Forræðiskreppa og afdrif sósíalismans í Evrópu 1917-1923

Fyrir rúmlega öld reis upp í Evrópu kröftug alþýðleg hreyfing gegn stríði. Þetta var fjöldahreyfing verkafólks, bænda og hermanna. Fyrri heimsstyrjöldin hafði þá staðið í þrjú ár; fjöldi ungra manna hafði fallið í valinn; fjölskyldur þeirra syrgðu og máttu um leið þola stöðugt versnandi lífskjör, því bágari sem stríðið drógst á langinn. Byltingar, borgarastyrjaldir og hvers kyns þjóðfélagsátök urðu ekki aðeins í Rússlandi, heldur vítt og breitt um Evrópu á árunum 1917-1923. Þrjár keisaraættir misstu völdin, Hohenzollern-ættin í Þýskalandi, Habsborgarar í Austurríki-Ungverjalandi og Romanov-ættin í Rússlandi. Þar risu Sovétríkin, fyrsta sósíalíska ríkið.1hvað er eiginlega hér í gangi

Freikorpsliðar á brynvörðum bíl á götum Berlínar eftir áramótin 1919.

Byltingaraldan í Evrópu 1917-23 hafði gagnger og langvarandi áhrif á þróun heimsmála, og þeirra gætir að vissu marki enn. Í fyrsta lagi náðu verkalýðshreyfingin og flokkar henni tengdir sterkri stöðu. Sósíalistar –sósíaldemókratar eða kommúnistar– komust víða til valda, og smám saman mótuðust ný samfélagsviðmið sem einkenndust af áætlanagerð, auknum réttindum verkafólks og uppbyggingu velferðarkerfis. Þessi samfélagsgerð er stundum talin eiga gullöld sína 1945-75.2Hobsbawm, Eric, Öld öfganna. Saga heimsins 1914-1991 (Reykjavík 1999), 274-305. (Frumútgáfa: Age of Extremes: The Short Twentieth Century (London 1994). Íslensk þýðing: Árni Óskarsson. Á okkar tímum er hún ein helsta fyrirmynd þeirra sem berjast fyrir félagslegum umbótum og almennri velferð.    Í öðru lagi hafði hún gífurleg áhrif í heimshlutum utan Evrópu og á stöðu evrópskra ríkja á heimsvísu. Rússneska byltingin var upphaf og innblástur víðtæks andófs  gegn evrópskum nýlenduveldum, í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Því lyktaði svo að nær allar fyrrverandi nýlendur Evrópuríkja fengu sjálfstæði. Í þriðja lagi leiddi útkoma þessarar byltingaröldu, ásamt með heimskreppunni miklu 1929-40, til nýrrar styrjaldar í Evrópu 1939 (hún hafði raunar staðið í Asíu og Afríku mun lengur, allt frá 1931). Úrslit þeirrar styrjaldar leiddu svo bæði til sterkrar stöðu verkalýðsflokka á Vesturlöndum og sigurs uppreisnarmanna víða  í nýlendunum. Þar lék byltingarríkið Sovétríkin lykilhlutverk.

Byltingunni í Þýskalandi 1918-19 hefur verið minni gaumur gefinn í rannsóknum og söguritun en ætla mætti. Setja má fram þá staðhæfingu að þýska verkalýðshreyfingin og samtök hennar hafi leikið lykilhlutverk í Evrópubyltingunni, ekki síður og ef til vill fremur en sú rússneska. Í styrk, stefnu og starfi þýsku hreyfingarinnar var að finna forsendur fyrir ákvörðunum sem teknar voru af forystumönnum byltingarhreyfinga annars staðar, t.d. í Pétursborg 1917. Mikilvæg spurning í rannsóknum á þessum atburðum er einmitt af hverju félagshreyfingar í Rússlandi snérust upp í fullburða sósíalíska byltingu 1917, á meðan tilraunir félagshreyfinga að sama marki í Þýskalandi og Austurríki-Ungverjalandi 1918 runnu út í sandinn eftir skammvinna valdatöku þeirra í Bæjaralandi og Ungverjalandi 1918-19.

Forræðiskreppur og byltingaröldur

Titill þessarar greinar vísar í sögulegt ferli sem margoft hefur átt sér stað á síðari öldum. Kreppa af einhverju tagi, hungursneyð, styrjöld, fjármálakreppa, eða jafnvel sambland af þessu öllu, veldur félagslegri upplausn og öldu mótmæla af hálfu almennings. Til verður fjöldahreyfing sem skákar ríkjandi yfirvöldum og ráðandi stétt, véfengir rétt þeirra til að stjórna, málflutning þeirra og hugmyndafræði. Slíkt má kalla forræðiskreppu.3Bent er á grein Nancy Frasers í þessu hefti: „Hið gamla háir dauðastríð og hið nýja nær ekki að fæðast“. Hún kann að leiða til fjöldahreyfingar, jafnvel byltingar.

Þannig leiddi hungursneyð á 5. áratug 19. aldar til byltinga um alla Evrópu árið 1848. Þeirra hræringa var jafnvel vart hér á Íslandi, og í Danmörku neyddist konungur til að setja þjóðinni stjórnarskrá og afsala sér stórum hluta eigin valda. Önnur slík bylgja fór af stað í Rússlandi árið 1905, eftir ósigur landsins í styrjöldinni við Japan. Verkföll í borgum og uppþot bænda í sveitum fóru eins og eldur í sinu um allt land. Keisaradæmið virtist að hruni komið. Það hélt þó velli í þetta sinn og byltingin var brotin á bak aftur. Í framhaldi af uppreisninni í Rússlandi 1905 urðu byltingar í Persíu sama ár, Tyrklandi 1908, Kína 1911 og Síam (Taílandi) 1912. Sigur Japan á evrópsku stórveldi blés Asíumönnum byltingaranda í brjóst.4Motadel, David, „Waves of Revolution“, History Today, 2011,61 (4), 3-4

Um byltingarölduna í Evrópu 1917-23 segir bandaríski fræðimaðurinn Stephen C. McDonald:

Fjöldi og útbreiðsla byltinga, uppreisna og byltingartilrauna 1917-1923 eru fordæmalaus. Aldrei fyrr í sögu Evrópu urðu samtímis svo margar uppreisnir sem beindust að því að feykja burt hinni gömlu samfélagsskipan. Ein heimild telur tuttugu og sjö tilvik þar sem valdaskipti urðu með ofbeldisfullum hætti milli Febrúarbyltingarinnar og valdaránsins í Vilníus 1920. Inni í þessari tölu eru ekki byltingartilraunir sem kveðnar voru niður. Hvarvetna … var uppreisn. … Hásæti hrundu og virðuleg heimsveldi leystust upp.5McDonald, Stephen C., „Crisis, War and Revolution in Europe, 1917-1923“ í Schmitt, Hans A. (ritstj.,) Neutral Europe between War and Revolution 1917-23 (Charlottesville 1988), 235-51.

Valdaskeið afturhalds og upphaf styrjaldar

Bandalög þeirra ríkja sem hófu fyrri heimstyrjöld voru annars vegar Bretland, Frakkland og Rússland, hins vegar Þýskaland og Austurríki-Ungverjaland. Þessi ríki voru nokkuð annars eðlis en þau sem nú bera sömu eða svipuð nöfn. Bretar réðu yfir heimsveldi. Í því voru annars vegar nýlendur, eins og Kanada, Ástralía, og Nýja Sjáland, byggðar að stórum hluta  innflytjendum frá Bretlandi og öðrum löndum Evrópu, og hins vegar undirokuð lönd eins og Indland og stórir hlutar Afríku þar sem Bretar voru aðeins fámenn yfirstétt. (Fyrsta nýlendan, nágranninn og tilraunadýrið Írland, var einskonar blanda þessara tveggja forma: að mestu réð þar ríkjum fámenn ensk yfirstétt, en á sumum svæðum, einkum í norðri, hafði land verið „numið“ af Englendingum og Skotum, og innfæddum rutt úr vegi.) Frakkland réði yfir Indókína og víðáttumiklum svæðum í Afríku. Rússland var keisaradæmi sem náði um stóran hluta Evrópu og Asíu. Undir stjórn Rússakeisara voru vitaskuld Rússland sjálft, sem þá innihélt Úkraínu og Hvíta-Rússland,  og auk þess Finnland, mestur hluti Póllands, Kákasuslönd eins og Georgía, Armenía og Aserbaídsjan, sem og stór svæði í Mið-Asíu. Keisaradæmið Þýskaland kom ekki til sögunnar sem sameinað ríki fyrr en um 1860-70. Prússland, eitt hinna mörgu þýskumælandi konungsríkja, lék þar lykilhlutverk. Þýskaland réði yfir nokkrum svæðum í Afríku og Eyjaálfu, en taldi sig þó hafa farið halloka í kapphlaupi heimsvelda um auðlindir og yfirráð.  Austurríki-Ungverjaland var keisaradæmi Habsborgara og hafði vald þeirrar ættar staðið í mörg hundruð ár. Lönd þess voru í Mið- og Suðaustur-Evrópu.6Sjá: Hobsbawm, Eric, The Age of Empire, 1875-1914 (New York 1989).

Tímabilið 1870-1914 var tímabil mikillar pólitískrar og efnahagslegrar útþenslu. Það gilti bæði um ásælni heimsvelda og hagvöxt innan Evrópu og Norður-Ameríku. Stáliðnaður, kolaiðnaður, efnaiðnaður og rafmagnsiðnaður fór hraðvaxandi. Upphaflega fóru Bretar þar fremstir, með öflugastan iðnað og mesta framleiðslu. Fljótlega tóku þó Bandaríkin og Þýskaland forystuna. Hinn rússneski byltingarforyngi Vladimir Ilyich Lenin (1870-1924) taldi orsaka fyrri heimsstyrjaldarinnar að finna í kapphlaupi Þýskalands við Bretland og Frakkland.7Sama heimild, 59-60; Lenín, V. I., Hvað bera að gera? Knýjandi vandamál  hreyfingar okkar (Reykjavík 1970). (Íslensk þýðing: Ásgrímur Albertsson.) Í þessum löndum, sem og Bandaríkjunum, hafði samruni banka og iðnaðarsamsteypa myndað það sem hann kallaði fjármálakapítalisma, sem stundaði gífurlegan arðbæran útflutning á auðmagni til fjárfestingar í löndum með vanþróuð efnahagskerfi. Samkeppni milli ríkjanna um fjárfestingartækifæri hafði leitt til kapphlaups um yfirráðasvæði. Þetta kapphlaup leiddi að endingu til styrjaldar, ekki síst vegna þess að efnahagslegur styrkur Þýskalands var langt umfram möguleika þess til fjárfestinga. Bretar og Frakkar héldu nýlendum sínum fyrir sig og lokuðu þar á fjárfestingar þýsks auðmagns.  

Arno J. Mayer hefur lagt fram aðra skýringu, sem þó þarf ekki endilega að stangast á við greiningu Leníns. Mayer greinir orsakir stríðsins í innri mótsögnum stórveldanna frekar en samkeppni þeirra á milli. Hann lítur á stríðið sem valdatöku afturhaldsafla gegn yfirvofandi byltingarhættu sem frjálslynd borgarastétt réði ekki við. Í stað byltingar var alþýðunni att út í hörmulegt stríð þar sem almúgi hvers ríkis fylkti sér undir merki sinna eiginn kúgara. Þetta skýrir einnig að miklu leyti uppgang fasisma og nasisma á millistríðsárunum.8Mayer, Arno J, The Persistence of the Old Regime: Europe to the Great War  (New York 1981).

        En hverjar voru þessar alþýðuhreyfingar? Hvar áttu þær uppruna sinn?

Þróun sósíalískrar hreyfingar til 1905

Hin hraða þróun iðnaðar í Evrópulöndum leiddi á skömmum tíma til myndunar nýrrar stéttar iðnverkafólks. Í upphafi óx stéttin örast í Bretlandi, fæðingarstað iðnbyltingarinnar. Þar fæddist og fyrsta verkalýðshreyfingin, hreyfing Chartista á árunum 1838-57. Chartistar kröfðust kosningaréttar fyrir verkamenn, þ.e.a.s. allra fullorðinna karlmanna án tillits til stéttar og eigna, og börðust fyrir honum með víðtækri söfnun undirskrifta. Menn skrifuðu undir kröfuskrá þess efnis, The People‘s Charter, og þaðan er nafngiftin komin.9Abendroth, Wolfgang, A Short History of the European Working Class (New York 1972); Thompson, E. P., The Making of the English Working Class (London  1980). Það var þó ekki fyrr en 1867 að verkamenn fengu loks kosningarétt í Bretlandi, og þá aðeins karlmenn. Kosningaréttur varð fyrst almennur árið 1918.

Lýðveldi lýst yfir í Reichstag, þinghúsi Þýskalands þann 9. nóvember 1918

Snemma árs 1848 kom út í fyrsta sinn Kommúnistaávarpið eftir Karl Marx (1818-1883) og Friedrich Engels (1820-1895). Þar er að finna fyrstu drög að stefnuskrá og kröfugerð þess sem varð alþjóðleg hreyfing sósíalista.10Nýjasta íslenska útgáfan er Hins íslenska bókmenntafélags, í þýðingu Sverris Kristjánssonar með formála Páls Björnssonar: Karl Marx & Friedrich Engels, Kommúnistaávarpið (Reykjavík 2008). Þar er sett fram sú hugmynd að saga mannkyns hafi „fram að þessu verið saga um stéttabaráttu“.11Sama heimild, 176. Eins og því til áréttingar gekk byltingaralda yfir Evrópu þetta sama ár, 1848. Kommúnistaávarpið var skrifað að beiðni Fylkingar kommúnista, Communist League, stofnaðri 1847. Þau samtök voru forveri hins upprunalega Alþjóðasambands verkamanna, sem stofnað var 1864. Það var síðar gjarnan nefnt Fyrsta Alþjóðasambandið, til aðgreiningar þeim sem á eftir komu.

Sambandið einkenndist frá upphafi af djúpstæðum og oft heiftúðugum innri átökum ólíkra hópa og strauma í verkalýðshreyfingunni. Í fyrstu voru meginátökin á milli annars vegar Frakkans Pierre-Joseph Proudhons (1809-1865) og hans fylgismanna, og hins vegar Marx og Engels og félaga.12 Deilurnar snérust um hvort samtök verkamanna ættu að mynda pólitísk samtök og beita sér á vettvangi ríkisvaldsins, eins og Karl Marx og fylgismenn hans vildu. Svipaðar deilur, um eðli ríkisvaldsins og pólitíska skipulagningu verkalýðsins, héldu áfram og mögnuðust, milli annars vegar marxista og hins vegar anarkista undir forystu hins rússneska Mikhail Bakúníns (1814-1876).12Sama heimild, 34-35; Marx, Karl & Friedrich Engels, Collected Works (MECW) 22 (London 1986), 416, 423-31. Uppreisnin mikla í París árið 1871 hafði mikil áhrif á hreyfingu sósíalista. Þá náðu samtök verkalýðsins völdum í borginni um tveggja mánaða skeið og stofnuðu hina svokölluðu Parísarkommúnu, sem síðan var brotin á bak aftur og kæfð í blóði.13Ross, Kristin, Communal Luxury: The Political Imagination of the Paris Commune (London 2015), Donny Gluckstein, The Paris Commune: A Revolution in Democracy (London 2006). Karl Marx og Fyrsta Alþjóðasambandið urðu þekkt og ollu stórri hneykslun víða um Evrópu fyrir stuðning sinn við kommúnuna.14Gabriel, Mary, Love and Capital: Karl and Jenny Marx and the Birth of a  Revolution (New York & London 2011), 389-425. Eftir ósigur hennar leystist Fyrsta Alþjóðsambandið upp vegna átaka milli marxista og anarkista.

Hersveit rauðliða á götu í Berlín í desember 1918.

Árið 1875 lögðu þýskir sósíalistar fram hina svokölluðu Gotha-stefnuskrá.15Gotha-stefnuskráin: Das Gothaer Programm (1875). (17.07.2017) Í henni voru kröfur um almennan kosningarétt, félagafrelsi, styttingu vinnudags og afnám launaþrælkunar. Karl Marx gagnrýndi stefnuskrána fyrir að ganga of skammt, og undirstrikaði nauðsyn á valdatöku verkalýðsins. Gagnrýni hans var eitt hið síðasta veigamikla framlag hans á sviði sósíalískra fræða. Hún kom ekki fram fyrr en Friedrich Engels gaf hana út í tengslum við endurnýjun á stefnuskrá þýskra sósíaldemókrata 1891. Þá varð til hin svokallaða Erfurt-stefnuskrá. Í henni er lögð áhersla á myndun samtaka verkafólk, þar á meðal pólitískra flokka. Markmið slíkra samtaka eiga að vera að taka yfir framleiðslutæki samfélagsins og félagsvæða þau öllum til hagsbóta:

Aðeins breyting úr kapítalískri einkaeign framleiðslutækja – jarðnæðis, náma, hráefna, verkfæra, véla, samgöngutækja– í félagslega eigu, og breyting á framleiðslu varnings í sósíalíska framleiðslu, sem framkvæmd er af samfélaginu og fyrir samfélagið, getur tryggt að hin miklu umsvif og stöðugt vaxandi framleiðni vinnuafls verði hinni arðrændu stétt ekki lengur uppspretta eymdar og kúgunar heldur uppspretta hinnar mestu velferðar og almennra og samræmdra lýðheilla.16Protokoll des Parteitages der Sozialdemokratischen Partei Deutschlands:  gehalten zu Erfurt vom 14. bis 20. Oktober 1891 [Minutes of the Party Congress of the Social Democratic Party of Germany: Held in Erfurt from October 14-October 20, 1891] (Berlin 1891), 3-6. Das Erfurter Programm (1891). (14.07.2017)

Kanadíski fræðimaðurinn Lars T. Lih heldur því fram að þessi stefnuskrá, sem og almennt starf og skipulag þýska Sósíaldemókrataflokksins, hafi verið fyrirmynd Leníns þegar hann sjálfur hóf að byggja upp sósíalíska hreyfingu í Rússlandi. Lih mótmælir eldri og almennri túlkun á Lenín og riti hans Hvað ber að gera?, sem gengur út á að Lenín hafi frá upphafi stefnt að stofnun samsærisflokks lítillar klíku atvinnubyltingarmanna. Lenín, segir Lih, neyddist hins vegar til að aðlaga starf og stefnu rússneskra sósíaldemókrata að rússneskum aðstæðum, þar sem frelsi til myndunar samtaka var takmarkað og starfsemi sósíaldemókrata bönnuð.17Lih, Lars T., Lenin Rediscovered. What is to Be Done in Context (Chicago  2008).

Annað Alþjóðasamband verkalýðsins var formlega stofnað 1889. Eins og fyrri daginn urðu harðar deilur milli anarkista og marxista, sem nú lutu forystu Engels. Árið 1896 var anarkistum vísað úr sambandinu. Árið 1912 áttu 27 flokkar frá 23 löndum aðild að Öðru Alþjóðasambandinu. Innan þessara flokka voru hátt í fjórar milljónir meðlima. Félagsmenn verkalýðsfélaga og samvinnuhreyfinga tengdum þessum flokkum töldu 18 milljónir. Þetta ár samþykkti þing sambandsins, í nafni alþjóðahyggju verkalýðsins, að berjast af öllum mætti gegn yfirvofandi stríði heimsvaldasinnaðra kapítalískra ríkja. Þetta var hin svokallaða Basel-yfirlýsing.18https://www.marxists.org/history/international/social-democracy/1912/basel-manifesto.htm

Þýskir sósíaldemókratar fram til 1917

Einn mikilvægasti þátttakandinn í þeim átökum sem áttu sér stað í Evrópubyltingunni 1917-23 var þýski sósíaldemókrata-flokkurinn: Sozialdemokratische Partei Deutschlands, eða SPD. Hann var öflugasti flokkur sósíalista í Evrópu og fyrirmynd allra annarra, jafnvel hins rússneska, eins og fyrr segir. Flokkurinn var stofnaður 1875 og óx hratt og dafnaði, eins þótt bannaður væri árið 1890. Þegar styrjöldin hófst 1914 töldu meðlimir hans nærri 1,1 milljón. Kjörfylgið jókst úr rúmum 300.000 atkvæðum 1881 í 4 milljónir í kosningunum 1912, þegar flokkurinn fékk 110 þingmenn kjörna  á þýska þinginu, Reichstag. Einnig átti flokkurinn yfir 3.000 fulltrúa í öðrum opinberum stofnunum sem kosið var til. Hann rak 90 dagblöð, hafði á launaskrá 267 blaðamenn og 3.000 skrifstofumenn og annað starfsfólk. Verkalýðsfélög undir forystu hans töldu milljón meðlimi. Flokkurinn stofnaði og rak bókasöfn, verkamannaskóla, æskulýðshreyfingu, kvennahreyfingu, íþróttafélög og skemmtistaði, enda var víða ekki völ á slíku á vegum ríkisvaldsins eða annara aðila. Þetta var því meira en pólitískur flokkur í þröngum skilningi. Þetta var hreyfing sem sá meðlimum sínum fyrir nær öllu mennta-, menningar- og félagslífi.19Chretien, Todd, Ritdómur um bók Pierre Broué „The German Revolution 1917-1923.“ ISR 50, nóv-des 2006. (15.04.2017); Larson, Sean, „The Rise and Fall og the Second International“, Jacobin 14. júlí 2017.“ (15.07.2017) Innan flokksins rúmuðust margir straumar með ólíkar skoðanir og áherslur og misróttækir. Slíkt var ekki talið veikleiki heldur eðlilegt heilbrigt ástand. Stefna flokksins var frá upphafi mjög róttæk, byggð á fyrrgreindri Erfurt-stefnuskrá þar sem krafist var samfélagsvæðingar („þjóðnýtingar“) allrar atvinnustarfsemi.

Með tímanum fór þó róttækni leiðtoganna dvínandi. Árið 1906 snéri forystan í reynd baki við hugmyndum Erfurt-stefnuskrárinnar um þjóðfélagsbyltingu, þótt enn væri byltingin langtímamarkmið í orði kveðnu. Bakgrunnur þessara umskipta var langt friðartímabil með efnahagslegum uppgangi 1870-1900. Forystan var þess nú uggandi að tal um byltingu myndi fæla frá flokknum lýðræðissinnaða smáborgara og hinn íhaldssamari hluta verkalýðsstéttarinnar.20Broué, Pierre, The German Revolution 1917-1923 (Leiden 2005), 19-22; Larson, „The Rise and Fall of the Second International“. Þegar til kom, 1914, ákvað stjórn SPD að styðja stríðsrekstur þýska keisaradæmisins, í stað þess að snúast gegn styrjaldarrekstri eins og Basel-yfirlýsing kvað á um. Þetta gerði flokksstjórnin án fyrirvara og án þess að leita samþykkis flokksfélaga.21Broué, The German Revolution,45, 47-48. Slíkt var reyndar ekkert einsdæmi. Rússneskir bolsévíkar og ítalskir sósíalistar voru einu sósíalistaflokkar í stærri ríkjum Evrópu sem efndu áðurnefnt heit um að styðja ekki hernað eigin lands ef til stríðs kæmi. Sósíaldemókratar í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi breyttu, ef svo má segja, um eðli í upphafi stríðsins, gengu á hönd borgarastéttar eigin landa og urðu eins konar fulltrúar hennar í verkalýðshreyfingunni.22Dauvé, Gilles & Denis Authier, The Communist Left in Germany 1918-1921 (Collective Action Notes 2006), 57. Þegar tilraunir til byltingar voru síðan gerðar í Evrópu hafði þetta geigvænlegar afleiðingar, eins og nánar verður fjallað um hér að aftan. Í Þýskalandi urðu áhrifin sú að SPD missti trúverðugleik sinn, rétt eins og ríkisvald og herstjórn landsins. Þannig skapaðist forræðiskreppa í Þýskalandi sem dýpkaði eftir því sem leið á stríðið.23Mommsen, Hans, The Rise & Fall of the Weimar Democracy  (Frankfurt am Main 1989),  41.

Fljótlegar fór stríðið að setja mark sitt á daglegt líf  Þjóðverja. Frá og með 1. febrúar 1915 var brauð skammtað, en skömmtunarkort dugðu þó trauðla fyrir lífvænlegum matarskammti. Verkamenn, hermenn, sjómenn og annar almenningur þjáðist af hungri.24Broué, The German Revolution, 58. Byltingarsinnum óx ásmegin, og fóru þar fremst Karl Liebknecht (1871-1919), Rosa Luxemburg (1871-1919) og Paul Levi (1883-1930). Þeir vildu stofna ný samtök, byltingarsinnuð og andsnúin stríðsrekstri. Um mitt ár 1915 höfðu myndast kjarnar slíkra samtaka á 300 mismunandi stöðum í Þýskalandi. Í janúar og mars 1916 voru haldnar ráðstefnur, sem lögðu grunn að samtökum róttækra sósíalista, Spartakistum. Luxemburg og Lenín greindi á um leiðir. Luxemburg vildi vinna innan gamla flokksins og breyta honum innanfrá í átt að byltingarstefnu og andstöðu við styrjöldina; Lenín taldi ráðlegast að kljúfa flokkinn og stofna nýjan.25Sama heimild, 60-61, 71, Nettl, Peter, Rosa Luxemburg (Oxford 1966). Á endanum kom það út á eitt: sósíaldemókrata-flokkurinn klofnaði án frumkvæðis róttækra sósíalista, þar eð forystan rak vinstra arminn úr flokknum. Hún var harðákveðin í að berja niður alla andstöðu í flokknum til að geta ótrufluð þjónað stríðsrekstrinum.26Sama heimild, 72-80, 83. Róttæka arminum bauðst því aðeins einn kostur, að stofna nýjan flokk. Því gerðist það á páskum 1917 að stofnaður var hinn Sjálfstæði sósíaldemókrataflokkur, Unabhängige Sozialdemokratische Partei Deutschlands, eða USPD.27Sjá: Morgan, David W., The Socialist Left and the German Revolution: A  History of the German Independent Social Democratic Party, 1917-1922 (Ithaca 1975). Um leið var farið að kalla gamla flokkinn Meirihlutasósíalista: Mehrheitssozialdemokratische Partei Deutschlands, eða MSPD. (Hér eftir er talað um USPD og MSPD.) Í nýja flokknum voru forystufólk eins og Luxemburg, Liebknecht, Hugo Haase, Georg Ledebour, Karl Kautsky, Rudolf Hilferding og jafnvel hinn hægfara Eduard Bernstein. Með öðrum orðum, hér voru mikilvirkir fulltrúar allra vængja flokksins frá því fyrir stríð, frá vinstri til hægri. Eftir klofninginn hafði MSPD 170,000 meðlimi, USPD 120,000. Það hafði því verulega fækkað í hreyfingunni frá stríðsbyrjun, þegar meðlimir gamla flokksins voru 800,000 að tölu. Fækkunina má að miklu leyti rekja til stuðnings flokksins við stríðið.28Dauvé & Authier, The Communist Left in Germany, 60.

Fjöldahreyfingin og byltingin í Rússlandi 1917

Sem fyrr segir hafði uppreisn orðið í Rússlandi árið 1905 eftir ósigur landsins í stríðinu gegn Japan.29Kotkin, Stephen, Stalin: Paradoxes of Power 1878-1928 (New York 2015), 167-8. Í febrúar (mars skv. vestrænu tímatali) 1917 endurtók sagan sig.30Hér skal bent á tvær nýlegar bækur um rússnesku byltinguna, sem báðar komu út á 100 ára afmæli hennar 2017: Miéville, China, October: The Story of the Russian Revolution (London 2017); Ali, Tariq, The Dilemmas of Lenin. Terrorism, War, Empire, Love, Revolution (New York 2017). Bandaríski fræðimaðurinn Theda Skocpol lítur svo á að í raun hafi verið um að ræða tvær aðskildar byltingar, annars vegar byltingu verkalýðs og hermanna, hins vegar byltingu bænda. Hún segir að hvor um sig hafi lotið sínum eigin lögmálum: verkamenn og hermenn gerðu sósíalíska byltingu samkvæmt stefnumálum Annars Alþjóðasambandsins, á meðan bændur hristu af sér vald landeigenda og kirkju. Á milli þessara tveggja byltinga voru mun minni tengsl en ætla mætti, nema að því leyti sem bændur voru liðsmenn keisarahersins. Þessi tvískipting hafði miklar afleiðingar fyrir síðari þróun.31Skocpol, Theda, States and Social Revolutions (Cambridge 1979), 206-36. Sameiginleg krafa almennings, jafnt hermanna, verkafólks og bænda, var þó að Rússland drægi sig út úr styrjöldinni, bændur fengju land og fólkið brauð. Þessi fjöldahreyfing leiddi til afsagnar Rússlandskeisara Nikulásar II:  

Stofnanir keisarastjórnarinnar í Rússlandi liðu undir lok með hruni hennar; hins vegar lifðu hin ólöglegu neðanjarðarsamtök hrunið af án þess að láta á sjá, þau náðu um allt samfélagið og gátu gert raunhæft tilkall til stuðnings almennings og lögmætis sem stjórnvald. Sósíalísku neðanjarðarsamtökin voru miklu fremur afurð rússneskrar sögu en afsprengi einhvers konar hugmyndafræðilegra tilfæringa.32Lih, Lars T., „The Lies We Tell About Lenin“, Jacobin 23. júlí 2014. https://www.jacobinmag.com/2014/07/the-lies-we-tell-about-lenin/.  (15.04.2017)

Stofnanir keisarastjórnarinnar hrundu ekki af sjálfu sér, heldur vegna fjöldahreyfingar gegn stríðinu. Umskiptin voru gífurleg. Gervallt valdakerfi keisarans og pólitísk fylking þess nánast hvarf af sjónarsviðinu. Miðja rússneskra stjórnmála færðist mjög langt til vinstri.33Lih, Lars T., „‘Letters from Afar’, Corrections from up Close: Censorship or  Retrofit?“. Links, International Journal of Socialist Renewalhttp://links.org.au/letter-from-afar-censorship-or-retrofit-lars-lih. (14.07.2017) Hægrisinnuðustu stjórnmálaöfl í Rússlandi eftir febrúarbyltinguna voru flokkar frjálslyndra borgara og hægrisinnaðir sósíaldemókratar eða mensévíkar. Við hlið bráðabirgðaríkisstjórnar þessara afla urðu til ráð eða sovét. Þau höfðu fyrst myndast í byltingartilrauninni 1905 en spruttu nú aftur upp að frumkvæði almennings. Þessi fjöldahreyfing, skipulögð í sovét, færðist æ lengra til vinstri, uns bolsévíkar náðu þar forræði og tóku völdin í október 1917.34Losurdo, Domenico, War and Revolution. Rethinking the 20th Century (London 2015), 81. Þessa þróun má að miklu leyti skýra með áframhaldandi þátttöku bráðabirgðastjórnarinnar í styrjöldinni gegn Þjóðverjum. Hún lenti í sömu forræðiskreppu og keisarastjórnin áður.  

Í apríl 1917 kom Lenín, foringi bolsévíka, heim úr útlegð í Sviss. Hann lagði fram nýjar hugmyndir um markmið byltingarinnar. Þær ollu straumhvörfum. Þetta voru hinar svokölluðu Apríltesur, þar sem lagt var til að stefnt yrði að sósíalískri byltingu í Rússlandi.35https://www.marxists.org/archive/lenin/works/1917/apr/04.htm. (17.07.2017) Það er nokkuð ljóst að Lenín mat það svo að sú forræðiskreppa sem ríkti í Evrópu myndi leiða til sósíalískrar byltingar í öðrum stórveldum álfunnar, og þá helst í Þýskalandi. Stofnun sósíalísks ríkis í Rússlandi væri möguleg vegna þess að fljótlega fengist aðstoð úr vestri.36Corr, Kevin, „Lenin´s April These and the Russian Revolution“ International  Socialism. A Quarterly Review of Socialist Theory, 154. 

Apríltesurnar fólu sem sé í sér áætlun um að snúa hinni borgaralegu byltingu í sósíalíska. Lönd gósseigenda skyldu gerð upptæk og jarðnæði landsins verða þjóðareign. Bönkum skyldi steypt saman í einn þjóðbanka, sem settur yrði undir eftirlit fulltrúaráðs verkamanna. Framleiðsla og dreifing skyldu þjóðnýttar og lúta sama eftirliti.37Saga Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna (Bolsjevíka). Ágrip samantekið af ritstjórnarnefnd KFRR (B) (Reykjavík 1944), 320. Í stórum dráttum var þetta samhljóma áðurnefndri Erfurt-stefnuskrá og skrifa Karls Marx eftir reynslu Parísarkommúnunnar 1871 og deilna hans við stuðningsmenn Proudhons í Fyrsta Alþjóðasambandinu.38Abendroth, A Short History of the European Working Class, 34-35. Marx &  Engels, MECW, 22, 3-225.

Margir fræðimenn, þar á meðal Eric Hobsbawm, segja forsendur fyrir sósíalíska uppbyggingu í Rússlandi hafi hrunið þegar þýska byltingin mistókst.39Hobsbawm, Öld öfganna, 399. Þegar hér var komið var þó erfitt að stefna í aðra átt: Krafan um sósíalisma var ekki bara hugdetta Leníns; hún var borin fram af fjöldahreyfingunni, þeim ráðum verkamanna og hermanna sem gerðu byltinguna. Þeir voru engan veginn reiðubúnir til að binda sig við borgaralega byltingu, færa borgarastéttinni völdin til þess eins að hún gæti arðrænt þá óáreitt. Sama afstaða birtist einnig í Þýskalandi í nóvember 1918–apríl 1919.40Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 41-49. Vandi bolsévíka og annarra sem vildu stefna að sósíalisma í Rússlandi var tvíþættur: vanþróun landsins og einangrun byltingarinnar. Iðnvæðing var skammt á veg komin. Langmestur hluti þjóðarinnar var bændur, 80-90 prósent, sem bjuggu við lénsveldi og ofurvald landeigenda. Þeir stunduðu nær algerlega sjálfsþurftarbúskap og framleiddu lítið fyrir markað.41Skocpol, States and Social Revolutions, 221.

Byltingin var ekki aðeins einangruð, hún var ofsótt. Á hana var herjað úr öllum áttum, eins þótt bolsévíkar semdu frið við Þjóðverja í upphafi árs 1918. Rússneska borgarastyrjöldin milli byltingarsinna og Hvítliða sem geisaði 1918-21 er kannski betur lýst sem varnarstríði hinna ungu Sovétríkja gegn ytri árás. Hvítliðar nutu öflugs stuðnings allra stórveldanna. Bretar sendu 60.000 manna her til Rússlands til stuðnings hvítliðum, Frakkar 16.000, Bandaríkjamenn 11.000 o.s.frv. Þvert á allar spár sigraði hinn nýstofnaði byltingarher, Rauði herinn, og vald kommúnista og verkalýðs í Rússlandi var tryggt í bili.

Bolsévíkar höfðu treyst því að bylting yrði líka í öðrum löndum, sérstaklega Þýskalandi. Það töldu þeir forsendu fyrir áframhaldandi tilvist og framþróun sósíalismans í Rússlandi. Vorið 1918 sagði Lenín: „Vanþróun lands okkar hefur fært okkur forystuhlutverk, en við munum farast nema okkur takist að halda út þangað til verkafólk annarra landa gerir byltingu sem veitir okkur öflugan stuðning.“42Lenin, V. I., „Speech in the Moscow Soviet of Workers´, Peasants´ and Red  Army Deputies“ https://www.marxists.org/archive/lenin/works/1918/apr/23.htm. (15.04.2017)    Hvernig fór það?

Byltingaralda í Þýskalandi og víðar í Evrópu 1918-19

Í apríl 1917 hafði Lenín fulla ástæðu til bjartsýni hvað varðar byltingu í Þýskalandi. Andóf þýsks almennings gegn stríðsrekstrinum fór ört vaxandi. Í mars og apríl gerðu málmiðnaðarmenn í hergagnaiðnaði verkfall, alls um 300.000 manns.43Dauvé & Authier, The Communist Left in Germany, 66; Hoffrogge, Ralf, Working-Class Politics in the German Revolution: Richard Müller, the  Revolutionary Shop Stewards and the Origins of the Council Movement,  (Chicago 2016), 35-61. Því var stýrt af hópi sem kallaði sig Byltingarsinnaða trúnaðarmenn (Revolutionäre Obleute, hér eftir RO).44Dauvé & Authier, The Communist Left in Germany, 66, 69. Kröfur verkfallsmanna snérust um meira og betra fæði, tafarlausan frið án landvinninga, afléttingu ritskoðunar, almennan kosningarétt og frelsun pólitískra fanga.45Broué, The German Revolution, 93. Í ágúst 1917 varð uppreisn í þýska flotanum, og svipaðar kröfur hafðar uppi. Uppreisnin var bæld niður, foringjarnir handteknir og aflífaðir.46Sama heimild bls. 97, 100; Dauvé & Authier, The Communist Left in Germany, 68.

Í Austurríki og Ungverjalandi gerðu verkamenn í vopnaverksmiðju í Búdapest verkfall í janúar 1918, ekki síst vegna ákalls Rússa (Trotskís). Verkfallið breiddist um allt ríkið. Þetta var upphaf þess sem austurríski rithöfundurinn Franz Borkenau kallaði „mestu byltingarhreyfingu hinna eiginlegu öreiga sem nútíminn hefur orðið vitni að“, hreyfingu, sem samkvæmt áliti sama höfundar, myndi, „skaka Miðveldin til grunna.“ Verkföllin breiddust síðan til Þýskalands. Í Berlín fóru 400.000 manns í verkfall.47Broué, The German Revolution, 102, 104.

Líkt og í Rússlandi var byltingaraldan í Þýskalandi sjálfssprottin fjöldahreyfing, ekki samsæri byltingarsinnaðs flokks.48Eftirfarandi umfjöllun um þýsku byltinguna byggir mikið á Broué, The German Revolution. Hún hófst fyrir alvöru eftir ósigur Þjóðverja. Í júlí 1918 var þýsku herstjórninni orðið að fullu ljóst að stríðið yrði ekki unnið og því yrði að ljúka sem fyrst. Lýðræði skyldi nú endurreist og stjórnmálaflokkar, ásamt herstjórninni, látnir axla ábyrgð á hrakförunum.49Prabhat Patnaik, „The October Revolution and the Survival of Capitalism“, Monthly Review, 2017, 69 (3). MSPD og kaþólski armur Miðflokksins voru reiðubúnir til stjórnarþáttöku og viðræðna við Bandamenn á grundvelli hinna fjórtán punkta Woodrow Wilsons Bandaríkjaforseta (1856-1924), sem meðal annars fólu í sér afvopnun Þýskalands, brottflutning herja frá Rússlandi, Belgíu, Rúmeníu, Serbíu og Svartfjallalandi, og sjálfstæði Póllands. Það var ljóst að þýskir ráðamenn óttuðust byltingu meðal hers og almennings.

 Og það ekki að ástæðulausu. Þann 30. október gerðu sjóliðar þýska flotans í hafnarborginni Wilhelmshafen uppreisn. Hún breiddist strax út til annarrar flotaborgar, Kiel, og þaðan,  eins og eldur í sinu, út um allt land. MSPD krafðist afsagnar keisarans, annars drægi flokkurinn sig úr ríkisstjórn. Þann 9. nóvember náði byltingin hámarki. Um allt land voru verkföll og kröftug mótmæli sjómanna og hermanna. Ráðist var á tukthús og fangar frelsaðir. Rauði fáninn blakti yfir opinberum byggingum. Þetta var fjöldahreyfing sem náði til alls Þýskalands. Foringi MSPD, Philipp Scheidemann (1865–1939), lýsti þennan dag yfir lýðveldi af svölum Ríkisdagsbyggingarinnar í Berlín frammi fyrir tugþúsundum. Á sama tíma lýsti Liebknecht yfir hinu Þýska sósíalíska lýðveldi af svölum hallar Hohenzollern-ættarinnar. Og sama dag hertók RO, undir forystu Richards Müller (1880-1943) og Emils Barth (1879-1941), þýska þingið, Reichstag, og lýsti yfir stofnun byltingarþings. Hinir byltingarsinnuðu trúnaðarmenn treystu ekki MSPD og höfðu sjálfir lagt á ráðin um uppreisn þann 11. nóvember, en áður en hún varð að veruleika braust byltingin út í Kiel og þaðan um allt Þýskaland. Daginn eftir kusu allar verksmiðjur og hersveitir í Berlín fulltrúa í ráð, sem síðan kusu byltingarstjórn úr röðum MSPD og USPD. Þetta ráð, Fulltrúaráð alþýðu (Rat der Volksbeauftragen), skyldi framkvæma ákvarðanir byltingarþingsins.50Hoffrogge, Working-Class Politics in the German Revolution, 61-79.

Rosa Luxemburg forystumaður vinstri arms Sósíaldemókrata, Spartakista, 1918

Samanburður franska sagnfræðingsins Pierre Broué á rússnesku og þýsku ráðahreyfingunum er mjög athyglisverður:

… villandi væri að líkja þýsku ráðunum í nóvember 1918 við rússnesku sovétin í nóvember 1917. Það þarf að bera þau fyrst saman við sovétin í febrúar 1917; hvoru tveggja höfðu orðið til og mótast að mestu leyti í sjálfsprottnum aðgerðum fólksins áður en stjórnmálaumræðan um hver ætti að hafa völdin fór af stað. Þrátt fyrir það hversu samtök þeirra voru veikburða, þá léku þýsku byltingarsinnarnir stærra hlutverk í myndun þýsku ráðanna en bolsévíkar í myndun sovétanna.51Broué, The German Revolution, 158

Ráðin voru skipulögð með það markmið að mynda nýtt ríkisvald. Þau settu á fót varnarsveitir, og í ráðum sem byltingarsinnar stýrðu var komið á fót stjórnardeildum, fjármálaráðuneyti, öryggisráðuneyti, matvælaráðuneyti o.s.frv. Þau tóku yfir dagblöð, komu á átta stunda vinnudegi og hækkuðu laun.52Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 25-50.

Borgaralegu flokkarnir og yfirvöld viðurkenndu ráðin sem lögmætt fyrirbæri, en þó aðeins tímabundið og til þess eins að búa í haginn fyrir eldri yfirvöld sem taka myndu við eftir endanlegt fall keisaraveldisins. MSPD leiddi bandalag hinna gömlu stjórnmálaafla á meðan rótgrónir íhaldsflokkarnir breyttu um nöfn og lofuðu nú lýðræðið. Markmið allra þessara flokka var að losna sem fyrst við ráðin. Meginveikleiki ráðahreyfingarinnar var að enginn flokkur hafði styrk og/eða stefnufestu til að stýra þeim í gegnum byltingarferlið. Þýska borgarastéttin stóð enn fremur mun sterkar í nóvember 1918 en hin rússneska 1917. Hún hafði á að skipa herforingjum, sérlega hæfum hópi, og umfram allt hafði hún sveigjanlegan og reyndan hóp flokkskerfis MSPD. Einnig naut þýska borgarastéttin öflugs stuðnings herafla Bandamanna, sem hékk eins og skuggi yfir þessu tímabili þýsku byltingarinnar. Flestir fjölmiðlar studdu og borgaraflokkana og ötuðu ráðin auri.

Framkvæmdaráð ráðahreyfingarinnar var til húsa í prússneska þinghúsinu í Berlín. Richard Müller, foringi RO, varð forseti þess. Framkvæmdaráðið réði illa eða ekki við hlutverk sitt, m.a. vegna þess hve það var margþætt og víðfeðmt. Ráðið veitti t.d. forystu um 10.000 staðbundnum ráðum um allt Þýskaland. Það reyndi að mynda rauðan her, en mistókst. Hins vegar skipulögðu andstæðingar ráðanna borgaralegt varðlið.53Broué, The German Revolution, 171, 174-175, 177; Dauvé & Authier, 69. Í lok nóvember stóð Framkvæmdaráðið höllum fæti og beið loks ósigur fyrir MSPD áður en þing ráða úr öllu Þýskalandi hittist 16. desember. Á sex vikum höfðu byltingarmenn misst ráðin úr höndum sér.

MSPD og USPD höfðu fulltrúa bæði í ríkisstjórn og í Framkvæmdastjórn ráðanna. Þann 10. nóvember neitaði Karl Liebknecht að taka sæti í ríkisstjórn og urðu Spartakistar þá þriðji flokkurinn á vinstri vængnum. MSPD var þó í raun klofinn í tvo arma, íhaldssaman og róttækan. Sá róttæki var mjög andvígur samvinnu foringja flokksins, Scheidemanns og Friedrichs Eberts við herforingjana. Sama gilti um USPD, þar voru tveir armar, íhaldssamari og róttækari. Forysta USPD, Hugo Haase og félagar, vildi þingræðislegt lýðræði þar sem valdið yrði þó að hluta til í höndum ráðanna. Vinstri armurinn var róttækur byltingararmur sem studdi ráðin alfarið, sem og rússnesku byltinguna.

Karl Liebknecht starfaði með RO í Berlín, en félagar þeirra samtaka voru yfirleitt í USPD. Sá flokkur naut stuðnings flestra róttækra verkamanna. Hins vegar hafði fylgi MSPD vaxið, því fjöldi fólks leit á flokkinn sem holdgerving byltingarinnar. Þetta voru hermenn, verkamenn, bændur og ungt fólk sem nýlega var orðið pólitískt virkt. MSPD virtist tryggja frið, lýðræði og sósíalisma, og það sem meira var, án frekari byltingar eða borgarastyrjaldar. Mörgum virtist byltingarsinnar til vandræða, öfgafullir og óeirðasamir.  En þróunin var mótsagnakennd. Þrátt fyrir fylgi MSPD var róttækni almennings alls ekki úr sögunni: í lok nóvember hófst verkfallsalda í Þýskalandi með kröfum um hækkun launa. Verkamenn í Berlín fylktu sér um Spartakista og mættu á fundi þeirra og mótmælaaðgerðir.

Um miðjan desember hófst undirbúningur að stofnun Kommúnistaflokks Þýskalands (Spartakista). Hópur kommúnista í Bremen (IKD), sem starfað höfðu sjálfstætt, sameinaðist nú Spartakistum. Rósa Luxemburg vildi kalla nýja flokkinn „Sósíalistaflokk“, en því var hafnað. Hún hafði áhyggjur af því hversu langt var á milli sósíaldemókrata í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum annars vegar og kommúnista í Rússlandi hins vegar, og vildi að þýskir sósíalistar byggðu brú þar á milli.54Nettl, Peter, Rosa Luxemburg (Oxford 1966). Þann 29. desember 1918 samþykkti ráðstefna Spartakista að yfirgefa Sósíaldemókrataflokkinn (SPD) og stofna kommúnistaflokk.55Broué, The German Revolution, Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 35.

Byltingin svikin

Ríkistjórn MSPD stóð nú höllum fæti. Upplausn var komin í herinn þar sem herforingjar voru að missa tökin. Um jólin kom til átaka þegar alþýðuherdeild úr flotanum í Kiel, Volksmarinedivision, hertók stjórnarbyggingar og handtók meðlimi Fulltrúaráðsins. Liðsmenn höfðu ekki fengið greidd laun í langan tíma og kröfðust nú útborgunar. Ríkisstjórn MSPD réðst gegn uppreisnarmönnum. Hún leit á þá sem bandamenn Spartakista, þótt slík túlkun væri afar hæpin. Volksmarinedivision tókst að hrinda árásinni, en um 30 manns féllu í átökunum.

Gagnbyltingarstarfsemi herforingja og MSPD varð nú lýðum ljós og í lok desember sagði USPD sig úr stjórninni. Þýski herinn leystist upp, en hlutar hans mynduðu svokallaðar Freikorps sveitir, sem voru hollar ríkisstjórn MSPD. Þær voru fyrst og fremst aftökusveitir, myndaðar vegna ótta MSPD og þýsku junkaranna við byltinguna. Þann 5. janúar 1919 var boðað til mótmæla í Berlín. Ástæðan var uppsögn lögreglustjóra borgarinnar, Emils Eichhorn’s sem verið hafði andvígur stríðinu og studdi nú USPD. Mótmælin urðu miklu öflugri en vænst var, og leiddu til uppreisnartilraunar verkamanna og Spartakista í Berlín. Uppreisnin mistókst og var barin niður af Freikorps og Gustav Noske (1868-1946), hermálaráðherra MSPD. Rosa Luxemburg og Karl Liebknecht voru myrt.56Nettl, Peter, Rosa Luxemburg (Oxford 1966), Gettinger, Klaus, The Murder of Rosa Luxemburg (London & New York 2019).

Atburðirnir í Kiel, Wilhelmshaven, Bremen, Hamborg og Berlín í nóvember og desember 1918 og janúar 1919 réðu úrslitum um gang þýsku byltingarinnar. Átökum var þó ekki lokið, síður en svo. Bylting varð í öðrum hlutum þýska ríkisins, t.d. í Bayern, þar sem var stofnað sósíalískt lýðveldi sem stóð frá nóvember 1918 til maí 1919, þegar Freikorps-sveitir réðust inn í Bayern og tóku af lífi 700 forystumenn lýðveldisins.57Mitchell, Allan, Revolution in Bavaria, 1918-1919: The Eisner Regime and the  Soviet Republic (Princeton 2016), 1965. Frá janúar til apríl fór ný verkfalls- og byltingaralda um allt Þýskaland, en Noske barði hana niður með vopnavaldi.58Harmann, Chris, The Lost Revolution: Germany 1918 to 1923 (London 1997), 95-123. Þess má geta að uppreisnir, byltingar eða borgarastyrjaldir urðu víða annars staðar í Evrópu, svo sem í Austurríki59Barker, Elizabeth, Austria 1918-1972 (London & Basingstoke 1973); Carsten, F.L., Revolution in Central Europe, 1918-1919 (Berkeley & Los Angeles 1972)., á Ítalíu60Trudell, Megan, „Gramsci: The Turin Years“, International Socialism, 114., í Finnlandi61Söderhjelm, Henning, Det Røde Oprør i Finland Aar 1918 (Kjøbenhavn &  Kristiania 918)., á Írlandi62Lee, J. J., Ireland 1912-1985 (Cambridge 1989), 1-55; Townshend, Charles,  Political Violence in Ireland: Government and Resistance Since 1848 (Oxford  1983), 277-321. og víðar. Í Ungverjalandi og Slóvakíu voru sett á stofn sovétlýðveldi sem stóðu nokkra mánuði 1919.63Sugar, Peter F., Péter Hanak, Tibor Frank (ritstj.), A History of Hungary (London 1990), 295-319. Jafnvel á Írlandi voru stofnuð sovét og eitt þeirra réði yfir borginni Limerick í apríl 1919.64Cahill, Liam. Forgotten Revolution: Limerick Soviet 1919 (Dublin 1990);  Kostick, Conor, “The Limerick Soviet 100 Years On

Í Þýskalandi stóð í raun borgarastyrjöld allt til loka árs 1923. Bæði hægri og vinstri öflin reyndu endurtekið að breyta úrslitum byltingarinnar 1918-1919, en hvorugri fylkingunni tókst það þá. Árið 1933 tókst nasistum hins vegar að ná völdum í Þýskalandi. Mikið hefur verið rætt um að klofningur vinstri hreyfingarinnar milli sósíaldemókrata og kommúnista í Þýskalandi hafi stuðlað að valdatöku Hitlers, og að sá klofningur hafi verið illskiljanlegur. Hann verður hins vegar skiljanlegri í ljósi afstöðu og aðgerða MSPD gagnvart vinstri sósíalistum – bæði úr USPD og samtökum Spartakista – í byltingunni 1918-19. MSPD var eina gagnbyltingarsinnaða aflið í Þýskalandi sem gat komið í veg fyrir byltingu, og gerði það í bandalagi við þýska herinn.65Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 46-50.

Því má bæta við að ýmsir fræðimenn hneigjast til að líta á nasista árið 1933 sem framhald af starfi og stefnu þýsku keisarastjórnarinnar og gagnbyltingarinnar 1917-23.66Sama heimild, 48. Markmið nasista voru ekki ólík markmiðum keisarastjórnarinnar eða markmiðum nýlenduvelda Breta og Frakka. Þeir ætluðu sér að stofna nýlendur í Austur-Evrópu, hliðstæðar nýlendum annarra heimsvelda, þar sem fengist markaður og fjárfestingamöguleikar fyrir þýskan iðnað.67Losurdo, War and Revolution, 103-116. Enn fremur hefur verið bent á að áætlanir um útrýmingu gyðinga hafi tengst hefndum vegna byltingartilrauna sósíalista í Þýskalandi 1918-1923 og byltingarinnar í Rússlandi 1917; nasistar hafi litið svo á að bolsévíkar og þýskur byltingarsinnaður sósíalismi hafi átt félagslegar rætur sínar í óþjóðlegum gyðingdómi og þær rætur þyrfti að uppræta.68Balakrishnan, Gobal, „Counterstrike West.“ New Left Review 104, March-April 2017, 19-43.

Síðari þróun

Byltingaralda skall svo sannarlega á Evrópu 1918-20. En hún varð ekki til þess að fram kom annað sósíalískt ríki sem stutt gat byltinguna í Rússlandi. Stefnan í Evrópu gagnvart Sovétríkjunum var mótuð af valdhöfum í London, París og Washington og miðaði að því að mynda krans smáríkja í Austur-Evrópu utan um byltingarríkið og einangra það. Finnland, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland og Rúmenía fengu þetta hlutverk.69Hobsbawm, Öld öfganna, 44.

Sovétríkin urðu því að leggja á djúpið ein og óstudd. Þau voru eina sósíalíska ríkið í heiminum, eina ríkið sem reyndi að framkvæma stefnuskrá Annars Alþjóðasambandsins í þá átt að breyta eðli framleiðslunnar, uppræta það arðrán sem fylgir einkaeign og stjórnlausri samkeppni kapítalismans, og tryggja það að framleiðslan yrði í eigu samfélagsins alls.

Saga Sovétríkjanna á tímabilinu 1929-40 er afar öfgafull. Annars vegar urðu þá gríðarleg átök um samyrkjuvæðingu landbúnaðar og í framhaldi af því hreinsanirnar miklu. Mikill fjöldi manna, oft tryggir flokksmenn og stuðningsmenn sósíalisma var tekinn af lífi í þeim. Hins vegar náðist mjög hraður og mikill árangur í iðnvæðingu, þannig að um 1940 var stálframleiðsla í Sovétríkjunum orðin svipuð og í stærstu iðnríkjum öðrum. Á tímabilinu 1929-40 ríkti djúp kreppa í öllum auðvaldsríkjum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, en í Sovétríkjunum var hraður hagvöxtur. Efnahagur Sovétríkjanna var miðstýrður og byggður upp eftir nákvæmum fyrirframgerðum áætlunum. Þetta var nýjung í efnahagslífi hins iðnvædda heims, en átti sér rætur í hinni sósíalísku stefnuskrá sem gerði ráð fyrir samhæfðri samfélagslegri framleiðslu þegar verkalýðsflokkurinn hefði náð völdum.70Sama heimild, 108; Skocpol, States and Social Revolutions, 220-225.

Sósíaldemókratar komust víða í stjórn á millistríðsárunum, t.d. í Bretlandi, Frakklandi og á Norðurlöndunum. Í Svíþjóð komst flokkur sósíaldemókrata til valda í kosningum 1932 og hélt þeim nánast samfellt til 1976. Í þessum löndum urðu til á millistríðsárunum drög að eins konar samfélagssáttmála milli verkalýðsstéttar og borgarastéttar.71Eric Hobsbawm bendir á að upphaf slíkra samfélagssáttmála megi rekja til  fyrstu ára 20. aldar. Hobsbawm, Age of Empire, 84-111

Í Þýskalandi var þróunin önnur. Vissulega náði fjöldahreyfing þýskra verkamanna talsverðum árangri í samningum sínum við þýska atvinnurekendur í lok árs 1918. Hefðbundnar kröfur, sem hingað til mátti ekki minnast á, fengust nú samþykktar í skyndingu og samningsréttur verkalýðsfélaga viðurkenndur. Staða verkalýðshreyfingarinnar styrktist því í bili árið 1918. Hún lagði fram kröfur um félagsvæðingu („þjóðnýtingu“) stóriðnaðar, sem náðu þó ekki fram að ganga.72Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 37-40. Á hinn bóginn var Weimar-lýðveldið ekki byggt á samfélagssátt af því tagi sem gerð var á Norðurlöndunum og víðar, heldur ótryggu bandalagi milli hins öfluga valdanets þýska aðalsins og þess arms þýskra sósíaldemókrata sem lengst var til hægri. Eins og fram hefur komið braut MSPD þýsku byltinguna á bak aftur og studdi sig þar við vopnavald þýskrar aðalsstéttar eða júnkara, sem skipuðu foringjastöður í þýska hernum. Minnug þessa leit þýsk verkalýðsstéttin aldrei á Weimar-lýðveldið sem sitt.73Sama heimild, 46. Það hrundi svo í kreppunni miklu og nasistar komust til valda og hófu strax þann vígbúnað og þá herstefnu sem síðan leiddi til seinni heimsstyrjaldar.

Eftir ósigur nasista 1945 varð áætlanahagkerfi Sovétríkjanna að vissu leyti fyrirmynd hagstjórnar víða í Vestur-Evrópu.74Hessler, Julie, A Social History of Soviet Trade (Princeton 2004), 1. Þau drög að samfélagssáttmálum sem orðið höfðu til í Vestur-Evrópuríkjunum á millistríðsárunum voru efld og styrkt.75Patnaik, „The October Revolution and the Survival of Capitalism“. Í Bretlandi komst Verkamannaflokkurinn til valda og þjóðnýtti þar mikilvæga hluta hagkerfisins, að fyrirmynd Sovétríkjanna og í samræmi við hina sósíalísku stefnuskrá. Einnig var þar komið á öflugu, ókeypis, opinberu heilbrigðiskerfi fyrir alla. Það voru samt ekki alltaf sósíaldemókrataflokkar sem höfðu frumkvæði að áætlanahagstjórn. Í Frakklandi endurnýjuðu hægri flokkar franskan efnahag skipulega með efnahagsáætlunum.76Hobsbawm, Öld öfganna, 290. Í vesturhluta Þýskalands sem var undir yfirumsjón herstjórnar bandamanna, varð til samfélagssáttmáli sem líktist öðrum slíkum í Vestur-Evrópu. Í Austur-Þýskalandi var komið á sósíalisma að sovéskri fyrirmynd.

Það má því segja að á ýmsan hátt hafi evrópska byltingin náð fram mörgum markmiðum sínum eftir 1930 og sérstaklega eftir 1945. Það var að hluta til vegna hruns hins kapítalíska kerfis í kreppunni miklu. Valdastétt Vesturlanda skildist að hún yrði að einhverju leyti að koma til móts við almenning ef forðast ætti meiriháttar samfélagsólgu eða byltingu.77Sama heimild, 288. Ávinningarnir urðu þó skammvinnir eins og saga síðust fjögurra áratuga hefur leitt í ljós. Og þeir mörkuðu aldrei sigur: Kapítalismi, jafnvel með góðu velferðarkerfi, er ekki sósíalismi eins og hann er skilgreindur í Erfurt-stefnuskránni.

Lokaorð

Hér hefur rússneska byltingin 1917 verið skoðuð í víðara samhengi þeirrar forræðiskreppu sem ríkti í Evrópu 1917-23. Það sem vekur einna mesta athygli er dýpt kreppunnar og styrkur andkapítalískra fjöldahreyfinga utan Rússlands, sem að þessu leyti var ekkert einsdæmi.

Í Þýskalandi lá við sósíalískri byltingu, sem breytt hefði öllu fyrir skipan mála í álfunni og framtíð sósíalismans. Vanþróun Rússlands og einangrun rússnesku byltingarinnar þýddi að þar voru aðstæður mjög óhagstæðar fyrir framþróun heilladrjúgs og lýðræðislegs sósíalisma.78Hér skal bent á stutt en greinargott og óhlutdrægt yfirlit yfir rússnesku byltinguna og þróun sósíalismans í Sovétríkjunum: Sunkara, Bhaskar, „The Few Who Won: How Should We Understand the October Revolution and Its Tragic Aftermath?“, Jacobin, 2017, 27, 17-39. Rússnesk verkalýðsstétt var fámenn og kraftar hennar beindust að því að halda völdum og hernaðarlegum yfirburðum í ríkinu með bandalagi við bændur í þeirri von að heimsbyltingin kæmi þeim til bjargar, sem aldrei varð.79Dauvé & Authier, The communist left in Germany, 87. Iðnvæðing var skammt á veg komin, eins og fyrr segir voru 80-90 prósent íbúa landsins bændur. Þeir voru hins vegar aðeins 35 prósent íbúa Þýskalands.80Sama heimild, 12. Það var annað öflugasta hagkerfi heims og komið lengra á veg nútímavæðingar en nær öll önnur ríki. Með þetta í huga má fullyrða að úrslitaorustan um framtíð sósíalismans hafi farið fram í Þýskalandi frekar en Rússlandi. Aðstæður í Rússlandi þýddu að landið var mjög illa til þess fallið að vera fyrirmynd og framvörður sósíalismans.

Við hljótum því að spyrja: Af hverju mistókst byltingin, þ.e. valdatakan sjálf, í Þýskalandi en ekki í Rússlandi?81Eric Hobsbawm rekur það sem hann telur ástæður þess að kommúnistar héldu velli í Rússlandi í Öld öfganna, 76.] Stór hluti skýringarinnar kann að vera fyrri byltingin í Rússlandi, byltingin 1905. Ástandið í Rússlandi þá var svipað því sem varð í Þýskalandi 1918, eins og Rosa Luxemborg benti á.82Broué, The German Revolution 1917-1923, 216. Þegar byltingarástand skapaðist aftur 1917 drógu menn þann lærdóm af 1905 að lítið þýddi að reyna að viðhalda stjórnskipulagi keisaraveldisins eða einstaka þáttum þess. Fyrir hendi var net byltingarsinna, sem myndast hafði fyrir aldamótin 1900. Þetta net gat nýtt sér fjöldahreyfinguna 1917 til að taka völdin og koma á sósíalisma, meðvitað og skipulega. Byltingarsinnarnir höfðu lært af atburðum 1905.83Samanber bók Trotsky1905. Þýskir byltingarsinnar höfðu enga sambærilega reynslu. Sú rás atburða sem fór af stað í lok fyrri heimsstyrjaldar kom þeim í opna skjöldu. Það sést vel á fálmkenndum viðbrögðum og upplausn sem einkenndi bæði fjöldahreyfingu og forystu í nóvember. Það gildir jafnt um forystu MSPD, USPD og Spartakista. Það er því mögulegur hluti skýringarinnar að þau öfl sem vildu byltingu í Þýskalandi skorti þá reynslu sem rússneskir byltingarmenn höfðu.

Í annan stað lék innbyrðis staða ríkjanna sem börðust í fyrri heimsstyrjöld að líkindum talsvert hlutverk. Innan þeirra var ákveðin goggunarröð. Franskir sósíalistar réttlættu stuðning sinn við stríðið með því að það yrði að berjast við afturhaldið í Þýskalandi, og litu framhjá því að þeir voru í bandalagi við mun verra afturhaldsríki, Rússland. Þýskir sósíalistar réttlættu stuðning sinn við stríðsreksturinn einmitt með því að verja yrði evrópska siðmenningu fyrir asískum barbarisma Rússa. Í Rússlandi var enginn möguleiki á neinum slíkum slagorðum. Rússland var neðst í goggunarröðinni, og verkalýðshreyfingin þar tók sömu afstöðu og í stríði Japans og Rússlands 1905: Ósigur Rússakeisara í stríðinu var merki um að hefja byltingu heima fyrir, alveg eins og 1905.84Dauvé & Authier, The communist left in Germany 1918-1921, 57.

Í þriðja lagi hefur verið bent á að skipulagslegur og hernaðarlegur styrkur þeirra afla sem studdu gamla kerfið hafi í mörgum tilfellum ráðið úrslitum í evrópsku byltingunum. Þar var keisaraveldið í Rússlandi illa sett þegar hér var komið sögu.85Gramsci, Antonio, Selections from the Prison Books (London 1982). 160. Um þróunina frá gamla samfélaginu til nútímasamfélags í Mið- og Austur-Evrópu til 1918 má fræðast í hinu mikla riti Curt Sørensen, Stat, nation, klasse. Socioøkonomisk udvikling, stats- og nationsbygning og udvikling af regimformer og massepolitik i Central- og Østeuropa samt Rusland (Kaupmannahöfn 2012). Fram hjá þessu verður ekki litið. Andbyltingaröflin voru einfaldlega sterkari og betur skipulagðari í Þýskalandi en í Rússlandi.

Ofangreindir þættir segja þó ekki alla söguna. Og hér komum við að því sem kannski mestu skiptir. Þýska byltingin beið ekki ósigur vegna þess að hugmyndaleg yfirráð endurbótasinna í MSPD væru sterk meðal verkalýðs. Þeir sigruðu ekki í krafti vinsælda eða hugmyndafræðilegs styrks. Byltingin beið ósigur vegna þess að þegar á reyndi gengu margir forystumenn verkalýðsins, yfirlýstir sósíalistar, í bandalag við afturhaldsöflin og voru þess reiðubúnir að vinna gegn byltingunni með öllum ráðum, ekki síst vopnavaldi. Þetta voru afdrifarík mistök eða svik. Með þessu var lagður grunnurinn að uppgangi þýskra nasista og áframhaldandi einangrun rússnesku byltingarinnar. Forysta MSPD, þeir Scheideman, Ebert og Noske, bjuggu í haginn bæði fyrir Stalín og Hitler.

Uppreisn Spartakista í janúar 1919. Vopnaðir kommúnistar á götuvígi. Rosa Luxemburg og Karl Liebknecht voru drepin fyrir að veita þessari uppreisn forystu.

Author

  •  
  • Heimildir og tilvísanir

    • 1
      hvað er eiginlega hér í gangi
    • 2
      Hobsbawm, Eric, Öld öfganna. Saga heimsins 1914-1991 (Reykjavík 1999), 274-305. (Frumútgáfa: Age of Extremes: The Short Twentieth Century (London 1994). Íslensk þýðing: Árni Óskarsson.
    • 3
      Bent er á grein Nancy Frasers í þessu hefti: „Hið gamla háir dauðastríð og hið nýja nær ekki að fæðast“.
    • 4
      Motadel, David, „Waves of Revolution“, History Today, 2011,61 (4), 3-4
    • 5
      McDonald, Stephen C., „Crisis, War and Revolution in Europe, 1917-1923“ í Schmitt, Hans A. (ritstj.,) Neutral Europe between War and Revolution 1917-23 (Charlottesville 1988), 235-51.
    • 6
      Sjá: Hobsbawm, Eric, The Age of Empire, 1875-1914 (New York 1989).
    • 7
      Sama heimild, 59-60; Lenín, V. I., Hvað bera að gera? Knýjandi vandamál  hreyfingar okkar (Reykjavík 1970). (Íslensk þýðing: Ásgrímur Albertsson.)
    • 8
      Mayer, Arno J, The Persistence of the Old Regime: Europe to the Great War  (New York 1981).
    • 9
      Abendroth, Wolfgang, A Short History of the European Working Class (New York 1972); Thompson, E. P., The Making of the English Working Class (London  1980).
    • 10
      Nýjasta íslenska útgáfan er Hins íslenska bókmenntafélags, í þýðingu Sverris Kristjánssonar með formála Páls Björnssonar: Karl Marx & Friedrich Engels, Kommúnistaávarpið (Reykjavík 2008).
    • 11
      Sama heimild, 176.
    • 12
       Deilurnar snérust um hvort samtök verkamanna ættu að mynda pólitísk samtök og beita sér á vettvangi ríkisvaldsins, eins og Karl Marx og fylgismenn hans vildu. Svipaðar deilur, um eðli ríkisvaldsins og pólitíska skipulagningu verkalýðsins, héldu áfram og mögnuðust, milli annars vegar marxista og hins vegar anarkista undir forystu hins rússneska Mikhail Bakúníns (1814-1876).12Sama heimild, 34-35; Marx, Karl & Friedrich Engels, Collected Works (MECW) 22 (London 1986), 416, 423-31.
    • 13
      Ross, Kristin, Communal Luxury: The Political Imagination of the Paris Commune (London 2015), Donny Gluckstein, The Paris Commune: A Revolution in Democracy (London 2006).
    • 14
      Gabriel, Mary, Love and Capital: Karl and Jenny Marx and the Birth of a  Revolution (New York & London 2011), 389-425.
    • 15
      Gotha-stefnuskráin: Das Gothaer Programm (1875). (17.07.2017)
    • 16
      Protokoll des Parteitages der Sozialdemokratischen Partei Deutschlands:  gehalten zu Erfurt vom 14. bis 20. Oktober 1891 [Minutes of the Party Congress of the Social Democratic Party of Germany: Held in Erfurt from October 14-October 20, 1891] (Berlin 1891), 3-6. Das Erfurter Programm (1891). (14.07.2017)
    • 17
      Lih, Lars T., Lenin Rediscovered. What is to Be Done in Context (Chicago  2008).
    • 18
    • 19
    • 20
      Broué, Pierre, The German Revolution 1917-1923 (Leiden 2005), 19-22; Larson, „The Rise and Fall of the Second International“.
    • 21
      Broué, The German Revolution,45, 47-48.
    • 22
      Dauvé, Gilles & Denis Authier, The Communist Left in Germany 1918-1921 (Collective Action Notes 2006), 57.
    • 23
      Mommsen, Hans, The Rise & Fall of the Weimar Democracy  (Frankfurt am Main 1989),  41.
    • 24
      Broué, The German Revolution, 58.
    • 25
      Sama heimild, 60-61, 71, Nettl, Peter, Rosa Luxemburg (Oxford 1966).
    • 26
      Sama heimild, 72-80, 83.
    • 27
      Sjá: Morgan, David W., The Socialist Left and the German Revolution: A  History of the German Independent Social Democratic Party, 1917-1922 (Ithaca 1975).
    • 28
      Dauvé & Authier, The Communist Left in Germany, 60.
    • 29
      Kotkin, Stephen, Stalin: Paradoxes of Power 1878-1928 (New York 2015), 167-8.
    • 30
      Hér skal bent á tvær nýlegar bækur um rússnesku byltinguna, sem báðar komu út á 100 ára afmæli hennar 2017: Miéville, China, October: The Story of the Russian Revolution (London 2017); Ali, Tariq, The Dilemmas of Lenin. Terrorism, War, Empire, Love, Revolution (New York 2017).
    • 31
      Skocpol, Theda, States and Social Revolutions (Cambridge 1979), 206-36.
    • 32
      Lih, Lars T., „The Lies We Tell About Lenin“, Jacobin 23. júlí 2014. https://www.jacobinmag.com/2014/07/the-lies-we-tell-about-lenin/.  (15.04.2017)
    • 33
      Lih, Lars T., „‘Letters from Afar’, Corrections from up Close: Censorship or  Retrofit?“. Links, International Journal of Socialist Renewalhttp://links.org.au/letter-from-afar-censorship-or-retrofit-lars-lih. (14.07.2017)
    • 34
      Losurdo, Domenico, War and Revolution. Rethinking the 20th Century (London 2015), 81.
    • 35
    • 36
      Corr, Kevin, „Lenin´s April These and the Russian Revolution“ International  Socialism. A Quarterly Review of Socialist Theory, 154. 
    • 37
      Saga Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna (Bolsjevíka). Ágrip samantekið af ritstjórnarnefnd KFRR (B) (Reykjavík 1944), 320.
    • 38
      Abendroth, A Short History of the European Working Class, 34-35. Marx &  Engels, MECW, 22, 3-225.
    • 39
      Hobsbawm, Öld öfganna, 399.
    • 40
      Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 41-49.
    • 41
      Skocpol, States and Social Revolutions, 221.
    • 42
      Lenin, V. I., „Speech in the Moscow Soviet of Workers´, Peasants´ and Red  Army Deputies“ https://www.marxists.org/archive/lenin/works/1918/apr/23.htm. (15.04.2017)   
    • 43
      Dauvé & Authier, The Communist Left in Germany, 66; Hoffrogge, Ralf, Working-Class Politics in the German Revolution: Richard Müller, the  Revolutionary Shop Stewards and the Origins of the Council Movement,  (Chicago 2016), 35-61.
    • 44
      Dauvé & Authier, The Communist Left in Germany, 66, 69.
    • 45
      Broué, The German Revolution, 93.
    • 46
      Sama heimild bls. 97, 100; Dauvé & Authier, The Communist Left in Germany, 68.
    • 47
      Broué, The German Revolution, 102, 104.
    • 48
      Eftirfarandi umfjöllun um þýsku byltinguna byggir mikið á Broué, The German Revolution.
    • 49
    • 50
      Hoffrogge, Working-Class Politics in the German Revolution, 61-79.
    • 51
      Broué, The German Revolution, 158
    • 52
      Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 25-50.
    • 53
      Broué, The German Revolution, 171, 174-175, 177; Dauvé & Authier, 69.
    • 54
      Nettl, Peter, Rosa Luxemburg (Oxford 1966).
    • 55
      Broué, The German Revolution, Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 35.
    • 56
      Nettl, Peter, Rosa Luxemburg (Oxford 1966), Gettinger, Klaus, The Murder of Rosa Luxemburg (London & New York 2019).
    • 57
      Mitchell, Allan, Revolution in Bavaria, 1918-1919: The Eisner Regime and the  Soviet Republic (Princeton 2016), 1965.
    • 58
      Harmann, Chris, The Lost Revolution: Germany 1918 to 1923 (London 1997), 95-123.
    • 59
      Barker, Elizabeth, Austria 1918-1972 (London & Basingstoke 1973); Carsten, F.L., Revolution in Central Europe, 1918-1919 (Berkeley & Los Angeles 1972).
    • 60
    • 61
      Söderhjelm, Henning, Det Røde Oprør i Finland Aar 1918 (Kjøbenhavn &  Kristiania 918).
    • 62
      Lee, J. J., Ireland 1912-1985 (Cambridge 1989), 1-55; Townshend, Charles,  Political Violence in Ireland: Government and Resistance Since 1848 (Oxford  1983), 277-321.
    • 63
      Sugar, Peter F., Péter Hanak, Tibor Frank (ritstj.), A History of Hungary (London 1990), 295-319.
    • 64
      Cahill, Liam. Forgotten Revolution: Limerick Soviet 1919 (Dublin 1990);  Kostick, Conor, “The Limerick Soviet 100 Years On
    • 65
      Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 46-50.
    • 66
      Sama heimild, 48.
    • 67
      Losurdo, War and Revolution, 103-116.
    • 68
      Balakrishnan, Gobal, „Counterstrike West.“ New Left Review 104, March-April 2017, 19-43.
    • 69
      Hobsbawm, Öld öfganna, 44.
    • 70
      Sama heimild, 108; Skocpol, States and Social Revolutions, 220-225.
    • 71
      Eric Hobsbawm bendir á að upphaf slíkra samfélagssáttmála megi rekja til  fyrstu ára 20. aldar. Hobsbawm, Age of Empire, 84-111
    • 72
      Mommsen, The Rise & Fall of the Weimar Democracy, 37-40.
    • 73
      Sama heimild, 46.
    • 74
      Hessler, Julie, A Social History of Soviet Trade (Princeton 2004), 1.
    • 75
      Patnaik, „The October Revolution and the Survival of Capitalism“.
    • 76
      Hobsbawm, Öld öfganna, 290.
    • 77
      Sama heimild, 288.
    • 78
      Hér skal bent á stutt en greinargott og óhlutdrægt yfirlit yfir rússnesku byltinguna og þróun sósíalismans í Sovétríkjunum: Sunkara, Bhaskar, „The Few Who Won: How Should We Understand the October Revolution and Its Tragic Aftermath?“, Jacobin, 2017, 27, 17-39.
    • 79
      Dauvé & Authier, The communist left in Germany, 87.
    • 80
      Sama heimild, 12.
    • 81
      Eric Hobsbawm rekur það sem hann telur ástæður þess að kommúnistar héldu velli í Rússlandi í Öld öfganna, 76.
    • 82
      Broué, The German Revolution 1917-1923, 216.
    • 83
    • 84
      Dauvé & Authier, The communist left in Germany 1918-1921, 57.
    • 85
      Gramsci, Antonio, Selections from the Prison Books (London 1982). 160. Um þróunina frá gamla samfélaginu til nútímasamfélags í Mið- og Austur-Evrópu til 1918 má fræðast í hinu mikla riti Curt Sørensen, Stat, nation, klasse. Socioøkonomisk udvikling, stats- og nationsbygning og udvikling af regimformer og massepolitik i Central- og Østeuropa samt Rusland (Kaupmannahöfn 2012).

Posted

in

by

Tags: