Hið gamla háir dauðastríð og hið nýja nær ekki að fæðast

Grein þessi birtist fyrst í American Affairs Volume I, Number 4 (Winter 2017): 46-64. og hét þar From Progressive Neoliberalism to Trump—and Beyond

Hún birtist hér með góðfúslegu leyfi höfundar

Hver sá sem nefnir „kreppu“ nú á dögum á það á hættu að vera  stimplaður vindbelgur, svo er þetta hugtak ofnotað. Samt verður að segjast eins og er: Við okkur blasir kreppa, og hún djúp og óárennileg. Miklu skiptir að skilgreina hugtakið „kreppa“ af nákvæmni og greina hina ýmsu þætti hennar af skynsemi. Það auðveldar leit okkar að lausnum, leit okkar að leið út úr vandanum og í átt að þjóðfélagslegri umbyltingu.

Við fyrstu sýn virðist núverandi kreppa vera stjórnmálakreppa. Skýrasta birtingarmynd hennar er í Bandaríkjunum: Donald Trump – kosning hans, forsetatíð og allur sá úlfaþytur  sem hann hefur lag á að valda. Það er þó enginn skortur á hliðstæðum í öðrum heimshlutum: Brexit og tilheyrandi ógöngur Breta; minnkandi áhrif Evrópusambandsins og vaxandi upplausn þeirra flokka sem að baki því standa og það hafa mótað: sósíaldemókrata og hægfara hægri flokka. Víða í Evrópu gætir vaxandi áhrifa og fylgis flokka sem eru andsnúnir innflytjendum og hallir undir kynþáttahyggju. Líka má nefna uppgang einræðisafla, sem á köflum nálgast það að vera fasísk, í Rómönsku Ameríku, Asíu og við Kyrrahaf. Stjórnmálakreppan, ef um slíkt er að ræða, er ekki bara amerísk; hún er heimskreppa.

Til stuðnings þessari staðhæfingu má benda á ýmis sameiginleg einkenni ofangreindra fyrirbæra. Öll sýna þau hraðminnkandi áhrif, ef ekki hrun, hinna hefðbundnu stjórnmálastétta og pólitísku flokka. Það er engu líkara en fjöldi fólks um allan heim hafi hætt að trúa á þær viðteknu hugmyndir sem legið hafa til grundvallar pólitískum valdakerfum síðustu áratugi. Það er eins og fólk hafi á einhverju augnabliki misst trú á umboði ríkjandi valdahóps og farið að leita að nýrri hugmyndafræði, nýjum samtökum og nýrri forystu. Þetta hefur gerst á mörgum stöðum í senn, og með hliðsjón af því hve hrunið er víðtækt, er harla ólíklegt að slíkt sé tilviljun. Við skulum því gera ráð fyrir að við horfumst í augu við heimskreppu á sviði stjórnmála.

Svo ógnvekjandi sem það kann að hljóma, er það einungis einn þáttur vandans. Ofangreind fyrirbæri eru stjórnmálaleg birtingarmynd breiðrar, margþættrar almennrar kreppu, sem felur í sér efnahagslega, vistfræðilega og félagslega þætti. Kreppan verður ekki skilin án þess að litið sé til vandamála í öðrum, að því er virðist ópólitískum stofnunum. Í Bandaríkjunum er meðal annars um að ræða meinvörp í fjármálakerfinu; offjölgun skammtímastarfa í hvers kyns þjónustu; öran vöxt neytendalána sem ætluð eru til að fjármagna kaup á ódýrum innfluttum neysluvörum; vöxt í útblæstri koltvísýrings, veðuröfga og afneitun á loftslagsvanda; fjöldafangelsanir blökkumanna og kerfisbundið lögregluofbeldi; og vaxandi álag og streitu í fjölskyldulífi og nærsamfélagi vegna æ lengri vinnutíma og sífellt lélegra velferðarkerfis. Samanlagt hafa þessir þættir lengi verið að grafa undan þjóðfélagskerfinu án þess að valda stjórnmálaumróti svo orð sé á gerandi. Hinn stjórnmálalegi þáttur almennu kreppunnar er forræðiskreppa (crisis of hegemony).

Donald Trump er táknmynd þessarar forræðiskreppu. Uppgangur hans verður þó ekki skilinn án þess að þær aðstæður sem voru forsendur framgangs hans séu skýrðar. Þetta þýðir að lýsa verður þeirri heimsmynd sem Trumpisminn velti af stalli og sýna hvernig hún brast. Í því skyni hljótum við að beita hugmyndum Antonio Gramscis. Hegemony, það er, forræði, er það orð sem hann notar um það hvernig ráðandi stétt fær samfélagslegt samþykki fyrir yfirráðum sínum með því að gera forsendur eigin heimsmyndar að „almennri skynsemi“ í samfélaginu öllu. Skipulagsleg hliðstæða þess er hegemonic bloc, sem þýða má sem forræðisbandalag: Bandalag ýmissa félagslegra afla sem ráðastéttin fylkir saman til stuðnings við heimsmynd sína og stefnu. Ef lágstéttirnar ætla sér að vinna bug á þessu kerfi verða þær að byggja upp ný og meira sannfærandi almenn skynsemisviðmið: counter-hegemony, eða mótforræði, og nýtt og öflugra stjórnmálabandalag: counter-hegemonic bloc, eða bandalag mótforræðis.

Antonio Gramsci, höfundur hugmynda um forræði og forræðisfylkingar. Gramsci var ítalskur kommúnisti og er einn af helstu kenningasmiðum marxismans.

Til viðbótar þessum hugmyndum Gramscis skulum við ígrunda aðra: Sérhvert forræðisbandalag felur í sér ýmsar hugmyndir um hvað sé og hvað sé ekki samfélagslega réttlátt og æskilegt. Frá því um miðja tuttugustu öld tengdi forræði kapítalismans í Bandaríkjunum og Evrópu saman tvo ólíka þætti réttinda og réttlætis – annars vegar þátt sem snýst um dreifingu gæða, og hins vegar þátt sem snýst um samfélagslega viðurkenningu. Dreifingarþátturinn stendur fyrir ákveðin viðhorf til þess hvernig þjóðfélaginu beri að úthluta lífsgæðum, sérstaklega tekjum og tekjumöguleikum. Þessi þáttur lýtur að efnahagslífi og, þótt með duldum hætti sé, stéttskiptingu samfélagsins. Viðurkenningarþátturinn snýst um að setja fram viðmið þess efnis hvernig samfélaginu beri að úthluta virðingu og áliti, siðferðilegum táknum þess að tilheyra samfélaginu og skapa sér þar stöðu, sem sé, hvernig skipað er í virðingarstiga þjóðfélagsins.

Til samans mynda dreifing og viðurkenning grundvallarþætti þess kerfis sem mótar forræði þjóðfélagsins. Ef þessari hugmynd er bætt við hugmyndir Gramscis, verður greining okkar sú að það sem gerði framgang Trumps og Trumpismans mögulegan var upplausn þess forræðisbandalags sem áður var við völd, fráhvarf frá því táknræna fyrirkomulagi dreifingar og viðurkenningar sem lengi hefur verið við lýði. Með því að greina hvernig það fyrirkomulag myndaðist og hvernig það síðan riðlaðist, getum við glöggvað okkur bæði á Trumpismanum og þeim forsendum sem nauðsynlegar eru fyrir myndun nýs forræðisbandalags, bandalags sem beinast myndi gegn ríkjandi öflum og gæti leitt okkur út úr kreppunni. Leyfið mér að skýra málið.

Forræði framsækinnar nýfrjálshyggju

Áður en Trump komst til valda mátti kenna ríkjandi forræðisbandalag í bandarískum stjórnmálum við framsækna nýfrjálshyggju. Þessir tveir þættir –framsækni og nýfrjálshyggja – kunna að hljóma ósamrýmanlegir, en náðu þó saman í raunverulegu og öflugu bandalagi tveggja ólíkra afla: annars vegar meginstraums hinna nýju félagshreyfinga (femínisma, andófs gegn kynþáttahyggju, fjölmenningar, náttúruverndar og réttindabaráttu samkynheigðra); hins vegar öflugustu, valdamestu afla ímyndarsköpunar og fjármála í bandarísku efnahagslífi (Wall Street, Silicon Valley og Hollywood). Þessir ólíklegu bólfélagar náðu saman um ákveðnar hugmyndir varðandi dreifingu og viðurkenningu.

Þetta bandalag framsækinnar nýfrjálshyggju sameinaði, annars vegar, arðráns- og auðræðismarkmið innan hagkerfisins og, hins vegar, frjálslynd og verðleikastýrð pólitísk markmið þegar kom að viðurkenningu. Dreifingarþáttur þessa samkrulls frjálslyndis og auðræðis var af meiði nýfrjálshyggjunnar. Stéttirnar sem leiddu þetta forræðisbandalag voru ákveðnar í að losa markaðsöflin undan „oki“ ríkisvaldsins og þeirra hafta sem óvægin skattlagning í þágu velferðarkerfis lagði á markaðsöflin. Þess í stað skyldi kapítalískt hagkerfi leitt á götu frjálsræðis og alþjóðavæðingar. Það þýddi í reynd fjármálavæðingu. Í henni fellst afnám hafta á frjálsu flæði kapítals; afnám regluverks varðandi bankastarfsemi; ört vaxandi hrægammaskuldsetning; samdráttur í iðnaði, sem leiddi til minnkandi áhrifa verkalýðsfélaga og stöðugrar fjölgunar óöruggra, illa borgaðra starfa. Þessi stefna er oft kennd við Ronald Reagan en var þó fyrst og fremst fest í sessi af Bill Clinton. Hún hefur grafið undan lífskjörum verklýðs- og millistéttar og leitt til þess að auður og verðmæti hafa færst upp á við – auðvitað fyrst og fremst til eina prósentsins, en einnig í hendur æðstu framkvæmdastjóra, forstjóra og annarra hátt settra starfsmanna ríkis og einkafyrirtækja.

Þetta kerfi var í sjálfu sér ekki uppfinning hinna framsæknu nýfrjálshyggjumanna. Heiðurinn af því áttu ýmsir forsprakkar hægri stefnu: Hugmyndafræðingarnir Friedrich Hayek, Milton Friedman og James Buchanan; stjórnmálahugsuðir á borð við Barry Godwater og Ronald Reagan; og fjársterkir guðfeður eins og Charles og David Koch. Slík bókstafstrú nýfrjálshyggju átti þó bágt með að ná forræði í landi þar sem almenn viðmið mótuðust enn af hugsun New Deal-tímans, „réttindabyltingunni“ og öflugum félagshreyfingum sem ættaðar voru frá vinstri bylgju 7. áratugarins. Ef fyrirætlanir nýfrjálshyggjumanna áttu að takast varð að færa þær í nýjan búning, gefa þeim breiðari skírskotun, tengdri fyrirheitum og markmiðum frelsishreyfinga á ýmsum sviðum öðrum en hinu efnahagslega. Aðeins þannig gat mjög afturhaldssöm efnahagsstefna orðið kraftmiðja nýs forræðisbandalags.

Þetta féll í hlut hinna „nýju Demókrata“. Þeir lögðu til einn ómissandi efnisþátt: Framsækna pólitík á sviði viðurkenningar. Með því að byggja á framsæknum kröfum almannahreyfinga var skapað siðfræðilegt viðurkenningakerfi sem á yfirborðinu var jafnræðissinnað og frelsandi. Kjarni þessarar siðfræði byggði á hugsjónum fjölmenningar, valdeflingar kvenna og réttindum samkynhneigðra. Þessar hugsjónir voru túlkaðar á sértækan og takmarkaðan hátt sem var að fullu samrýmanlegur yfirtöku fyrirtækja á borð við Goldman Sachs í bandarísku efnahagskerfi. Umhverfisvernd var framkvæmd með kaupum og sölu á koltvísýringskvótum. Vaxandi einkaeign á heimilum þýddi lánavöndla ósjálfbærra lána sem endurseldir voru sem fasteignatryggð verðbréf. Jafnrétti snérist nú alfarið um verðleikaviðmið.

Einskorðun jafnréttis við verðleikaviðmið hafði afdrifarík áhrif. Stefna hinnar framsæknu nýfrjálshyggju á því sviði hefur ekki það markmið að gera út af við félagslegt stigveldi heldur að auka fjölbreytni arðránsins, „valdefla“ „hæfileikaríkar“ konur, litað fólk og kynferðislega minnihlutahópa svo að einhverjir þessara aðila geti líka komist á toppinn. Þessi hugmyndafræði er nátengd og beinlínis byggir á misrétti stétta: Reynt er að tryggja að einstaklingar úr ákveðnum hópum sem hingað til hefur oftast verið meinað að ná toppstöðu, „hæfileikaríkir“ einstaklingar, fái stöðu og laun á við gagnkynhneigða hvíta menn úr sömu stétt. Femíníska útgáfan er mjög lýsandi en því miður ekki einstök. Hér er öll áhersla lögð á að greiða götu kvenna til frama og „brjóta glerþakið“. Þetta kom fyrst og fremst til góða einstaklingum sem þegar réðu yfir því félagslega, menningarlega og efnahagslega kapítali sem til þarf. Allir aðrir skyldu sitja fastir á botninum.

Þrátt fyrir takmarkanir og skekkju þessarar hugmyndafræði dró hún ýmsa meginstrauma framsækinna félagshreyfinga inn í hið nýja forræðisbandalag. Vissulega voru til femínistar, and-rasistar og fjölmenningarsinnar sem ekki gengu til liðs við hina framsæknu nýfrjálshyggju. Samt voru hinir, þeir sem það gerðu, stærsti og sýnilegasti hópurinn í hverri hreyfingu fyrir sig. Þeir sem á móti streittust voru oftast á jaðrinum. Þessi „framsækni“ armur hins nýja og vafasama bandalags var vitaskuld mun valdaminni en fóstbræður þeirra í Wall Street og Silicon Valley. Samt skipti framlag hans sköpum: Það stóð fyrir eitthvað heillandi, seiðandi og jákvætt, hinn „nýja anda kapítalismans“. Framsæknu öflin virtust boða frelsun, hinn nýi andi sýndist hlaða efnahagslega starfsemi að hætti nýfrjálshyggju spennu og framsækni. Hinu ömurlega, arðráninu, var þannig veitt yfirbragð frelsandi, framsækinnar hugsunar; það fékk heimsborgaralegan blæ og siðferðilegt lögmæti. Ljótleikinn varð allt í einu aðlaðandi. Í krafti þessa brenglaða siðferðismats var pólitískum aðgerðum sem höfðu í för með sér gríðarlega tilfærslu auðs upp á við gefið framsækið yfirbragð og þar með lögmæti.

Til að ná hugmyndalegu forræði þurfti hið nýja framsækna nýfrjálshyggjubandalag að sigrast á tveimur ólíkum keppinautum. Fyrst þurfti að kveða í kútinn hið öfluga New Deal-bandalag (sem snérist um að tryggja velferð og efnahagslegt jafnrétti – þýð.). Eins og New Labour Tony Blairs gerði síðar, lagði sá armur Demókrataflokksins sem laut forystu Bill Clintons þetta eldra bandalag hljóðlega niður. Í stað sögulegs bandalags sem hafði í marga áratugi auðnast að sameina verkalýð, innflytjendur, blökkumenn, miðstétt þéttbýlisins og ákveðna geira stóriðnaðarauðmagns, myndaði þessi armur Demókrataflokksins nýtt bandalag atvinnurekenda, bankastjóra, íbúa úthverfa, fólks sem starfaði við ímyndarsköpun, æskulýðs, framsækinna félagshreyfinga og fólks ættaðs frá Rómönsku Ameríku. Að auki tókst honum að halda stuðningi Bandaríkjamanna af afrískum uppruna, sem fundu sér engan annan stað í hinu nýja litrófi stjórnmálanna. Bill Clinton vann sigur í forkosningum Demókrata til forsetaframboðs á árunum 1991 til 1992 með því að tala um „fjölbreytni“, fjölmenningu og réttindi kvenna, um leið og hann undirbjó jarðveginn fyrir samvinnu við stórauðvaldið.

Ósigur afturhaldsinnaðrar nýfrjálshyggju

Framsækin nýfrjálshyggja þurfti einnig að vinna sigur á öðrum keppinaut, sem hún átti fleira sameiginlegt með en hún lét í veðri vaka. Í þessu tilfelli var andstæðingurinn afturhaldsinnuð nýfrjálshyggja. Hana var fyrst og fremst að finna í flokki Repúblíkana. Hún var ekki eins heildstæð og ráðandi keppinautur hennar, en hún bauð upp á aðra útgáfu af sambandi dreifingar lífsgæða og verðleikastjórnmála. Þetta bandalag sameinaði hliðstæða stefnu og framsækin nýfrjálshyggja hvað varðar dreifingu lífsgæða, en um leið aðra, afturhaldssamri stefnu á sviði viðurkenningar og virðingar. Á yfirborðinu var stefna þessa bandalags að styrkja lítil fyrirtæki og framleiðsluiðnað, en raunverulegt hagrænt markmið þess fólst í því að efla fjármálakerfið og framleiðslu á sviði hergagnaiðnaðar og olíuiðnaðar, sem fyrst og fremst kom eina prósentinu til góða. Hugmyndin var að þetta gæti orðið ásættanlegt almennum stuðningsmönnum með því að bjóða þeim upp á viðurkenningakerfi sem byggði á útilokun, væri þjóðernislegt, andvígt innflytjendum og kenndi sig við kristna trú. Í reynd var þetta rasískt, hómófóbískt föðurveldi.

Þetta var formúla sem á tímabili gerði kristnum bókstafstrúarmönnum, hvítum Suðurríkjabúum, dreifbýlisbúum víðast hvar í Bandaríkjunum, sem og fátækari hluta hvítrar verkalýðsstéttar, kleift að mynda óstöðugt bandalag við Tea Party-hreyfinguna, Viðskiptaráðið og Koch bræður, auk ýmissa bankamanna, fasteignabraskara, orkumógúla, áhættufjárfesta og vogunarsjóðastjóra. Þegar litið er framhjá samsetningu bandalagsins og augum beint að inntaki efnahagsstefnunnar var þessi afturhaldssinnaða nýfrjálshyggja á flestan hátt mjög svipuð hinum framsækna  keppinaut sínum. Þótt einhver ágreiningur væri um „skatta á hina auðugu“ gáfu Demókratar iðulega eftir á því sviði. Bæði þessi bandalög studdu „frjálsa verslun“, lága skatta á fyrirtæki, takmörkun á réttindum verkafólks, forgang hagsmuna hlutabréfaeigenda og afregluvæðingu fjármálakerfisins. Bæði bandalög kusu sér forystumenn sem leituðu eftir „þjóðarsátt“ er hafði að markmiði að skera niður velferðarkerfið. Meginmunurinn lá í því hvernig viðurkenningum skyldi háttað. Það var enginn ágreiningur um dreifingu auðs og lífsgæða.

Bill Clinton. Forseti Bandaríkjanna 1992-2000. Clinton sá um að festa nýfrjálshyggjuna í sessi.

Það var hin framsækna nýfrjálshyggja sem bar sigur úr býtum með Clinton. Þetta þýddi hnignun hins svokallaða Ryðbeltis, sem og nýlegri iðnaðarsvæða í Suðurríkjunum. Þrjú stefnumál Clintons skiptu sköpum: NAFTA (Fríverslunarbandalag Norður-Ameríku), afnám Glass-Steagall löggjafarinnar og innganga Kína í Alþjóðaviðskiptaráðið (WTO), sem rökstutt var á þeim forsendum að það myndi styrkja lýðræðið. Framgangur þessarar stefnu hafði afar slæm áhrif á þau svæði í Bandaríkjunum sem reiddu sig á iðnaðarframleiðslu. Á þeim tveimur áratugum sem hin framsækna nýfrjálshyggja var við völd gerði hvorugt bandalagið nokkra tilraun til að styðja við þessi samfélög. Í augum nýfrjálshyggjumanna voru hagkerfi þeirra ekki lengur samkeppnishæf og tími til kominn að þau færu í gegnum „markaðsaðlögun“. Í augum framsæknu aflanna voru þau leifar fortíðar og mörkuðust af fornlegum og úreltum menningarviðmiðum sem voru sem óðast að hverfa í hinni nýju heimsborgaralegu skipan veraldar. Hvorki á sviði dreifingar né viðurkenningar gátu framsæknir nýfrjálshyggjumenn fundið nokkra ástæðu til að verja Ryðbeltið eða iðnaðarsvæði Suðurríkjanna.

Barist um forræðistóm

Sá stjórnmálaheimur sem Trump braut upp var afar takmarkaður og bauð upp á lítið svigrúm. Innan hans rúmuðust aðeins átök milli tvenns konar nýfrjálshyggju, sem fyrst og fremst greindi á um hvernig veita skyldi viðurkenningu. Vissulega var þó líka val á milli fjölmenningarhyggju og þjóðernisstefnu. Á hinn bóginn var ekkert val um fjármálavæðingu og afiðnvæðingu. Þar eð í boði voru einungis framsækin og afturhaldssöm nýfrjálshyggja var ekkert afl sem gat staðið gegn niðurbroti lífskjara verkafólks og millistéttar. Pólitík sem beindist gegn nýfrjálshyggju mátti sín lítils, hún var nánast útilokuð af opinberum vettvangi.

Það þýddi að verulegur hluti bandarískra kjósenda, fórnarlömb fjármálavæðingar og alþjóðavæðingar stórfyrirtækja, átti ekki í nein hús að venda á stjórnmálasviðinu. Þar sem hvorugt hinna stóru pólitísku bandalaga talaði máli þessa fólks var stórt tómarúm í bandarískum stjórnmálum: tómt, ónumið svið, þar sem stjórnmálastefna sem berðist gegn nýfrjálshyggju og fyrir réttindum verkafólks og fjölskyldna þeirra gat hugsanlega skotið rótum. Í ljósi þess að æ fleiri verksmiðjur lokuðu, að æ fleira fólk reiddi sig á óörugg og tímabundin störf í þjónustugeiranum, að skuldsetning lágstétta óx jafnt og þétt, og að þar með hrundu lífskjör þeirra tveggja þriðjunga Bandaríkjamanna sem eftir sátu á botninum, í ljósi alls þessa var aðeins tímaspursmál hvenær einhver myndi hasla sér völl á þessu galtóma svæði.

Ýmsir héldu að það augnablik væri upp runnið 2007-8. Veröld sem enn var að jafna sig á verstu mistökum í utanríkisstefnu bandarískrar sögu (hér er átt við innrásina í Írak 2003 – þýð.) neyddist þá til að horfast í augu við verstu efnahagsörðugleika síðan í Kreppunni miklu –og nær algjört hrun efnahagslífs heimsins alls. Menn kölluðu á breytingar, hefðbundin pólitík var ekki lengur boðleg. Bandaríkjamaður af Afríkuuppruna sem talaði um „von“ og „breytingar“ settist í forsetastól og hét að gjörbreyta ekki bara stjórnarstefnu heldur líka öllum „viðhorfum“ í bandarískum stjórnmálum. Barack Obama bauðst að grípa tækifærið og virkja almennan stuðning við nýjar leiðir í átt frá nýfrjálshyggju, jafnvel þótt þingið væri þeim mótfallið. En þess í stað fól hann stefnumótun í efnahagsmálum þeim hinum sömu öflum í Wall Street er höfðu skömmu áður nánast rústað hagkerfinu. Hann skilgreindi markmiðið sem „enduruppbyggingu“ í stað þess að innleiða kerfisbreytingu. Hann veitti gríðarlegum fjárhæðum til banka sem voru „of stórir til að falla“, en sýndi um leið enga viðleitni til að gera hið sama fyrir fórnarlömb bankanna: þær tíu milljónir Bandaríkjamanna sem misstu heimili sín á nauðungaruppboðum í kreppunni. Eina undantekningin var að Medicaid-kerfið var gert víðtækara með löggjöf sem nefndist Affordable Care, sem fól í sér raunverulegar umbætur á lífskjörum hluta bandarískrar verkalýðsstéttar. Hann hafnaði hins vegar leiðum sem eflt hefðu opinbert heilbrigðiskerfi til muna og með því dýpkaði hann klofning milli einstakra hluta verkalýðsstéttarinnar, sem reyndist Demókrötum dýrkeypt. Í heild snérist forsetatíð hans um að viðhalda óbreyttu kerfi hinnar framsæknu nýfrjálshyggju, þrátt fyrir vaxandi óvinsældir þess.

Wall Street í New York. Miðstöð fjármálakerfis heimsins.

Annað tækifæri til að sækja inn á svið umrætts tómarúms gafst árið 2011, með uppreisninni sem kennd er við Occupy Wall Street. Hópur fólks sem var orðið langþreytt á að bíða eftir umbótum af hálfu hins pólitíska kerfis ákvað að taka málin í eigin hendur og hertók torg um allt land í nafni „99 prósentanna“. Fólkið fordæmdi kerfi sem arðrænir mikinn meirihluta þjóðarinnar í því skyni að auðga ríkasta prósentið, og tiltölulega litlir hópar ungra mótmælenda náðu brátt víðtækum stuðningi –allt að 60% Bandaríkjamanna, samkvæmt nokkrum skoðanakönnunum– sérstaklega verkalýðsfélaga sem áttu í vök að verjast, skuldsettra námsmanna, miðstéttarfjölskyldna í fjárhagskröggum og stöðugt vaxandi hóps fólks í óöruggri skammtímavinnu.

Höfuðstöðvar Apple í Silicon Valley

Pólitísk áhrif Occupy-hreyfingarinnar urðu hins vegar takmörkuð, og fólust mest í því að stuðla að endurkjöri Obama. Hann tók sjálfur upp orðfæri hreyfingarinnar og tryggði sér þar með stuðning margra sem áttu síðan eftir að kjósa Trump. Hafandi árið 2012 tryggt sér völd í fjögur ár til viðbótar virtist hann steingleyma nýfundinni stéttavitund; hún gufaði upp á örskoti. „Breytingar“ hans einskorðuðust við forsetatilskipanir, hann hvorki lögsótti þá sem ollu efnahagshruninu né notaði ræðustól forsetans til að fylkja þjóðinni á móti Wall Street. Stjórnmálastétt Bandaríkjanna gerði ráð fyrir að þar með væri stormurinn genginn yfir og nú yrði allt sem áður, engra breytinga þörf. Hún hélt sig við óbreytta nýfrjálshyggju og áttaði sig ekki á að Occupy-hreyfingin var forboði þess jarðskjálfta sem síðan varð.

Sá jarðskjálfti dundi yfir á árunum 2015 og 2016, þegar langvarandi óánægja umbreyttist skyndilega í djúpstæða kreppu stjórnmálavaldsins. Í kosningabaráttu þeirra ára virtust báðar helstu pólitískar blokkir í Bandaríkjunum vera að hrynja. Í tilfelli Repúblíkana sigraði Trump, í krafti popúlismans, auðveldan sigur á fimmtán lánlausum frambjóðendum í forkosningum. Ýmsir þeirra voru handvaldir af flokksleiðtogum og fjársterkum styrktaraðilum. Hjá Demókrötum náði Bernie Sanders, yfirlýstur lýðræðissósíalisti, að velgja undir uggum þeim frambjóðanda sem Obama hafði sjálfur ánafnað sem sinn eftirmann. Hin útvalda þurfti að beita öllum brögðum til að tryggja sér útnefningu. Í báðum fylkingum riðluðust allar hefðir um val frambjóðandans þar eð tveir utangarðsmenn tóku yfir forræðistómarúmið og fylltu það með nýjum slagorðum og hugmyndum.

Bæði Sanders og Trump fordæmdu dreifingarstjórnmál nýfrjálshyggjunnar. Á hinn bóginn voru hugmyndir þeirra um viðurkenningu mjög ólíkar. Sanders fordæmdi hagkerfi kapítalismans á margvíslegum forsendum, þar á meðal forsendum jafnréttis; Trump fordæmdi kerfið á forsendum þjóðernisstefnu og verndarstefnu. Einangrunarslagorð, sem að vísu höfðu áður heyrst, urðu megininntak kosningabaráttu hans. Hann talaði hástöfum á rasískum nótum, nótum kvenfyrirlitningar, haturs á múslimum, andúðar á innflytjendum, hómófóbíu og transfóbíu. Sá „verkalýður“ sem hann höfðaði til var hvítur, gagnkynhneigður og kristinn, stundaði störf í námavinnslu, olíuvinnslu, byggingariðnaði og þungaiðnaði. Sú verkalýðstétt sem Sanders höfðaði til var hins vegar breið og víðfeðm, innihélt ekki einungis verksmiðjustarfsmenn í Ryðbeltinu heldur einnig starfsfólk hins opinbera og verkafólk í þjónstugreinum, þar á meðal konur, innflytjendur og litað fólk.

Borg í ryðbeltinu, Cleveland í Ohio-fylki í Bandaríkjunum. Nýfrjálshyggjan leiddi til hruns iðnaðar í norðausturhluta Bandaríkjanna og kreppu í fjölmörgum áður blómlegum borgum.

Andstæðan milli þessara tveggja ímynda „verkalýðsstéttarinnar“ fólst vissulega fyrst og fremst í málflutningi hvors um sig. Hvorug ímyndin féll alfarið að samsetningu kjörfylgis frambjóðendanna tveggja. Þótt úrslitaatkvæðin sem færðu Trump sigur kæmu frá niðurníddum iðnaðarsvæðum sem höfðu fylgt sér um Obama árið 2012 og Sanders í forkosningunum 2015, þá komu kjósendur hans einnig úr hópi hefðbundinna kjósenda Repúblíkana. Þar á meðal voru frjálshyggjumenn, atvinnurekendur og aðrir sem höfðu litla þörf fyrir hagrænan popúlisma. Á sama hátt voru traustustu fylgismenn Sanders úr hópi ungra, háskólamenntaðra Bandaríkjamanna. Það er þó ekki meginatriðið. Sem birtingarmynd mögulegs mótforræðis var breið sýn Sanders á verkalýðsstétt Bandaríkjanna það sem skarpast skildi útgáfu hans eigin popúlisma frá popúlisma Trumps.

Báðir þessir utangarðsmenn drógu upp útlínur nýrrar sýnar, nýrrar almennrar skynsemi, en með ólíkum hætti. Þegar best lét gaf málflutningur Trumps í kosningabaráttunni til kynna nýja hegemóníska blokk, sem kalla mætti afturhaldssinnaðann popúlisma. Þessi málflutningur virtist sameina mjög svo afturhaldssinnaða pólitík hvað varðaði viðurkenningu  og popúlísk stefnumið varðandi dreifingu. Í framkvæmd jafngilti þetta múrnum á landamærunum við Mexíkó að viðbættum miklum útgjöldum til uppbyggingar innviða. Blokkin sem Sanders sá fyrir sér var hins vegar framsækinn popúlismi. Hann leitaðist við að sameina annars vegar stefnumið varðandi viðurkenningu sem fólu í sér samstöðu mislitra þjóðfélagshópa og hins vegar dreifingu sem miðaði að bættum lífskjörum fjölskyldna úr verkalýðsstétt: endurbætur á réttarkerfi og ókeypis heilbrigðiskerfi fyrir alla; full réttindi til fóstureyðinga; ókeypis háskólanám; full réttindi samkynhneigðra, og uppskiptingu stóru bankanna.

„Bait and Switch“

Hvorug þessara sviðsmynda hefur hins vegar orðið að veruleika. Ósigur Sanders fyrir Hillary Clinton gerði, eins og vænta mátti, að engu vonir um framsækinn popúlískan valkost. Afleiðingar sigurs Trumps yfir Clinton hafa komið, alltént sumum, meira á óvart. Hinn nýi forseti hefur ekki stýrt landinu sem afturhaldssamur popúlisti, heldur hefur hann virkjað það sem kallast „bait and switch“, sem gengur út á að svíkja gefin loforð en bjóða jafnharðan upp á ný í þeirra stað. Hann hefur hunsað þau popúlísku loforð um dreifingu gæða sem hann gaf í kosningabaráttunni. Vissulega hætti hann við TPP, Trans-Pacific Partnership; hins vegar hefur hann látið vera að afnema NAFTA og hefur ekki lyft litla fingri til að leggja bönd á Wall Street. Hann hefur heldur ekki tekið eitt einasta skref í þá átt að koma á laggirnar viðamiklum framkvæmdum á sviði innviða sem skapað gætu mikinn fjölda nýrra starfa. Tilraunir hans til að efla iðnframleiðslu hafa einskorðast við táknrænar aðgerðir og afnám reglugerða fyrir kolaiðnaðinn, aðgerðir sem hafa reynst gagnslausar í raun. Í stað þess að leggja til skattalagabreytingar sem myndu gagnast verkalýðsstétt og miðstéttarfjölskyldum hefur forsetinn stutt hefðbundna stefnu Repúblíkana í skattamálum, sem ætlað er að færa eina prósentinu (þar á meðal Trump fjölskyldunni) meiri auðlegð. Eins og síðasta atriðið sýnir glöggt, þá hafa aðgerðir hans á sviði dreifingar verið af því tagi sem hagnast helst honum sjálfum og hans einkavinum. Falli Trump ekki að þeirri ímynd sem Hayek dregur upp af fyrirmyndarþátttakendum í frjálsum markaði þá hefur útnefning fyrrum starfsmanns Goldman Sachs sem yfirmanns fjármála engu að síður tryggt að nýfrjálshyggjan ræður enn því sem máli skiptir.  

Barack Obama. Vonbrigði með frammistöðu hans við að vinda ofan af nýfrjálshyggjunni áttu mikinn þátt í sigri Donald Trump 2016.

Þannig féll Trump frá öllum popúlískum fyrirheitum um dreifingu auðs. Þeim mun ákafar framkvæmdi hann afturhaldssama stefnu varðandi verðleika og viðurkenningu. Þar sló hann hvergi af og hafa aðgerðir hans einkennst af vaxandi grimmd. Listinn er langur og hrollvekjandi: ferðabann í ýmsum útgáfum til Bandaríkjanna sem beinist gegn þegnum ríkja þar sem múslimar eru í meirihluta; svipaðar aðgerðir gegn Venesúela; árás á mannréttindi af hálfu dómsmálaráðuneytisins (sem hefur hætt að nota sáttatillögur) og hjá vinnumálráðuneytinu (sem hefur hætt að fylgjast með mannréttindabrotum af hálfu verktaka á vegum bandaríska alríkisins); höfnun ríkisvaldsins á því að verja dómsmál sem lúta að réttindum samkynheigðra; afnám tryggingaskyldu á getnaðarvörnum; atlaga að lögum um jafnrétti kynja í menntakerfinu með niðurskurði á launum til þeirra sem sjá eiga um framkvæmd laganna; opinberar stuðningsyfirlýsingar við hörkulega meðferð lögreglu á sakborningum; náðun Joe Arpaio; og stuðningur við það „afbragðs fólk“ hvítra yfirráðasinna sem fór hamförum í Charlottesville. Afrakstur alls þessa er engin meinleysis íhaldssemi í anda Repúblíkana, heldur svartasta afturhald á sviði verðleika og viðurkenningar.

Stefna Trumps forseta á lítið sammerkt með loforðum frambjóðandans Trumps. Popúlismi hans á sviði efnahagsmála er horfinn og við bætist að ásakanir hans og árásir gegn andstæðingum sínum hafa orðið æ grimmilegri. Stuðningsmenn hans hafa einfaldlega ekki fengið það sem þeir kusu. Afraksturinn er ekki afturhaldssamur popúlismi heldur ofur-afturhaldssöm nýfrjálshyggja.

Hún er þó ekki nýtt forræðisbandalag. Hún er, þvert á móti, ruglingsleg, óstöðug og brothætt. Þetta stafar að hluta til af einkennilegum persónuleika Trumps og að hluta til af misheppnaðri sambúð hans við ráðandi öfl í Repúblíkanaflokknum, sem hafa reynt, en ekki tekist, að ná aftur tökum á ástandinu og bíða nú átekta á meðan þau leita leiðar út úr vandanum. Ekki er ljóst hver endirinn verður, en enginn skyldi útiloka þann möguleika að flokkur Repúblíkana muni klofna. Hvernig sem fer, þá mun ofur-afturhaldssöm nýfrjálshyggja ekki skila neinum möguleika á öruggu forræðiskerfi.

Vandinn ristir dýpra. Með því að hverfa algerlega frá kjarabótum verkafólks, hinum efnahagslega popúlisma, þá mun hin afturhaldsama nýfrjálshyggju í reynd opna aftur það hegemóníska tómarúm sem Trump átti þátt í að fylla árið 2016. Munurinn er sá að nú mun erfitt að leika sama leikinn aftur, að bjóða upp á sama popúlismann og áður. Hinn popúlíski köttur er þegar sloppinn úr sekknum. Það er vafasamt að verkalýðsfylgi Trumps geri sér til lengdar að góðu innantóm loforð án aðgerða.

Hinum megin skipuleggur „andstaðan“ sig. Andstaðan er raunar klofin, með grjótharða Clintoníta, vel skilgreindan fylgishóp Sanders og fjölda fólks sem gæti farið í hvora átt sem er. Það flækir málið að nýir og róttækir hópar hafa laðað að sér fjársterka aðila þrátt fyrir (eða vegna þess) hversu stefnumið þeirra virðast ómótuð.

Ekki bætir úr skák að nú er farið að bera á gamalli tilhneigingu á vinstri vængnum, að tefla kynþætti gegn stétt. Sumir andspyrnumenn leggja til að endurskipuleggja stefnu Demókrataflokksins í kringum andstöðu við yfirráðastefnu hvítra manna, með það markmið að afla fylgis þeldökkra og fólks af suður-amerískum uppruna. Aðrir vilja halda sér við stéttaviðmið með það markmið að vinna aftur verkalýðsfylgið sem flúði yfir til Trumps. Bæði viðhorf eru vafasöm þar sem þau líta svo á að um sé að ræða annaðhvort stétt eða kynþátt, að annað útiloki hitt. Raunhæft, og það sem verður að gera, er að ráðast samhliða á báðar þessar birtingamyndir óréttlætis. Hvorug hverfur á meðan hin þrífst.

Í núverandi samhengi felst sérstök hætta í því að hunsa stéttastjórnmál: það mun í reynd virka sem stuðningur við tilraunir Clinton-vængsins til að endurnýja gömul bandalög í nýjum búningi. Fari svo, mun afleiðingin verða ný útgáfa af framsækinni nýfrjálshyggju –sem mun samþætta nýfrjálshyggjuviðmið varðandi dreifingu gæða og róttækan and-rasisma hvað varðar verðleikastjórnmál. Hér ættu andstæðingar Trumps að hugsa sig um tvisvar. Annars vegar mun slíkur málatilbúnaður senda fjölda mögulegra bandamanna yfir í hina áttina, undirstrika málflutning Trumps og efla stuðning við hann. Hins vegar mun slík stefna einnig gagnast Trump með því að hindra að valkostir við nýfrjálshyggju líti dagsins ljós– og þá myndast á ný sama hegemóníska tómarúmið, forræðistómið. Verði framsækin nýfrjálshyggja endurvakin, hvernig svo sem það gerist, mun það einnig endurvekja –og gera enn hættulegri– þær aðstæður sem skópu Trump. Það þýðir að vænta má nýrra Trumpa í framtíðinni –enn grimmari og hættulegri.

Sjúkdómsgreining og horfur mótforræðis

Af ofangreindum ástæðum er ljóst að nýfrjálshyggjan, hvort sem hún telst framsækin eða ofur-afturhaldssöm, getur ekki myndað traustan grunn fyrir forræðisbandalag á næstunni. Samstaða innan slíks bandalags yrði veik og ótraust. Auk þess er bandalag byggt á nýfrjálshyggju ekki í aðstöðu til að móta og setja fram nýja samfélagssátt. Hvort sem bandalagið teldist framsækið eða afturhaldsamt gæti það ekki boðið upp á sannfærandi mynd af félagslegum veruleika, „narratív“ sem inniheldur breitt litróf félagsafla.  

Eins skiptir miklu að hvorug útgáfa nýfrjálshyggjunnar getur leyst þær hlutlægu kerfisstíflur sem valda forræðiskreppu nútímans. Báðar þessar tegundir nýfrjálshyggju eru nátengdar alþjóðlegu fjármálakerfi og geta því ekki snúist gegn vandamálum sem stafa af fjármálavæðingu, afiðnvæðingu eða alþjóðavæðingu stórfyrirtækja. Hvorug tegundin getur snúist gegn hnignandi lífskjörum eða ört vaxandi skuldasöfnun, loftslagsbreytingum, „umönnunarhalla“, eða óþolandi álagi á samfélagslíf. Komist annað hvort þessara bandalaga til valda á ný mun það ekki aðeins tryggja áframhaldandi, heldur líka dýpri og enn skaðvænlegri, kreppu.

Fundur á vegum Occupy Wall Street-hreyfingarinnar í Zucotti Park, Manhattan, New York haustið 2011.

Við hverju má þá búast á næstunni? Ef ekki kemur fram nýtt og traust forræðiskerfi horfumst við í augu við höktandi millibilsástand og áframhaldandi stjórnmálakreppu. Þá eiga orð Antonios Gramsci vel við: „hið gamla háir dauðastríð og hið nýja nær ekki að fæðast; í þessu millibilsástandi blasa við einkenni helsjúks samfélags.“ Nema, auðvitað, að fyrirfinnist vænlegur kandídat mótforræðis. Sá líklegasti er eitt eða annað form popúlisma. Er popúlismi ennþá mögulegur valkostur –ef ekki þegar í stað, þá til langframa? Það sem ýtir stoðum undir þennan möguleika er sú staðreynd að ef við leggjum saman stuðningsmenn Sanders og stuðningsmenn Trumps verður útkoman sú að 2015-16 hafnaði afgerandi meirihluti bandarískra kjósenda leið nýfrjálshyggjunnar hvað varðar dreifingu lífsgæða. Stóra spurningin er hvort sá fjöldi gæti orðið uppistaða nýs mótforræðisbandalags. Til þess að svo mætti verða þyrftu þeir hlutar verkalýðsstéttarinnar sem stutt hafa annars vegar Trump og hins vegar Sanders að líta á hvorn annan ekki sem andstæðing, heldur sem bandamann, verandi báðir fórnarlömb hins „hagrædda hagkerfis“ (rigged economy):  hagkerfis sem fyrirfram er forritað til að gera hina ríku ríkari og fátæku fátækari. Slíkt hagkerfi er sameiginlegur óvinur sem hóparnir gætu sameinast um að breyta.

Afturhaldssamur popúlismi, jafnvel án þess að Trump komi nærri, er þó ekki raunhæfur grundvöllur slíks bandalags. Viðmið hans til stigveldis og verðleikamats, sem byggja á útilokun og fordómum, koma í veg fyrir stuðning við þess háttar bandalag hvað varðar stóra hópa bandarísks verkafólks og millistéttarfólks, og á það sérstaklega við um fjölskyldur sem reiða sig á laun fyrir vinnu í þjónustustörfum, landbúnaði, heimahjálp og í opinberum störfum, þar sem mikið er um konur, innflytjendur og litað fólk. Aðeins víðsýnt verðleikamat hefur nokkra möguleika á að verða grundvöllur bandalags þessara ómissandi félagshópa með öðrum hópum í verkalýðs- og millistétt, þar á meðal hópum sem sögulega séð tengjast verksmiðjuiðnaði, námavinnslu og byggingastarfsemi.

Framsækinn popúlismi er því líklegasti og ákjósanlegasti kandídatinn ef mynda á mótforræðisbandalag. Slíkt bandalag myndi sameina jafnréttisviðmið í dreifingu gæða og verðleikaviðmið andsnúin stigveldi, og það myndi alltént eiga einhverja möguleika á að sameina alla verkalýðsstéttina. Styrkur slíks bandalags fælist í því að það væri grundvallað á verkalýðsstéttinni og hefði stéttarviðmið að leiðarljósi, en innihéldi jafnframt æskufólk, námsfólk, miðstétt og menntafólk.

En sem fyrr segir er margt í núverandi ástandi sem mælir gegn möguleikum á bandalagi framsækins popúlisma sem inniheldur þá hópa verkalýðsins sem kaus Trump í síðustu kosningum. Mesta hindrunin er dýpkandi gjá, jafnvel hatur, sem lengi hefur kraumað undir niðri en hefur nú verið magnað upp af Trump, sem, eins og David Brooks hefur bent á, hefur „nef fyrir sérhverjum aumum bletti í pólitíkinni“ og hikar ekki við að „reka glóandi járn í þá alla og rífa þá opna.“ Afleiðingin er eitrað andrúmsloft sem virðist staðfesta það viðhorf margra úr röðum framsækinna afla, að kjósendur Trumps séu upp til hópa „sorglegt dæmi“ –óforbetranlegir rasistar, kvenhatarar og hómófóbar. Á móti hefur sú skoðun afturhaldssamra popúlista fengið æ meiri hljómgrunn, að allar framsæknar manneskjur séu óforbetranlegir siðapostular og hrokafullir latte-lepjandi elítistar sem líta niður á almenning og raka að sér seðlum.

Aðskilnaðarstefna

Ef takast á að byggja upp framsækinn popúlisma í Bandaríkjunum verður að kveða bæði þessi viðhorf í kútinn. Þörf er á stefnu sem beinist að því að örva klofning á tveimur sviðum. Annars vegar þarf að leiða konur, innflytjendur og litað fólk frá markaðstengdum femínisma, markaðstengdum and-rasisma og markaðstengdri and-hómófóbíu, fyrirtækjafjölbreytni og þeim „grænu“ svindlurum sem hertekið hafa framsæknar kröfur og lagað að hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Þetta er markmið hinnar nýju femínísku hreyfingar, sem leitast við að móta „femínisma fyrir 99 prósentin“ í andstöðu við markaðstengdan femínisma. Aðrar frelsishreyfingar ættu að fara að þeirra dæmi.

Í annan stað þarf að sannfæra samfélög verkalýðs í ryðbeltinu, Suðurríkjunum og í dreifbýli um að hverfa frá áframhaldandi bandalagi við nýfrjálshyggjuna. Það þarf að sannfæra þau um að forsprakkar hernaðarstefnu, útlendingahaturs og þjóðernisstefnu muni ekki og séu með öllu ófærir um að færa þeim nauðsynlegar efnislegar forsendur fyrir sómasamlegu lífi, nokkuð sem framsækin popúlísk hreyfing hins vegar getur og mun gera. Þannig má aðskilja ákveðinn hluta kjósenda Trumps frá sannfærðum og óviðbjargandi rasistum og „alt-right“ þjóðernissinnum. Þótt fullyrt sé að fyrrnefndi hópurinn sé miklu fjölmennari en sá síðarnefndi er ekki verið að draga úr mikilvægi öfgaafla og þeirri vaxandi ógn sem stafar af rasisma og rasísku ofbeldi. Hins vegar er varað við þeirri fljótfærnislegu ályktun að stór meirihluti þeirra sem kjósa afturhaldssinnaða popúlista muni aldrei að eilífu hlusta á málflutning um samstöðu breiðrar verkalýðsstéttar að hætti Bernie Sanders. Sú ályktun er ekki bara röng, eins og kannanir á raunverulegum viðhorfum sýna, heldur vinnur hún líka gegn marktækum vinstri málflutningi. Sé slíku viðhorfi haldið til streitu eru breytingar í jákvæða átt fyrirfram útilokaðar og líklegra en ella að ímyndin verði að veruleika.

Ég tek skýrt fram að ég er alls ekki að leggja til að framsækin popúlísk hreyfing eigi að sussa á mikilvæga umræðu um rasisma, sexisma, hómófóbíu, Íslamófóbíu og transfóbíu. Þvert á móti þá þarf baráttan gegn öllum þessum viðurstyggilegu fyrirbærum að vera kjarninn í framsækinni popúlískri hreyfingu. Það er á hinn bóginn skaðlegt að takast á við þau með yfirlætislegri siðferðisafstöðu, eins og framsækin nýfrjálshyggja gerir. Sú afstaða er grunnhyggin og ófullnægjandi; hún segir vandann snúast alfarið um viðhorf, búa í höfði fólks, en lítur framhjá undirliggjandi stofnunum og formgerð samfélagsins.

Þetta blasir sérstaklega við hvað varðar rasisma. Í Bandaríkjunum er kynþáttamisrétti ekki fyrst og fremst sprottið af röngum viðhorfum eða slæmri hegðun, þótt slíkt fyrirfinnist vissulega. Það sem mestu skiptir er hvernig áhrif afiðnvæðingar og fjármálavæðingar hinnar framsæknu nýfrjálshyggju hafa bitnað með mismundandi hætti á kynþáttum og hvernig þetta endurómar langa sögu kerfislægrar kynþáttakúgunar. Svörtum og hörundsdökkum Bandaríkjamönnum hafði löngum verið neitað um fyrirgreiðslur lána; þeir hafa ennfremur haft lægri laun en hvítir, oft of lág til að leggja inn á sparnað; þeim hefur og löngum verið gert að búa í lélegu húsnæði á sérstökum afmörkuðum svæðum. Nú var þeim skipulega boðið upp á innistæðulaus (subprime) húsnæðislán, sem síðan leiddi til hæstu tíðni nauðungaruppboða í landinu öllu. Á sama tíma voru bæir og hverfi minnihlutahópa, sem lengi hafði verið með skipulögðum hætti haldið frá opinberri aðstoð, mjög fyrir barðinu á verksmiðjulokunum á hnignandi iðnaðarsvæðum. Tekjutapið kom ekki einungis fram í atvinnuleysi heldur einnig í lækkandi skattheimtu sem svipti þessi svæði fé til reksturs skóla og sjúkrahúsa, og viðhalds innviða eins og vegakerfis, rafkerfis og vatnsveitna, sem að lokum leiddi til neyðarástands í bæjum eins og Flint –og í öðru samhengi Lower Ninth Ward í New Orleans. Svartir íbúar hafa einnig löngum mátt þola óréttlátar refsingar og harkalega fangavistun, þrælkun og félagslega samþykkt ofbeldi, þar á meðal af hálfu lögreglunnar. Á tíma framsækinnar nýfrjálshyggju var þeim í stórum stíl smalað inn í „fangelsis-iðnkerfið“ undir yfirskini „stríðsins gegn fíkniefnunum“, háð gegn þeim sem höfðu krakk-kókaín undir höndum. Þetta hefur fyrst og fremst bitnað á minnihlutahópum sem búa við hlutfallslega mikið atvinnuleysi, og þar með fátækt og vonleysi. Báðum pólitísku flokkunum má „þakka“ þá löggjöf sem liggur til grundvallar, en þó fyrst og fremst Bill Clinton. Og varðandi Obama: það kann að hafa virkað hvetjandi að mann af afrískum ættum í Hvíta húsið, en ætli nokkrum dyljist núna að það breytti akkúrat engu á þessu sviði?

Og hvernig hefði það átt að vera? Þau fyrirbæri sem hér eru nefnd sýna hversu djúpar rætur kynþáttahyggjan hefur í kapítalísku þjóðfélagi samtímans. Þau sýna líka haldleysi siðferðilegra prédikana framsækinna nýfrjálshyggjupostula þegar kemur að lausn vandans. Einnig sýna þau að kerfislægur grunnur kynþáttahyggju er ekkert síður á sviði stéttaskiptingar og efnahagslegs óréttlætis en á sviði „statusar“ og (skorti á) virðingu. Höfuðatriðið er að þau sýna að þau öfl sem varna lituðu fólki að lifa mannsæmandi lífi eru hluti af því sama kerfi sem eyðileggur lífsmöguleika hvítra fátæklinga –jafnvel þótt smáatriði virðist ólík. Þegar upp er staðið sýna þau órjúfanlega samþættingu kynþáttar og stéttar í fjármálakapítalisma samtímans.

Framsækið popúlískt samfélagsforræði verður að byggja á slíkri greiningu. Hafna verður áherslu framsækinna nýfrjálshyggjumanna á persónuleg viðhorf og takast þess í stað á við grunnþætti efnahagskerfis og stofnana ríkjandi samfélagsgerðar. Lykilatriði er að benda á sameiginlegar rætur stétta- og kynþáttamisréttis undir ægishjálmi fjármálaauðvaldsins. Það verður að sýna fram á að um er að ræða samþætt félagslegt fyrirbæri, að kerfið sé eitt og óskipt. Það verður að tengja það misrétti sem konur, innflytjendur, litað fólk og LGBTQ-fólk upplifir því misrétti sem bitnar á þeim hópum verkalýðsins sem nú styðja hægri popúlisma. Þannig er unnt að mynda kraftmikla samfylkingu ekki aðeins innflytjenda, femínista og litaðs fólks sem nú þegar er andvígt ofur-afturhaldssinnuðum popúlisma, heldur samfylkingu sem inniheldur einnig þá hópa meðal hvítrar verkalýðsstéttar sem hingað til hafa stutt Trump og sem hann hefur síðan svikið. Með því að sameina mikinn hluta verkalýðsstéttarinnar gæti þessi stefna hugsanlega borið sigur af hólmi. Ólíkt öllum öðrum möguleikum sem hér hefur verið fjallað um, hefur framsækinn popúlismi þær grunnforsendur sem gefur honum möguleika á að verða traust mótforræðisblokk í framtíðinni.

Framsækinn popúlismi er ekki einasta raunhæfur hugmyndafræðilegur kostur sem svar við hinni pólitísku kreppu, heldur líka eina stefnan sem ráðið getur bót á hinni efnislegu hlið kreppunnar. Ég skal skýra málið.

Eins og ég benti á í upphafi er forræðiskreppan, eða sú pólitíska kreppa sem hér er greind, einn þáttur stærri kreppu, sem felur í sér ýmsa aðra þætti –vistfræðilega, efnahagslega og félagslega. Hún er einnig huglæg birtingarmynd hinnar hlutlægu kerfiskreppu; þær verða ekki aðskildar. Þegar allt kemur til alls eru þetta tvær hliðar sömu kreppu. Engin huglæg viðbrögð, hversu sannfærandi sem þau eru, duga til að byggja upp varanlegt mótforræði nema því fylgi alvöru lausnir á undirliggjandi hlutlægum vandamálum.

Hlutlæg hlið kreppunnar er ekki aðeins margfeldi alls konar aðskilinna vandamála. Kreppan er ekki samsett úr ólíkum og ótengdum þáttum; allir þættir hennar eru samtengdir og eiga sér sameiginlega rót. Undirliggjandi orsök þeirra allra, það fyrirbæri sem ber í sér hinar ýmsu fjölþættu birtingarmyndir, er núverandi form kapítalisma – alþjóðavæðing hans, nýfrjálshyggjuvæðing og fjármálavæðing. Eins og öll form kapítalisma, er þetta form ekki aðeins efnahagskerfi, heldur líka stofnanabundin þjóðfélagsgerð. Sem slík felur hún í sér ýmsar forsendur sem ekki eru í sjálfu sér efnahagslegar en eru þó ómissandi í kapítalísku hagkerfi: nefna má ólaunaða endurframleiðslu vinnuafls, sem tryggir áframhaldandi framleiðslu og gróðasköpun; reglubundið kerfi opinbers valds (lagasetning, lögregla, eftirlitsstofnanir, og stjórnarstofnanir) sem tryggir skipulag, fyrirsjáanleika og innviði sem allt er nauðsynlegt fyrir áframhaldandi uppsöfnun auðmagns; og loks tiltölulega sjálfbæra skipulagningu á lífrænum samskiptum við aðra þætti náttúrunnar, skipulagningu sem tryggir lífsnauðsynlegt framboð á orku og hráefnum til vöruframleiðslu, svo ekki sé talað um byggilega og lífvænlega heimskringlu.

Fjármálaauðvald er ein ákveðin leið til að skipuleggja tengsl kapítalísks efnahags við þessar ómissandi grunnforsendur. Það er ótrúlega grimmt og óstöðugt form félagslegs skipulags, sem leysir auðmagnsupphleðslu undan ábyrgð á ýmsum þáttum (stjórnmálalegum, vistfræðilegum, félagslegum, siðferðilegum) sem eru forsendur þess að hún  standist til langframa. Þegar auðmagnið er leyst undan slíkum „höftum“ tætir kapítalískt hagkerfi í sig eigin tilvistarforsendur. Það líkist tígrisdýri sem étur eigin hala. Þegar markaðsvæðing alls félagskerfisins eykst í sífellu grefur það undan þeim formum endurframleiðslu vinnuaflsins (fjölskyldulíf), vistfræðilegrar sjálfbærni og opinbers valds sem hagkerfið byggir á. Fjármálaauðvaldið er því félagsgerð sem fyrr eða síðar lendir í kreppu sem hún sjálf veldur. Hin samþætta kreppa sem við búum við nú á tímum er ógnvænleg birtingarmynd hinnar innbyggðu tilhneigingar sjálfs kerfisins til ójafnvægis.

Þetta er hin hlutlæga hlið kreppunnar: kerfislæg hliðstæða þeirra forræðiskreppu sem hér hefur verið greind. Á okkar tímum blasa við báðar hliðar kreppunnar –önnur hlutlæg, hin huglæg. Til að leysa hina hlutlægu kreppu þarf meiriháttar kerfisbreytingar: nýjar leiðir til að tengja hagkerfi við stjórnkerfi, framleiðslu við endurframleiðslu, samfélag við náttúru. Nýfrjálshyggja, í hvaða mynd sem hún birtist, er ekki lausnin heldur vandamálið.

Nauðsynlegar breytingar geta aðeins komið annars staðar frá: frá stefnumótun sem er í það minnsta andsnúin nýfrjálshyggju, ef ekki and-kapítalísk. Slík stefna getur aðeins orðið virkt sögulegt afl sé hún samþætt mótforræðisblokk. Þótt ekki séu horfur á myndun slíkrar blokkar eins og er, og hennar ef til vill langt að bíða, þá er framsækinn popúlismi engu að síður okkar raunhæfasti möguleiki og helsta von. En jafnvel hann gæti orðið óstöðugur og enginn lokaáfangi. Framsækinn popúlismi gæti orðið millistig –áfangi á leið að einhvers konar nýju, póst-kapítalísku formi samfélagsins.

Hvað sem því líður, og hvað sem líður allri óvissu um leiðarlok, þá er eitt á hreinu. Reynum við ekki að mynda slíka hreyfingu núna mun ríkjandi millibilsástand dragast á langinn. Það þýðir að verkafólk á öllum sviðum og af öllu litarhafti mun búa við vaxandi álag og hnignandi heilsu, æ lengri skuldahala og meiri yfirvinnu, stéttakúgun og félagslegt óöryggi. Það mun upplifa æ sjúkari meinsemdir – hatur sem nærist á óánægju með eigin kjör og brýst út í leit að sökudólgum, vaxandi ofbeldi og kúgunaraðgerðum, hatur sem skapar grimman heim þar sem hinir kúguðu beina spjótum hver að öðrum í stað þess að standa saman. Ætlum við að forðast þetta verðum við að gera að fullu upp við bæði efnahagsstefnu nýfrjálshyggjunnar og hinar ýmsu birtingarmyndir verðleikastjórnmála sem henni hafa tengst á undanförnum árum. Það er ekki nóg að hafna þjóðernisstefnu, kynþáttahyggju og ofstækisfullum útilokunum. Við verðum líka að hafna einstaklingshyggju á forsendum markaðar og nýfrjálshyggju og þeirri tegund verðleikastjórnmála sem hún mótar. Aðeins með því að tengja róttæka jafnréttishyggju á sviði efnahagsmála og þá félagshyggju sem umfaðmar alla verkalýðsstéttina og allar greinar hennar er hægt að byggja upp bandalag mótforræðis sem leiðir okkur út úr núverandi kreppu og í átt að betri heimi.


EFTIRMÁLI ÞÝÐANDA: FORRÆÐISFYLKINGAR Í ÍSLENSKUM STJÓRNMÁLUM

Greinin sem hér fer á undan fjallar um myndun „forræðisfylkinga“ (hegemonic blocs) í Bandaríkjunum á tímabilinu frá 1980 og fram til valdatöku Donald Trumps 2016. Hún er eftir bandaríska fræðimanninn Nancy Fraser, einn skarpasta þjóðfélagsrýni vinstra megin í bandarískri stjórnmálaumræðu. Þetta mun í fyrsta sinn sem grein eftir hana birtist í íslenskri þýðingu.

Lykilhugtök í greiningu Frasers eru „forræði“ (hegemony) og „forræðisfylking“ (hegemonic bloc). Hún greinir samsetningu slíkra fylkinga á tilteknum tímaskeiðum, þá hagsmuni og þær hugmyndir sem liggja þeim til grundvallar. Hún greinir einnig hvað gerist þegar slíkar blokkir falla ekki lengur að hugmyndaheimi mikils fjölda fólks, þegar ekkert viðurkennt stjórnmálaafl endurspeglar heimssýn stórs hluta þegna þjóðfélagsins. Við slíkar aðstæður myndast pólitískt tómarúm þar sem nýjar forræðisfylkingar geta haslað sér völl. Hvaða blokkir myndast, hverjar þeirra ná að nýta sér tómarúmið og með hvaða hætti, er hins vegar óvissu háð. Hvort þær eru til vinstri eða hægri er alls ekki fyrirfram gefið. Fraser bendir á hvernig hnignun þeirrar fylkingar sem menn kenna gjarnan við New Deal ellegar „fordisma“ leiddi á tímabilinu 1970–1980 af sér nýskipun forræðisfylkinga. Til urðu tvær fylkingar sem báðar byggðu á nýfrjálshyggju en með mismunandi hætti. Báðar höfnuðu tíðum ríkisafskiptum af efnahagsmálum, háum sköttum á auðsöfnun og hlutverki ríkisins í þá veru að jafna tekjur og tryggja velferð. Þær buðu hins vegar upp á ólíkar stefnur varðandi kröfur og réttindi minnihlutahópa. Báðar fylkingar höfnuðu baráttu verkalýðsstéttarinnar fyrir bættum kjörum, en önnur fylkingin studdi framsæknar kröfur kvennahreyfinga og minnihlutahópa svo lengi sem þær snérust um bætta stöðu innan ríkjandi kerfis. Til grundvallar báðum fylkingum voru því skýrt mótaðar stefnur á tveimur sviðum og hugmyndir um samtengingu þessara tveggja sviða: annars vegar var hagkerfið, svið dreifingar auðs og lífsgæða; hins vegar var svið verðleika og virðingar. Aðeins síðarnefnda sviðið var ágreiningsefni; stefna beggja í efnahagsmálum var nýfrjálshyggja. Á sama tíma og efnahagslegur ójöfnuður fór ört vaxandi, var efnahagslegt réttlæti –jafnari skipting auðs og lífsgæða– tekið út úr umræðunni og hætti að vera viðurkennt pólitískt markmið. Við þetta myndaðist með tímanum tómarúm í stjórnmálakerfinu. Grein Frasers fjallar um þessa þróun og afleiðingar hennar.

Hvernig má greina íslensk stjórnmál með hliðstæðum hætti? Segja má að á tímabilinu frá 1946 og til 1983 hafi tvær forræðisfylkingar tekist á í íslenskum stjórnmálum. Önnur fylkingin fylgdi hugmyndum um fremur lítil ríkisafskipti, takmörkuð réttindi verkafólks og nána samvinnu við vestræn and-kommúnísk öfl, sem þýddi stuðning við bandarískt hernám á Íslandi og veru landsins í hernaðarbandalaginu NATO. Forystuna í þessari fylkingu hafði Sjálfstæðisflokkurinn, en honum fylgdu ýmist Framsóknarflokkurinn eða Alþýðuflokkurinn, t.d. í stjórnum 1950–1956 og 1959–1971. Framsóknarflokkurinn –„opinn í báða enda“– átti sér enn fremur annan ham en þann að vera fylgifiskur Sjálfstæðisflokksins í íhaldsfylkingu. Árið 1956 myndaði Framsóknarflokkurinn stjórn með Sósíalistaflokki og Alþýðuflokki. Segja má að sú ríkisstjórn hafi myndað nýja forræðisfylkingu sem hafði önnur markmið og hugmyndir en hin. Þessi stjórn hafði t.d. á stefnuskrá sinni að binda endi á hernámið, auk þess sem hún gekkst fyrir því að landhelgi Íslands var færð út í 12 mílur. Stjórn með svipaðar áherslur og byggð á svipuðum forsendum var aftur mynduð 1971, nú með þátttöku Framsóknarflokks, Alþýðubandalags (arftaka Sósíalistaflokksins) og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, sem var nýr vinstriflokkur. Herinn skyldi fara úr landi og landhelgin færð úr 12 mílum í 50. Ekki tókst að losna við herinn, en landhelgin var færð út í bæði skiptin, og í bæði skiptin leiddi það til harðra átaka við Breta.

Lykilatriði þessarar róttækari fylkingar var traustur stuðningur verkalýðshreyfingarinnar. Verkfallið 1955 var árangursríkt og ein af forsendum fyrir myndun vinstri stjórnarinnar 1956. Starfi róttækrar verkalýðshreyfingar fylgdi róttæk þjóðernisstefna í anda nýlenduuppreisna 6. og 7. áratugar 20. aldar, andstöðu við heimsvaldastefnu og yfirgang stórvelda. Sósíalísku stórveldin Sovétríkin og Kína voru að vissu marki hluti af því bandalagi á heimsvísu. Róttæk og jafnréttissinnuð þjóðernisstefna hafði víðtæk áhrif í íslensku samfélagi eftir stofnun lýðveldisins 1944 og náði jafnvel inn í Sjálfstæðisflokkinn, þar sem gætti verulegrar andstöðu við inngönguna í NATO og hersetu Bandaríkjanna. Hitt viðhorfið var þó alltaf sterkara í flokknum, að leita eftir og efla samvinnu við Bandaríkin og NATO.

Á tímabilinu 1968 til 1983 eða svo náði róttæka fylkingin um skeið í raun forræði í samfélaginu. Þetta birtist með ýmsum hætti. Árið 1968 var Kristján Eldjárn kjörinn forseti með stuðningi Framsóknarflokks og Alþýðubandalags. Árið 1971 komst til valda vinstri stjórn þessara flokka með stuðningi Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Við af henni tók samstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sú stjórn átti ekki sjö dagana sæla vegna þess hversu verkalýðshreyfingin stóð sterkt, um leið og ný róttækni ´68 kynslóðarinnar náði æ meiri áhrifum. Í kosningunum 1978 biðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gríðarlegt afhroð og vinstri flokkarnir, sérstaklega Alþýðuflokkur, en einnig Alþýðubandalag, náðu nærri fjórðungs fylgi hvor flokkur. Næstu fimm árin sátu Alþýðubandalag og Framsóknarflokkur lengst af í stjórn, fyrst með Alþýðuflokki en síðan með klofningsbroti úr Sjálfstæðisflokknum undir stjórn Gunnars Thoroddsen. Árið 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti landsins, og var þar með fyrst allra kvenna til að vera kjörinn þjóðhöfðingi í lýðræðislegum kosningum í heiminum. Vigdís var herstöðvaandstæðingur og má pólitískt séð hiklaust flokka undir róttækari fylkinguna sem hér var á þessum árum. 

Um 1983 fóru þessar fylkingar að riðlast. Þá mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ríkisstjórn undir forystu hins síðarnefnda, sem hafði ekki gerst síðan 1950–1953. Líkt og þá var ríkisstjórnin mjög hægrisinnuð og fylgdi þeim vindum sem blésu að utan, komnum frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Verkalýðshreyfingin, nánar tiltekið BSRB, beið mikinn ósigur í verkfallinu 1984 og ríkisstjórnin gat einfaldlega strikað út ávinning BSRB af verkfallinu með lagasetningu. Vísitala launa var tekin úr sambandi í nafni baráttu gegn verðbólgu en vísitala byggingarkostnaðar var áfram við lýði. Það leiddi til kjararýrnunar sem tengdist ekki síst húsnæðismálum.

Á sama tíma efldist ný stjórnmálahreyfing, Kvennaframboðið. Sú hreyfing hafði stór áhrif í þá átt að auka hlut kvenna á opinberu sviði, t.d. í stjórnmálum, menningu og jafnvel í rekstri og stjórnum fyrirtækja. Kvennaframboðið var eitt skýrasta dæmið í íslenskum stjórnmálum um þá uppstokkun sem átt hafði sér stað um og upp úr 1970 og tengdist nýjum áherslum meðal vinstri forræðisfylkingarinnar. Verkalýðshreyfingin var gagnrýnd fyrir karlrembu og stofnanavæðingu, og einnig kom fram hörð gagnrýni á Sovétríkin, frá vinstri. Sú gagnrýni kom upphaflega fram árið 1956 eftir innrás Sovétríkjanna í Ungverjaland og jókst enn meir við innrásina í Tékkóslóvakíu 1968. Sú víðtæka uppreisn gegn kerfi kapítalismans sem skók hinn vestræna heim árið 1968 beindist ekki síður gegn skrifræði verkalýðshreyfingarinnar og samvinnuhreyfingarinnar, sem höfðu áður verið öflugar og skilvirkar réttindahreyfingar verkafólks, bænda og neytenda, en fólk upplifði nú sem stöðnuð og stirð apparöt. Uppreisnin beindist gegn gervöllu framleiðslu-, hugmynda- og neyslukerfi Vesturlanda eins og það hafði mótast  eftir Heimsstyrjöldina síðari.

Viðbrögð yfirvalda og auðstéttar á Vesturlöndum voru tvenns konar, sérstaklega í Bretlandi og Bandaríkjunum. Annars vegar gerðu þau harða árás á þá ávinninga sem verkalýðsstéttin hafði áunnið sér bæði frá stríðslokum 1945 og á fyrri tímum. Þetta voru ávinningar á sviði lýðræðislegra réttinda, öflugs velferðarkerfis og sterkrar stöðu verkalýðsfélaga. Hins vegar hófst flutningur starfa í iðnaði frá Vesturlöndum, eða Norðurheimi, til landa sem buðu upp á ódýrara vinnuafl sem naut mun minni réttinda en verkalýður Vesturlanda. Þetta voru oft lönd í Asíu eða Rómönsku Ameríku: Suður-Kórea, Taiwan, Mexíkó og, eftir 1990, Kína og lönd í Austur-Evrópu. Verkalýðsstéttin í Bandaríkjunum og Bretlandi var einfaldlega lögð niður að stórum hluta – hún varð atvinnulaus. Verkalýðshreyfingin lognaðist meira og minna út af, sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem atvinnurekendur og ríkisvald skáru upp herrör gegn verkalýðsfélögum og réttindum vinnandi fólks.

Hér á landi missti verkalýðshreyfingin aldrei réttindi sín og formlega stöðu á þann hátt sem gerðist í Bandaríkjunum og víðar. Hins vegar hvarf róttæk sósíalísk hugmyndafræði úr hreyfingunni. Grundvöllur forræðisfylkingar vinstri manna færðist til hægri á svipaðan hátt og í Bandaríkjunum. Þetta kom skýrast fram þegar ný forræðisfylking fæddist um 1994 og náði völdum í Reykjavíkurborg. Sú fylking var mynduð með þeim formerkjum að verkalýðsbarátta væri draugur fortíðarinnar sem rétt væri að kveða niður svo hresst og nútímalegt fólk fengi vinnufrið. Skýr áhersla var hins vegar lögð á réttindi kvenna og minnihlutahópa, og alþjóðavæðingu var fagnað. Til dæmis varð einn grunntóna í hinni nýju forræðisfylkingu til vinstri að sækjast ætti eftir aðild að Evrópusambandinu, sem túlka mátti sem valkost við hefðbundið bandalag íslenskrar auðstéttar við Bandaríkin.

Skipulagsmál þessarar fylkingar komust á nýtt stig um 1999, þegar Samfylkingin, var mynduð. Að henni stóðu kvennahreyfingin, Alþýðuflokkurinn og hægri armur Alþýðubandalagsins. Stefnuræður og orðafar þessarar hreyfingar voru oft ansi einkennileg, séð frá 2021. Sem dæmi má nefna Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Stefánsdóttur, formanns flokksins, í aðdraganda kosninga 2003. Ekkert var minnst á verkalýðsbaráttu eða tilvist ólíkra stétta, heldur boðið upp á flokk sem stjórnað gæti kapítalismanum með skilvirkari og nútímalegri hætti en sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn vegna tengsla hins síðarnefnda við vafasöm hagsmunabandalög. „Vinstri“ flokkurinn lofaði að vera betri kapítalisti en flokkur kapítalista. Samfylkingin náði aldrei að leiða ríkisstjórn með sínar nýja hugmyndir að leiðarljósi. Þær hugmyndir komust hins vegar að einhverju marki í framkvæmd með starfi Reykjavíkurlistans í borgarstjórn frá og með 1994. Þar má greina nútímalegri, og jafnvel á köflum umhverfisvænni, áherslur í skipulagi og stefnu borgarinnar en þeim er fylgt hafði verið hingað til af borgarstjórn Sjálfstæðisflokksins, sem gert hafði allt sem hann gat til að þóknast einveldi einkabílsins.

Frá 1991 til 2004 sat Davíð Oddsson í stól forsætisráðherra á tímabili sem kannski mætti nefna ógnarstjórn nýfrjálshyggjunnar. Fyrstu fjögur árin sat hann með stuðningi Alþýðuflokksins, sem lét ekki sitt eftir liggja í niðurskurði ríkisútgjalda, t.d. með því að leggja niður tvö af fjórum sjúkrahúsum höfuðborgarsvæðisins, St. Jósepsspítala í Hafnarfirði og Landakot í Vesturbæ Reykjavíkur. Síðan tók Framsóknarflokkurinn við sem taglhnýtingur Sjálfstæðisflokksins og sinnti því hlutverki til 2007, í  heil 12 ár. Á þeim tíma var varla um að ræða nema eina forræðisfylkingu, fylkingu nýfrjálshyggjunnar í útgáfu Davíðs Oddssonar. Hún mótaði og stýrði þeirri stefnu sem árið 2008 leiddi til hins hrikalega bankahruns og í kjölfar þess búsáhaldabyltingarinnar, sem breytti öllum forsendum þjóðfélagsumræðunnar.

Eftir hrunið fengu Samfylkingin og Vinstri-Grænir fjögra ára tækifæri til að framkvæma róttæka kerfisbreytingu og móta nýtt forræðisbandalag á grundvelli búsáhaldabyltingarinnar. Til þess reyndust þessir flokkar gjörsamlega óhæfir. Samfylkingin byggði í rauninni enn á þeirri stefnu sem hafði verið mótuð um 2000, með Evrópusambandsaðild og „mýkri“ kapítalisma sem helstu markmið. Enda uppskar hún eins og hún sáði, með algjöru fylgishruni. Báðir ofangreindir „vinstri“ flokkar hafa reynst með öllu ófærir um að mynda raunverulegan valkost við nýfrjálshyggjuna, og hafa í reynd gegnt svipuðu hlutverki og Clintonítar í Bandaríkjunum og Blairítar í Bretlandi, hlutverki hinna „framsæknu“ neó-líberalista. Hafi menn bundið einhverjar vonir við VG sem framvörð nýs vinstri valkosts – og það gerðu vissulega margir– gufuðu þær upp við myndun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Eins og staðan er nú er erfitt að greina hvar VG endar og Sjálfstæðisflokkurinn tekur við.

Hins vegar, í ljósi aukinnar róttækni og áræðni verkalýðshreyfingarinnar síðustu tvö árin, hljótum við að spyrja hvort nú sé að myndast vísir að nýrri forræðisfylkingu, alvöru vinstri fylkingu sem býður upp á raunverulegan sósíalískan valkost er samræmir hagsmuni láglaunafólks, minnihlutahópa og hælisleitenda, hugmyndir um virkt lýðræði, og kröfur um vistræna umbreytingu þjóðfélagsins. Sá möguleiki virðist alla vega vera til staðar, í fyrsta sinn síðan 2008.

Þróunin í mótun forræðisfylkinga á Íslandi á 20. og 21. öld er nokkuð sem hefur lítið verið rannsakað og greint. Því sem hér er ritað ber að taka sem fyrsta yfirliti eða tilraun til að skoða íslensk stjórnmál þessa tímabils út frá hugtakinu hegemonic bloc eða blocco hegemonico eins og það var upphaflega mótað af hinum ítalska Antonio Gramsci. Sá merki marxisti á skilið sérstakt hefti af Demos, tileinkað honum og kenningum hans.

Árni Daníel Júlíusson


Posted

in

by

Tags: