Ritstjórnarpistill

Demos, nafn þessa tímarits, er grískt að uppruna. Við þekkjum það sem fyrri part annars orðs sem fyrirfinnst í einhverju formi í flestum evrópskum tungumálum: Democracy, Demokrati, Demokratie, Démncratie, Democracia. íslensk þýðing þessa hugtaks er Lýðræði. Demos merkir því Lýður. Það er einfaldasta þýðingin. En samt, ekki hvaða lýður sem er. Orðið merkir meira en einfaldlega margmenni, eitthvað laustengt kraðak fólks. Í því felst að umræddur lýður hafi eitthvað það til að bera sem gerir hann að öðru og meira en summu einstakra parta. Hann býr yfir einhverri samheldni eða innri tengingu. Þessi tenging grundvallast í fyrsta lagi á búsetu. Hjá forngrikkjum táknaði Demos ekki aðeins lýðinn heldur líka landið þar sem lýðurinn bjó. Þessi jarðræni skilningur var kannski sá upprunalegi. Demetra var gyðja jarðarinnar og landbúnaðar. Lýðurinn í lýðræði er líka pólitískt afl. Til þess að svo megi verða þarf hann að eiga sér opinberan vettvang þar sem mál eru rædd, skipst er á skoðunum og ákvarðanir teknar. Hann þarf að eiga sér starfssvið, ákveðinn flokk mála sem undir hann heyra. Demos táknar allt þetta í senn: lýðinn, landið, hinn opinbera vettvang og málefnasvið hans. Þegar þessi samruni gerir Demos að hinu ráðandi pólitíska afli höfum við Demo-krati, Demo-cracy, Lýð-ræði.

Bust of the Greek orator Demosthenes. Marble, Roman artwork, inspired from a bronze statue by Polyeuctos (ca. 280 BC). Found in Italy

DEMOCRACY VS. DAVOCRACY

Lýðræðið á undir högg að sækja í vestrænum samfélögum. Colin Crouch segir það helstu pólitísku mótsögn okkar tíma að annars vegar fjölgi þeim ríkjum sem kallast lýðræðisríki en hins vegar sé lýðræði þessara sömu ríkja sífellt rýrara í roðinu. Kannski má segja að lýðræðið sé að aukast að magni en rýrna að gæðum. Andstætt því sem margir vilja meina stendur vestrænu lýðræði ekki mesta ógn af svokölluðum popúlistum. Sú bylgja popúlismans sem farið hefur um vestræn ríki síðustu árin er andsvar við minnkandi lýðræði, í mesta lagi sjúkdómseinkenni frekar en orsök vandans. Það er reyndar hlálegt að þeir sem segjast styðja lýðræði amist við popúlisma, það er að segja, því að höfðað sé til lýðsins og hann finni sér rödd á hinu pólitíska sviði. Núverandi popúlismi vestrænna ríkja er að vísu vondur, en hann er ekki vondur af því hann er popúlismi heldur af því að hann er hægrisinnaður.

Það sem ógnar vestrænu lýðræði er árásin á Demos. Sífellt fleiri pólitísk málefni, þau er snerta efnahagskerfið, félagsgerð og almenna velferð, hafa verið tekin af vettvangi Demos og færð öðrum aðilum, alþjóðlegum auðhringum, „sérfræðingum”, „ráðgjöfum”, her og lögreglu, ellegar færð yfir á markaðinn, vettvang persónulegra ákvarðana. Það er algengt að menn rugli saman lýðræði og persónufrelsi. Þetta eru tveir ólíkir hlutir, rétt eins og lýður og einstaklingur. Þetta eru að vísu skyldir hlutir sem styðja hvorn annan. Til þess að lýðræði raungerist þarf almennt persónulegt frelsi upp að ákveðnu marki, vissulega mjög háu marki. En í öðrum skilningi eru þetta andstæður. Sé öllum frjálst að gera nákvæmlega það sem þeim sýnist á öllum sviðum eru ákvarðanir lýðsins sem heildar marklausar. Eigi lýðræðið að virka og vera mönnum til velsældar þarf að ríkja ákveðið jafnvægi milli persónulegra ákvarðana og ákvarðana heildarinnar. Nýfrjálshyggjan hefur, með sinni einkavæðingu og ofuráherslu á hinn „frjálsa” markað, raskað þessu jafnvægi. Hún hefur þrengt að starfssviði lýðsins sem pólitísks aðila og þar með minnkað „ræði“ hans, með öðrum orðum vegið að lýðræðinu.

Helsta ástæðan fyrir minnkandi lýðræði vestrænna ríkja er þess vegna ekki sú að lýðskrumarar séu að rugla almenning í ríminu eða að harðstjórar hafi tekið völdin hér og þar og afnumið lýðræðislegt stjórnkerfi, þótt þetta hafi reyndar líka gerst. Stjórnkerfi flestra landa, það er formið, hefur lítið breyst. Það sem breyst hefur er inntakið. Það verður sífellt ólýðræðislegra. Colin Crouch telur vestrænt lýðræði hafa blómstrað í tiltölulegan stuttan tíma, og sá tími samsvarar nokkurn veginn tíma Keynesismans. Þetta er tíminn frá lokum Seinni heimsstyrjaldar til sirka 1980. Upp úr því, með nýfrjálshyggjunni, fór að halla undan fæti, lýðræðisblómið tók að fölna og visna. Crouch kallar það stjórnkerfi sem við búum við núna „eftir-lýðræði”, post-democracy. Hann leggur áherslu á að post-democracy er ekki hið sama og algjör skortur á lýðræði. Það er stjórnarfar sem óx út úr borgaralegu fulltrúalýðræði og ber enn ýmis merki þess. Það hefur nánast sömu opinberu formgerð og býr enn yfir lýðræði að vissu marki. Hann tekur líka fram að þessi þróun er mjög mislangt á veg komin eftir löndum. Hennar gætir til dæmis mun minna á íslandi og öðrum Norðurlöndum en í hinum enskumælandi heimi. Lengst er hún komin í Bandaríkjunum, svo langt að einn fyrrum forseti landsins, Jimmy Carter, hefur örugglega rétt fyrir sér þegar hann kallar bandarískt stjórnkerfi „fámennisstjóm” (oligarhy) þar sem „óendanlegar pólitískar mútur” ráða ferðinni. Meginreglan er þessi: því meiri nýfrjálshyggja því minna lýðræði og meiri post-democracy.

Crouch og aðrir sem tala um post-democracy tilgreina eftirfarandi þætti sem þess helstu einkenni: Sjálfstæði þjóðþinga minnkar, gagnvart ólýðræðislegum alþjóðastofnunum eins og Evrópubandalaginu og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, og ekki síður gagnvart fjölþjóðlegum auðhringum, sem í auknum mæli móta efnahagsstefnu þjóðríkja. Vegið er að verkalýðsfélögum, helsta vettvangi lýðsins utan þings; áhrif þeirra minnka og meðlimum fækkar. Félagsleg aðstoð er ekki lengur skilgreind sem mannréttindi heldur sem ölmusa háð ströngum skilyrðum og stöðugu eftirliti með þeim er hana þiggja. Skattar hætta að vera tæki til að jafna lífskjör og verða þess í stað tæki til að hafa óbein áhrif, „hvetjandi” eða „letjandi”, á hegðun neytenda og fyrirtækja. Þingmenn og ráðherrar tengjast æ nánar stórfyrirtækjum og fjármálaheimi. Lög og stjórnarstefna miðast æ meir við hagsmuni þessarra aðila og æ minna við hagsmuni almennings. Bilið milli ríkra og fátækra vex. Almenningur, sérstaklega fátækari hluti hans, verður áhugalaus eða fráhverfur stjórnmálum („þetta er allt sama tóbakið” heyrist æ oftar). Stjórnmál snúast æ meir um ímynd, útlit og framkomu, og æ minna um málefnalegt inntak. Veldi „sérfræðinga”, „teknókrata”, „ráðgjafa”, „hugveita” og annarra álíkra aðila eykst, enda er stjórn samfélagsins í auknum mæli líkt við rekstur fyrirtækis. Með einkavæðingu og útboðum minnkar verksvið lýðræðislegra stofnanna og færist yfir á einkageirann. Umsvif ríkisins minnka þó ekki; það er ein bábilja hægri manna að „báknið” minnki með nýfrjálshyggjunni. Það sem gerist er að verksvið ríkisins breytist, tengist æ minna félagslegri þjónustu og æ meir löggæslu, her og öryggismálum, það er, beinu eða óbeinu ofbeldi. Persónunjósnir aukast, að einhverju leyti af hálfu ríkisvaldsins, en þó fyrst og fremst af hálfu alþjóðlegra auðhringa sem safna, kaupa og selja upplýsingar um neytendur og nota til að stýra hegðun þeirra (surveillance capitalism). Fjölmiðlum hnignar, þeir verða æ einsleitari og ósjálfstæðari gagnvart ráðandi öflum samfélagsins; þeir verða málpípur valds og auðs, og sífellt ósvífnari í skipulögðum rógsherferðum gagnvart þeim sem ógna óbreyttu ástandi. Þetta á við um prentaða fjölmiðla, sjónvarp og útvarp, svokallaða „meginstraumsfjölmiðla”, bæði einkarekna og ríkisrekna. Samfélagsmiðlar og róttækir valkostir með minni fjárráð og útbreiðslu flækja vissulega þessa mynd.

Á alþjóðavettvangi birtist þessi þróun af-lýðræðisvæðingar best í því sem kallast Davos World Economic Forum. Í janúar ár hvert safnast saman í smábænum Davos í svissnesku Ölpunum allir helstu auðkýfingar heimsins og fulltrúar helstu auðhringa, ásamt slatta af þjóðarleiðtogum og ýmsum aftanítosum nýfrjálshyggjunnar úr röðum þotuliðsins, með Bono oftast fremstan í flokki. Þarna leggur ríkasta fólk heimsins á ráðin um það hvernig háttað skal heimsmálum og lífi allra annarra jarðarbúa um næstu framtíð, og ræður í raun og veru öllu sem það ráða vill í þeim efnum án þess að kjörin þing eða stjórnir einstakra landa hafi mikið um það að segja. Minnst allra ræður sauðsvartur almúgi heimsins, okkar margumræddi lýður, sem samkvæmt formgerð og orðræðu lýðræðis á að vera sá sem ræður. Það merkilegasta við þessi herlegheit er að nánast allir fjölmiðlar heimsins gapa við þeim gagnrýnislaust, með stjörnur í augunum, og greina frá öllu sem þar gerist eins og þarna séu saman komnir sjálfsagðir leiðtogar heimskringlunnar með ótvírætt umboð til að ráðskast með okkur öll hin. En þetta lið hefur auðvitað ekkert umboð. Enginn kaus það til eins eða neins og síst til að stjórna heiminum. Sem það gerir nú samt. Það drottnar í krafti auðsins. Með þessu er búið að afnema Demos og færa allt vald í hendur Davos. Fyrir vikið býr veröldin ekki við democracy, heldur davocracy.

DEMOS VS. IDIOS

Demos er hinn opinberi vettvangur, athafnasvið lýðsins. Forngrikkir áttu líka orð yfir andstæðu þessa, vettvang einstaklingsins, hinn persónulega vettvang heimilis, fjölskyldu og daglegs starfs. Það kölluðu þeir Idios. Við þekkjum orðið í ýmsum öðrum formum og samhengi. Idiosyncrasy er enskt orð yfir sérvisku. Í sálfræði Freuds er Id hinn meðfæddi hluti persónuleikans, uppspretta grunnþarfa og eðlishvatar, ótruflaður af samfélaginu og reglum þess. Og svo er orðið „idíót”. í okkar huga merkir það hið sama og flón, sá sem er fávís og vitgrannur. Hin upprunalega merking er ekki alveg hin sama, þótt hún beri þann skilning að vissu leyti í sér. Hjá Grikkjum var idíótinn sá er einskorðaði áhugasvið sín og athafnir við hið persónubundna, við vettvanginn Idios. Í þeim skilningi er idíótinn sá er tekur engan þátt í opinberri umræðu, lætur sig málefni samfélagsins engu varða, sér allt frá sínum bæjardyrum og reynir aldrei að víkka sjóndeildarhring sinn, sjá hina stóru mynd. Fram á 14. öld var Idiot lagalegt hugtak á Englandi, notað um þann sem var frjálst að stunda sinn einkabissness að vild en álitinn óhæfur til að gegna opinberu embætti.

Forngrikkir höfðu ekki mikið álit á þess háttar idíótum, þeim sem hugsuðu bara um sína einkahagi og gerðu sig og sitt nærumhverfi að mælikvarða alls. Það töldu þeir vísustu leiðina til að verða idíót í þeirri merkingu sem við nú notum orðið. Platon kvað þá unnendur skoðunar frekar en unnendur visku, fílódoxa, ekki fílósófa. Mælikvarði idíótsins, sögðu Grikkir, er alltaf sá sami: Hvernig stemmir þetta við MÍNA reynslu? Hvernig kemur þetta við MIG? Hvernig kem ÉG út úr þessu? Hvað græði ÉG á þessu? Grikkir voru ekki einir um að líta idíótinn hornauga. Hið sama gerðu okkar eigin fornu áar. Íslensku orðin „heimska”, „heimskur” og „heimskingi” eru dregin af orðinu „heima”. Sá er heimskur sem miðar allt við sitt nánasta umhverfi, sína heimasveit, sitt heimili, sitt „heima”. „Vits er þörf þeim er víða ratar, dælt er heima hvað“ segir í Hávamálum. „Heimskur er sá er heima situr” segir máltækið. Orðin „idíót” og „heimskingi” hafa því samskonar uppruna og merkja hið sama. „Heimdellingur” nær þessu líka býsna vel. Heimdellingurinn mælir dellu þess þröngsýna sem metur allt út frá sínum eigin hag og sínum litla lokaða heimi. Andlega séð situr heimdellingurinn alltaf heima og hugsar sisona: „Hvað græði ÉG á þessu? What’ s in it for ME?“

IDÍÓTISMI

Við þekkjum öll þennan mann, idíótinn í þessum skilningi. Þetta er maðurinn sem græðir á daginn og grillar á kvöldin. Hann er forstjóri, þingmaður, ráðherra, athafnamaður, fjárfestir, „frumkvöðull“, „áhrifavaldur”, bankastjóri og blaðamaður með meiru. Hann er maðurinn sem börnum okkar er kennt að líta upp til og vilja verða þegar þau eru orðin stór. Því ólíkt forngrikkjum og fornum mönnum norrænum lítur okkar samtíð ekki á idíótinn sem gallagrip heldur eins konar ídeal týpu sem öllum ber að líkja eftir. Okkur er kennt að hinn sanna mennska felist í því að hugsa um það eitt að skara eld að eigin köku, fría sig samfélagslegri ábyrgð og gefa skít í alla aðra. Öll borgaraleg hagfræði gengur út á að allir hugsi og hagi sér einmitt þannig, að allir séu algjörir idíótar. Að hugsa eins og idíót heitir rational choice. Hinn ekónómíski maður er erkiidíót. Með kapítalismanum breyttist idíótinn úr skúrki í hetju, og hafi orðspor hans dalað dálítið eftir að hann startaði heilli heimskreppu og tveimur heimsstyrjöldum var hann aftur hafinn til vegs og virðingar með nýfrjálshyggjunni.

Það er þess vegna sem Neal Curtis kallar nýfrjálshyggjuna „idíótisma” í einni bestu og vanmetnustu bók síðari ára um samfélagsmál. Bókin heitir einmitt þetta: Idiotism. Curtis tekur skýrt fram að hann notar hugtakið idiot í hinum gamla gríska skilningi og sé með því ekki að leggja dóm á gáfnafar viðkomandi. (Hann útilokar þó ekki að nýfrjálshyggjan, sé hún stunduð í óhófi, hafi forheimskandi áhrif.) Curtis sér idíótismann sem bæði samfélagsgerð og hugmyndafræði, eða ídeólógíu. Idíótisminn er samfélagsgerð og hugmyndafræði einkavæðingar alls. Allt skal tekið af vettvangi lýðsins, hinum sameiginlega vettvangi, og fært yfir á hinn einstaklingsbundna vettvang. Allt skal fært frá Demos til Idios. Einkavæðing = Allt er gefið idíótum. Sala Íslandsbanka kemur óneitanlega upp í hugann. Allar ákvarðanir sem tengjast því hvernig við viljum hafa samfélagið, viðhalda menningu okkar og hvernig framtíð við viljum búa komandi kynslóðum skulu færast frá Demos og afhentar markaðinum, sem eins og fyrr segir er vettvangur einstaklingsbundinna ákvarðana. Nýfrjálshyggjan, eða idíótisminn, og sú hnignun lýðræðis sem menn kalla post-democracy, eru því nátengd fyrirbæri, svo nátengd að líta má á þau sem eitt og hið sama. Enda segja hörðustu neó-libbarnir gjarnan að lýðræðið sé í raun algjör óþarfi í alfrjálsu markaðshagkerfi, því þar „kjósi” fólk dags daglega, já oft á dag, með því að versla og braska.

KAPÍTALÍSKT RAUNSÆI

Á íslensku er ideology oftast þýtt sem „hugmyndafræði”. Sú þýðing er nokkuð ónákvæm og of þröng. Curtis notar hugtakið ídeólógía í mjög víðum skilningi, og byggir þar mest á hinum franska Louis Althusser. Í þeim skilningi er ídeólógían ekki bara – jafnvel ekki fyrst og fremst – safn hugmynda sem virka á hinu rökræna eða vitsmunalega sviði. Hún virkar umfram allt á hinu tilfinningalega sviði, gagntekur þegninn allan í gegnum uppeldi, siðferðisleg viðmið, félagslegar væntingar, „helgisiði” kerfisins, neyslu og afþreyingu. Hún gerir hugmyndir ráðandi afla að hinni „almennu skynsemi”, þeim fyrirframgefnu „augljósu sannindum” sem eru svo sjálfsögð að þau þarf ekki einu sinni að ræða. Ídeólógían gerir sjálfsmynd þegnsins svo nátengda kerfinu að hann upplifir gagnrýni á ríkjandi skipulag sem persónulega árás á hann sjálfan, grundvöll hans eigin lífs og allt sem hann stendur fyrir. Jafnframt fyllir hún hann þeirri vissu að hugmyndir, viðmið og atferli ríkjandi kerfis samsvari „mannlegu eðli“, einu og óhagganlegu, óháðu sögu, samfélagsháttum og hagsmunum ríkjandi afla. Með því útilokar ídeólógían allar hugmyndir um öðruvísi samfélag, annars konar mannlíf. Hún útilokar allt sem ekki gengur upp innan ríkjandi kerfis. Hún drepur ímyndunaraflið. Hún segir: annar heimur er ekki hugsanlegur, annað mannlíf er ekki mögulegt. Hún gerir okkur öll að raunsæismanneskjum.

„DEMOS ER TÍMARIT FYRIR HUGI SEM EKKI ERU VÆNGSTÍFÐIR, FÓLK SEM VOGAR SÉR AÐ DREYMA UM ANNAN OG BETRI HEIM.“

Oscar Wilde tók ekki í mál að vera raunsæismaður. Því raunsæismaður, sagði hann, er sá sem útilokar allt það sem ekki er hægt að ná fram innan ramma ríkjandi kerfis. Raunsæismaðurinn, sé hann ekkert sérlega illa innrættur, vill kannski útrýma fátækt og hungri. En sé það ekki hægt innan ríkjandi kerfis yptir hann öxlum og sættir sig við að fátækt og hungri verði því miður ekki útrýmt. Andstæða hans er hugsjónamaðurinn. Hann vill líka, líklega enn frekar, útrýma fátækt og hungri, og þegar honum skilst að það er ekki hægt innan ríkjandi kerfis steytir hann hnefann og byrjar að brjóta niður kerfið. Raunsæismaðurinn sættir sig við það sem hann getur ekki breytt. Hugsjónamaðurinn breytir því sem hann getur ekki sætt sig við.

Mark Fisher kallaði nýfrjálshyggjuna einmitt „kapítalískt raunsæi” í samnefndri bók: Capitalist Realism. Þetta er raunsæi Thatchers: Það er enginn annar valkostur. Þetta er líka raunsæi prófessors Altungu: Heimurinn er að vísu hræðilega vondur, en harm er samt bestur allra mögulegra heima. Kapítalisminn er skömminni skárri en stalínismi, fátækt og misrétti eru skárri en fangabúðir í Norður-Kóreu. Aðrir valkostir bjóðast ekki, því maðurinn í sínu óhagganlega eðli er svo sjálfselskur og skammsýnn að reyni hann að vera einhvern veginn öðruvísi, reyni hann að láta gott af sér leiða, láta sér annt um náungann og skapa betri heim, getur það aldrei endað nema með ósköpum: aftökusveitum, samyrkjubúum, gúlagi og gallabuxnaleysi. Þess vegna er best að vera bara idíót. Þannig, segir Fisher, „er hinu kaldhæðna skeytingarleysi póst- módernísks kapítalisma ætlað að gera okkur ónæm fyrir seiðmagni öfganna.” Það er þetta sem ídeólógía hins kapítalíska raunsæis gerir: hún vængstífir hugann, aflýsir hugmyndaflugi, drepur drauminn um betri heim, afnemur framtíðina.

DEMOS ER…

Demos er tímarit fyrir hugi sem ekki er vængstífðir, fólk sem vogar sér að dreyma um annan og betri heim. Demos bregður upp annarri heimssýn, mynd sem á tvennan hátt stangast á við mynd meginstraumsfjölmiðla. Þetta er í fyrsta lagi önnur sýn á það hvernig heimurinn er og hvernig hann virkar. Þetta er líka sýn á annan mögulegan heim, valkost við þann sem við nú búum í og verðum að þola. Að því leyti er Demos pólitískt tímarit. Það stillir sér upp yst til vinstri. Demos þiggur ekki stafkrók frá hægri mönnum, nema í einstaka tilfellum sé til þess einhver sérstök haldgóð ástæða, sem reyndar er frekar ólíkleg staða. Þetta er ekki nema sanngjarnt, hægrið hefur hvort eð er flesta aðra íslenska fjölmiðla og íslensk tímarit fyrir sig. Demos mun þó ekki fylgja einhverri einni sósíalískri línu. Skríbentar mega kalla sig demókratíska sósíalista, kommúnista, anarkista, guðlausa sósíalista, kristilega sósíalista, zen-búddíska vegan anarkó-marxista eða bara hvað sem þeim dettur í hug. Eina krafan er að menn hafi hjartað á réttum stað og kollinn í lagi. Það er algjör óþarfi að menn séu sammála um allt. Reyndar lítil hætta á því þegar vinstri menn eiga í hlut.

Demos er „tímarit um sögu og samfélag”, og þá er orðið „samfélag” notað í víðasta skilningi. Undir það fellur pólitík, félagsgerð, sálfræði, heimspeki, menning, listir, afþreying, íþróttir og margt fleira. Ekkert mannlegt er Demos óviðkomandi. Í Demos munu birtast frumsamdar greinar, þýddar greinar, bókaumsagnir og einstaka viðtöl við gott fólk. Þýddar greinar verða bæði nýjar eða nýlegar, sem og aðrar komnar til ára sinna, þær sem við teljum eiga enn brýnt erindi við hugsandi menn. Það má líta á þær sem klassískan texta. Sömu reglu mun fylgt í bókaumsögnum: nýjar og nýlegar bækur verða kynntar og ritdæmdar, en einnig munum við teygja okkur upp í hilluna eftir gömlum skruddum sem eru eru í fullu gildi og okkur þykir ekki vanþörf á að dusta af rykið og reka framan í fólk. Það er gjarnan svo með góðar bækur að hver kynslóð verður að uppgötva þær og skilja á sinn hátt. Hvað varðar efni, óskum við hér með eftir skríbentum og þýðendum.

Demos er sem sé sósíalískt tímarit. En Demos gerir sér líka grein fyrir að „sósíalisminn” hefur á sér slæmt orð í ýmsum kreðsum og viðurkennir fúslega að þar er sósíalistum, eða svokölluðum sósíalistum, sjálfum um að kenna að verulegu leyti. Sósíalískar tilraunir síðustu aldar, það sem oft er kallað really existing socialism, enduðu flestar á annan veg en til stóð, margar enduðu illa, ollu vansæld þjóða og jafnvel dauða milljóna. En það gerir kapítalismann ekkert skárri en hann er, né heldur minnkar þá lífsnauðsyn sem mannkyninu er að losna við hann. Það er hann sem olli tveimur heimsstyrjöldum, nánast útrýmdi frumbyggjum Ameríku, olli dauða tugmilljóna Asíubúa og Afríkubúa, endurvakti þrælahald og þrælasölu; það er hann sem nú veldur stöðugu stríði, loftslagshlýnun og hröðustu útrýmingu dýrategunda í sögu jarðarinnar. Það er hann sem ógnar lífi á jörð. Það er hann sem verður að víkja ef mannkyn og aðrar tegundir ætla sér áframhaldandi tilvist. Ef sú ætlan á að takast verður að koma á einhverskonar „sósíalisma”, eða, ef menn vilja frekar, „post-kapítalísku samfélagi”. Tæknilausnir einar og sér nægja ekki. Það verður að gjörbreyta því hvernig, til hvers og hve mikið við framleiðum og neytum, og hvernig framleiðslan og lífsgæðin dreifast. Það verður að umbreyta tengslum manna á milli og milli manns og annarrar náttúru. Það verður að afnema græðgina sem drifkraft mannlegra athafna og miða þess í stað við mannlegar þarfir og þarfir annarra tegunda, við gróskuna, ekki gróðann. Slíkt samfélag köllum við sósíalisma, eða eco- sósíalisma. Og hann verður að vera allt öðru vísi en sósíalismi fyrri tíma. Það ríður mikið á að það samfélag sem rís úr rústum kapítalismans sé lýðræðislegt, að þar ríki raunverulegt lýðræði, ekki bara sýndarlýðræði eins og við búum við núna. Það verður að vera samfélag valddreifingar, þar sem lýðurinn, Demos, tekur beinan þátt í pólitískum ákvörðunum. Sé þetta markmið okkar er nauðsynlegt að sósíalistar séu óhræddir við að viðurkenna og greina mistök og voðaverk fortíðarinnar. Þau mega ekki endurtaka sig. Demos mun leggja sitt að mörkum hvað þetta varðar.

Demos er fræðilegt tímarit í vissum skilningi. Líklegt er að nokkuð stór hluti skríbenta komi til með að tengjast þeim hugarburði sem stundum er nefndur „háskólasamfélagið” og að þeir kalli sig, þegar sá gállinn er á þeim, „fræðimenn”. Og skrifi þá á því fræðasviði sem þeir gera sig helst breiða. En Demos er ekki fræðirit í þessum vanalega skilningi að þar skrifi fræðimenn fyrir aðra fræðimenn á sama sviði og allir aðrir verði að láta sér lynda að standa á gati. Því miður er eitt helsta einkenni tímarita, íslenskra sem erlendra, ein gríðarstór og óbrúuð gjá milli annars vegar fræðimennsku og hins vegar þess sem ætlað er almenningi til aflestrar.

Greinar í Demos eiga að vera skiljanlegar öllu þokkalega skynsömu og fróðleiksfúsu fólki, meira að segja hægrimönnum, enda finnast meðal þeirra fróðleiksfúsir menn og jafnvel skynsamir. Þeir mega alveg lesa ritið, bara helst ekki skrifa í það. Að ofangreindu leiðir að greinar í Demos eiga að vera skynsamlegar og fróðlegar. Það sakar heldur ekki að sumar séu dulítil skemmtun, svolítið líflegar. Sem fyrr segir, krafan er: hjartað vinstra megin og hausinn í lagi. Jú, og reyndar eitt skilyrði í viðbót: eins og William Morris sagði þegar hann ritstýrði Oxford and Cambridge Magazine’. ekkert persónulegt skítkast, takk fyrir. Ef þið kallið einhvern „idíót” munið að taka fram að þið notið orðið í hinum forngríska skilningi. Fræðingar eiga heldur ekki að einoka Demos. Við óskum eftir framlagi frá fólki í öllum geirum samfélagsins. Sérstaklega viljum við virkja fólk sem stendur framarlega í verkalýðsbaráttunni og samtökum sem berjast gegn hinum ýmsu birtingarmyndum heimsvaldastefnunnar.

Demos mun koma út tvisvar á ári til að byrja með. Vonandi tekst okkur fljótlega að koma út fjórum heftum á ári. Það er því nokkuð ljóst að Demos hentar ekki vel til að fjalla að neinu ráði um dægurmál, það sem helst er í deiglunni hverju sinni. Sem fyrr segir mun fókusinn vera á hina stóru mynd, á söguna og formgerð heimsins og mannshugans. Skríbentum ber að taka tillit til þessa.

NANCY FRASER OG FRAMSÆKNIR LIBBAR

í þessu hefti og því næsta birtum við greinar eftir hinn bandaríska heimspeking, kennismið og femínista Nancy Fraser. Grein þessi miðast fyrst og fremst við ameríska pólitík og er skrifuð þegar Trump var enn að skandalisera á fullu í Hvíta húsinu. Lesendur ættu þó ekki að draga þá ályktun að þar með séu skrifin úrelt eða óþörf. Sú greining sem þar er beitt hefur miklu víðari tilvísun, eins og þýðandinn, Árni Daníel Júlíusson, bendir á í eftirmála, þar sem hann leggur líka drög að samsvarandi greiningu á íslenskum stjórnmálum. Líta má á þessa grein Frasers og þá sem birtist í næsta hefti sem umræðugrundvöll sem á fullt erindi til íslenskra sósíalista.

Fraser talar um tvo ása í pólitík samtímans. Annar ásinn tengist skiptingu auðs og tekna, sem sé stéttum og efnahagslegu misrétti. Hinn ásinn tengist virðingu og verðleikum, sem sé baráttu fyrir jafnrétti kynja, kynþátta, trúflokka, samkynhneigðra og svo framvegis. Hún lýsir stefnu bandarískra Demókrata undir leiðsögn Clintons (og nú Bidens), breska Verkamannaflokksins undir leiðsögn Blairs (og nú Starmers), sem og margra annarra miðju- og krataflokka á Vesturlöndum, sem „framsækinni nýfrjálshyggju” (progressive neo-liberalism). Þessir flokkar eru „framsæknir” á verðleika-ásnum, hlynntir jafnrétti kynja, kynþátta, trúflokka og fólks með ólíka kynhneigð. En þeir eru afturhald, eða „neó-líberal“, á hinum ásnum. Ekkert jafnréttiskjaftæði þar. Fyrir þeim er ekkert til sem heitir stéttir, bara einstaklingar með mismunandi sjálfsímyndir. Efnahagslegt misrétti er ekki slæmt sem slíkt, þvert á móti bráðhollt. Misrétti er bara vont ef það byggir á einhverju öðru en „lögmálum” hagfræðinnar. Það er allt í lagi að sumt fólk sé fátækt og annað moldríkt, ef til grundvallar liggja „eðlilegar” hagrænar orsakir. Stigveldi er fínt mál svo framarlega að einstaka konur og hornmar fái að príla upp á toppinn og trjóna þar um stund. Þá mega skúringakellingar eiga sig.

Þetta er heimsmynd „libbanna”. Og þeir leynast víða. Forysta VG, Samfylkingar og Pírata hugsar akkúrat svona. Reyndar líka Sjallar, Framsókn og Viðreisn að miklu leyti. Sem gerir íslensk stjórnmál, þrátt fyrir þennan fjölda flokka, frekar einslit og óspennandi. Það er vitaskuld nokkur munur á áherslum og orðfæri hægri flokka og ofangreindra svokallaðra vinstri flokka, en hinir síðarnefndu er fyrir löngu búnir að gleyma öllu sem heitir verkalýður og stéttabarátta, fyrir löngu búnir að gleyma því óréttlæti sem grundvallast á misskiptingu auðsins og eignarhaldi á framleiðslutækjum.

WILLIAM MORRIS OG ALBERT EINSTEIN

Gegn kapítalisma, imperíalisma, herstefnu, tortímingu, loftslagsbreytingum og vistrænu hruni verða sósíalistar að setja fram sýn á annan mögulegan heim. Mark Fisher sagði: „þeir sem berjast fyrir frelsi og betri heimi verða sífellt að ráðast gegn blekkingunni um ,eðlilegt ástand1, verða að sýna fram á að það sem okkur er sagt vera nauðsynlegt og óhjákvæmilegt er aðeins einn möguleiki af mörgum, og að það sem hingað til hefur verið talið óframkvæmanlegt er vissulega gerlegt.” Við verðum að geta ímyndað okkur annan heim. Enginn gerði það betur en William Morris. Í þessu hefti upphefst greinaflokkur eftir undirritaðan um William Morris og sósíalismann. Hann mun verða í fjórum hlutum og hverjum hluta fylgir þýdd grein eftir Morris sjálfan. Í þessu hefti fylgir grein um eðli vinnunnar, „Þarft verk og þarflaust streð”, skrifuð árið 1884, en á þó enn við okkur fullt erindi, því miður verður maður að segja.

Morris leit á baráttuna fyrir sósíalisma sem miklu meira en brauðstrit og atvinnuþref. Hún var honum barátta fyrir fegurra mannlífi, fyrir sköpun og listfengi, á móti firringu og neysluhyggju. Honum fannst kapítalisminn vera ekki einungis vondur að innræti heldur líka beinlínis ljótur ásýndar. Hann mengar umhverfið, drepur náttúruna og framleiðir einhver bísn af bölvuðum óþarfa og forljótu drasli.

Morris var þetta undarlega fyrirbæri sem kallast „Íslandsvinur”. Hann ferðaðist um Ísland, studdi Íslendinga í hallærum, átti marga íslenska vini, lærði íslensku og, í samvinnu við Eirík Magnússon, þýddi íslenskar fornbókmenntir á enska tungu og gaf þær út af myndugleik. Þetta kunnu íslenskir samtímamenn hans vel að meta og þótti heiður af því að svona merkilegur maður skyldi nenna að sinna íslenskri menningu og tala máli Íslendinga erlendis. Segja má að með Morris og Íslendingum hafi ríkt gagnkvæm virðing, jafnvel ást. Margur landinn lagði líka eyrun við sósíalisma Morrisar og skeggræddi hann í íslensku samhengi. Morris gerði Matthías Jochumsson að sósíalista. En meira um það í næsta hefti. Í þessari fyrstu grein er mest rýnt í listsköpun og hönnun Morrisar og þá lífsfílósófíu sem henni lá til grundvallar og leiddi hann að lokum til sósíalismans.

Þorsteinn Erlingsson var samtímamaður Morrisar, nokkuð yngri að vísu. Nokkuð öruggt er að þeir hafi hist þegar Morris ferðaðist um Ísland 1871. Þorsteinn var þá tólf ára stráklingur. Það forlag sem gefur út Demos heitir einmitt Brautin eftir samnefndu ljóði Þorsteins, úr einu af stórvirkjum íslenskrar bókmenntasögu, Þyrnum, sem út kom 1897. Það er því við hæfi að birta það ljóð hér í fyrsta hefti tímaritsins, ekki síst þar sem boðskapur þess er mjög í anda Demos og þeirra sem að því standa:

en hver maður þorir að þekkja sinn skjöld 
og þarf ekki að krjúpa við gull eða völd.
Ég trúi því sannleiki að sigurinn þinn
að síðustu vegina jafni.  

Því miður hafa flestir íslenskir svokallaðir vinstrimenn tekið það af sinni stefnuskrá að jafna vegina. Þeir vilja í mesta lagi jafna eitthvað möguleika einstaklinga til að komast á toppinn í kerfi ójöfnuðar, hrista eitthvað aðeins upp í stigveldinu svo ný andlit sjáist á elítunni endrum og eins. En um jöfnuð sem slíkan er ekki talað. Þorsteinn og Morris voru sósíalískir brautryðjendur. Vinstrimenn þurfa að finna aftur brautina sem þeir ruddu. Sem stendur eru þeir á villgötum, krjúpandi við gull og völd.

Hér birtum við líka grein eftir enn einn merkismann og andans jöfur: Albert Einstein. Skrifuð fyrir rúmum sjötíu árum en gæti verið samin í gær. Annar klassískur texti. Einstein reifar hér helstu ástæður þess að við verðum að koma á sósíalisma og þess að hann sjálfur varð sósíalisti. Maður þarf svo sem ekki að vera einhver Einstein til að gera sér grein fyrir nauðsyn sósíalismans. Bara helst ekki idíót, í hinum forngríska skilningi. Einstein endar grein sína svo:

Skýr og opin umræða um vandamál sósíalismans hefur einmitt gífurlega þýðingu núna á tímum þjóðfélagsumbrota. Þar eð ríkjandi öfl okkar þjóðfélags reyna jafnan að kæfa frjálsa og óhindraða umræðu um þessi mál, tel ég stofnun þessa tímarits ákaflega gott og þarft framtak til styrktar almannaheill.

Albert Einstein: Hvers vegna sósíalismi?

Hann vísar hér í stofnun hins bandaríska tímarits Monthly Review árið 1949. En við tökum okkur það bessaleyfi að heimfæra þessi orð snillingsins upp á Demos.

ANNAÐ EFNI

Auk þess að þýða og skrifa eftirmála að grein Nancy Frasers, skrifar Árni Daníel Júlíusson eigin grein þar sem líka er fjallað um forræði og forræðisbandalög. Þetta er greinin „Forræðiskreppa og afdrif sósíalismans í Evrópu 1917-1923“. Eins og nafnið bendir til fjallar greinin um þá öldu þjóðfélagsumbrota, uppreisna og byltinga sem gekk yfir Evrópu frá 1917 til 1923. Sagan gerist einkum á tveimur vígstöðvum, Rússlandi og Þýskalandi. Flestir gera sér grein fyrir sögulegu mikilvægi Rússnesku byltingarinnar. Færri eru meðvitaðir um þýðingu byltingarinnar í Þýskalandi, byltingar sem varð skammvinn og svikin af þeim sem hefðu átt að veita henni forystu, en reyndist þó hafa langvarandi og víðtæk áhrif Árni bendir á að byltingunni í Þýskalandi hafir verið minni gaumur gefinn en ætla mætti og ástæða sé til. „Setja má fram þá staðhæfingu að þýska verkalýðshreyfingin og samtök hennar hafi leikið lykilhlutverk í Evrópubyltingunni, ekki síður og ef til vill fremur en sú rússneska.”

Í þessu hefti birtist, með vinsamlegu leyfi höfundar, kafli úr bók Einars Más Guðmundssonar, Skáldleg afbrotafræði, sem nýlega var út gefin af Máli og menningu. Bókin fjallar um stórhuga íslenska alþýðumenn sem á fyrri hluta 19. aldar gerast glæpamenn í samræmi við nýja samfélagshætti og hugmyndastrauma. Þetta voru framfaramenn, í senn glæponar og skúrkar, alþýðuhetjur og uppreisnarmenn, athafnamenn og frumkvöðlar. Bókin er fyrsti hluti framhaldssögu. Við vekjum athygli á henni, mælum með henni og hlökkum til framhaldsins.

Sem fyrr segir er ekki ætlast til að skríbentar Demos séu allir samsinna. Einstaka greinar túlka heldur alls ekki skoðanir ritstjóra eða ritstjórnar. Vonandi verður Demos vettvangur skoðanaskipta á vinstri væng. Í þessu hefti eru greinar sem margir lesendur munu eflaust fetta fingur út í, verandi á allt öðru máli en höfundur. Þar má nefna ofangreinda grein Frasers, sem og greinar Axels Kristinssonar og Þórarins Hjartarsonar. Hinar tvær síðarnefndu fjalla um mál sem löngum hafa valdið sósíalistum heilabrotum.

Grein Axels er fyrri grein af tveimur um uppruna stéttskiptingar í mannlegu samfélagi. Við bíðum spennt eftir seinni hlutanum. Eflaust eru ekki allir sósíalistar sammála því sem þarna er sagt og vonandi verður þessi flokkur uppspretta frekari umræðu. Ef við ætlum okkur að afnema stéttskiptingu verðum við að skilja orsakir hennar.

Grein Þórarins fjallar um heimsvaldastefnuna, mjög svo aðkallandi efni um þessar mundir.

Greinin er skrifuð áður en Rússar réðust inn í Úkraínu og ber þess auðvitað merki. Lesendur skulu hafa það í huga. Í greininni er lítið minnst á Rússland. Hún fjallar um heimsvaldastefnu sem almennt fyrirbæri, eðli hennar og efnahagslegan grunn, fyrst og fremst með tilvísun til Bandaríkjanna en einnig Kína. Hún reifar kenningar um kapítalískan imperíalisma, og þær má vitaskuld heimfæra upp á Rússland og innrásina í Úkraínu. Það er full ástæða til að setja núverandi átök í slíkt fræðilegt og sögulegt samhengi, hvernig svo sem menn vinna úr því og hvaða niðurstöðu þeir komst að.

Slík umræða verður að eiga sér stað, en því miður hefur henni að mestu verið úthýst í meginstraums- fjölmiðlum. Þar ríkir nú einhverskonar mórölsk heittrúarstefna, þar sem allir sem voga sér að beita einhverri annarri og vitrænni greiningu en þeirri sem byggir á eilífri baráttu góðs og ills eða átökum „vestrænna gilda” og austrænnar villimennsku, voga sér að tala um sögulegt samhengi og benda á söguleg fordæmi í fortíð og samtíð, eru sakaðir um what-about-ism og stimplaðir Rússadindlar og handbendi Pútíns. Gildir þá einu hversu oft og mikið þeir fordæma innrásina og Pútín sjálfan. Það er eins og menn verði að velja sér ákveðna drápsvél til að hata og aðra til að halda með. Eins og það megi bara vera á móti einu stríði í einu.

STÖÐUGT STRÍÐ

Í trássi við það sem okkur er sagt, er stríðið í Úkraínu langt því frá að vera frávik í annars friðsömum og siðuðum heimi. Frá 1990, eða frá og með stríðinu í Persaflóa og falli Sovétríkjanna, hefur ríkt því sem næst samfellt styrjaldarástand á svæði sem markast af norðurhluta Afríku, Miðausturlöndum, vesturhluta Asíu, sem og Úkraínu og Balkanskaga. Það má í raun tala um „hægfara heimstyrjöld” eða kannski „heimstyrjöld í öðrum gír“. Það er erfitt að henda reiður á tölu látinna í þessum hildarleik, en hún virðist þó vera vel yfir 10 milljónir. Fæstir hinna föllnu hafa verið vegnir með vopnum. Fylgifiskar stríðs verða fleirum að bana: fátækt, hungur, plágur og eyðing vistkerfa. Flest fórnarlömbin eru óbreyttir borgarar. Þarna ber hæst stríðið á Kongó-svæðinu 1996-2007. Margar stofnanir segja yfir 5 milljónir manna hafi látist af völdum þess. Næst kemur „Stríðið endalausa” eða „Stríðið gegn hryðjuverkum” í Miðausturlöndum sem hófst eftir árásina á Tvíburaturnana árið 2001. Dauðsföll af völdum þeirra átaka eru að líkindum vel yfir tvær milljónir, kannski hátt í þrjár. Þetta er í raun og veru mörg aðskilin en þó tengd stríð, skærur og hryðjuverk sem ná til margra landa, þar á meðal Íraks, Afganistan, Pakistan, Sýrlands, Líbíu, Jemen og Sómalíu. Ein og sér drap innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak um það bil milljón manns. Stríðið í Sómalíu hefur drepið um 400,000 manns og að líkindum verða fórnarlömb stríðsins í Jemen álíka mörg áður en árið er allt. Þessi tvö hin síðastnefndu stríð geysa enn þótt af þeim fréttist fátt í íslenskum fjölmiðlum, enda fórnarlömbin „óverðug” eins og sagt er, það er að segja, ekki vestræn, hvít og kristin. Og muna má að flestir íslenskir pólitíkusar og flestir íslenskir fjölmiðlar studdu innrásina í Írak heilshugar og grétu þá hvorki mannslíf né fólksflótta. Þegar litið er á þennan samfellda hildarleik frá 1990 í heild sinni, með öllum þeim dauðsföllum, fólksflótta, stríðsglæpum og öðrum hörmungum sem honum fylgja, er hlutur Rússa vissulega stór, en samt, enn sem komið er, töluvert minni en Bandaríkjanna og þeirra bandamanna, utan og innan NATO. Það eru vestræn ríki og auðhringir sem bera stærstu ábyrgðina, sem beinir gerendur, ráðgjafar og ekki síst sem framleiðendur obba þeirra vopna sem notuð eru.

Á bak við hið stöðuga stríð er gríðarleg framleiðsla og sala á hergögnum. Árið 2020 seldu hundrað stærstu vopnaframleiðendur heimsins hergögn fyrir tæplega $555 milljarða. Árlegt andvirði sölunnar hafði þá aukist um 74 prósent frá 2002. Vopnum hefur verið dælt í Miðausturlönd, stríðandi ríki Afríku og til nýrra NATO-ríkja í Evrópu. Miðað við andvirði vörunnar selja Bandaríkjamenn meira en helming þessarra vopna, NATO-ríki samtals tvo-þriðju. Fimm stærstu fyrirtækin seldu vopn fyrir rúmlega $183 milljarði árið 2020. Þau eru öll bandarísk. Þau hafa frá því 2002 eytt meira en $2.5 milljörðum í að “lobbíera” bandaríska þingmenn og evrópsk stjórnvöld og eiga stóran þátt í útþenslu NATO frá 1999. Stefna þeirra er ein og augljós: síaukin hervæðing og stanslaust stríð. Því stríð er góður bissness og óhjákvæmilegur partur af gangverki kapítalismans. Þetta eru þessir masters of war sem Bob Dylan söng um á sjöunda áratugnum. Það grátlega er að nú hafa margir þeir sem eitt sinn tóku undir með Dylan gerst málpípur þessarra sölumanna dauðans í stað þess að senda þeim tóninn. Gamlir Keflavíkurgöngumenn presentera nú drápsvélina NATO, sem myrt hefur milljónir í gegnum tíðina, sem einskonar hjálparsveit skáta.

Það er vissulega ánægjuefni að vestrænir fjölmiðlar og almenningur skuli loksins gera sér grein fyrir því að stríð er helvíti og finna til samstöðu með fórnarlömbum. En af hverju þurfti til þess innrás úr austri í vestrænt ríki? Er stríð ekki jafn mikið helvíti þegar innrásaraðilinn er vesturveldi og fórnarlömbin afrísk eða asísk? Nýlega ræddi bandaríska fréttakonan Abby Martin við fréttamiðilinn The Real News Network um stríðið í Úkraínu og viðbrögð á Vesturlöndum. Martin spyr hvernig vinstri menn geti fengið almenning til að víkka þessa nýtilkomnu og réttmætu vitund sína um ógnir og illsku stríðs þannig að hún nái til alls stríðs, ekki bara þess stríðs sem ráðamenn og fjölmiðlar kjósa að halda á lofti. Við verðum, segir hún, að gera fólki grein fyrir að stríð er ekki eitthvað sem byrjaði í febrúar 2022, heldur samfellt ástand sem heimurinn hefur lengi búið við.

Við erum alþjóðasinnar, við erum vinstrifólk, okkur þykir sjálfsagt að mótmæla þegar hermenn ráðast inn í fullvalda ríki, okkur þykir sjálfsagt að fólk reiðist og fyllist viðbjóði gagnvart stríðsglæpum… þegar sprengjum er varpað á óbreytta borgara. Stríð er helvíti þar sem fólk deyr og þjáist að ástæðulausu, og það gildir alls staðar í heiminum … Líf og dauði skipta allsstaðar máli, mannlífið er heilagt, án tillits til hörundslitar og þjóðernis… Hvernig dirfast fjölmiðlar …að velja það úr sem þeir vilja að fólk sjái og láti sig varða? Við verðum að útvíkka samstöðu okkar svo hún nái til alls lífs, okkur verður að skiljast að allt líf skiptir máli, hvar sem er í heiminum…

Hér gildir sem endranær: við verðum að víkka sjóndeildarhringinn, brjótast út úr ídeólógíunni, leita heildarmyndar. Við verðum að hleypa heimdraganum og hætta að vera idíótar.

Heimildir

Althusser, Louis, On Ideology (London & New York 2008)

Crouch, Colin, Post-Democracy (Cambridge 2004)

Curtis, Neal, Idiotism: Capitalism and the Privatisation of Life (London 2013)

Fisher, Mark, Capitalist Realism: Is There No Alternative? (Winchester 2009)

Gilbert, Jeremy, Common Ground: Democracy and Collectivity in an Age of Individualism (London 2014)

Kreps, Daniel, „Jimmy Carter: U.S. Is an ‘Oligarchy With Unlimited Political Bribery’“Rolling Stone 31. júlí 2015

Lukes, Steven, Individualism (Colchester 2006)

McDonagh, Patrick, Idiocy: A Cultural History (Liverpool 2008)

Mouffe, Chantal, The Return of the Political (London & New York 1993)

…… The Democratic Paradox (London & New York 2005)

Platon, Ríkið (Reykjavík 2009). íslensk þýðing: Eyjólfur Kjalar Emilsson.

The Real News Network, 08.03.2022: „Abby Martin: How the Media Manufactures ,Bloodlust‘ for War“

Stockholm International Peace Research Institute

Truthout, „Arms Industry Sees Ukraine Conflict as an Opportunity, Not a Crisis“:

Wilde, Oscar, In Praise of Disobedience: The Soul of Man Under Socialism and Other Writings (London & New York 2018)

Wikipedia, „List of Wars: 1990-2002“:

…….. „List of Wars: 2003-resent“


Posted

in

by

Tags: