelsið er allt sem hann varðar; þá kveður við loksins sú kröftuga raust, sem kallar sitt föðurland viðstöðulaust af harðstjórum himins og jarðar. Að vísu kann ferðin að verða þeim dýr, en verður það þá ekki gaman, er sveitin að landinu sólfagra snýr, þar sannleiki ríkir og jöfnuður býr, og sýngur þar hósanna saman. Við lifum það kannske ekki landið að sjá, því langt er þar eftir af vegi; en heill sé þeim kappa, sem heilsa því má og hvíla sín augu við tindana þá, þó það verði á deyjanda deg Og lítið er ennþá vort liðsmanna safn, en lagt mun það fram, sem við höfum; við vitum, að leikurinn verður ei jafn, en vonum að framtíðin geymi okkar nafn, þó samtíðin gleymi okkar gröfum. Og þó að ég komist ei hálfa leið heim, og hvað sem á veginum bíður, þá held ég nú samt á inn hrjóstruga geim og heilsa með fögnuði vagninum þeim, sem eitthvað í áttina líður. Og þó að þú hlæir þeim heimskingjum að, sem hér muni í ógöngum lenda, þá skaltu ekki að eilífu efast um það, að aftur mun þar verða haldið af stað, uns brautin er brotin til enda. Ég trúi því, sannleiki, að sigurinn þinn að síðustu vegina jafni; og þér vinn ég, konungur, þáð sem ég vinn og því stíg ég hiklaus og vonglaður inn í frelsandi framtíðar nafni. Og kvíði þið öngu, og komi þið þá, sem kyrrir og tvíráðir standið; því djarfmannlegt áræði er eldstólpi sá, sem eyðimörk harðstjórnar leiddi okkur frá, og guð, sem mun gefa okkur landið.
Brautin
by
Tags: