Af hverju stafar stéttskipting?

Fyrri hluti: Tristan da Cunha og jöfnuður í smáum samfélögum

Einhver afskekktasti staður á jörðinni er eldfjallaeyjan Tristan da Cunha  í Suður-Atlantshafi. Eyjan er um einn þúsundasti af stærð Íslands – 98 km2– og það sama gildir um íbúafjöldann – 250-300 manns. Fólk fór að setjast þarna að snemma á 19. öld, mest af evrópskum og blönduðum uppruna. Menningarhefðir Evrópu urðu ríkjandi og tungumálið varð enska. Tristan hefur aldrei verið formlega sjálfstætt samfélag og heyrir í dag undir Bretland, en einangrunin hefur þó leitt til þess að löngum hafa íbúarnir ráðið sér sjálfir án mikilla ytri afskipta. Enginn fulltrúi yfirvalda var búsettur á eyjunni fyrr en um miðja 20. öld.1Munch, Peter A, „Economic Development and Conflicting Values: A Social Experiment in Tristan da Cunha“, 1307, American Anthropologist, 1970, 72, 1300-1318. Í raun hafa íbúarnir verið sjálfráða að mestu og þróað samfélag sitt á eigin forsendum, sem gerir Tristan da Cunha að stórmerkri samfélagstilraun.

Í lok 19. aldar minnkaði skipaumferð til eyjarinnar til muna þegar Súezskurður var opnaður og seglskipum fækkaði. Eyjaskeggjar urðu þá að treysta á sjálfþurftarbúskap, bjarga sér sjálfir með þær auðlindir sem eyjan býður upp á. Eftir lok seinni heimstyrjaldar komu peningar og launavinna til sögunnar, en íbúarnir kærðu sig þó ekki um að gefa sjálfsþurftina upp á bátinn þar sem vinna var stopul og stangaðist á við hefðir þeirra og venjur. Og enn þráast þeir við að taka upp peningahagkerfi og launavinnu í stað sjálfsþurftarbúskapar.2Sama heimild, 1313-17; Munch, Peter A & Charles E. Marske, „Atomism and Social Integration“, Journal of Anthropological Research, 1981, 37 (2), 158-171

Á Tristan da Cunha er jafnaðarsamfélag í þeim skilningi að þar er sáralítill munur á efnahagslegri stöðu heimila. Samkvæmt norska félagsfræðingnum Peter A. Munch, sem rannsakaði samfélagið á Tristan frá 1937, er allt beitiland sameiginlegt þótt svo hafi ekki verið frá upphafi. Aftur á móti getur fólk rutt garða til ræktunar, einkum fyrir kartöflur, og hefur þá full yfirráð yfir þeim á meðan þeir eru í notkun.3Munch. Peter A, Sociology of Tristan Da Cunha (Oslo 1945), 264-5. Að auki vinnur fólk gjarna saman að verkefnum í smáum hópum. Um 1980 (og líklega enn) var obbinn af nautgripum eyjarinnar í eign og umsjá lítilla samvinnuhópa, og gat fólk auðveldlega tilheyrt fleiri en einum slíkum hópi.4Munch & Marske, „Atomism and Social Integration“, 166.

Á opinberri heimasíðu eyjarinnar má sjá að jafnaðarandinn ríkir enn og ef eitthvað er heldur styrkst með tímanum. Þar segir:

Allar fjölskyldur á Tristan eru bændur sem eiga sitt eigið búfé og annast kartöflugarða og húsagarða í kringum heimili sín sem voru reist af þeim sjálfum eða forfeðrum þeirra. Allt land er í sameiginlegri eigu og fjöldi búfjár er stranglega takmarkaður til að vernda beit og til að koma í veg fyrir að betur stæðar fjölskyldur geti safnað upp auði.5https://www.tristandc.com/economy.php (24.02.2017)

Svo virðist sem það sé orðin markviss stefna eyjaskeggja að hindra efnahagslegan ójöfnuð.

Þótt íbúarnir hafi þurft, eða fengið, að stjórna sér sjálfir fram á miðja 20. öld komu þeir sér ekki upp neinu formlegu stjórnkerfi; hvert heimili gat gert það sem því sýndist og vann með öðrum einstaklingum eða heimilum án nokkurrar þvingunar. Forysta var mjög óformleg og þá sjaldan einhver reyndi að upphefja sig og skapa sér áhrifastöðu var því mætt af fálæti og fyrirlitningu. Þetta stjórnleysi virðist hafa virkað vel og í stað formlegrar yfirstjórnar mótuðu eyjaskeggjar djúpa tilfinningu fyrir gagnkvæmri tillitssemi, velvilja og virðingu. Eftir einum þeirra er haft: „Það versta sem þú getur gert á Tristan er að vera óvingjarnlegur.“6Munch & Marske, „Atomism and Social Integration“, 165.

Hér ríkir því bæði jöfnuður og nær alger skortur á samfélagslegum stjórntækjum. Og annað er ekki síður merkilegt: þessi staða náðist án nokkurrar sérstakrar hugmyndafræði, þótt hún hafi kannski skotið upp kollinum nýlega (sbr. tilvísun í vefsíðu að ofan). Stærri samfélög nota venjulega hugmyndafræði á borð við trúarbrögð eða þjóðernishyggju til að ýta undir samkennd og hollustu við samfélagið sem hjálpar til við að undirbyggja sameiginlegar ákvarðanir. Íbúarnir á Tristan virðast hafa litla þörf fyrir slíka hugmyndafræði. Þess í stað treysta þeir á persónuleg tengsl, sem í þessu litla samfélagi duga vel sem félagslegt lím. Allir eru meira eða minna tengdir öllum öðrum en enginn telur sig skuldbundinn samfélaginu í heild.7Munch, „Economic Development and Conflicting Values“, 1302.

Samfélagið á Tristan er þannig frumeindasamfélag (atomistic) eins og það hefur verið kallað. Allir geta gert það sem þeim sýnist en það byggir ekki á samkeppni heldur samvinnu.8Munch & Marske, „Atomism and Social Integration“. Því kemur ekki á óvart að Tristan da Cunha hafi stundum verið lýst sem útópíu, enda hljómar þetta eins og samfélag þar sem flestum okkar gæti liðið vel. Samt er þetta ekki ríkt samfélag og hefur aldrei verið. Því eru það ekki efnisleg gæði sem heilla utanaðkomandi heldur jöfnuðurinn og sjálfstjórnin sem þarna virðist ríkja. Að ímynda sér Tristan sem útópíu segir e.t.v. meira um okkur en Tristan og hve mörg okkar þrá það sem skortir í vestrænum kapítalískum samfélögum.

Tristan er einstakt að því leyti að það er anarkískt jafnaðarsamfélag sem sprottið er úr evrópskri menningu. Aftur á móti eru flest lítil samfélög safnara og veiðimanna keimlík því sem gerist á Tristan. Þau einkennast af jöfnuði og hafa yfirleitt ekkert formlegt stjórnkerfi. Það merkilega við Tristan er að eftir þúsundir ára af kúgun og ójöfnuði gátu jafnvel Evrópumenn auðveldlega umbreytt samfélagi sínu í átt að jöfnuði og anarkískri samvinnu. Það eina sem þurfti var einangrun og fámenni. Það minnir okkur á að félagsleg lagskipting er tiltölulega nýtt fyrirbæri í sögu tegundar okkar. Fyrstu menn (af ættkvíslinni Homo) komu fram fyrir um 2 milljónum ára en lagskipting eins og við þekkjum hana er ekki eldri en 10.000 ára. Við virðumst hneigjast sálfræðilega að jöfnuði hvenær sem við getum.9Sjá t.d. Henrich, Joseph, The Secret of our Success: How Culture Is Driving Human Evolution, Domesticating Our Species, and Making Us Smarter (Princeton 2016/Kindle-útgáfa), kafli 11 Litlir sjálfsprottnir hópar fólks hafa yfirleitt þessa tilhneigingu, jafnvel þegar styrk forysta er nauðsynleg. Sjóræningjar á Karíbahafi í byrjun 18. aldar leystu þá mótsögn með því að fela skipstjóranum ótakmörkuð völd í orrustum en iðkuðu lýðræði öðrum stundum.10Sjá t.d. Land, Chris, „Flying the Black Flag: Revolt, Revolution and the Social Organization of Piracy in the Golden Age“ Management & Organizational History, 2007, 2 (2), 178-180 Félagsleg lagskipting verður þannig ekki til vegna þess að við höfum einhverja sálfræðilega þörf fyrir hana heldur þrátt fyrir okkar inngrónu jafnaðarhneigð.

Þessi hneigð er svolítið sérkennileg þegar við berum okkur saman við nánustu ættingja okkar meðal mannapa. Samfélög simpansa og górilla einkennast oftast af sterkri stöðu leiðtoga hópsins sem er jafnan karldýr og stjórnar hópnum með líkamlegum yfirburðum ellegar með því að gera bandalög við aðra einstaklinga. Þetta eru alls engir jafnaðarapar. Bonobo-apar (dvergsimpasar) eru merkilegt frávik. Þeirra hópum er stjórnað af bandalagi áhrifamikilla kvenapa og sýna mun minni lagskiptingu en górillur og simpansar. Svo virðist sem forfeður okkar og -mæður hafi á einhverjum tíma tekið hliðarspor líkt og bonobo-apar, svipað en þó ekki alveg eins. Jöfnuður kom í stað lagskiptingar. Þessi forsögulega bylting gæti einmitt verið ein helsta skýringin á velgengni tegundar okkar.

Mannfræðingurinn Christopher Boehm hefur sett fram athyglisverða kenningu um hvernig þetta gerðist.11Boehm, Christopher, Hierarchy in the Forest: The Evolution of Egalitarian Behaviour (Cambridge 1999). Hann telur að á einhverjum tímapunkti (óvíst hvenær) hafi hefðbundu stigveldi mannapa verið snúið á haus og úr orðið það sem hann kallar reverse dominance hierarchy: viðsnúin stigveldisdrottnun. Samkvæmt Boehm verður hún til þegar lægra settir einstaklingar hópsins taka höndum saman til að halda í skefjum og hafa stjórn á þeim sem vilja drottna. Þannig koma þeir í veg fyrir að slíkir uppskafningar taki völdin. Ráðríkir einstaklingar koma engu að síður fram og geta jafnvel náð nokkrum árangri í að hefja sig yfir aðra. En gangi þeir of langt er yfirleitt alltaf gripið til gagnaðgerða og þeir jafnvel drepnir ef annað dugir ekki.12Boehm Christopher, Moral Origins: The Evolution of Virtue, Altruism and Shame (New York 2012/ Kindle-útgáfa), kafli 2. Þannig er jöfnuði viðhaldið með stöðugri árvekni og inngripum gegn metnaðarfullu og eigingjörnu fólki. Þessi bylting gerði ekki aðeins jöfnuð að megineinkenni í litlum mannlegum samfélögum heldur varð líka grundvöllur að stóraukinni samvinnu innan þeirra. Hér skapaðist sú menningarlega venja að fólki beri ekki aðeins að hjálpa sér sjálft heldur einnig öðrum meðlimum hópsins. Þetta hegðunarmynstur virðist hafa síast inn í erfðamengi okkar því að hópar sem unnu vel saman höfðu meiri möguleika á að lifa af en þeir sem gerðu það ekki.13Sjá t.d. Wilson, David Sloan & Edward O. Wilson, „Rethinking the Theoretical Foundation of Sociobiology“, Quarterly Review of Biology,2007, 82 (4), 327-348; Sober, Elliot & David Sloan Wilson, Unto Others: The Evolution and Psychology of Unselfish Behaviour (Cambridge 1999). Almennt átti að koma eins fram við alla (þótt munur gæti verið eftir aldri og kyni) og þannig mótaðist tilfinning okkar fyrir félagslegu réttlæti, að hluta byggt á menningu og að hluta á erfðum.

Hvað sem okkur finnst um hugmyndir Boehms er ljóst að einhver umbylting átti sér stað og að við höfum mun sterkari tilfinningu fyrir réttlæti og jöfnuði en nánustu ættingjar okkar meðal mannapa. Samfélög okkar einkennast af mun meiri samvinnu. Að halda niðri ráðríkum einstaklingum og iðka samvinnu bætti ekki aðeins líf flestra meðlima hópsins og gerði þeim auðveldara að eignast afkomendur heldur varð samfélagið í heild sterkara og aðlögunarhæfara sem gerði okkur fær um að nema ný lönd allt frá frumskógum Afríku til heimskautasvæða.14Sjá t.d. Henrich, The Secret of our Success.

Þetta þýðir ekki að stigveldi sé með öllu „ónáttúrulegt“ mannfólki. Augljóslega eru enn tilhneigingar til stigveldis, en í smáum hópum er þeim haldið niðri með virkum inngripum sem rekja má bæði til erfða og menningar. Aftur á móti virðast slíkar aðferðir virka minna eftir því sem samfélögin verða stærri. Flest samfélög með innan við 300 meðlimi eru jafnaðarsamfélög, en hafi þau meira en 3.000 sjáum við oftast félagslega lagskiptingu af einhverju tagi. Þar á milli er bil óvissu þar sem brugðið getur til beggja vona. (Nánar um þetta hér að aftan og í síðari greininni).

Í marxískri hefð hefur oftast tíðkast að rekja uppruna stéttskiptingar til þess að möguleikar sköpuðust til umframframleiðslu þegar landbúnaður var fundinn upp fyrir rúmlega 10.000 árum. Þá hafi framleiðslugeta aukist svo að fólk fór að geta framleitt umfram brýnustu nauðþurftir og þannig skapaðist rúm til að nýta þessa framleiðslu til að búa til „yfirbyggingu“: yfirstétt, ríkisvald, hámenningu og yfirleitt allt það sem byggði á því að til var fólk sem ekki þurfti að framleiða til eigin lífsnauðsynja.15Sjá t.d. Childe, V. Gordon, Man Makes Himself (New York 1951)[1936], 71, 106-110.

Þessi mynd rímar þó heldur illa við ýmislegt sem komið hefur í ljós frá því Marx var og hét. Chayanov sýndi að bændur í sjálfsþurftarsamfélagi framleiða ekki eins mikið og þeir geta heldur eins mikið og þeir þurfa og í stað þess að halda áfram að framleiða eftir að þörfum er mætt, nýta þeir tímann til annars.16Chayanov, A.V., On the Theory of Peasant Economy (Homewood 1966) [1925]. Af því leiðir að umframframleiðsla verður ekki til af sjálfu sér. Einnig hefur komið í ljós að í upphafi landbúnaðar fylgdi yfirleitt verra næringarástand en ekki betra, líkamshæð minnkaði og skortsjúkdómar gerðu vart við sig.17Bowles, Samuel, „Cultivation of Cereals by the First Farmers Was Not More Productive than Foraging“, PNAS, 2011, 108 (12), 4760-65. Það bendir ekki til að landbúnaður hafi verið það framfaraskref sem margir hafa ímyndað sér heldur frekar viðbragð við þörfinni til að framfleyta fleira fólki; að mannfjölgun sé undirrótin sem kallaði á meiri matvælaframleiðslu fremur en að ný tækni hafi leyft meiri mannfjölgun.18Axel Kristinsson & Árni Daníel Júlíusson, „Adapting to Population Growth: The Evolutionary Alternative to Malthus“, Cliodynamics, 2016, 7 (1); sbr. Boserup, Ester, The Conditions of Agricultural Growth: The Economics of Agrarian Change Under Population Pressure (London 1993) [1965]. Og það stangast á við að framleiðslugeta hvers einstaklings hafi aukist með landbúnaði og þannig leyft myndun yfirstéttar. Einnig hefur komið í ljós að lagskipting getur myndast í veiðimannasamfélögum ef þau eru sérlega stór, eins og dæmi eru um frá vesturströnd Norður-Ameríku þar sem óvenjuleg laxagengd stuðlaði að samþjöppun fólks á litlu svæði.19Sjá t.d. Ames, Kenneth M., „The Northwest Coast: Complex Hunt- er-Gatherers, Ecology, and Social Evolution“, Annual Review of Anthropology, 1995, 23, 209-29. Í Suðaustur-Tyrklandi, á einu þeirra svæða þar sem landbúnaður kom fyrst fram, er orðið ljóst að merki um flókin samfélög, sem m.a. birtist í miklum mannvirkjum eða „hofum“ í Göbekli Tepe, komu fram fyrir tíma landbúnaðar. Þar snýst þróunarlínan sem sé við: landbúnaður fylgdi í kjölfar stærri og flóknari samfélaga en var ekki forsenda þeirra.20Axel Kristinsson & Árni Daníel Júlíusson, „Adapting to population growth“, 50-54. Við vitum líka núna að það tók landbúnaðarsamfélög Evrópu langan tíma að þróa merkjanlega lagskiptingu.21Sjá t.d. Bakker, Jan Albert, „Is Social Differentiation Detectable in the TRB Culture?” í Furholt, M., F Luth & J. Muller (ritstj.), Megaliths and Identities: Early Monuments and Neolithic Societies from the Atlantic to the Baltic (Bonn 2011), 261-272.

Framleiðsluhættir virðast þannig ekki vera eins ráðandi um samfélagsþróun og marxistar hafa gjarnan talið. Þessi mikla áhersla á efnahag sem undirstöðu samfélagsins hefur ekki aðeins einkennt marxisma heldur mikið af pólitískri hugmyndafræði samtímans og ekki síst nýfrjálshyggju í hinum enda litrófs stjórnmálanna. Skýringin liggur vafalaust í þeirri kapítalísku samfélagsgerð sem við höfum búið við um hríð. Í þessu samfélagi hafa efnahagsleg gæði verið mjög ríkjandi þegar kemur að hugmyndum um hvernig samfélagið eigi að virka, sem birtist skýrast í því trúaratriði um að markaðurinn eigi að stjórna öllu. Af því leiðir sú hugsun að lagskipting samfélaga hljóti líka að stjórnast mest af efnahagslögmálum og þannig hafi það alltaf verið. En það er ekki endilega svo.

Dæmið frá Tristan da Cunha sýnir einmitt að fólk upprunnið í lagskiptu samfélagi Evrópu getur, ef það svo vill, komið á fót samfélagi sjálfsþurftarbúskaps og jöfnuðar þrátt fyrir möguleika á umframframleiðslu. Framleiðsluhættir á Tristan gætu auðveldlega staðið undir lagskiptingu, en það hefur samt ekki gerst. Fyrir utan einangrunina, sem gerði eyjuna að þessari merkilegu tilraunastofu, er einkum tvennt óvenjulegt við Tristan: sjálfþurftarbúskapur og smæð samfélagsins. Er hægt að rekja jöfnuðinn til annars hvors? Sjálfsþurftarbúskapur er óvenjulegur í nútímanum en var almennur á fyrri tíð og getur alveg samræmst lagskiptingu. Má raunar rekja upphaf lagskiptingar til slíkra samfélaga enda hafa flest samfélög á sögulegum tímum einkennst bæði af sjálfsþurft og lagskiptingu. Það þýðir að sjálfsþurft getur ekki verið orsök jafnaðar og eftir stendur aðeins smæð samfélagsins sem sennileg skýring á jöfnuði á Tristan da Cunha. Þetta stemmir við það sem áður er sagt að samfélaginu er haldið saman með persónulegum tengslum; þau yrðu óhjákvæmilega óvirkari í stærra samfélagi þar sem meðlimir ekki þekkjast. Þar að auki er ljóst að jöfnuðurinn á Tristan er ekki bara afleiðing menningarlegra hefða því hefðirnar sem fólkið kom með frá Evrópu hefðu frekar átt að ýta undir ójöfnuð og lagskiptingu. Eignaréttur og erfðaréttur eru virtir í þessu samfélagi en duga ekki til að skapa ójöfnuð.

Kannski er það einkum tvennt sem hægt er að læra af Tristan da Cunha:

  1. Lítil samfélög hafa tilhneigingu til jafnaðar. Það þýðir ekki að allir hafi nákvæmlega það sama heldur að dreifing gæða fylgi normalkúrfu þar sem flestir eiga nálægt meðalagi. Venjulega er einhver mismunur en hann er ekki kerfislega magnaður upp (sjá nánar í síðari grein) heldur markvisst haldið í skefjum.
  2. Lítil samfélög virðast ekki þurfa skipulega hugmyndafræði til að ýta undir samvinnu og jöfnuð. Eðlislæg réttlætiskennd virðist duga.

Þrátt fyrir að stærri og flóknari samfélög hneigist stundum til jafnaðar og takist jafnvel að eyða stéttskiptingu meira eða minna þá virðast þau jafnan hverfa aftur til lagskiptingar með tímanum.22Axel Kristinsson, Expansions: Competition and Conquest in Europe Since the Bronze Age (Reykjavík 2010), 100-107 og víðar Aðeins lítil jafnaðarsamfélög hafa reynst stöðug í sögulegu ljósi. Það þýðir ekki endilega að stór og stöðug jafnaðarsamfélög séu útilokuð, en að minnsta kosti hefur ekki enn tekist að þróa aðferðir sem duga til að viðhalda þeim og virka eins vel og hinar óformlegu aðferðir í litlum samfélögum. Jöfnuður er okkur kannski eðlislægur en hann kemur ekki fyrirhafnarlaust heldur þarf að viðhalda honum með stöðugum inngripum þegar sérgóðir einstaklingar reyna að upphefja sjálfa sig. Þær aðferðir sem virka í litlum samfélögum virðast hætta að duga þegar samfélögin stækka. Hvernig skyldi standa á því?

Það segir sig sjálft að þéttleiki félagsnetsins minnkar þegar samfélagið stækkar. Í litlum hópum þekkjast allir, en eftir því sem hópurinn stækkar þekkir hver meðlimur sífellt minna hlutfall af heildarstærð hans. Við getum einfaldlega ekki viðhaldið virkum félagstengslum við ótakmarkaðan fjölda fólks. Félagsfræðingar hafa fyrir löngu áttað sig á þessu og er algengt að þeir tali um nokkur hundruð manns sem efri mörk.23Sjá t.d. Kadushin, Charles, Understanding Social Networks: Theories, Concepts and Findings (Oxford 2012), 70-72. Fólk er þó mjög misjafnt hvað þetta varðar, sumir virðast hafa næstum ótakmarkaða getu til að bæta við sig kunningjum á meðan aðrir eiga í vandræðum með að halda tengslum við nokkra tugi.

Mannfræðingurinn og þróunarsálfræðingurinn Robin Dunbar heldur því fram að geta heilabús okkar takmarkist að jafnaði við 150 félagstengsl eða svo.24Dunbar, R. I. M., „Neocortex Size as a Constraint on Group Size in Primates“, Journal of Human Evolution, 1992, 20, 469-493. Þetta er nú þekkt sem Dunbartalan og hefur hlotið mikinn hljómgrunn þótt aðrir hneigist að hærri tölu.25Sjá: Kadushin, Understanding Social Networks, 70-72, 108-134. Mismunandi sjónarmið virðast mikið til snúast um ólíkan skilning á því hvað felst í virkum félagstengslum og auðvitað eru þrep í skalanum frá nánum vinum og fjölskyldu til lauslegra kunningja eða fólks sem við þekktum í barnaskóla en höfum ekki hitt síðan. Hér skiptir þó ekki öllu hvaða tölu við notum; mikilvægast er að átta sig á að það eru takmörk fyrir því hve marga við getum þekkt og umgengist og það bendir til að eðlisbreyting verði á félagsneti samfélagsins þegar það stækkar.

Gary M. Feinman hefur dregið af þessari takmörkun þá rökréttu ályktun að stærð hópa sé mikilvægur þáttur í myndun stigveldis og ójöfnuðar, ekki vegna mikilla eða lítilla auðlinda eða fólksfjöldaþrýstings, eins og sumir telja, heldur vegna þess að fleiri einstaklingar leiða af sér eðlisbreytingu á félagsneti samfélagsins.26Feinman, Gary M., „The Emergence of Inequality: A Focus on Strategies and Processes“, 257-9, í Price, T. Douglas & Gary M. Feinman (ritstj.), Foundations of Social Inequality (New York 1995), 255-79. Þrátt fyrir það virðist ekki vera fastur þröskuldur þar sem jöfnuður breytist í stigveldi. Efri mörk gætu þó verið nálægt 2.500 manns (± 500) en ofan þeirra eru jafnaðarsamfélög mjög sjaldgæf. Neðan þeirra finnum við ýmis samfélagsform þótt smæstu samfélögin einkennist jafnan af jöfnuði þannig að þá hljóta einnig að vera neðri mörk á þessu óvissubili.27Sama heimild, 260-61. Hvort samfélögin innan óvissusvæðisins hneigjast til einfalds skipulags og jafnaðar eða til meira stigveldis og flækjustigs virðist ráðast af menningarlegum hefðum fremur en framleiðsluháttum. Sumar ýta undir lagskiptingu á meðan aðrar vinna gegn henni.

Í grein frá 2011 prjónar Feinman við þessar hugmyndir og bendir á að fyrri fræðimenn hafi haft tilhneigingu til að setja þröskulda aukins flækjustigs í skipulagi samfélaga annað hvort við 150-200 manns (t.d. Dunbar) eða nálægt 2.000-3.000 manns (t.d. Carneiro og Johnson).28Feinman, Gary M., „Size, Complexity, and Organizational Variation: A Comparative Approach“, Cross-Cultural Research 2011, 45 (1), 38-41. Hann komst einnig að því að í gagnasafni hans yfir mannleg samfélög var í mesta lagi eitt stjórnsýslustig (administrative level) í samfélögum með innan við 3.500 manns og það gildi um öll samfélög með meira en 500 manns. Ef fólk er færra en 350 er ekkert stjórnsýslustig en sé það fleira en 3.500 (næsta dæmi hans var 6.250) eru alltaf tvö stig eða fleiri.29Sama heimild, 40 (Tafla 2). Feinman er hér að vísu ekki að tala um félagslega lagskiptingu en þó má ætla að milli hennar og stjórnsýslu séu náin tengsl. Þetta bendir því til óvissubils þar sem lagskipting samfélaga getur brugðið til beggja vona. Sem tilgátu að þumalputtareglu getum við sett það á milli 300-3.000 manns án þess að ímynda okkur að þessar tölur séu ýkja nákvæmar. Neðan þessa bils virðast samfélög alltaf einkennast af jöfnuði en ofan þess oftast af ójöfnuði þótt tímabundin frávik þekkist. Þarna á milli er yfirleitt eitthvert formlegt skipulag en ekki endilega ójöfnuður þótt það geti brugðið til beggja vona.

Þótt við áttum okkur á þessum mörkum er ekki þar með sagt að við höfum skýrt þau. Við vitum að lítil samfélög eru ávallt jafnaðarsamfélög en stór oftast lagskipt en á milli er óvissubil. En það leiðir okkur ekki sjálfkrafa að skýringu. Þó virðist líklegt að Dunbartalan eða gisnun félagsnets skipti máli í þessu sambandi.

Hér komum við að grein frá 2013 eftir R. J. Thomas og N. P. Mark.30Thomas, Reuben J. & Noah P. Mark, „Population Size, Network Density, and the Emergence of Inherited Inequality“, Social Forces, 2013, 92 (2), 521-44. Þeir telja, eins og ýmsir aðrir, að stærð samfélaga sé lykilatriði í tilurð ójöfnuðar, en grein þeirra fjallar um hvernig arfgengur ójöfnuður kemur fram, en hann er nauðsynlegur til að skýra ójöfnuð sem safnast saman og hleðst upp milli kynslóða. Orsakasamhengið sem þeir leggja til er svona:

  1. Þegar samfélög stækka verður félagsnetið gisnara. Fleira og fleira fólk hefur engin bein tengsl sín á milli. Þannig verða til „gerðargöt“ (structural holes) í félagsnetinu.
  2. Gerðargöt þýða að staða fólks innan félagsnetsins fer í vaxandi mæli að ákvarða virðingu þess. Þegar ekki gildir lengur að allir þekki alla fer að skipta máli hverja þú þekkir. Þá getum við sagt að félagstengsl verði að „takmörkuðum verðmætum“ (nánar um það í næstu grein).
  3. Ef staða barna innan félagsnetsins endurspeglar stöðu foreldra má búast við að virðing fari að erfast í einhverjum mæli. Börn tengjast í upphafi félagsnetinu gegnum foreldra sína og koma síðan til með að þekkja flesta þá sem foreldrarnir þekkja. Með því erfa börn stöðu foreldra innan félagsnetsins.31Sama heimild, 526.

Fyrsta og síðasta skrefið virðast ekki umdeild þannig að Thomas og Mark einbeita sér að lið 2 og leggja fram tölvulíkan sem á að sýna hvernig þetta getur virkað í raun. Niðurstaða þeirra er að eftir því sem samfélög stækka og netið verður gisnara verður sífellt meiri munur á stöðu fólks innan netsins og sú staða fer að skipta meira máli en persónulegir eiginleikar þegar kemur að því að ákvarða virðingu fólks. Þegar staða fólks innan félagsnetsins verður arfgeng er því líklegt að virðing fólks verði líka arfgeng.32Sama heimild, 537-8. Þetta er mikilvæg niðurstaða af því hún rekur upphaf lagskiptingar ekki til framleiðsluhátta, hagkerfis eða valdakerfis heldur til félagsnetsins sjálfs. Félagsnetið, sem í smærri samfélögum á borð vil Tristan da Cunha er notað til að halda lagskiptingu í skefjum, verður þannig sjálft uppspretta ójöfnuðar þegar það nær vissri stærð og fer að gisna.

Við getum nú dregið upp heildarmynd af því hvernig lítil samfélög viðhalda jöfnuði en hætta að gera það þegar þau stækka. Í samfélögum með innan við 300 manns eða svo er samvinna frjáls og persónuleg: tveir eða fleiri ákveða að vinna saman en hópurinn í heild á sjaldan hlut að máli og þátttaka er ekki skylda. Persónuleg félagstengsl binda samfélagið saman í eina heild án þess að þörf sé á formlegu skipulagi eða hugmyndafræði. Munch og Marske orða það svo fyrir Tristan da Cunha: „Þessi einstaklingsbundnu bandalög leiða yfirleitt ekki af sér lokaðar klíkur. Eins og ættartengslin sem þau byggjast á að mestu leyti dreifast þau um samfélagið fremur en að þjappast í kringum fáa útvalda einstaklinga.“33Thomas & Mark, „Population Size, Network Density, and the Emergence of inherited Inequality“, Social Forces, 2013, 92(2), 521-44.,538.

Þegar samfélagið stækkar og félagsnetið gisnar þá breytist þetta. Gerðargötin valda því að fleiri og fleiri hafa engin bein tengsl sín á milli og það opnar fyrir klíkumyndun. Reglurnar breytast og félagsnetið sem áður virkaði til að halda lagskiptingu í skefjum fer að verða uppspretta ójöfnuðar. Nú skiptir meira máli hverja þú þekkir en hvaða eiginleikum þú býrð yfir, og virðing erfist af því börn þekkja oftast það fólk sem foreldarnir þekkja.34Wilson, David Sloan, Darwin’s Cathedral: Evolution, Religion, and the Nature of Society (Chicago 2002).

Þetta eru sennilega fyrstu fræ ójöfnuðar í heimssögulegu samhengi, en gisnara félagsnet kallar einnig á ný menningarleg tæki til að efla samstöðu innan hópsins þrátt fyrir að meðlimir hans hafi ekki bein tengsl sín á milli. Meðal þessara tækja er einhvers konar hugmyndafræði þar sem lögð er áhersla á hollustu við hópinn fremur en einstaklinga innan hans. Í eldri samfélögum tekur hún gjarnan á sig mynd trúarbragða.35Sahlins, Marshall D., „Poor man, Rich man Big Man, Chief: Political Types in Melanesia and Polynesia“, Comparative Studies in Society and History, 1963, 5 (3), 285-303. Þeir leiðtogar sem gerðargötin skapa geta þá nýtt sér sameiginlegar stofnanir samfélagsins, trúarlegar eða pólitískar, til að efla frekar áhrif sín og völd. Miðað við þessa framvindu, má ætla að þegar ójöfnuður þróast í upphafi komi hann fyrst fram í félagstengslum, síðan í virðingu og völdum en efnahagslegur ójöfnuður reki lestina (sjá nánar í síðari grein).

Hópar á óvissubilinu milli 300 og 3.000 manns virðast geta viðhaldið jöfnuði eða þróað mismikinn ójöfnuð, sem sennilega byggist á menningarlegum tækjum er annað hvort hindra eða ýta undir myndun hans. Samfélög á þessu bili einkennast oft af svokölluðum „stórmennum“ (Big Men), leiðtogum sem hafa ekki formleg völd heldur leiða í krafti virðingar. Staða þeirra er persónuleg og erfist ekki, a.m.k. ekki formlega, en tilvist þeirra getur þó verið merki um að lagskipting sé að þróast.

Samfélög sem einhvern tíma hafa gengið í gegnum tímabil ójafnaðar hafa yfirleitt ýmis menningarleg tæki, eins og einkaeignarrétt og erfðarétt, sem ýta undir ójöfnuð. Hverfi þau, af einhverjum ástæðum, aftur til jafnaðar, er tilhneiging til nýrrar lagskiptingar því alltaf fyrir hendi.

Í síðari grein verður fjallað um hvernig lagskipting verður til í stærri samfélögum.

Heimildir og tilvísanir

  • 1
    Munch, Peter A, „Economic Development and Conflicting Values: A Social Experiment in Tristan da Cunha“, 1307, American Anthropologist, 1970, 72, 1300-1318.
  • 2
    Sama heimild, 1313-17; Munch, Peter A & Charles E. Marske, „Atomism and Social Integration“, Journal of Anthropological Research, 1981, 37 (2), 158-171
  • 3
    Munch. Peter A, Sociology of Tristan Da Cunha (Oslo 1945), 264-5.
  • 4
    Munch & Marske, „Atomism and Social Integration“, 166.
  • 5
    https://www.tristandc.com/economy.php (24.02.2017)
  • 6
    Munch & Marske, „Atomism and Social Integration“, 165.
  • 7
    Munch, „Economic Development and Conflicting Values“, 1302.
  • 8
    Munch & Marske, „Atomism and Social Integration“.
  • 9
    Sjá t.d. Henrich, Joseph, The Secret of our Success: How Culture Is Driving Human Evolution, Domesticating Our Species, and Making Us Smarter (Princeton 2016/Kindle-útgáfa), kafli 11
  • 10
    Sjá t.d. Land, Chris, „Flying the Black Flag: Revolt, Revolution and the Social Organization of Piracy in the Golden Age“ Management & Organizational History, 2007, 2 (2), 178-180
  • 11
    Boehm, Christopher, Hierarchy in the Forest: The Evolution of Egalitarian Behaviour (Cambridge 1999).
  • 12
    Boehm Christopher, Moral Origins: The Evolution of Virtue, Altruism and Shame (New York 2012/ Kindle-útgáfa), kafli 2.
  • 13
    Sjá t.d. Wilson, David Sloan & Edward O. Wilson, „Rethinking the Theoretical Foundation of Sociobiology“, Quarterly Review of Biology,2007, 82 (4), 327-348; Sober, Elliot & David Sloan Wilson, Unto Others: The Evolution and Psychology of Unselfish Behaviour (Cambridge 1999).
  • 14
    Sjá t.d. Henrich, The Secret of our Success.
  • 15
    Sjá t.d. Childe, V. Gordon, Man Makes Himself (New York 1951)[1936], 71, 106-110.
  • 16
    Chayanov, A.V., On the Theory of Peasant Economy (Homewood 1966) [1925].
  • 17
    Bowles, Samuel, „Cultivation of Cereals by the First Farmers Was Not More Productive than Foraging“, PNAS, 2011, 108 (12), 4760-65.
  • 18
    Axel Kristinsson & Árni Daníel Júlíusson, „Adapting to Population Growth: The Evolutionary Alternative to Malthus“, Cliodynamics, 2016, 7 (1); sbr. Boserup, Ester, The Conditions of Agricultural Growth: The Economics of Agrarian Change Under Population Pressure (London 1993) [1965].
  • 19
    Sjá t.d. Ames, Kenneth M., „The Northwest Coast: Complex Hunt- er-Gatherers, Ecology, and Social Evolution“, Annual Review of Anthropology, 1995, 23, 209-29.
  • 20
    Axel Kristinsson & Árni Daníel Júlíusson, „Adapting to population growth“, 50-54.
  • 21
    Sjá t.d. Bakker, Jan Albert, „Is Social Differentiation Detectable in the TRB Culture?” í Furholt, M., F Luth & J. Muller (ritstj.), Megaliths and Identities: Early Monuments and Neolithic Societies from the Atlantic to the Baltic (Bonn 2011), 261-272.
  • 22
    Axel Kristinsson, Expansions: Competition and Conquest in Europe Since the Bronze Age (Reykjavík 2010), 100-107 og víðar
  • 23
    Sjá t.d. Kadushin, Charles, Understanding Social Networks: Theories, Concepts and Findings (Oxford 2012), 70-72.
  • 24
    Dunbar, R. I. M., „Neocortex Size as a Constraint on Group Size in Primates“, Journal of Human Evolution, 1992, 20, 469-493.
  • 25
    Sjá: Kadushin, Understanding Social Networks, 70-72, 108-134.
  • 26
    Feinman, Gary M., „The Emergence of Inequality: A Focus on Strategies and Processes“, 257-9, í Price, T. Douglas & Gary M. Feinman (ritstj.), Foundations of Social Inequality (New York 1995), 255-79.
  • 27
    Sama heimild, 260-61.
  • 28
    Feinman, Gary M., „Size, Complexity, and Organizational Variation: A Comparative Approach“, Cross-Cultural Research 2011, 45 (1), 38-41.
  • 29
    Sama heimild, 40 (Tafla 2).
  • 30
    Thomas, Reuben J. & Noah P. Mark, „Population Size, Network Density, and the Emergence of Inherited Inequality“, Social Forces, 2013, 92 (2), 521-44.
  • 31
    Sama heimild, 526.
  • 32
    Sama heimild, 537-8.
  • 33
    Thomas & Mark, „Population Size, Network Density, and the Emergence of inherited Inequality“, Social Forces, 2013, 92(2), 521-44.,538.
  • 34
    Wilson, David Sloan, Darwin’s Cathedral: Evolution, Religion, and the Nature of Society (Chicago 2002).
  • 35
    Sahlins, Marshall D., „Poor man, Rich man Big Man, Chief: Political Types in Melanesia and Polynesia“, Comparative Studies in Society and History, 1963, 5 (3), 285-303.

Posted

in

by

Tags: