Þarft verk og þarflaust streð

William Morris

Grein þessi heitir áfrummálinu „Useful Work versus Useless Toil“. Hún var fyrirlestur sem Morris flutti í Hampstead Liberal Club í janúar 1884. Hún birtist fyrst á prenti 1885, gefin út af Socialist League.

William Morris 53 ára

Titill þessa spjalls kann að koma sumum lesendum spánskt fyrir sjónir. Nú á tímum taka flestir því sem gefnum hlut að öll vinna sé þarfleg, og flest ríkt fólk bætir því við að hún sé líka göfgandi. Flestir, bæði þeir ríku og allir hinir, trúa því að jafnvel starf sem hefur engan sjáanlegan tilgang sé þarflegt, því viðkomandi starfskraftur sé þó alltént að „vinna fyrir sér“ – hann „hefur vinnu” segja menn, og hinir ríku hrósa honum fyrir „dugnaðinn”, sér í lagi ef hann fórnar frístundum, hvíldartíma og orlofum á altari vinnunnar. Í stuttu máli, í siðfræði samtímans er það trúaratriði að vinna sé góð í sjálfu sér – mjög svo heppileg trú fyrir þá sem lifa af vinnu annara. En hina, þá sem erfiða, bið ég staldra við, hugsa sig um og kafa aðeins dýpra í málin.

Til að byrja með getum við fallist á að maðurinn sem tegund verði annaðhvort að vinna eða tortímast. Náttúran skaffar okkur ekki með öllu gratís og átakalaust lifibrauð. Að einhverju marki þurfum við að vinna fyrir því, strita í sveita vors andlits. Spurningin er hvort það þurfi að vera alfarið slæmt eða hvort af því megi ekki líka hafa nokkra ánægju. Við vitum jú að vissar aðrar athafnir sem náttúran krefst að við framkvæmum til að viðhalda mannkyninu eru ekki einasta þolanlegar heldur beinlínis skemmtilegar.

Ofangreindri spurningu hljótum við að svara játandi. Vinna getur vissulega veitt ánægju. Það er eðli mannsins, sé hann við sæmilega heilsu, að njóta þess að hafa eitthvað þarft og skemmtilegt fyrir stafni. Engu að síður er það svo að framangreind vinnudýrkun samtímans er fölsk og hræsnisfull og auðvelt að andmæla henni með því að benda á alls konar vinnu sem er svo mikið böl frekar en blessun að það væri bæði þjóðfélaginu í heild sem og verkamanninum sjálfum fyrir bestu að hinn síðarnefndi krosslegði hendur og segðist hættur svona vitleysu. í reynd fengi hann þó ekki tilskilið hrós heldur skammir og fyrirlitningu, og ætti á hættu að deyja úr hungri ellegar lenda í fangelsi eða á fátækrahæli.

Af framgreindu getum við ályktað að til er tvenns konar vinna -önnur góð og hin slæm. Sú fyrri nálgast það að vera blessun; hún gerir okkur lífið léttara. Hin síðari er bölvun einber og byrði þung.

Hver er munurinn? Hvað gerir aðra að blessun og hina að böli? Það sem skilur á milli er sjálf vonin og hennar fyrirheit. Ein tegund vinnu gefur góð fyrirheit, hin er vonlaus. Það er manndómur að sinna hinni fyrrnefndu og það er líka manndómur að hafna hinni síðarnefndu.

Hvaða fyrirheit felast í góðri vinnu, þeirri vinnu sem sæmd er af?

Mér virðist sem um sé að ræða þrenns konar fyrirheit: um hvíld, um afrakstur, og um ánægju af starfinu sjálfu. Sá sem vinnur vonast til að öðlast og njóta alls þessa í ríkum mæli: næga og kærkomna hvíld að starfi loknu; góðan og eigulegan afrakstur verksins; og gleði og stolt þess sem vinnur verk sitt af hugulsemi og sköpunargleði en ekki bara af vana eða illri nauðsyn.

Ég byrja á fyrirheitinu um hvíld, því það er einfaldast og náttúrulegast. Hversu ánægjuleg sem vinnan kann að vera fylgir henni alltaf eitthvað erfiði, einhver þraut, sem og einhver sjálfsprottin dýrsleg óánægja með það að fá ekki að liggja áfram óáreittur í makindum sínum og strjúka kviðinn. Þá kemur sér vel að geta hlakkað til hvíldarinnar, að sjá fyrir endann á vinnunni. Það skiptir líka öllu að hvíldin sé það löng að hún dugi til annars og meira en þess eins að endurnýja þá orku sem fór í vinnuna. Eins verður hvíldin að vera áhyggjulaus og ekki þrungin kvíða yfir framtíðinni. Aðeins að þessu tilskildu fáum við notið hennar, og aðeins að þessu tilskildu getum við sagt að við höfum það alltént ekkert verra en aðrar skepnur jarðar.

Upphaf nútíma færibandaframleiðslu í Ford bílaverksmiðjunum í Bandaríkjunum snemma á 20. öld.

Hvað varðar fyrirheit um afrakstur, þá hef ég þegar látið þess getið að náttúran krefst þess að við höfum fyrir hlutunum: án vinnu er enginn afrakstur. Við mennirnir verðum sjálfir að skapa með frumkvæði okkar og iðjusemi þá hluti sem við girnumst, jafnvel þá sem flokkast undir brýnustu nauðsynjar. En gerum við það erum við alltént ekkert ómerkari en vélar og amboð.

Þá komum við að fyrirheitinu um þá ánægju sem fylgir vinnunni sjálfri, hinni eiginlegu starfsgleði. Margir, eflaust flestir, lesenda minna hafa aldrei komist í kynni við hana. Samt þykist ég vita að allar lífverur jarðarinnar hafi náttúrulega ánægju af því að virkja orku sína og láta reyna á styrk sinn, þol og fimi. Við það bætist að maður sem vinnur gott starf gerir sér grein fyrir að hann skapar eitthvað sem aðeins er til fyrir hans atbeina og nýtir til þess ekki einasta orku líkamans heldur líka orku hugar og sálar. Hann beitir minni og ímyndunarafli. Höndum hans stýrir ekki bara hugsun hans sjálfs heldur hugsun og reynsla liðinna kynslóða. Hann skapar; hann skapar sem hlekkur í keðju mannkyns. Að vinna svona er manndómur. Ef við gerum það verða dagar okkar gleðilegir og viðburðaríkir.

Góð og gegn vinna ber því fyrirheit um gleði hvíldarinnar, fyrirheit um gleði manns er nýtur þess sem hann sjálfur bjó til, og ekki síst fyrirheit um sköpunargleði hins daglega starfs. Þetta er vonglöð vinna.

Öll önnur vinna er einskis virði; hún er þrælavinna -strit þess er vinnur til að lifa og lifir til þess að vinna.

Þar eð við höfum nú sett okkur nokkurs konar mælikvarða á verðleik þeirrar vinnu sem framkvæmd er í veröldinni skulum við nýta hann til að vega og meta. Við skulum vega og meta þá vinnu sem mennirnir stunda á okkar tímum, eftir mörg þúsund ára streð og brostnar vonir, og sjá hvernig útkoman samræmist þeim margrómuðu framförum og því aukna frelsi sem sögð eru einkenna okkar öld.

Það fyrsta sem við blasir þegar ígrunduð er öll sú vinna sem nú er stunduð er það hversu ójafnt hún dreifist á milli stétta þjóðfélagsins. Í fyrsta lagi eru þeir ófáu sem ekkert vinna og nenna ekki einu sinni að þykjast. Síðan eru all stór hópur fólks sem leggur nokkuð hart að sér en á þó fjölmargar hvíldarstundir og tekur sér leynt eða ljóst löng frí inn á milli. Loks eru þeir sem vinna svo mikið að segja má að þeir geri ekkert annað og kallast þess vegna „hin vinnandi stétt”, til aðgreiningar frá millistéttinni, sem vinnur miðlungs mikið, og ríkisbubbunum eða aðlinum, sem vinnur ekki neitt.

Það er Ijóst að þetta ójafnræði bitnar mjög á „hinni vinnandi stétt”, sem við skulum kalla verkalýð. Það sviptir hann nánast allri von um góða hvíld, og að því leyti er hann verr settur en dýr jarðarinnar. En þar með er ekki öll vitleysan upp talin, Þetta er bara byrjunin.

Við tökum líka eftir því að þeir ríkustu, þeir sem ekkert vinna, neyta í óhófi án þess að framleiða nokkuð. Þess vegna eru þeir byrði á samfélaginu, og hinir, þeir sem vinna, verða að halda þeim uppi eins og ómögum. Á okkar tímum fjölgar þeim sem skilja þó altént þetta, og finnst til baga, þótt þeir skilji ekki önnur þjóðfélagsböl og hafi ekki fullmótaðar skoðanir á því hvernig við skuli bregðast, hafa í mesta lagi einhverjar óljósar og illa grundaðar hugmyndir um að þingheimur muni einhvern tíma gera eitthvað í málinu. Það tekur því ekki að eyða miklu púðri í slíkar tálvonir eða hjátrú. Þar fyrir utan er þessi stétt, aðallinn, sem eitt sinn var álitin hornsteinn ríkisvaldsins, farin mjög að þynnast og er orðin næsta valdalítil upp á eigin spýtur, heldur þarf að reiða sig á stuðning næstu stéttar fyrir neðan – sem er millistéttin. Í reynd eru skilin óglögg: þeim millistéttarmönnum sem mestum frama hafa náð hefur tekist að hífa sig upp í aðalinn.

Hvað varðar millistéttina, þar á meðal kaupmenn, iðnjöfra, menntafólk og embættismenn, virðist hún í heildina svo önnum kafin að við fyrstu sýn mætti halda að hún væri samfélaginu meiri stoð en byrði. Hins vegar er það lóðið að flestir meðlimir þessarar stéttar, þrátt fyrir alla sína iðjusemi, framleiða ekki nokkurn skapaðan hlut, og jafnvel þeir sem það gera eða eru á einhvern hátt til gagns, eins og læknar og (sannir) listamenn og rithöfundar, neyta svo mikils að það er í engu samræmi við framlag þeirra. Sá hluti þessarar stéttar sem tengist viðskiptum og atvinnurekstri -valdamesti hlutinn- eyðir ævi sinni og orku í samkeppni um innbyrðis skiptingu þess auðs sem þeir neyða hina raunverlegu framleiðendur, það er verkalýðinn, til að skapa sér til handa. Aðrir meðlimir þessarar stéttar eru upp til hópa fylgifiskar og taglhnýtingar hinna, vinna ekki í almannaþágu heldur í þágu hinna auðugu, lifa líkt og sníkjudýr á eignamönnum. Sumir, til dæmis lögfræðingar, gera það opinberlega og blygðunarlaust. Aðrir, eins og áðurnefndir læknar og listamenn, reyna endrum og eins að vera til gagns, eða alla vega þykjast til gagns, en eru þó alltof oft lítið annað en skósveinar auðs, hégómaskapar, blekkingar og kúgunar. Við skulum líka muna að þeirra keppikefli er ekki að gera samfélaginu gott heldur að komast sjálfir, og ef ekki þeir sjálfir þá börn þeirra, í þá aðstöðu að þurfa ekki lengur að vinna. Þeirra göfuga markmið er sem sé að verða augljós byrði á þjóðfélaginu. Um starfið sjálft stendur þeim nokk á sama, þótt þeir baði það fölskum dýrðarljóma og tali um köllun og áskoranir. Undanskildir eru örfáir eldhugar á sviði vísinda, lista og ritsmíða. Þeir eru kannski ekki salt jarðar, en þeir eru einskonar salt þessa rotna kerfis, sem gerir þá að þrælum sínum og setur þeim stólinn fyrir dyrnar við hvert tækifæri og tekst, því miður, oft að spilla þeim áður en yfir líkur.

Í stuttu máli, hérna er sem sé önnur stétt, all fjölmenn og alls ráðandi, sem framleiðir næsta fátt en neytir þeim mun meira, og er þess vegna haldið uppi af hinum raunverlegu framleiðendum. Og það eru einmitt þeir sem nú munu teknir til umfjöllunar, þeir sem framleiða allt sem framleitt er og sjá þannig farborða ekki bara sjálfum sér heldur líka hinum stéttunum tveimur, en eru samt settir skör lægra og beittir þvílíku óréttlæti og fyrirlitningu að skaði er bæði líkama og sál. En til þess einmitt að viðhalda slíku óréttlæti er nauðsynlegt að undanþiggja suma þeirra beinni framleiðslu og gera þá, eins og marga miðstéttarmenn, að sníkjudýrum á eignamönnum. Af þessum skal fyrsta nefna hermenn til sjós og lands, sem til taks eru í stöðugum erjum og átökum ríkja á milli og, ef með þarf, til að tryggja með vopnavaldi arðránið heima fyrir. Svo eru þjónar og húshjálpir og heill her skrifstofufólks, búðarloka og annara sem virkja þarf í þágu auðs og gripdeilda, en um það snýst, eins og fyrr segir, allt starf og öll tilvist hinnar efnuðu miðstéttar. Þetta er stærri hluti verkalýðsstéttarinnar en margan grunar, því honum tilheyra svokallaðir söluaðilar, eða, svo við notum ófínna en réttara hugtak, prangarar. Umfang prangsins er orðið slíkt að oft fylgir meiri kostnaður því að koma vörunni í sölu en að framleiða hana.

Innan verkalýðsstéttarinnar höfum við líka stóran fjölda fólks sem framleiðir allan hégómann og lúxusinn sem þarf til að anna eftirspurn hinna ríku stétta sem ekkert framleiða sjálfar. Þetta er alls konar tildur og prjál, það er fólk sem lifði ærlegu og óspilltu lífi léti sér aldrei detta í hug að falast eftir. Sjálfum dettur mér ekki í hug, sama hvað hver segir, að kalla svona glingur auðlegð. Það er ekki auðlegð, heldur sóun. Auðlegð er það sem náttúran gefur okkur og það sem skynsamir menn gera úr gjöfum náttúrunnar. Hún er sólskinið, ferskt loft, óspillt landslag, fæða, klæði og gott og hóflegt húsnæði; hún er mannleg þekking og aðferðir okkar til varðveislu hennar, miðlunar og brúks til gangs og gamans; hún er samskipti manns við mann; hún er listaverk, það sem maðurinn skapar þegar mennska hans blómstrar best, þegar mannleg hugsun er mest skapandi -allt þetta gefur gildi og hamingju því lífi sem er frjálst, ærlegt og óspillt. Þetta er auðlegðin. Ég get ekki ímyndað mér að það hafi nokkuð gildi að eiga eitthvað sem ekki er hluti af ofangreindu. En ef maður hugsar til alls þess sem framleitt er á Englandi, í þessari smiðju heimsins, þá óar manni við öllu þeim ósköpum af þarflausu dóti sem engann heilvita mann langar í, en er samt framleitt með ómældu þarflausu streði -og selst í stórum stíl.

Kannski er enn grátlegra til þess að vita hversu margt, já mjög margt, af okkar verkafólki vinnur við framleiðslu varnings sem er því sjálfu og þess líkum nauðsynjavara einmitt vegna þess að þetta er illa gert, og þar með ódýrt, drasl. Því sé það svo að margir lifi í vellystingum án þess að framleiða neitt, og það sem meira er, lifi svo innantómu og heimskulegu lífi að stór hluti verkafólks sé neyddur til þess að framleiða handa þeim þarflaust tildur, þá hlýtur af því að leiða að sú alþýða manna er uppi heldur hinum neyslufreku iðjuleysingjum, berjist sjálf í bökkum og flest alþýðfólk sé of fátækt til að kaupa þá gæðavöru sem hugur þess girnist, en verði þess í stað að láta sér nægja ódýran ruslvarning: næringarlítinn mat, lélegan fatnað og húsnæði svo hrörlegt að margur borgarbúi okkar margrómuðu siðmenningar hlýtur að harma það að búa ekki í tjaldi hirðingjans eða helli frummannsins. Verkafólkið er því látið taka þátt í vörusvikum iðnvæðingar og framleiða til eigin nota lélegar og hlálegar eftirlíkingar af lúxusvöru ríka fólksins, því launþeginn verður alltaf að lifa eins og launagreiðandinn heimtar; verkafólkið lifir því lífi sem drottnarinn neyðir það til.

Það væri tímasóun að eyða viðeiganda skammaryrðum í þann verksmiðjuframleidda varning sem menn keppast nú við að lofa og prísa á þeim forsendum að hann sé billegur. Ég læt mér nægja að benda á að harm er billegur einmitt af því að þetta er lélegur varningur framleiddur sérstaklega fyrir fólk sem er svo arðrænt að það hefur ekki efni á öðru og betra. Með öðrum orðum, þjóðfélagsgerðin byggir á tilvist mikils fjölda þræla, sem þarf að fæða, klæða og hýsa eins og þræla, skemmta eins og þrælum, og tilvera þessara þræla krefst þess að þeir sjálfir framleiði þrælavarning til að viðhalda eiginn þrældómi.

Ég ítreka varðandi eðli vinnunnar í siðmenningu samtímans: þjóðfélagið skiptist í þrjár stéttir -stétt sem ekkert vinnur og læst ekki einu sinni gera það, stétt sem læst vinna en framleiðir ekkert, og stétt sem vinnur, en er oft til þess dæmd af hinum stéttunum tveimur að vinna út í bláinn þarflaust verk.

Með þessu móti sóar siðmenningin eigin auðlindum, orku og hæfileikum og mun gera svo lengi sem núverandi kerfi er við lýði. Þetta er hörð orð en engu að síður, og því miður, sönn lýsing á þeirri kúgun sem við búum við. Íhugum nánar þýðingu þessa. Veröldin býr yfir ákveðnu magni af náttúrulegum hráefnum og náttúrulegri orku. Hún hefur líka ákveðið magn vinnuafls innifalið í mennskum jarðarbúum. Hvattir áfram af þörf og þrá hafa mennirnir stritað í mörg þúsund ár við það að beygja náttúruöflin undir vilja sinn og koma hráefnum jarðar í brúklegt form. Í augum okkars sem nú lifum, sem sjá að vísu ekki inn í framtíðina, er þessi barátta við náttúruna nánast til lykta leidd með sigri mannsins. Og þegar við lítum til baka, allt til upphafs sögunnar, virðist okkur sú sigurför hafa verið mun hraðari og kröftugri síðustu tvö hundruð árin en nokkru sinni fyrr. Maður skyldi því ætla að við nútímamenn hefðum það betur en allir þeir sem á undan fóru. Maður skyldi ætla að sérhver okkar væri vel stæður og lifði í þeim vellystingum sem sigurinn yfir náttúrunni hefði fært okkur.

GÓÐ OG GEGN VINNA BER ÞVÍ í SÉR FYRIRHEIT UM GLEÐIHVÍLDARINNAR, GLEÐIMANNS SEM NÝTUR ÞESS ER HANN SJÁLFUR BJÓ TIL, OG EKKI SÍST FYRIRHEIT UM SKÖPUNARGLEÐI HINS DAGLEGA STARFS. ÞETTA ER VONGLÖÐ VINNA.

En hver er reyndin? Hver dirfist að neita því að obbinn af íbúum hins siðmenntaða heims sé fátækur? Svo fátækur að það væri barnalegt að fara að þrátta um það hvort núlifandi fátæklingar hafi það kannski betra að þessu eða hinu leytinu en fátæklingar fyrri tíma. Fátæklingar skulu þeir heita, og að því leyti verr settir en villimenn fornaldar sem ekkert áttu og bjuggu í kulda og vosbúð að hinir síðarnefndu þekktu ekkert annað og væntu sér einskis annars, á meðan siðmenningin hefur vakið í almenningi nútímans væntingar og þrá sem hún svo meinar honum að fullnægja. Þannig er hún ekki einasta nánös heldur líka kvalari.

Þannig hefur sigurlaunum okkar eftir hina langvarandi baráttu við náttúruna verið stolið frá okkur og við svikin um hin fögru fyrirheit hvíldar, gnægtar og starfsgleði. Þess í stað sitjum við uppi með aðeins eitt fyrirheit, okkar skapadóm -að lifa til að vinna.

Hvað ber að gera? Finnst bót meina?

Ég minni aftur á að það voru ekki áar okkar í fjarlægri fortíð sem báru sigurorð af náttúrunni, heldur foreldrar okkar, jafnvel við sjálf. Það væri því í meira lagi heimskulegt ef við, slíkt afreksfólk, sætum aðgerðalaus og játuðum okkur sigruð. Vitaskuld finnst bót meina. En hvar skal byrja?

Við höfum séð að nútímasamfélagið skiptist í tvo megin hópa og að annar þeirra býr við þau forréttindi að geta lifað af vinnu hins: annar neyðir hinn til að strita fyrir sig og tekur allt það sem hann getur frá þeim lægra settu og notar það til að viðhalda forréttindastöðu sinni, til þess að gera sig merkilegri, til að lifa lengra, fegurra, göfugra og fágaðra lífi en sauðsvartur almúginn. Ég er ekki þar með segja að líf þeirra sé í reynd langt og fagurt og svo framvegis, en þeir halda því alltént fram og telja svo sjálfir vera, og oft er það svo að einhverju leyti borið saman við basl almennings. En í reynd er þessari yfirstétt fyrirmunað að skapa úr þýfi sínu einhverja sanna auðlegð, heldur sóar hún því í hégóma og vitleysu.

Það er þessi stuldur og þessi sóun af hálfu minnihlutans sem veldur fátækt meirihlutans. Ef hægt væri að sýna fram á að þetta fyrirkomulag væri bráðnauðsynlegt til að forðast hrun samfélagsins væri kannski fátt við því að segja eða gera, annað en að bíða eftir því að vesöld og örvænting hins kúgaða meirihluta leiddi að lokum til tortímingar mannlegs samfélags. En þessu er ekki þannig varið, enda hafa fjölmargar staðbundnar tilraunir með aðra framleiðslu- og samfélagshætti, til dæmis svokölluð samvinnufélög, sýnt fram á að tilvist yfirstéttar er alls ekkert skilyrði fyrir sköpun auðlegðar. Tilvist yfirstéttar er ekki nauðsynleg forsenda eins eða neins nema þess misréttis sem hún sjálf hagnast á.

Fyrsta skrefið í átt að betra samfélagi og fegurra mannlífi er þess vegna að afnema þá stétt manna sem njóta þeirra forréttinda að komast undan þegnlegum skyldum sínum með því að neyða aðra menn til að þræla svo þeir sjálfir geti slæpst. Allir skyldu vinna eftir getu og taka þar með þátt í framleiðslu þess sem neytt er. Þetta þýðir að hverjum manni ber að vinna eins og honum er unnt fyrir sínu lifibrauði, jafnframt því sem samfélagið gulltryggir honum lifibrauð, þannig að allir fái notið þess ávinnings sem felst í því að búa í mannlegu samfélagi.

Þá fyrst ber samfélagið nafn með rentu, þá fyrst er það félagsskapur jafn rétthárra samherja. Þarf þá enginn að þjást öðrum til hagsbóta; þarf þá enginn að þjást fyrir hagsmuni samfélagsins. Því það samfélag eitt stendur undir nafni sem hefur sem grundvallarreglu að tryggja velferð hvers og eins einasta þegns.

Og þar eð flestum tekst að tóra, með herkjum reyndar, við ríkjandi aðstæður, þar sem margir framleiða ekki neitt og mikilli vinnu er sóað til einskis, er augljóst að við aðstæður þar sem allir framleiða og engu er sóað, gæti hver og einn starfað vonglaður um að fá í sinn hlut það sem honum ber, bæði hvað varðar afrakstur og hvíld. Hér væri því tveimur af þremur fyrirheitum hinnar vonglöðu vinnu fullnægt. Þegar rányrkja einnar stéttar á annarri hefur verið afnumin mun hver og einn njóta ávaxta vinnu sinnar og hver og einn njóta góðrar hvíldar og frjórra frístunda. Sumir sósíalistar vilja láta þar við sitja. Það er ásættanlegt, segja þeir, að allir njóti afrakstur starfs síns og allir fái góða hvíld. En þó að meinsemd kúgunar manns á manni sé þar með aflögð, vil ég ganga skrefi lengra og krefjast bóta fyrir þá kvöð sem átökin við náttúruna valda. Hvert það daglega starf sem okkur er ógeðfellt mun enn sem fyrr lýta líf okkar jafnvel þótt vinnutíminn sé verulega styttur. Það sem við þráum er að tryggja efnahag okkar og auka auðlegð án þess að fórna til þess gleðistundum. Þá fyrst höfum við borið sigurorð af náttúrunni þegar vinnan sjálf er orðin hluti af gleði lífsins.

Fyrsta skrefið í þessa átt er að binda endi á þarflaus störf. Þá höfum við alltént tíma og tækifæri til að endurskapa vinnuna á þann hátt sem okkur best hugnast. Við núverandi aðstæður, með öllu því tapi á vinnuafli sem hefst af iðjuleysi yfirstétta og öllum þeim tíma sem fer í þarflausa vinnu, er augljóst að samfélag siðmenningar er borið uppi af einungis hluta fólksfjöldans. Ef allir ynnu og allir ynnu nytsöm störf, þyrfti vinnutími hvers og eins alls ekki að vera langur og dygði samt til þess að allir nytu þeirra lífsgæða sem hið efnaða og fína fólk okkar samtíma telur sér við hæfi. Við yrðum aflögufær um vinnuafl og lifðum samt góðu lífi. Lífið væri auðvelt. Ef svo vildi til að við einhver alþýðumaður vaknaði morgun einn undir núverandi kerfi og fyndist „lífið auðvelt” myndi hið sama kerfi reka hann samstundis í einhverja þrælavinnu og sjá til þess að líf hans yrði dapurt og erfitt. Það væri kallað eitthvað fínt eins og „nýting auðlinda”. Margföldun vinnunnar er kerfinu lífsnauðsyn, og meðan svo er mun engin tækninýjung létta okkur lífið. Sérhver ný maskína dæmir úr leik sérhæfða verkkunnáttu hagleiksmanna og gerir þá að ófaglærðum verkamönnum. Þeir eru settir á sinn nýja bás í framleiðslunni, vinnandi meira og af minni gleði en nokkru sinni fyrr. Í stað þess að nýta tæknina til að minnka vinnu er hún notuð til að auka framleiðslu, og þess vegna léttir hún engum lífið. Svona gengi þetta til eilífðar nóns, án þess að nokkur yrði nokkru sinni betur staddur, ef það leiddi ekki að lokum til byltingar.

ÖLL ÖNNUR VINNA ER EINSKIS VIRÐI: HÚN ER ÞRÆLAVINNA -STRIT ÞESS ER VINNUR TIL AÐ LIFA OG LIFIR TIL AÐ VINNA.

En þegar byltingin hefur gert okkur „lífið létt“, þegar vinna er samvinna og enginn rænir verkafólkið tíma sínum, og þar með lífinu -í þeirri framtíð verður enginn neyddur til að framleiða hluti sem enginn þarf, enginn neyddur til að vinna óþarfa vinnu. Þá getum við ákveðið í ró og næði og af skynsemi hvernig auð okkar vinnuafls sé best varið. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að fyrst og fremst beri að tryggja að öll vinna, jafnvel sú algengasta og nauðsynlegasta, sé skemmtileg. Því mannlífinu munu alltaf fylgja einhver slys og erfiðeikar, og þá getur munað öllu að daglegt starf sé ekki líka erfitt og íþyngjandi, heldur örvandi og skemmtilegt. Og ef þið segið þetta viðhorf mitt bara almenna skynsemi sem ekki taki að orðlengja, vil ég minna á hversu alfarið nútíma siðmenning bannar okkur slíkt. Lítið á daglegt starf og líf hinna fátæku, allan skítinn og baslið. Eða vélrænt og innantómt líf hinna ríku. Hvorugt er í takt við náttúruna, hvorugt lýtur hrynjanda hennar eða tengist henni. Aðeins einstaka sinnum, þegar við erum í fríi og laus undan oki vinnunnar, finnum við tengslin við náttúruna og náum í ró og næði að skynja okkar eigið líf í samhengi við líf annars fólks, í samhengi mannlífs alls.

Þannig ætti það alltaf að vera. Allt lífið gæti verið eins og frí ef vinnan væri gefandi og skemmtileg. En til þess verðum við sannarlega að gera róttækar breytingar, hér dugar ekkert hálfkák. Orsök vandans hefur þegar verið tíunduð: núverandi kerfi neyðir okkur til að vinna fyrir gróða hinna útvöldu. Þess vegna er vinnan gleðisnauð og þess vegna lifum við í ótta og áhyggjum eins og ofsótt veiðibráð. Það er lykilatriði að við gerum okkur vel grein fyrir þessu og þýðingu þess. Í núverandi kerfi auðmagns og launa er það „framleiðandinn” (fáránleg nafngift, þar eð verkamaðurinn en ekki atvinnurekandinn er sá sem framleiðir,) sem einokar þá hluti sem til þarf til að virkja vinnuafl mannslíkamans. Með því drottnar hann yfir þeim sem ekki njóta sömu forréttinda. Hann, og hann einn, getur ráðstafað vinnuafli verkfólks að vild. Aðeins með aðgangi að þessu vinnuafli getur hann umbreytt „auðmagni” sínu, sem er afrakstur fyrri vinnu verkafólks, í gróða. Þess vegna kaupir hann vinnuafl af þeim sem ekkert eiga auðmagnið og geta aðeins framfleytt sér með því að selja sitt eigið vinnuafl. Tilgangur hans er að auka auðmagn sitt, láta það ávaxtast. Það er augljóst að greiddi hann fullt verð fyrir vinnuaflið, sem sé það verð sem jafngildir virði afraksturs vinnunnar, myndi ætlan hans ekki takast. En eign hans og einokun á framleiðsluöflunum skapar honum þá aðstöðu að geta neytt verkafólk til að semja um það sem honum sjálfum er til hagnaðar en því til taps. Samkomulagið miðast við það lágmark sem verkafólk þarf til framfærslu, því hann þarf alltént að borga því nógu mikið til að það haldist á lífi og finnist taka því að mæta til vinnu og beygja sig nokkurn veginn möglunarlaust undir vald herrans. Sá hluti virðis framleiðslunnar (bróðurparturinn) sem hann ekki notar í launagreiðslur er alfarið hans eign, sem hann getur ráðstafað að vild. Eignarétt hans verja með kjafti og kló her, lögregla og tukthús, gríðarlegt kerfi refsingar og ofbeldis, mannað af eignalausum fjöldanum, sem þannig stendur sjálfur vörð um eigin kúgun sökum hjátrúar, vana og ótta við hungurvofuna -í einu orði FÁFRÆÐI. Þannig er þrældómurinn varinn af þrælunum sjálfum.

David Graeber (1961-2020), einn merkasti fræðimaður og samfélagsrýnir síðari ára. Bók hans Bullshit Jobs vakti mikla athygli og finnst mörgum hugtakið lýsa vel vinnu í vestrænum nútímasamfélögum.

Það mætti tíunda margt annað böl sem þessu kerfi fylgir. Hér legg ég fyrst og fremst áherslu á að þetta kerfi er með öllu ósamrýmanlegt mannsæmandi vinnu, og ítreka að það er einmitt þetta rán (um það dugar ekkert annað orð) sem sóar vinnuafli hins siðmenntaða heims, veldur því að margir gera ekki neitt og enn fleiri, miklu fleiri, gera ekki neitt gagnlegt, og dæmir þá sem vinna þarfa vinnu til illa launaðs strits og basls. Því skulum við gera okkur grein fyrir því í eitt skipti fyrir öll að markmið „framleiðandans” er fyrst og fremst að skapa, með þeirri vinnu sem hann stelur frá öðrum, ekki gagnlega hluti, heldur gróða, sem er sá „auður” sem framleiddur er umfram það sem hann notar til að borga verkafólki laun og endurnýja tækjabúnað. Hvort „auður” framleiðslunnar hefur eitthvað gildi eða er rusl eitt og hégómi skiptir harm engu, svo lengi sem framleiðslan selst og skilar gróða. Ég hef þegar bent á þá gengdarlausu sóun sem hefst af því að til er ríkt fólk sem á svo mikla peninga að það getur ekki eytt þeim öllum í eitthvað skynsamlegt og kaupir þess vegna alls kyns hégóma. Ég hef líka bent á þá sóun sem hefst af því að hinir fátæku hafi ekki efni á góðum vörum og verða því að láta sér lynda ruslvarning. Þannig er sú „eftirspurn”, sem „framboð” kapítalistans er sögð svara, fölsk eftirspurn, ekki grundvölluð á raunverulegum mannlegum þörfum. Sá markaður sem er vettvangur þessara viðskipta er „skekktur” af hróplegu misrétti þess ráns sem fer fram innan kerfis auðmagns og launa.

Það er því þetta kerfi sem við verðum að afnema ef okkur á að takast að skapa öllum ánægjulega og þarfa vinnu. Fyrsta skrefið er að gera auðmagnið, þar á meðal allt jarðnæði, vélar og verksmiðjur, að eign samfélagsins, svo hægt sé að nýta það öllum jafnt til góðs, svo við öll í sameiningu getum unnið að því að skapa „framboð” til að mæta raunverulegri „eftirspurn” heildarinnar og hvers einstaklings -með öðrum orðum, framleiða fyrir mannlegar þarfir frekar en þann gróða sem neyðir menn til að starfa gegn eigin vilja og hagsmunum.

Þegar þetta fyrsta skref hefur verið tekið og allir gera sér grein fyrir því að náttúran ætlast til þess að menn vinni og svelti ella, og þegar þeir eru ekki lengur þau flón að leyfa sumum úr eigin röðum að komast upp með að vinna ekkert heldur ræna aðra, já, þegar sá gleðidagur rennur upp, þá losnum við undan byrði sóunar og munum uppgötva að við erum aflögufær um heilmikið vinnuafl til góðra starfa og getum lifað mun auðveldara og skemmtilegra lífi. Við þurfum ekki lengur að vera á sífelldum þönum af ótta við hungur og fátækt, sem er meira áhyggjuefni fólks í nútímasamfélagi en frumstæðustu þjóðflokkum. Samfélaginu mun reynast auðvelt að útvega öllum helstu og augljósustu nauðsynjar. Þar með höfum við gott næði til að ígrunda málin og ákveða hvað annað okkur vanhagar um og girnumst í raun og veru, og hvað af því er erfiðisins virði. Það er algjör óþarfi að hafa áhyggjur af hinu meinta böli iðjuleysis þegar um er að ræða fólk sem er frjálst undan vinnukvöð, þrælsótta og stéttaskiptingu.

Ég legg enn og aftur áherslu á að við verðum að gera vinnuna aðlaðandi. Einhverri hagkvæmni verður að fórna í því skyni, ekki mikilli, en einhverri. Við hljótum að vona að menn sem hafa farið í gegnum tíma átaka og byltingar séu þeir síðustu sem láti sér lynda hreina nytjastefnu, þótt sósíalistar séu stundum sakaðir um slíka lífssýn. Á hinn bóginn er það sem kalla má fagurfræði lífsins í nútímasamfélagi svo gjörsamlega spillt og rotið að best er að sópa því öllu burt og byrja alveg upp á nýtt. Ekkert af því mun hugnast mönnum sem frjálsir eru undan oki markaðshyggjunnar.

Við verðum að móta nýja fagurfræði lífsins -hamingju líkama og sálar, á sviði vísinda og lista, félagslega jafnt og einstaklingsbundna- á grundvelli vinnu sem framkvæmd er af fúsum og frjálsum vilja, með hliðsjón af því sem okkur og grönnum okkar er til velsældar. Þeirri vinnu sem skapar brýnustu nauðsynjar þarf vitaskuld að sinna, en hún þarf ekki að taka það langan tíma að hún teljist mikil byrði. Henni munu þó eflaust fylgja miklar og leiðigjarnar endurtekningar nema við notum hugvitið til að komast hjá þeim og gera vinnuna skemmtilegri. Við skulum alltént reyna, því miklu varðar að jafnvel alvanalegasti hvunndagur sé skemmtilegur.

Hvernig er þetta hægt? Það spursmál er viðfangsefni þess sem eftir er af þessari grein. Samt veit ég vel að þótt allir sósíalistar geti fallist á margar tillögur mínar finnst sumum þess háttar vangaveltur skrítnar og varasamar. Þeim til hughreystingar tek ég fram að þetta eru alfarið mínar eigin lauslegu hugdettur, ekki fastmótaðar kreddur.

Af því sem framar er sagt ber að álykta að eigi vinnan að vera aðlaðandi verður hún að vera gagnleg, nema um sé að ræða eitthvað sem menn gera í hreinu bríaríi sem tómstundagaman. Skilyrðið um gagnlegheit er þeim mun brýnna sem starfið er leiðinlegra og erfiðara, í samræmi við það siðferðismat mannlegrar samhygðar, sem væntanlega, í hinu nýja samfélagi, mun leysa af hólmi trúarlega siðfræði og hvetja þá siðfræði sem byggir á tryggð við einhvetja abstrakt hugmynd. Vinnudagurinn verður líka að vera stuttur. Það er grundvallaratriði. Og fyrst vinnu er ekki lengur sóað í óþarfa er hægt að hafa hann stuttan. Það er augljóst að ef ekki verður hjá komist að vinna þau störf sem eru mönnum stór kvöl minnkar sú kvöl eftir því sem vinnutíminn styttist.

Fjölbreytileiki er annað grundvallaratriði. Að neyða manneskju til að gera sama hlutinn dag eftir dag, án nokkurrar vonar um tilbreytingu, jafngildir því að dæma hana til fangavistar. Það er líka hreinn óþarfi. Þess krefst enginn nema gróðasóknin. Hverjum manni ætti að vera í lófa lagt að læra eins og þrjár iðnir eða fög, og blanda saman innivinnu og útivinnu, vinnu sem krefst líkamsstyrks og vinnu sem krefst frekar heilabrota og bóklegrar þekkingar. Þeir eru til dæmis vandfundnir sem ekki vilja einhvern tíma á ævinni njóta þeirrar vinnu sem er í senn öðrum störfum skemmtilegri og þarfari -að rækta jörðina. Eitt það sem mun gera slíka fjölbreytni mögulega í samfélagi félagshyggjunnar er breytt form og inntak menntunnar. Á okkar tímum miðast menntun við það að skipa mönnum á bás í atvinnu- og viðskiptalíf -sumir fá þá menntun sem hæfir hærri stéttum, aðrir þá sem nægir verkafólki. Menntun hinna fyrrnefndu er mun meiri og ívíð margslungnari og fágaðri. Hún miðast engu síður fyrst og fremst við atvinnulífið, verslun og viðskipti. Jafnvel í hinum fornu virtu háskólum er lærdómur lítils metinn nema hann borgi sig. Sönn menntun er allt annars eðlis. Hún miðar að því að laða fram hæfileika og áhugasvið hvers og eins, og hjálpa þeim hinum sama álengdar á þeirri braut sem hann kýs að ganga. Í samfélagi félagshyggjunnar væri það hluti menntunar að ungmenni fengju leiðsögn í hverju því handverki sem þeim hugnaðist; jöfn áhersla væri lögð á menntun hugar og handa. Fullorðnir gætu gengið í sömu skóla og ungmennin hvenær sem þeim hentaði, því þessi menntun miðaðist við langanir, þroska og þróun einstaklingsins en ekki aðlögun að maskínu gróðans. Allir þeir hæfileikar, jafnvel snilligáfa, sem núverandi kerfi kæfir í fæðingu, fengju loks að njóta sín og myndu gera líf og daglegt starf okkar allra auðveldara og meira spennandi.

David Graeber
David Graeber (1961-2020), einn merkasti fræðimaður og samfélagsrýnir síðari ára. Bók hans Bullshit Jobs vakti mikla athygli og finnst mörgum hugtakið lýsa vel vinnu í vestrænum nútímasamfélögum

Í tengslum við fjölbreytni menntunar og starfs langar mig að minnast sérstaklega á eina tegund framleiðslu sem markaðshyggjan hefur leikið svo grátt að segja má að hún fyrirfinnist ekki lengur, og sé nú svo framandi okkar tíma að ég óttast að sumir lesendur skilji vart um hvað ég er að tala. Sem ég læt þó ekki stoppa mig, enda málið brýnt. Það sem um ræðir er sú tegund listar -nú vandfundin, en ætti að vera almenn- sem sköpuð er af vinnandi fólki sem hluti af þeirra daglega starfi, það sem réttilega kallast alþýðulist. Ég endurtek: þeirri list hefur markaðshyggjan útrýmt. En allt frá því maðurinn fyrst fór að kljást við náttúruna og fram að tilkomu kapítalismans var þessi list við lýði og blómstraði oftast nær. Meðan hún lifði var allt sem menn bjuggu til skreytt af þeim sjálfum, rétt eins og náttúran skreytir sína eigin sköpun. Handverksmaðurinn skreytti sína hagleikssmíð jafn harðan á sjálfsagðan og látlausan hátt svo erfitt var að greina á milli notagildis og listræns gildis. Eflaust var það að einhverju leyti í þeim tilgangi að aftra starfsleiða og auka á fjölbreytni vinnunnar, og jafnframt því sem hin fagra hagleikssmíð var gjöf hans til heimsins, þá var athöfnin sjálf gefandi, því það veitti honum ómælda ánægju að hanna og skapa hlutinn sjálfur. Þetta þekkist ekki lengur í okkar siðmenningu. Ef þú villt fá hlutinn skreyttan þarftu að borga sérstaklega fyrir það, og einhverjir verkamenn framleiða skreytingu eftir fyrirmynd rétt eins og hverja aðra vöru, án þess hafa af því nokkurt frumkvæði eða ánægju. Skreytingin sem eitt sinn var þeirra eigin hugsmíð og vakti gleði þess er skapar er nú bara viðbótarvinna, jafn leiðinleg og öll önnur, kannski verri af því þeir líta á þetta sem óþarfa tiktúrur.

Auk styttingu vinnutímans, meðvitaðrar gagnsemi vinnunnar og fjölbreytni í starfi, vil ég nefna annan mjög svo mikilvægan þátt: fallegt og skemmtilegt umhverfi. Skíturinn og þrengslin sem fólk í nútímasiðmenningu lætur bjóða sér sem sjálfsagðan fylgifisk iðnaðarframleiðslu er ekkert sjálfgefnari en skítur í húsi ríks manns. Ef efnamaður léti dreifa ösku yfir gólfið í stássstofunni, hefði klósettið út í horni á borðstofunni, gerði garðinn að sorphaugi, léti aldrei þvo rúmföt og borðdúka, og hefði fimm fjölskyldumeðlimi sofandi saman í einu fleti, yrði sá hinn sami úrskurðaður geðveikur og viðeigandi ráðstafanir teknar. En þessi endaleysa fær að líðast þegar kemur að umhverfi verkafólks, ekki síst starfsumhverfi, og er þá sögð bráðnauðsynleg atvinnulífinu. Þetta er auðvitað bilun. Hér með bendi ég heilbrigðisyfirvöldum á geðveiki okkar siðmenningar og krefst viðeigandi ráðstafana án frekari tafa.

Óþrif og þrengsli borga og verksmiðja eru einfaldlega afleiðingar gróðasóknar. Kapítalískir framleiðsluhættir, kapítalískt jarðeignakerfi og kapítalískir viðskiptahættir smala fólki inn í stórborgir þar sem auðvaldið getur ráðskast með það að vild. Sama kúgunarkerfi veldur slíkum þrengslum í verksmiðjum að (til dæmis) aðstæður í vefnaðarverksmiðju eru jafn fáránlegar á að líta og þær eru skelfilegar þolendum. Fyrir þessu er engin þörf önnur en þörfin að kreista eins mikinn gróða og hægt er út úr lífi fólks, og framleiða um leið billegann varning sem hægt er að troða upp á þá sem þræla í gróðans nafni. Enn sem komið er hefur ekki öll framleiðsla færst inn í verksmiðjur, en víða þar sem það hefur gerst hefur það engan tilgang annan en að hámarka gróðann. Það þjónar engum öðrum tilgangi að hrúga fólki saman í afmörkuð borgarhverfi. Þetta fólk gæti alveg unnið sína vinnu á sveitaheimilum, litlum vinnustofum, í smábæjum eða hverjum þeim stað sem gerði líf þeirra bærilegt.

Í þeim tilfellum þar sem ekki verður hjá því komist að hafa stóra vinnustaði, sem sé verksmiðjur, þá mætti hæglega (þótt þær hljóti alltaf að vera til nokkurs baga) haga málum svo að boðið sé upp á fjölbreytt félagslíf í skemmtilegu umhverfi. Slíkar verksmiðjur gætu um leið verið fræða- eða listasetur og haft fjölbreytni starfsins í fyrirrúmi. Hver og einn stæði sína pligt við vélarnar aðeins lítinn hluta dags, ynni svo kannski við garðyrkju öðrum stundum, ásamt því að iðka sína list, grúska í sínum fræðum eða ástunda sín vísindi. Hér réði fólkið sjálft sínu lífi og aðstæðum og þyrfti því ekki að umbera sóðaskap, óreiðu eða plássþrengsl. Með vísindum mætti takmarka eða nýta sorp, og halda í lágmarki öðrum hvimleiðum fylgifiskum verksmiðjunnar, eins og reyk, óþef og hávaða. Fólk léti heldur ekki bjóða sér þær forljótu verksmiðjubyggingar sem nú eru til stórra lýta og sverta ásýnd jarðar. Ætla má að til að byrja með setti fólk fram einhverjar lágmarkskröfur um útlit og hönnun verksmiðja, vöruhúsa og annarra bygginga tengdu atvinnulífi, þess efnis að þær, rétt eins og híbýli fólks, séu altént ekki til ama og óþæginda. Smátt og smátt gerðist fólk kröfuharðara og léti sér ekki nægja að hafa slíkar byggingar lítið eða ekkert ljótar, heldur heimtaði að hafa þær beinlínis fallegar. Þá yrði hin göfuga list, húsagerðalist, sem græðgi markaðshyggjunnar hefur gengið af dauðri, endurlífguð og fengi að dafna og blómgast.

Að framangreindu ætti öllum að vera Ijóst að ég held því óhikað fram að í skynsamlegu samfélagi í anda félagshyggju beri að skipuleggja vinnu á grundvelli gagnsemi, fjölbreytni, sköpunargáfu og umhverfis. Ég hef líka krafist þess að vinnudagurinn sé alls ekki of langur. Því kynni einhver að spyrja: „Hvernig samræmist síðasta krafan hinum? Ef vinnan er öll svona fáguð og ánægjuleg, verða vörurnar ekki óheyrilega dýrar?”

Sem fyrr segir fer ég í engar grafgötur með það að einhverju verður til að fórna ef gera á vinnuna alfarið ánægjulega. Ef menn í frjálsu samfélagi taka frekar þann kost að vinna af sama asa og á jafn óþrifalegan og vélrænan hátt og nú er gert, mætti stytta vinnutímann jafnvel enn meira en ég sjálfur geri ráð fyrir. Það væri vissulega valkostur.

En sé hann tekinn förum við mikils á mis. Með því nýttu menn hið nýfengna frelsi einungis til þess að auka neyslu og frítíma, sem eru einstaklingsbundin þægindi, án þess að huga nokkuð að almennum menningarauka og bættu þjóðlífi. Það er bjargföst trú mín að flestir, gefist þeim færi og frelsi, kjósi að fórna leti og þægindum fyrir göfugra líf. Ég trúi því að menn, sem einstaklingar og eða í félagi hver við annan, búi yfir heilbrigðri starfsgleði og kjósi að virkja hugarflug sitt og handlagni til að skapa það sem öðrum finnst fallegt og þarft og þeir sjálfir geta verið stoltir af. Ég trúi að þetta sé vilji þeirra sem nú er mútað til að vinna (eða þykjast vinna) í þágu hins efnaða minnihluta. Enn sem komið er hefur ekkert siðmenntað samfélag aflagt með öllu listir og bókmenntir. Svo kann að fara að niðurlæging og afskræming þessara greina í nútíma siðmenningu valdi því að það samfélag sem rís upp úr rústum hennar verði þeim fráhuga. Því getur gerst að við taki tímabundið ástand hreinnar nytjahyggju á meðan ný gildi í listum og menningu eru í gerjun. Fyrst, þegar útigangsfólk og betlarar hverfa af götunum, þegar allir hafa nóg að bíta og brenna, þegar sólin skín á okkur öll, þegar við öll fáum jafnt notið þess er jörðin gefur okkur, þá kannski finnst okkur þetta ærið nóg gleðiefni og njótum þess einfaldlega að vera laus við böl og úrkynjun hins gamla samfélags. En fyrr eða síðar mun upp rísa ný list þess fólks sem frjálst er undan ótta þrælsins og skömm þjófsins. Jú, vissulega þarf einhverju til að kosta svo menn geti leyft sér þann munað að fara sér hægt, beita hugviti og vanda sig í vinnunni. En það þarf ekki að kosta lengri vinnutíma. Okkar öld hefur fundið upp vélar og tækni sem mönnum fyrri alda hefði þótt eins og villtustu draumar. Og þessar nýjungar höfum við enn ekki nýtt sem skildi.

Sagt er að vélar þessar „spari vinnuafl” – algengur frasi sem vissulega tjáir þær væntingar sem við til þeirra berum. En þetta gerist aldrei; aldrei styttist vinnan. Það sem tæknin gerir er að breyta handverksmönnum í ófaglærðan verkalýð, taka alla vinnu af sumum og stækka þar með „varalið vinnunnar”, auka almennt óvissu og varnarleysi verkafólks, og auka vinnuálag þeirra sem vinnu hafa og þjóna þessum vélum (eins og þrælar húsbændum). Allt er þetta gert fyrir enn meiri gróða eignamanna og til að auka hagkvæmni og tryggja frekari gróðasókn í hatrammri samkeppni þeirra á milli. Í sanngjörnu samfélagi væru þessar merkilegu uppfinningar loksins nýttar sem skyldi í þeim tilgangi að minnka vinnuálag alls vinnandi fólks og fyrst og fremst til að útrýma leiðinlegri og erfiðri vinnu. Vélunum yrði breytt til hins betra í þá veru að þær þjónuðu sem best samfélaginu í heild frekar en fjárhagslegum hagsmunum útvaldra einstaklinga.

Með tíð og tíma lærðist mönnum að nýta tæknina og vélar hennar í hófi, þegar mannsæmandi lífsafkoma væri öllum tryggð og menn sæju að stundum er handverkið best, sé það unnið af yfirvegun og hugviti.

Það má og ætla að frelsist fólk undan búksorgum og þurfi ekki lengur að láta neyða sig í tilgangslausa vinnu muni það þvertaka með öllu að framleiða þau fígúruverk sem nú kallast lúxusvörur sem og þann óskapnað sem nú kallast vörur á hagstæðu verði. Engar þarf hnébuxurnar ef enginn er skósveinninn, né heldur étur sá margarín sem ekki er tilneyddur til að neita sér um alvöru smjör. Laga um vörusvik er aðeins þörf í samfélagi þjófa og þar eru þau hvort eð er dauður bókstafur.

Sósíalistar eru oft spurðir hvernig muni hátta með erfiða og ógeðfellda vinnu í hinu nýja samfélagi. Sá sem reynir að svara þessu til fulls reynir hið ómögulega, að skipuleggja í huga sér nýtt samfélag úr efnivið hins gamla án þess að vita hvað af hinu gamla muni hverfa og hvað muni tóra í framvindu þeirrar þróunar sem leiða muni til gjörbreytingar samfélagsins. Það er samt auðvelt að ímynda sér einhvers konar kerfi þar sem þeir sem vinna erfiðustu verkin hafa stystan vinnudaginn, og, eins og þegar hefur verið lýst, kerfi sem byggir á mikilli fjölbreytni. Ég segi enn og aftur að það að kúga fólk til þess að eyða allri sinni ævi í sömu vonlausu, ógeðfelldu og endalausu vinnuna, dag eftir dag, er nokkuð sem hæfir því helvíti sem klerkar og guðfræðingar hafa kokkað upp í gegnum aldirnar, en ætti ekki að liðast í mannlegu samfélagi. Loks má reikna með því að sérlega erfið og krefjandi verk heilli þá sem sýna vilja og sanna að þeir hafi til að bera manndóm og æðruleysi umfram annað fólk. Við skulum vona að enn finnist fullhugar í frelsinu.

En hvað nú ef enn fyrirfinnast þau störf sem enginn fæst í, hvorki með loforðum um stuttan vinnutíma og dreifðar tarnir né heldur með tilvísun í mikilvægi og áskorun, og þar með heiðurssess þess er verkið vinnur -hvað ef enn finnast slík störf sem geta ekki talist neitt nema kvöl og pína? Nú, við skulum þá bara sjá til hvort himinn og jörð farist sé þeim sleppt. Ætli menn komist ekki að því að í flestum tilfellum mega þau missa sig og eru ekki ómaksins virði?

Við höfum nú séð að sú hálf-trúarlega kredda að öll vinna, undir öllum kringumstæðum, sé verkamanninum blessun, er bæði fölsk og hræsnisfull; og að á hinn bóginn er vinnan til góðs þegar hún ber í sér von um hvíld og ánægju. Við höfum vegið og metið vinnu í núverandi samfélagi siðmenningar og komist að þeirri niðurstöðu að hún er ekki þess háttar góð vinna heldur að mestu leyti vonlaust streð. Hún og sú siðmenning er hún þjónar eru mönnum böl. En við höfum líka séð að heimur vinnunnar gæti verið fullur vonar og gleði ef ekki kæmi til sú sóun og sú kúgun sem fylgir þjóðskipulagi stéttaskiptingar og stöðugrar stéttabaráttu.

Við verðum að finna leið út úr þeirri baráttu, finna þann frið sem þarf til að vinna í von og gleði. Allir vilja frið, ef marka má orð manna, hvurs gerðir vinna samt í sífellu gegn friði. Æðrumst þó ekki, stefnum til sigurs og að friði hvað sem það kostar.

Hvað það kostar, hver veit það? Er mögulegt að tryggja frið með friðsamlegum hætti? Það er því miður ólíklegt. Hvernig mætti slíkt vera? Okkur er svo rækilega haldið niðri af fáfræði og óréttlæti að baráttan virðist oft engan endi ætla að taka. Kannski sjáum við engan endi í okkar eigin lífstíð, jafnvel ekki von um endi. Svo kann að vera að það besta sem við getum vonast eftir er að andstæður skerpist enn frekar og baráttan gerist hatrammari dag frá degi, uns hún brýst loks út í vopnuðum átökum og blóðsúthellingum, í stað þess að við þurfum að þola hægfara og miskunnarlaust kvalræði „friðsælla” viðskipta. Ef við lítum þann dag höfum við upplifað stórmerki. Það þýðir að hinar ríku stéttir eru sér nú fullmeðvitaðar um eigin arðrán og óréttlæti og hafa einsett sér að verja ríki sitt með óheftu ofbeldi. Og þá styttist í leikslok.

En hvernig sem baráttu okkar fyrir friði og réttlæti fleytir fram, sé stefna okkar staðföst og samhljóma, og lokatakmarkið eitt og skýrt, mun ljóminn af friði framtíðarinnar lýsa okkur í baráttu og þrautum lífsins, hvort sem þær þrautir virðist smávægilegar eða eru augljóslega harmrænar. Við lifum þá alltént í von, lifum því lífi er mönnum sæmir. Okkar tíð hefur ekkert betra að bjóða.

Þarft verk og þarflaust streð

Eftirmáli þýðanda: skítavinna og delludjobb

Why should I let the toad work
Squat on my life?
Can't I use my wit as a pitchfork 
And drive the brute off?
Six days of the week it soils 
With its sickening poison - 
Just for paying a few bills! 
That's out of proportion.

Philip Larkin, Toads

Yfirburðir axar úr málmi yfir exi úr steini eru svo augljósir að ekki þarf að skeggræða það frekar: maður afkastar tíu sinnum meira með hinni fyrrnefndu, eða, kjósi maður heldur, því sama á tíu sinnum skemmri tíma. Þegar indíánarnir kynntust mætti axar hvíta mannsins sóttust þeir eftir henni ekki til að framleiða meira á sama tíma heldur til að framleiða jafn mikið tíu sinnum fljótar.

Clastres, Pierre, Society Against the State1Clastres, Pierre, Society Against the State (New York 2013) [1987], 196

Í nútímasamfélagi er vinnan fullkomlega out of proportion. Magn hennar og framleiðsla er ekki í minnsta samræmi við mannlegar þarfir; formgerð hennar ekki í minnsta samræmi við mannlega reisn og hamingju. Þetta gilti þegar William Morris skrifaði grein sína „Þarft verk og þarflaust streð”, og það gildir enn. Eflaust malda einhverjir í móinn og segjast hafa aðra og betri reynslu. Og sú reynsla skal ekki véfengd. Hér erum við ekki að dæma hvert einstakt tilfelli. Við erum að tala um vinnu mannsins í heild, í heiminum öllum, eins og hún birtist obba mannkyns. Aðeins lítil hluti manna vinnur starf sem þeim geðjast. Það eru forréttindi. Aðeins hluti manna vinnur þarft verk. Fjöldi manns framleiðir og selur það sem hefur enga þýðingu fyrir almenna velferð, þvert á móti er mannkyni oft til skaða, ógnar jafnvel tilvist þess og alls lífríkis. Hér væri of langt mál að fara út í brjálsemi, fáránleika og heilaþvott vopnaframleiðslu, neysluhyggju, umbúðafargans, auglýsingaiðnaðs og markaðssetningar. Þetta er glæpur: vistfræðilegt skemmdarverk og glæpsamleg sóun á mannlegum kröftum og hugviti. Á síðustu áratugum hefur svokölluðum „delludjobbum” (bullshit jobs) fjölgað sem aldrei fyrr, störfum sem ganga út á það eitt að bulla tóma steypu, skapa blekkingarvef stjórnsýslu og fjármálabrasks.

Kapítalisminn bekennir ekki „nóg“. Hann brúkar stálöxina þveröfugt við það sem indíánarnir hans Clastres ætluðu sér: hann heggur og heggur þar til ekkert einasta tré stendur eftir. Markmiðið er ekki að framleiða nóg og láta það duga. Í raun er ekkert ytra markmið. Ferlið sjálft er eina markmiðið, að halda því gangandi og sístækkandi. Kapítalisminn verður að þenjast óendanlega og deyja ella. Að því leyti er hann eins og hitt K-orðið: krabbamein. Hann hefur engan annan tilgang en að vaxa. Og eins og annar krabbi er hann dauðadómur fyrir hýsilinn. Í þessu tilfelli er hýsillinn plánetan Jörð. Fyrir mannfólkið táknar þetta bæði yfirvofandi ragnarök og, meðan við bíðum, endalausan vítahring vinnu, neyslu, skulda, streitu og óuppfylltra væntinga. Í grein sinni skrifar Morris: „Margföldun vinnunnar er kerfinu lífsnauðsyn, og meðan svo er mun engin tækninýjung létta okkur lífið … Í stað þess að nýta tæknina til að minnka vinnu er hún notuð til að auka framleiðslu, og þess vegna léttir hún engum lífið.” Gufuvélar, færibönd, tölvupóstur og róbótar: allt átti þetta að vera „vinnusparandi”, en alltaf vinnum við meira, nema þeir sem missa vinnuna alveg.

Því á sama tíma og heildarmagn vinnu eykst þjáist stór hluti mannkyns sökum skorts á vinnu. Þetta fólk býr við atvinnuleysi og þar af leiðandi fátækt, af því að réttur manna til nauðþurfta og lífsgæða miðast ekki við þörf og félagslegt réttlæti heldur við fjárhag, eign og þjóðfélagsstöðu. Í kapítalismanum er samband vinnu, mannlífs og velferðar hið undarlegasta. Menn bæði vinna til að lifa og lifa til að vinna. Bæði vinnuleysi og vinna eru böl.

Í meðfylgjandi grein segir William Morris:

Nú á tímum taka flestir því sem gefnum hlut að öll vinna sé þarfleg, og flest ríkt fólk bætir því við að hún sé líka göfgandi. Flestir, bæði þeir ríku og allir hinir, trúa því að jafnvel starf sem hefur engan sjáanlegan tilgang sé þarflegt, því viðkomandi starfskraftur sé þó alltént að „vinna fyrir sér“ -hann „hefur vinnu“ segja menn, og hinir ríku hrósa honum fyrir „dugnaðinn”, sér í lagi ef hann fórnar frístundum, hvíldartíma og orlofum á altari vinnunnar. Í stuttu máli, í siðfræði samtímans er það trúaratriði að vinna sé góð í sjálfu sér -mjög svo heppileg trú fyrir þá sem lifa af vinnu annara.

Í síðustu setningunni hittir Morris naglann á höfuðið. „Guðspjall vinnunnar” er trúarsetning þeirra sem lifa af vinnu annarra. Og nýfrjálshyggjan er ofsatrú. Hún krefst þess að við vinnum af „ástríðu”, höfum vinnuna á heilanum og gerum „draum” fyrirtækisins að okkar eiginn. En hversu vel virkar þetta á allan almenning? Opinberlega verða menn auðvitað að gangast við guðspjallinu. Annars eru þeir stimplaðir letingjar. En þegar grannt er skoðað ristir trúin ansi grunnt. Langflestir jarðarbúa skynja vinnu sína sem nauðung og hafa á henni engan áhuga. Stór hluti hefur minna en engan áhuga og hugsar til hennar með viðbjóði. Hún er þeim kvöl. Þetta sanna rannsóknir þótt ídeólógían segi annað.

Viðamesta könnun á þessu sviði var gerð af Gallup á árunum 2011-12.2Crabtree, Steve, „Worldwide, 13% of Employees are Engaged at Work“; Flemming, Peter, The Mythology of Work: How Capitalism Persists despite Itself (London 2015), 42-5. Hún náði til 180 milljóna starfsfólks í 142 löndum. Þar kom í Ijós að einungis 13 prósent starfsfólks á heimsvísu höfðu áhuga á vinnu sinni. Þetta fólk er sagt engaged þegar kemur að starfi þeirra. Það leggur líf sitt og sál í vinnunna. Aftur á móti höfðu 63 prósent engan áhuga, not engaged. Þessir drattast „í gegnum sinn vinnudag eins og svefngenglar, skilandi sínum vinnustundum, en hvorki orku né ástríðu”. Loks voru 24 prósent sem sýndu vinnunni beinlínis fjandskap, actively disengaged. Slíkt fólk er „óhamingjusamt og skilar litlum afköstum í vinnunni og líklegt til að hafa neikvæð áhrif á samstarfsfólk.” Á íslandi mældist beinn fjandskapur tiltölulega lítill, 9 prósent, en hins vegar höfðu heil 75 prósent starfsfólks akkúrat engan áhuga á vinnu sinni og fyllti því hóp svefngenglanna. Aðeins 16 prósent voru þessir pósitífu úmpalúmpar. Staðalímynd Íslendingsins hefur lengi verið hinn sívinnandi dugnaðarforkur sem er að springa úr vinnugleði. Veruleikinn er augljóslega annar. Landinn kvelst jafnmikið í vinnunni og flestir aðrir.

En ekki þó jafnmikið og íbúar Afríku og Asíu. Þar mælist áhugleysið og andúðin mest. í Afríku, Miðausturlöndum og Suður-Asíu höfðu aðeins 10 prósent áhuga á starfi sínu, í Austur-Asíu aðeins 6 prósent. í Afríku og Miðausturlöndum sýndu nærri 35 prósent starfi sínu fjandskap. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Það er í þessum deildum heims, Suðurheimi (Global South), sem launin eru lægst og aðstæður ömurlegstar. Stór hluti eiginlegrar vöruframleiðslu hefur færst yfir í þennan heimshluta, því þar er launakostnaður minnstur og þar með gróðinn mestur. Þar eru flestar verksmiðjurnar og færiböndin. Þar eru flest „skítadjobbin”, það er, erfið, einhæf, leiðinleg, skaðleg, hættuleg og illa launuð störf.

Á meðan fjölgar „delludjobbum” í Norðurheimi (Global North). Það var mannfræðingurinn David heitinn Graeber sem innleiddi hugtakið bullshit job í þjóðfélagsumræðuna. Í ágúst 2013 birti hann grein sem hét „On the Phenomenon of Bullshit Jobs“.3Graeber, David, Bullshit Jobs: The Rise of Pointless Work and what We Can Do about It (London 2018), xiv-xx. Þar tekur hann upp þráðinn þar sem hagfræðingurinn John Maynard Keynes skildi við hann rúmlega 80 árum áður. Árið 1930 skrifaði Keynes grein þar sem hann taldi líklegt, á grundvelli tækniþróunar samtímans, að innan skamms myndi meðal vinnuvika á Vesturlöndum minnka niður í 15 stundir. Þetta átti alla vega að gerast löngu fyrir okkar tíma.4Keynes, John Maynard, „Economic Prospects of Our Grandchildren”, í Keynes. J. M., Essays in Persuasions (New York 2009), bls.191-201.  En gerðist þó aldrei. Samt var það og er tæknilega séð fullkomlega raunhæfur möguleiki. Í Ijósi þessa sagði Graeber:

En í stað þess að nota tækifærið og minnka heildarmagn vinnustunda og leyfa þar með mannfólkinu að leggja rækt við sín eigin áhugamál, skemmtun, drauma og hugdettur höfum við orðið vitni að stanslausri útþenslu ekki beinlínis „þjónustugeirans” heldur stjórnsýslugeirans. Innan hans hafa sprottið fram allskonar nýjar starfgreinar, eins og fjármálaþjónusta og markaðssetning í gegnum síma, á meðan aðrar hafa þanist út eins og blöðrur: viðskiptalögfræði, stjórnsýsla háskóla og heilbrigðisþjónustu, mannauðsstjórnun og almannatengsl. Og ofan á þetta bætist svo alls kyns tækniaðstoð og öryggisgæsla sem þjóna beint þessum greinum, sem og alls kyns störf sem þjóna þeim óbeint (til dæmis hundapössun og heimsending pizzu) með því að taka að sér fyrir borgun það sem fólk gæti séð um sjálft væri það ekki alltaf í vinnunni.

Graeber, David, Bullshit Jobs: The Rise of Pointless Work and what We Can Do about It.5Graeber, David, Bullshit Jobs: The Rise of Pointless Work and what We Can Do about It (London 2018), bls. xv-xvi.

Grein Graebers vakti strax mikla athygli og það var augljóst að hún kom heim og saman við reynslu margra. Hún vakti það mikla athygli að YouGov framkvæmdi eigin könnun á því hve stórt hlutfall starfsfólks á Bretlandi finnst eigið starf vera bullshit. Í Ijós kom að 37 prósent alls vinnukrafts þar í landi situr fastur, að eigin áliti, í delludjobbi. Önnur 13 prósent eru ekki alveg viss. Aðeins helmingur bresks starfsfólks sér einhvern ytri samfélagslegan tilgang í því sem það gerir. Samskonar könnun í Hollandi leiddi til svipaðrar niðurstöðu: 40 prósent starfsfólks taldi sig vera í delludjobbi. Auðvitað ber að taka slíkar tölur með nokkrum fyrirvara. Líkast til eru fá störf fullkomin delludjobb ellegar fullkomlega þörf. Við höfum öll verið í vinnu sem er augljóslega þörf að einhverju leyti en líka að sumu leyti endemis rugl. Hvað sem því líður, varð þetta til þess að Graeber tók að rannsaka málið nánar og gaf út bókina Bullshit Jobs árið 2018.

Delludjobb eru fyrst og fremst í þeim geira sem tengist „stjórnun”, markaðssetningu og fjármálum. Þau einskorðast þó alls ekki við hann. Margir sem raunverulega framleiða eitthvað áþreifanlegt, dreifa því og selja, álíta sig líka vera í delludjobbi finnist þeim varningurinn vera þarflaust drasl ellegar eitthvað sem fyrir löngu er komið nóg af. Í trássi við almennt álit og ríkjandi áróður eru delludjobbin miklu algengari í einkageiranum en hinum opinbera, eða því sem eftir er af honum. Bæði Graeber og ofangreindar skoðanakannanir treysta á dómgreind starfsfólksins sjálfs. Það er sjálft látið dæma um það hvort vinna þeirra sé della eður ei. Menn eru nokkuð naskir á samfélagslegt gildi eigins starfs. Sæmilega skynsamt fólk sem vinnur við að áreita aðra í gegnum síma, Ijúga að fólki undir yfirskini almannatengsla, ráðskast með það í nafni stjórnsýslu, auglýsa ropvatn og ruslfæði, gera markaðsrannsóknir og hringsnúa peningum veit vel að það gerir ekkert þjóðfélagslegt gagn. Það veit að ef öllu þessu væri sleppt væri heimurinn ekkert verr settur, mannlífið að öllum líkindum ívið skárra, og það sjálft frjálst til að gera eitthvað þarflegt hluta dags og síðan eitthvað skemmtilegt eins og að „prjóna lopapeysur, leika við hundinn sinn, stofna bílskúrsband, prófa nýjar uppskriftir eða sitja á kaffihúsum og rífast um pólitík og slúðra um fjölkært ástarlíf vina sinna.6Sama heimild, xv-xvi. Það sem rannsókn Graebers og aðrar álíka hafa gert er að fá fólk til að játa þetta fyrir sjálfu sér og sumum öðrum, í trúnaði. En þetta er eitthvað sem menn geta auðvitað ekki orðað við bossinn og kerfið sjálft. Sem fyrr segir, vinnudýrkun er trúarsetning. Skilgreining Graebers á delludjobbi er þessi: „delludjobb er launað starf sem er svo fullkomlega út í hött, gagnlaust eða skaðlegt að jafnvel starfsmaðurinn sjálfur getur ekki réttlætt tilvist þess, eins þótt meðal starfskilyrða sé sú krafa að hann tjái þá skoðun sína ekki opinberlega.7Sama heimild, 9-10 Hvað ætli stór hluti Íslendinga séu í delludjobbi?

COVID sýndi okkur glögglega hvaða vinna er þörf og hvaða vinna er della. COVID sýndi okkur að það er verkafólk í víðum skilningi, þeir sem búa til áþreifanlega hluti og dreifa þeim, þeir sem keyra og sigla, veiða fisk og rækta jörðina, þeir sem veita raunverulega þarfa þjónustu, þrífa, losa sorp, annast sjúka, kenna börnum og svo framvegis, það eru þeir sem halda samfélaginu gangandi og skapa auðinn. Enginn saknaði forstjóranna, bankastjóranna, markaðsgúrúanna, stjórnsýsluspekinganna, fjárfestanna og „frumkvöðlanna”. En það grátlega er að um leið og faraldrinum fer að linna er líkt og þetta steingleymist. Þá eru þessir síðarnefndu aftur hafnir til skýjanna, sagðir „auðskapandi” snillingar og jafnvel mannkynsfrelsarar. Á meðan mega þeir sem gagnið gera, þeir sem héldu í okkur lífinu, þeir sem vinna verk sem krefjast raunverulegra mannlegra hæfileika og þekkingar, það eru þeir sem enn og aftur mega þola kjaraskerðingu og jafnvel fyrirlitningu, þiggja lægstu launin og eru kallaðir „ófaglærðir”. Þetta er ein af gullnu reglum kapítalismans: Því þarfari sem vinna þín er, því minna færðu borgað og því verr er farið með þig.

Morris lagði til að við framleiddum og hefðum í kringum okkur miklu færri hluti, en um leið fallegri, haglegri og endingarbetri. Hann lagði til að við ættum minna og sköpuðum meira. Hann lagði til að við íþyngdum ekki vistkerfi jarðar með hégóma, glingri og lúxus sem við getum vel verið án. Hann lagði til að við skiptum bæði auð og vinnu jafnt manna á milli. Hann lagði til fjölbreytni í lífi og starfi sérhvers manns, að allir ynnu bæði líkamlega og „andlega” vinnu. Hann vildi fjölhæfni, ekki sérhæfingu. Hann áleit sérhvern einstakling geta verið og eiga að vera einhverskonar blanda af verkamanni, handverksmanni, listamanni, skáldi, fræðimanni, íþróttagarpi og fílósóf, allt eftir því hvar gifta hans liggur og hugur hans reikar, og hvað honum hentar þann daginn. Kapítalisminn boðar okkur „einstaklingsfrelsi” en dæmir hvern einstakling, í nafni „framleiðni” og „skilvirkni”, til að vera aðeins lítið brot af þeim manni sem í honum býr. Það er andstæðan við einstaklingsfrelsi. Morris krafðist alvöru einstaklingsfrelsis, þess að allir einstaklingar, ekki bara fáir útvaldir, fengju að skapa og blómstra. Hann krafðist þess að okkar daglega vinna, þörf og vongóð, drægi fram sköpunarmátt og lífskraft sérhvers manns:

Allt lífið gæti verið eins og frí ef vinnan væri gefandi og skemmtileg. En til þess verðum við sannarlega að gera róttækar breytingar, hér dugar ekkert hálfkák. Orsök vandans hefur þegar verið tíunduð: núverandi kerfi neyðir okkur til að vinna fyrir gróða hinna útvöldu. Þess vegna er vinnan gleðisnauð og þess vegna lifum við í ótta og áhyggjum eins og ofsótt veiðibráð.

Heimildir og tilvísanir

 • 1
  Clastres, Pierre, Society Against the State (New York 2013) [1987], 196
 • 2
  Crabtree, Steve, „Worldwide, 13% of Employees are Engaged at Work“; Flemming, Peter, The Mythology of Work: How Capitalism Persists despite Itself (London 2015), 42-5.
 • 3
  Graeber, David, Bullshit Jobs: The Rise of Pointless Work and what We Can Do about It (London 2018), xiv-xx.
 • 4
  Keynes, John Maynard, „Economic Prospects of Our Grandchildren”, í Keynes. J. M., Essays in Persuasions (New York 2009), bls.191-201. 
 • 5
  Graeber, David, Bullshit Jobs: The Rise of Pointless Work and what We Can Do about It (London 2018), bls. xv-xvi.
 • 6
  Sama heimild, xv-xvi.
 • 7
  Sama heimild, 9-10

Posted

in

by

Tags: