Efnisyfirlit
- Riddarinn ungi
- Oxford og Settið
- Krossförin hefst
- Englands ásigkomulag
- Hin þríhöfða þurs
- Miðaldahyggja
- Thomas Carlyle
- Trú og fátækramál
- Tractarians og puseyítar
- Gotneskan
- Augustine Pugin og Contrasts
- John Ruskin
- PRB
- Dante Gabriel Rossetti
- Bloomsbury
- Herförin káta
- Janey og Rauða húsið
- Firmað
- Merton Abbey
- Kelmscott Press
- „Óendanleg melódía línunnar“
- Gotneskunnar náttúra
- Arftakar
- Bauhaus
- Hugsýn handverksins
- Niðurlag
- Heimildir og tilvísanir
Fyrsti hluti: Krossför gegn samtímanum
Ásamt óþrjótandi þrá til þess að skapa fallega hluti, hefur helsta ástríða lífs míns alltaf verið, og er enn, fullkomin andstyggð á nútíma siðmenningu
William Morris1Morris, William, „How I Became a Socialist“, 244, í Morris, William, Political Writings of William Morris (New York & Berlin 1973), 241-6. Ritstjóri: A. L. Morton.
Ég álít Morris einn þann allra merkasta mann –og þann óvenjulegasta– sem ég hefi kynnst. Hann var listamaður, ljóðskáld, rómantíker, fornfræðingur, málamaður, þýðandi, kennari, prentari, kaupmaður, sósíalisti; og þar að auki, að kynnast og tala við, alveg einstakur persónuleiki.
William Michael Rossetti2Rossetti, William Michael, Some Reminiscences, Vol. 1 (London 1906), 214.
Hann var líka skáld. Á yngri árum orti hann ljóð og var gífurlega afkastamikill. Það var á því sviði sem hann fyrst vakti athygli landa sinna. Á efri árum samdi hann mest sögur í ævintýrastíl sem gerast á óræðum miðöldum og líkjast um margt sögum Tolkiens. Hann samdi einnig hina merkustu útópísku skáldsögu, News from Nowhere.
Hann var í þriðja lagi „Íslandsvinur“, lagði „ungr ást við Ingólfs fóstru“ eins og Matthías Jochumsson kvað.3Í ljóðinu, „Vilhjálmur Morris“. Ljóðið er að finna í Matthías Jochumsson, Ljóðmæli – fyrri hluti: frumort ljóð (Reykjavík 1956), 567-71; einnig í Eimreiðinni, 1923, 29 (5-6), 257-61. Hann fór tvisvar um Ísland, lærði og talaði íslensku, og, í samvinnu við Eirík Magnússon, þýddi mikið af íslenskum fornbókmenntum yfir á enska tungu og kostaði sjálfur útgáfu þeirra. Oftar en einu sinni var hann Íslendingum hjálparhella á harðindatímum.
Síðast en ekki síst var hann jafnaðarmaður, „rammr sósíalisti og var enskum sósíalistum ekki lítill styrkr af honum“, eins og Fjallkonan sagði.4Fjallkonan, 28.10.1896, 171. Sósíalismi Morrisar er sósíalismi valddreifingar, beins þátttökulýðræðis og náttúruverndar, ekki miðstýringar, skrifræðis, hagvaxtar- og tækniblætis. Þess vegna höfðar hann til nýrrar kynslóðar sósíalista, þeirra sem hafna bæði kapítalisma og sósíalískum módelum 20 aldar. Þetta er sá sósíalismi sem heimurinn hefur aldrei þarfnast meir en einmitt núna.
Sá greinaflokkur sem hér hefst fjallar um þetta margbrotna lífsstarf og hina fjölbreyttu arfleifð Williams Morris. Í þessari fyrstu grein er farið yfir ungdómsár Morrisar, sem og starf hans og lífsreglur á sviði handverks og hönnunar. Áherslan er ekki á hina faglegu eða tæknilegu hlið handverks hans og listar, frekar á þá lífsfílósófíu sem lá til grundvallar. Í næstu grein verður fjallað um Morris sem skáld og tengsl hans við Ísland. Í tilfelli Morrisar eru þessi tvö svið nátengd. Morris bæði þýddi íslenskar fornbókmenntir og sótti þangað efnivið í ljóð sín og sögur. Í þriðju grein er fjallað um pólitískt starf Morrisar. Á hans yngri árum tengdist það mest friðarstefnu á alþjóðavettvangi og húsafriðun heima fyrir. Líkt og áður segir, gerðist hann svo eindreginn og baráttuglaður sósíalisti. Í fjórðu og síðustu grein verður svo farið í saumana á hans sósíalísku lífssýn eins og hún birtist í skrifum hans, sérstaklega skáldsögunni News from Nowhere. Með hverri grein fylgir item önnur grein, eftir Morris sjálfan, þýdd á íslensku. Í þessu hefti er það greinin „Þarft verk og þarflaust streð“.
Nálgunin er því þematísk frekar en krónólógísk. Ekki er um að ræða drög að ævisögu þar sem atvik í lífi Morrisar eru tíunduð af nákvæmi. Áherslan er frekar á þau þemu sem Morris og hans samtímamenn tókust á við, þemu á sviði menningar, lista, stjórnmála og heimspeki lífsins. Stór hluti þessarar greinar fjallar til dæmis um þá helstu menningarstrauma og einstaklinga sem höfðu áhrif á Morris og mótuðu lífssýn hans fram eftir aldri. Hvað varðar menningarstrauma eru þetta miðaldahyggjan, puseyisminn, gotneska endurreisnin og for-rafaelítisminn. Hvað varðar einstaklinga eru það Thomas Carlyle, John Ruskin, Dante Gabriel Rossetti og, með óbeinum hætti, Friedrich Schiller.
Riddarinn ungi
William Morris5Fjöldi ævisagna Morrisar hafa komið út í gegnum tíðina. Hér skal aðeins bent á þær bitastæðustu: Henderson, Philip, William Morris, His Life, Work and Friends (London 1967); MacCarthy, Fiona, William Morris: A Life for Our Time (London 1994); Anarchy and Beauty: William Morris and His Legacy (London 2014); MacKail, J. W., The Life of William Morris, Vol. 1-2 (London, New York & Bombay 1899); Thompson, E. P., William Morris, Romantic to Revolutionary (London 1955). Töluvert hefur verið skrifað um Morris á íslensku, mest í formi blaða- og tímaritsgreina. Þeim skrifum verða gerð skil í næstu grein í tengslum við afskipti Morrisar af Íslandi og íslenskri menningu. fæddist þar sem heitir Walthamstow í London þann 24. mars 1834. Þremur árum síðar settist Alexandría Viktoría í hásæti Hins sameinaða konungsdæmis Stóra Bretlands og Írlands, og sat þar samfellt í tæp 63 ár. Í breskri sögu kallast sá tími, frá 1837 til 1901, Viktoríutíminn og þeir íbúar Bretlands (en ekki Írlands) sem þá voru uppi Viktoríufólk eða Viktoríumenn (Victorians). Matthías Jochumsson kallaði Bretland þessa tíma “Sigrúnar Sefjafjöll”.6Matthías Jochumsson, „Vilhjálmur Morris“. William Morris var á þann hátt Viktoríumaður frá þriggja ára aldri til æviloka. Ekki svo að skilja að það hafi skipt hann einhverju máli eða að hann hafi litið á sig sem slíkan. Honum var hvort eð er meinilla við kóngafólk, ekki síst umrædda Viktoríu.7MacCarthy, William Morris, 409 Hugtakið sjálft kom fram í kringum 1850. Asa Briggs segir það fyrst hafa birst á prenti árið 18528Briggs, Asa, The Age of Improvement 1783-1867 (London & New York 1959), 446., þegar Breska heimsveldið var kallað Samveldi Viktoríu (The Victorian Commonwealth) og sagt vera „sú dýrlegasta sýn er við blasir á yfirborði jarðar“.9Hood, Edwin Paxton, The Age and Its Architect: Ten Chapters on the English People (London 1852), 73. William Morris var örugglega ósammála.
William var sonur þeirra Williams Morris eldri og hans ektakvinnu Emmu sem var að upplagi Shelton. Þau hjón áttu alls tíu börn, þar af átta sem komust á legg. Var William elstur þeirra drengja sem það gerði. Faðirinn var auðugur fjárfestir sem græddi heil býsn á koparnámum í Devon. Fyrirtækið hét Devon Great Consols. Fjölskyldan var því vellauðug. Þegar William yngri var sex ára flutti hún í hið glæsilega stórhýsi Woodward Hall norður af London í jaðri Eppingskógar, sem nú skarast reyndar við borgina sjálfa.
Þetta var svo sem ekkert menningarheimili. Faðirinn hugsaði mest um peninga og móðirin um Guð, algeng verkaskipting á yfirstéttarheimilum Viktoríutímans. Það kom í hlut sonarins að hugsa um menningarmál og iðka bókvit. Hann varð snemma hinn mesti lestrarhestur, rómantískur og með sérstaka hneigð til miðalda. Sú hneigð fylgdi honum alla ævi. Að eigin sögn hafði hann þegar á áttunda ári lesið allar bækur Walters Scott.10MacCarthy, William Morris (London 1994), 5. Bara skáldsögurnar, smásagnasöfnin og leikritin eru 32 að tölu. Þá eru ótalin ljóðasöfn, þjóðlegur fróðleikur og ritgerðir. Honum var gefinn riddarabúningur og svo reið hann í öllum herklæðum á smáhesti sínum inn í Eppingskóg.
Þegar William var fjórtán ára andaðist faðir hans og kom þá í ljós ýmis óreiða á fjármálum hins látna. Fjölskyldan reyndist stórskuldug og varð að flytja frá Woodward Hall í aðeins ófínna húsnæði í miðborg London. Hún var þó varla á vonarvöl og taldist enn til burgeisa.
Níu ára var William sendur í Misses Arundale´s Academy for Young Gentlemen og þaðan fjórtán ára í heimavist í Marlborough College, einn þessara snobbuðu ensku einkaskóla sem samt eru kallaðar public schools, og virka sem kerfi fyrir sjálfvalda leiðtoga landsins, framleiðandi eins og á færibandi „foringja herja, leiðtoga stjórnmálaflokka, forstjóra fjölþjóðlegra auðhringja og fyrirliða krikket-klúbba“, sem útskrifast með „útblásið egó, óbilandi sjálfstraust og óseðjandi framafíkn.“11Verkaik, Robert, Posh Boys: How the English Public Schools Run Britain (London 2018), 270. Á skrá yfir þekkta fyrrum nemendur Marlborough-skólans er fjöldinn allur af þingmönnum og ráðherrum Íhaldsflokksins og aragrúi krikket-spilara. En líka normal fólk inn á milli. Eða eins og Morris sagði, þetta eru skólar sem kenna „sonum ríkra manna að vita ekki neitt“.12Vitnað í MacCarthy, William Morris, 35. Frá 1968 hefur skólinn líka tekið við dætrum hinna ríku. Ein heimavist stúlknanna heitir eftir Morris. Sjálfur sagðist hann þarna hafa lært nánast ekkert, „því nánast ekkert var kennt“.13Vitnað í MacCarthy, Anarchy & Beauty, 11. Hann sagði líka, á gamals aldri og þá orðinn marxískur kommúnisti: „Ég fór í skóla í Marlborough þar sem þröngsýnir klerkar réðu ríkjum, og auðvitað snérist ég gegn þeim. Hefðu þetta verið framsýnir menn hefði ég örugglega orðið íhaldsdurgur, bara til að vera á móti þeim. Maður andæfir auðvitað þeim sem ráða.“14Vitnað í MacCarty, William Morris, 34. Kannski var það þess vegna sem annar nemandi skólans, listfræðingurinn Anthony Blunt, njósnaði fyrir Sovétríkin um miðja síðustu öld.
Oxford og Settið
Átján ára hóf William nám í Oxford eins og stéttarstaða hans bauð, innskrifaðist í Exeter College og skyldi læra til prests. MacKail, einn fyrsti ævisöguritari Morrisar, segir að á þessum tíma hafi obbinn af stúdentum Exeter College skipst í tvo flokka: „Annars vegar voru lestrarhestar, á kafi í klassískum fræðum og staglkenndri guðfræði; hinir stunduðu mest róður, veiðar, át og drykkju“.15MacKail, The Life of William Morris, Vol. 1, 33.
En það voru alla vega fimm stúdentar sem pössuðu í hvorugan hópinn og mynduðu sinn eiginn flokk, sem þeir kölluðu „Settið“ (the Set). Þetta var klíka menningarvita sem stúderuðu bókmenntir allra alda, handlistir og arkitektúr, og ortu raunarleg ljóð. Auk Morrisar mynduðu Settið þeir William Fulford (1831-1897), Richard Watson Dixon (1833-1900), Charles Faulkner (1833-1892) og Edward Burne-Jones (1833-1898). Náin og ævilöng vinátta tókst með Morris og þeim tveim síðastnefndu.
Í Settinu var Edward Burne-Jones kallaður Ted, og Morris nefndur Topsy, sem loddi við hann það sem eftir var ævinnar. Sökum rauðs og óstýriláts hárlubbans þótti hann minna á samnefnda persónu í Kofa Tómasar frænda eftir Harriet Beecher Stove. Á stúdentsárunum var Morris enn grannur og spengilegur, en varð snemma upp úr því nokkuð feitlaginn og skartaði auk þess úfnu skeggi og ofangreindum hárlubba. Þótt ekki væri hann hávaxinn var hann því mikill á velli og hafði stóra nærveru. Hann minnti William Butler Yeats, þjóðskáld Íra, á þrekinn og lífsreyndan skipstjóra með „alvarleg augu, opin upp á gátt, eins og augu einhverjar dreymnar skepnu“.16Yeats, William Butler, Autobiographies (New York 1999), 131-2. Meðal þeirra Íslendinga sem kynntust Morris persónulega var Jón Stefánsson. Í minningargrein í Eimreiðinni sagði Jón að Morris hefði líkst „íslenzkum bónda ásýndum, þrekinn maður og rekinn saman, rauðbirkinn á hár og skegg, bláeygur og fasteygur“ og að þeim „sem þekktu hann bezt, þótti mest til hans koma, en sumum útífrá þótti hann vera nokkuð hrossabrestslegur“.17Jón Stefánsson, „William Morris (1834-1896)“, 126, Eimreiðin, 1897, 3 (2), 124-6.
Morris var sem sagt mikill á velli og nokkuð sérstakur í útliti og hegðun. Það var einmitt í Oxford sem fyrst fór að bera á stórfurðulegum æðisköstum Williams sem á hann runnu öðru hvoru það sem eftir var ævinnar þegar hann var undir andlegu álagi. „Í þessum köstum var hann sagður öðlast ofurmannlega krafta: barði höfuðið í vegginn svo fast að djúp dæld kom á múrverkið, hann nánast beit í sundur gluggakarma úr tré, og lyfti upp þungum hlössum með tönnunum einum.“18MacCarthy, William Morris, 77.
Allir meðlimir Settsins nema Faulkner áttu að verða prestar; sem Fulford og Dixon og gerðu, auk þess að verða skáld allgóð. Morris og Burne-Jones snérist hins vegar hugur í þessum efnum og hétu hvor öðrum að helga líf sitt listagyðjunni frekar en himnaföður. Jafnframt sóru þeir að segja andleysi og ljótleika samtímans stríð á hendur. Þetta heit strengdu þeir sumarið 1855, þegar þeir áttu eitt ár eftir í námi. Þeir voru þá, ásamt Fulford, á þriggja vikna ferðalagi um norðurhluta Frakklands, stúderandi myndlist og gotneskar byggingar, þeirra á meðal dómkirkjurnar í Beauvais, Chartres og Rouen, sem þeim fannst fegurri en orð fái lýst. Þeir höfðu lengi haft illan bifur á kirkju Anglíkana, hinni opinberu ríkiskirkju, og verið hallir undir kaþólsku eða „kaþólskar“ hreyfingar innan hinnar opinberu kirkju (sjá hér að aftan). MacKail fullyrðir að strax í Marlborough hafi Morris verið orðinn „angló-kaþólikki“.19MacKail, The Life of William Morris, Vol. 1, 17. Þar hafði hann þó mest heillast af fornleifum, arkitektúr og myndlist, sem hægt var að nálgast í nágrenni skólans, eins vondur og hann annars var. Myndlistin hafði líka alltaf heillað Burne-Jones sem var drátthagur frá blautu barnsbeini. Og nú sem sé hétu þeir hvor öðrum að Morris skildi verða arkitekt og Burne-Jones listmálari. Það er írónískt að það voru þessar fallegu kirkjur sem fengu þá félaga endanlega til að segja skilið við kirkju og prestsskap. Þetta var ekki auðveld ákvörðun, sérstaklega fyrir Ted sem var eftir sem áður trúaður, auk þess sem faðir hans hafði lagt mikið á sig til að kosta hann til náms. Móðir Williams var vitaskuld ekki hrifin, en gat huggað sig við að arkitektúr var að minnsta kosti viðurkennd starfsgrein.
Ólíkt Burne-Jones glímdi Morris ekki við neina trúarkrísu. Hann hafði sagt skilið bæði við Biskupakirkjuna og kaþólska hneigð og var á góðri leið með að verða atheist eða agnostic. Hvort heldur var skiptir ekki höfuðmáli. Morris gerði sér aldrei neina rellu út af trúmálum. Þótt trúlaus væri, skildi hann þörf annara fyrir trú í hörðum heimi, og margir vinir hans voru prestar og trúmenn miklir. Meðal þeirra voru Eiríkur Magnússon og Matthías Jochumsson, sem sagði að „þótt Morris væri fullhugi mikill og nefndi sjaldan kreddur og kristin fræði, var hann aldrei óttalaus meðan hann lifði, fyrir sakir hugsjóna sinna og velferðar þjóðar sinnar og mannkyns.“20Matthías Jochumsson, „Höfuðskáld Englendinga“, 93, Norðri, 17.06.1909, 93-4. Þarna sýnist mér skáldpresturinn hitta naglann á höfuðið.
Krossförin hefst
Sem einskonar málamiðlun féllust Morris og Burne-Jones á að klára þetta eina ár sem eftir var og útskrifast fyrir siða sakir. Burne-Jones sveik reyndar það loforð, sinnti náminu ekkert og tók aldrei lokapróf. Morris lét sig hafa það og, eftir nokkuð japl, jaml og fuður, útskrifaðist með BA-gráðu vorið 1856. Þetta síðasta ár í Oxford helguðu þeir mest skrifum og skáldskap. Nú höfðu nokkrir fleiri bæst við í Settið og það fengið nýtt og virðulegra nafn, „Bræðralagið“ (the Brotherhood), í höfuðið á öðru og frægara bræðralagi, sem brátt verður frá greint. Nú voru í hópnum piltar bæði frá Oxford og Cambridge. Allir nema Morris og Faulkner höfðu verið skólabræður í Birmingham. Enginn þeirra var af jafn fínu og ríku slekti og Morris, þó Burne-Jones hafi kannski verið sá eini sem hafði alist upp í fátækt. Hann var sonur rammasmiðs og ekkils sem tókst með óheyrilegu striti og fórnum að kosta son sinn í háskólanám. „Burne-Jones fæddist á heimili sorgarinnar“, móðirin dó við barnsburðinn, hafandi nokkrum árum áður fætt andvana dóttur.21MacCarthy, Fiona, The Last Pre-Raphaelite: Edward Burne-Jones and the Victorian Imagination (London 2011), 2.
Fiona MacCarthy, helsti ævisöguritari Morrisar, segir að einmitt þarna hafi hann orðið meðvitaður um það ríkidæmi sem hann erfði, það efnahagslega bil sem var á milli hans og vina hans, og sem hann hálfpartinn skammast sín fyrir og reyndi að vega á móti með ofsafenginni gjafmildi:
Það var líkt og velsæld hans gerði hann enn áfjáðari en ella að falla í kramið hjá félögunum og verða hluti af lífi þeirra. Þetta var upphafið að ákveðnu mynstri. Alla sína ævi leitaðist hann við að nýta auð sinn til að mynda og styrkja alls konar bræðralög. Þarna skildist honum að sá auður sem hann erfði gerði það enn mikilvægara að hann fyndi sér verðugan tilgang í lífinu.22MacCarthy, William Morris, 65
Og nú, veranda orðin fjárráða, ákvað Morris að kosta alfarið útgáfu mánaðarlegs menningartímarits Bræðralagsins, The Oxford and Cambridge Magazine. Það gekk í akkúrat eitt ár, sem sé tólf hefti frá janúar til desember 1856. Þetta var fyrst og fremst tímarit um listir og menningu, sem innihélt ljóð, smásögur, bókaumsagnir og greinar um bókmenntir, arkitektúr og myndlist. Skríbentum var uppálagt að vera málefnalegir og kurteisir og forðast persónulegt skítkast. Skríbentar voru reyndar aðallega þeir fóstbræður sjálfir, ekki síst Morris. Þarna kom hann fyrst fram sem ljóðskáld og sagnamaður. Sá utanaðkomandi skríbent sem mestur fengur var í var hinn þjóðsagnakenndi listamaður Daniel Gabriel Rossetti. Hann átti eftir að verða stór hluti af lífi bæði Williams Morris og Burne-Jones. Þeirra bræðralag leit á Rossetti og hans bræðralag sem bandamenn í „krossförinni gegn samtímanum“ (crusade against the age).23Sama heimild, 98.
Englands ásigkomulag
Hvað var svona slæmt við samtímann? Það sem gjarnan var kallað the condition of England Question náði bæði yfir efnahagsgrunn samfélagsins og meðfylgjandi hugmyndaheim og siðfræði. Hin hagræni og félagslegi þáttur fól í sér öra útþenslu borga, sem fyrir alþýðuna –hina nýju öreigastétt–skorti allt sem þurfti til mannsæmandi lífs. Þær voru „mannhaugar, maskínubyggðir, ekki vettvangur mannlegra tengsla“.24Mumford, Lewis, The Culture of Cities (New York 1938), 148. Alþýða borganna bjó í slömmum við sultarlaun eða atvinnuleysi, vinnuþrælkun, ekki síst barna, húsnæðiseklu og hreinlætisskort, mengun og tíðar og skæðar farsóttir. Vændi dafnaði og ofdrykkja var útbreidd. Glæpatíðni óx og fangelsum og vinnuhælum fjölgaði ört. Þessu er vel lýst í bókum margra samtímamanna sem sameinuðu annars vegar opinbera tölfræði og hins vegar vettvangsrannsóknir og beina reynslu höfunda, sem gjarnan komu úr röðum lækna eða presta, þeim tveim hópum menntaðs millistéttafólks sem helst höfðu einhver kynni af lífi og þrautum alþýðunnar. Þekktast þessara rita er The Condition of the Working Class in England eftir Friedrich Engels, sem þó kom ekki út á ensku fyrr en 1886.25Bókin kom fyrst út í Þýskalandi árið 1845 sem Die Lage der arbeitenden -+ Klasse in England. Engels, Frederick, „The Condition of the Working Class in England“ í Marx, Karl and Frederick Engels, Collected Works, Vol. 4 (Moscow 1975), 295-596. Engels var vitaskuld sósíalisti, en rit manna sem tengdust Frjálslynda flokknum, eins og Peter Gaskell, og Íhaldsflokknum, eins og William Alison, gefa mjög svipaða mynd.26Gaskell, Peter, The Manufacturing Population of England, Its Moral, Social and Physical Conditions (London 1833); Alison, William P., Observations on the Management of the Poor in Scotland and Its Effects on the Health of the Great Towns (Edinburgh 1840). Því má heldur ekki gleyma að í þessa tíð innihélt Bretaveldi allt Írland þar sem hungursneyð, Hungrið mikla, geysaði frá 1846 og fram yfir 1850, drap yfir milljón manns og hrakti aðra milljón úr landi á meðan stjórnvöld héldu að mestu að sér höndunum – og alveg frá og með haustinu 1847– af því að ekki mátti grípa fram í fyrir „lögmálum markaðarins“.27Sjá: Donnelly, James S, Jr., The Great Irish Potato Famine (Stroud 2008); Gray, Peter, Famine, Land and Politics: British Government and Irish Society, 1843-50 (Dublin 1999),
En þessi veruleiki var þó ekki áberandi á síðum The Oxford and Cambridge Magazine. Það bar mest á menningu og listum. Magasínið var vissulega í krossför gegn samtímanum en spjót þess beindust mest að vondri list og menningarlegri deyfð. Að hluta til stafaði þetta af félagslegum uppruna hinna ungu krossfara. Aðeins Burne-Jones hafði einhverja beina reynslu af lífi alþýðunnar. Aldur krossfaranna og tímasetningin málgangs þeirra skipti líka máli. Þegar ástandið var sem verst, á fimmta áratugnum (the hungry forties), voru þeir rétt að slíta barnsskónum. Árið 1842, sem Asa Briggs segir volaðasta ár aldarinnar á Englandi,28Briggs, The Age of Improvement,295 var Morris aðeins átta ára, og þegar Kornlögin voru afnumin 1846 aðeins tólf ára. Árið 1848, þegar bylting geisaði í Evrópu og Hungrið mikla á Írlandi, og barátta hinna ensku Chartista fyrir almennum kosningarétti stóð sem hæst, var Morris fjórtán ára. Sama ár dó faðir hans. Það þurfti reyndar ekki dauðsfall til að valda pólitísku sinnuleysi þar á bæ: allt sem hét stjórnmál, jafnvel heimsviðburðir, virtist fara framhjá fjölskyldunni í Woodward Hall.29MacCarthy, William Morris, 25. Um það leyti sem Morris og félagar hans voru að klára háskólann var tímabundin uppsveifla í efnahagslífinu og félagsleg ólga og stéttabarátta í lágmarki.
Misrétti samfélagsins fór þó ekki alveg fram hjá Bræðralaginu og tímariti þess. Þeir kynntust því í gegnum þær ensku samtímaskáldsögur sem þeir tóku til umfjöllunar, hældu nánast alltaf og mæltu óhikað með. Þetta var blómaskeið raunsæisskáldsagna, sem seinna voru settar undir einn hatt og kallaðar the industrial novel. Þær fjalla enda allar beint eða óbeint um samfélagslegar afleiðingar hinnar ensku iðnbyltingar, daglegt líf og streð, hugsunarhátt og baráttu þeirra stétta sem hún skóp og mótaði. Meðal höfunda voru William Makepeace Thackeray, Charlotte Brontë, Charles Kingsley og George Eliot. Charles Dickens (1812-1870) var vitaskuld meistari þessa skáldskapar, eins og fram kom í sögum eins og Oliver Twist (1838), A Christmas Carol (1843), Hard Times (1854), Little Dorrit (1855-7), A Tale of Two Cities (1859), Our Mutual Friend (1864-5) og mörgun fleiri. Ekki langt á eftir kom Elizabeth Gaskell (1810-1865) með sögur eins og Mary Barton (1848) og North and South (1854).
Þessi verk eru ómetanlegar (en auðvitað vandmeðfarnar) heimildir um enskt samfélag á fyrri hluta 19. aldar. Það má segja að iðnaðarskáldsagan og hin beina samfélagslýsing Engels, Alisons og fleiri kallist á og styðji hvora aðra. Þær fjalla um sama efnið en með ólíkum hætti. Bók Engels og Mary Barton eftir Elizabeth Gaskell fjalla til dæmis báðar að miklu leyti um líf verkafólks í Manchester í kringum 1840. „Heilu fjölskyldurnar dóu hægfara hungurdauða“, segir í Mary Barton: „Þær hefðu þurft sinn Dante til að skrásetja sorgir þeirra og þjáningar, en jafnvel orðkyngi hans hefði dugað skammt“.30Gaskell, Elizabeth, Mary Barton, Kafli VIII. Margar skáldsögur eru til í ótal ólíkum útgáfum, þannig að merkingarlaust er að tilgreina blaðsíðu. Í slíkum tilfellum læt ég nægja að geta kafla. Það er þó ólíklegt að Dante hefði gert nokkuð betur en Engels og Gaskell sjálf. Bæði Engels og Marx héldu enda mikið upp á þetta „stórgóða bræðralag enskra skáldsagnahöfunda, hvers myndrænu og orðslungnu lýsingar segja okkur meira og sannara um veruleika samfélagsins en allir stjórnmálamenn, blaðamenn og siðapostular til samans.31Marx, Karl, „The English Middle Class“, 664, í Marx & Engels, Collected Works, Vol. 13, 663-5.
Hin þríhöfða þurs
Iðnaðarskáldsagan lýsir ekki einungis efnahagslegri fátækt verkalýðsins heldur líka andlegri fátækt borgarastéttarinnar. Hugmyndafræði þeirrar stéttar var hinn þríhöfða þurs þjóðhagfræði, nytjahyggju og heimsmyndar Vigganna.
Hin nýja þjóðhagfræði (political economy), sem þróaðist á 18. öld undir forystu Thomasar Malthus, Davids Ricardo og Adams Smith, leit á eiginhagsmunahyggju og græðgi sem afl hins góða í heiminum, hreyfiafl framfara og þróunar framleiðsluaflanna. Hagkerfið skyldi byggt á einkarekstri og frjálsri samkeppni. Ríkisvaldið átti að láta markaðinn í friði, laissez-faire. Markaðurinn var sagður alltaf „vita“ best; standa manninum ofar, óskeikull, einskonar Guð eða Forsjónin með stóru F-i. Sú örbirgð öreiganna sem blasti við þeim er sjá vildu dró ekkert úr þeirri sannfæringu. Hin frjálsa samkeppni leiddi til hagkvæmni, sem jók framleiðslu, neyslu og þar með hamingju. Í hinni frægu nálaverksmiðju Adams Smiths margfalda tíu menn í krafti verkaskiptingar framleiðslu nála úr 10 til 200 stykkjum á dag í 48.000 32 Smith, Adams, An An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations, bók 1, kafli 1: online-literature.com/adam_smith/wealth_nations/1/..
Þess háttar lógík var mjög að skapi nytjahyggjumanna. Það hlaut að vera 4.800 sinnum meiri nyt af 48.000 nálum en 10 nálum. Samkvæmt nytjahyggjunni er ekkert siðferðislega gott eða vont í sjálfu sér, aðeins misjafnlega nytsamt. Og nytsamlegt er allt það sem eykur hamingju manna. Hamingjan samanstendur af tveimur þáttum, sælu (pleasure) og pínu eða sársauka (pain). Meiri sæla, meiri hamingja; meiri pína, minni hamingja. Jeremy Bentham (1748-1832), sem teljast má upphafsmann þessa skóla, segir: „Náttúran hefur skikkað mannkynið undir stjórn tveggja valdsherra, pínu og sælu. Það er þeirra einna að segja til um hvernig okkur ber að breyta og ákvarða framkvæmd gerða okkar.“33 Bentham, Jeremy, An Introduction to the Principles of Morals and Legislation (London 1780). Sérhver maður skal, viti hann hvað sé honum fyrir bestu, lágmarka pínu og hámarka sælu sína. Með því hámarkar hann hamingjuna. Lög og stjórn þjóðfélagsins skulu fylgja sömu reglu, stefna að því að auka sem mest hamingju sem flestra út frá mælikvarða nytseminnar.
Stóra spurningin er hvernig við ákvörðum sælu, pínu og nytsemi. Það er skrambanum erfiðara í praxís og þrautaráð nytjahyggjmuanna var að einblína á hið áþreifanlega, það sem hægt var að mæla og reikna út. Meðal þeirra þátta voru framleiðsla, framleiðni, tekjur, neysla og verg þjóðarframleiðsla. Við komum hins vegar engum mælikvarða á fegurð eða ljótleika framleiðslunnar, eða líðan framleiðandans. Hvaða áhrif hefur það á mannssálina að standa í sömu sporunum límdur við maskínu tíu tíma á dag ár eftir ár og endurtaka í sífellu sömu vélrænu hreyfinguna? Er það ekki miklu stærri og brýnni spurning en hvernig sé hægt að framleiða sem flestar nálar á sem skemmstum tíma? En hagfræðin og nytjahyggjan skeyta ekki um slíkt. Þær arta aðeins blákaldar staðreyndir. „Það sem ég vill eru staðreyndir … Aðeins staðreyndir gagnast í lífinu. Sáið engu öðru og rífið allt annað upp með rótum. Aðeins með staðreyndum mótum vér hugi skynsemisvera; ekkert annað mun nokkurn tíma nýtast þeim.“ Þannig mælir nytjahyggjumaðurinn Thomas Gradgrind í Hard Times eftir Charles Dickens.34 Dickens, Charles, Hard Times, Fyrsta bók, Kafli I. Gradgrind skírir syni sína Adam Smith og Malthus. Og hann komst inn í orðabækur: gradgrindian kallast hugarfar þess er hefur sálarlausa trú á tölum og staðreyndum og er óbilandi nytjastefnumaður.
Nytjahyggjan var dogma Frjálslynda flokksins, hinna svokölluðu Whigs, sem við skulum leyfa okkur að kalla Vigga. Þeir höfðu sína eigin söguhyggju, the Whig school of history. Samkvæmt henni var bresk saga túlkuð sem „stöðug og markviss þróun breskra þingræðisstofnanna undir föðurlegri leiðsögn aðalborinna Vigga, þróun sem fól í sér samfelda aukningu og útbreiðslu félagslegra framfara og hagsældar.“35Marwick, Arthur, The New Nature of History: Knowledge, Evidence, Language (Basingstoke 2001), 74 Einn fyrsti fræðingur þessa skóla var Henry Hallam,36Söguskilningur Vigganna kemur glöggt fram í riti hans Constitutional History of England, from the Accession of Henry VII to the Death of George II. sem kvað þá sagnfræðinga vaða í villu sem ekki sæju „hina langvarandi og samfelldu þróun Englands í átt að aukinni hagsæld sem fegursta fyrirbærið í sögu mannkynsins.“37Vitnað í Chandler, Alice, A Dream of Order: The Medieval Ideal in Nineteenth-Century Literature (London 1971), 89. Hér er litið á söguna sem línulega þróun frá hinu vonda og fávísa til hins betra og upplýstara. Hún byrjar sem sé í algjörri villimennsku, volæði, fáfræði og hjátrú. Síðan koma ýmis spor í rétta átt: hálf-siðaður barbarismi; siðmenning; kristni, en því miður pápísk; lénsveldi og konungsveldi og þar fram eftir götunum. Loks eftir langa bið fer að rofa til og við fáum siðaskipti, upplýsingu, kapítalisma, frjálsa verslun, frjálshyggju, upphleðslu auðmagns, myndun miðstéttar, þingbundið konungsveldi og á endanum fulltrúalýðræði. Sögulegri þróun er hér gefið ákveðið hlutverk og lokatakmark. Hin endalega útkoma er fyrirfram gefin og sagan getur ekki stefnt í neina aðra átt. Hún er bæði „teleólógísk“ og „determínísk“.
Þessa saga var ekki bundin við Bretland, því samkvæmt henni var skrifað í skýin að Englendingar héldu í útrás og sigruðu heiminn. Þeir voru Guðs útvalda þjóð sem frá fyrstu tíð bjó yfir einhverjum sérstökum neista frelsis og einstaklingshyggju sem gaf henni umboð til að beygja undir sig og „siðmennta“ restina af mannkyninu. Edwin Paxton Hood, sem áður er vitnað í, skrifaði:
Englendingurinn elskar hreyfingu og baráttu; að sigla um úthöf öll og miðla öllum þjóðum snilld síns mikla manndóms. Iðjusemi, prótentantismi og frelsisþrá virðast oss vera afkvæmi hins tútónska kynþáttar, og það eru engar ýkjur þótt vér fullyrðum að þeim kynþætti hefur Guð falið varðveislu og útbreiðslu sannleikans og að á þeim kynþætti fyrst og fremst velti framtíð siðmenningar og framfara í heimi vorum.38Hood, The Age and Its Architects, 18.
Sagnfræðingar Whig-skólans voru harðir stuðningsmenn Hins breska heimsveldis og jafnvel innvíklaðir í stofnanir þess. Thomas Babington Macaulay, einn helsti fræðingur skólans39Hans helsta sagnfræðiverk er The History of England from the Accession of James the Second (London 1848)., átti stærstan þátt í því að innleiða á Indlandi enskt menntakerfi, á ensku, til að vega að menningu frumbyggja og styrkja hugmyndafræðilegt forræði heimsveldisins.40Sjá t.d.: Viswanathan, Gauri, Masks of Conquest: Literary Study and British Rule in India. Macaulay réttlætti yfirgang, arðrán og þjóðarmorð Breta á Indlandi með framfarahyggju og frelsisást. Sem „þjóð er forsjónin hefur gefið ofgnótt pólitísks frelsis og upplýstra gáfna“, sagði hann, ber oss skylda til að miðla þessum náðargjöfum „til kynþáttar sem í þrjúþúsund ár hefur verið niðurlægður af harðstjórn og klerkaveldi. Til lítils er frelsi vort, siðmennt vor, ef vér neitum öðrum hópum mannkyns um hlutdeild í frelsinu og siðmenntinni.“41Sama heimild, 16-17.
Miðaldahyggja
Þeir voru þó margir sem gátu engan veginn sætt sig við þessa heimssýn og sögðu þursinum stríð á hendur. Þeim hryllti við þróun undanfarinna áratuga, bæði hinni félags- og efnahagslegu sem og hinni menningarlegu eða andlegu. Sumir þeirra voru sósíalistar, þó ekki margir um miðbik aldarinnar. Meira um þá í seinni greinum. Aðrir litu til baka og vildu læra af fortíðinni. Það var misjafnt hve langt til baka menn horfðu, sumir til síðmiðalda, aðrir bara til 18. aldar. Hugtakið „miðaldasinni“ (medievalist) hefur þó fest við þá alla og þeir sagðir hafa aðhyllst „miðaldahyggju“ (medievalism). Það var líka misjafnt hvað og hve mikið menn vildu sækja til fortíðar. Sumir vildu endurskapa miðaldir með lénsveldi, riddaramennsku, kaþólsku og öllu tilheyrandi. Aðrir vildu aðeins taka upp það besta frá liðnum öldum, og þá oft á einhverjum afmörkuðum sviðum, eins og listum, handverki og kurteislegum mannlegum samskiptum. Sumir vildu stigveldi, aðrir jöfnuð.
Hugtakið miðaldahyggja er því nokkuð villandi og ber ekki að taka of bókstaflega. Það hafði margar ólíkar birtingarmyndir og náði yfir mörg svið: pólitík, trú, menningu og listir. Samt var eitthvað sem sameinaði hina ólíku strauma: þetta var ákveðin lífsspeki, ontólógía, sýn á það hvað fólst í mannlegri tilvist og mannlegri reisn. Miðaldasinnar óttuðust afdrif mannssálarinnar í heimi sem var á góðri leið með að verða sálarlaus. Þeir áttu sér draum um aðra og fegurri tilveru byggða á æðri gildum en peningaplokki; þeir þráðu göfugri lífsreglu en „markaðslögmál“; þá dreymdi um tilveru byggða á festu, vissu, trú og samheldni. Eins og Alice Chandler hefur bent á var miðaldahyggjan „draumur um reglufestu“. Í bók sinni A Dream of Order segir hún að því meir sem heimurinn breyttist –og alltaf til hins verra– því meir virkuðu miðaldir sem glötuð gullöld. Þær voru dýrkaðar sem tími „trúar, reglu, kátínu, örlætis og sköpunargleði.“42Chandler, A Dream of Order, 1. Hugtakið „miðaldir“ vísaði annars vegar til ákveðins sögulegs tíma í fortíðinni –sem var blanda af raunveruleika og mýtu– og hins vegar var það myndlíking fyrir „sannara“ eða „náttúrulegra“ mannlíf.
Miðaldahyggjan var mannhyggja andstæð markaðshyggju. Skáldið Robert Southey lét vofu Thomasar More, höfund Útópíu, lýsa sögu síðari tíma svo: „Þannig ruddi andi verslunar smátt og smátt úr vegi hinum frumstæðu en mun kærleiksríkari lífsreglum lénsskipulagsins: allt fór að snúast um gróða og tap; í hlað gengu útreikningar, á brott fór umhyggjan.“43Southey, Robert, Colloquies on Society (London & Paris 1887) [1824], 78-9. Miðaldahyggjan var hringlaga tími árstíða, grósku, dauða og endurfæðingar, í andstöðu við þá línulegu þróunarsögu sem írska skáldið Yeats kallaði „krankan söng Krónosar“. Miðaldahyggjan var skáldskapur, furður, ólíkindi, töfrar og mystík andspænist vélrænni heimsmynd Newtons, Lockes og nytjahyggjunnar, heimsmynd sem Yeats kallaði hinn nýja „gráa sannleik“ er sviptir heiminn draumum og fantasíu.44„The Song of the Happy Shephard“ er eitt af fystu ljóðum Yeats og það sem hann valdi sem fyrsta ljóð í heildarsafni ljóða sinna. Það er ort þegar Yeats er uppfullur af rómantískri fortíðarþrá og undir áhrifum frá meðal annars Tennyson og Morris. Hvert er hlutskipti manns í vélrænni heimsmynd? Að breytast í vél? Strax þá virtist slíkt nærtækt. Hvað var vinnuafl verksmiðjanna, hin nýja stétt öreiga, annað en viðtengi við vélar? Þýska skáldið Heinrich Heine sagði að á Englandi líktust vélarnar mönnum og mennirnir vélum: „Já, viður, járn og tin virðast hafa drukkið í sig mannsandann … á meðan maðurinn hefur glatað sálinni og sinnir verkum sínum sem vél.“45Heine, Heinrich, The Works of Heinrich Heine, Vol. 1 (London 1903), 51-2. Þýðandi: Charles Godfrey Leland.
Það ófremdarástand sem miðaldasinnar hörmuðu er reyndar best lýst af tveimur mönnum sem ekki er vaninn að tengja við miðaldadýrkun. Í Kommúnistaávarpinu segja Marx og Engels:
Þar sem borgarastéttin hefur tekið völd, hefur hún lagt í auðn alla lífshætti aðaldóms og húsbóndaveldis, og hinna sælu sveita. Hún hefur án allrar miskunnar slitið hin listofnu lénsbönd, er tengdu saman yfirmenn og undirgefna og enga aðra taug eftir skilið manna á milli en bláber hagsmunasambönd, sálarlaust silfrið og goldin verð … Hún hefur breytt manngildinu í markaðsgildi og búið samvizkulausu verzlunarfrelsinu einu öndvegi …46Marx, Karl & Friedrich Engels, Kommúnistaávarpið (Reykjavík 2008) [1949], 178-9. Íslensk þýðing: Sverrir Kristjánsson.
Allir gamlir og grónir lífshættir líða undir lok ásamt fornhelgum hugmyndum og lífsskoðunum, sem eru þeirra fylgifé. Allir nýskapaðir lífshættir ganga úr sér áður en þeir verða fullharðnaðir … 47 Sama heimild, 180.[47]
Hér er ekki talað um kaup og kjör og búksorgir, heldur hlut manns í víðari skilningi, hið andlega ásigkomulag. Miðaldasinnar sáu hlutskipti mannssálar í nútímasamfélagi sem samfellt ástand óvissu og siðrofs. Eina vissan er vissan um hverfulleika alls: „Öll festa forgengur, allt sem er heilagt er vanhelgað“: All that is solid melts into air, all that is holy is profaned.48Mín eigin þýðing. Þessa frægu setningu er reyndar ekki að finna í hinni upprunalegu útgáfu Kommúnistaávarpsins á þýsku, og því heldur ekki í þýðingu Sverris Kristjánssonar. Hún kemur fyrst fyrir í enskri þýðingu ávarpsins 1888. Þá þýðingu gerði Samuel Moore, en hún var lesin yfir og „vottuð“ af Engels. Marx, Karl & Frederick Engels, „The Manifesto of the Communist Party”, 487, í Marx & Engels, Collective Works, Vol. 6, 477-519.
Hvað gera menn andspænist slíkum ósóma? Sumir létu sér nægja að flýja inn í veröld rómantísks skáldskapar, ljóðaheim Alfred Tennysons og vatnaskáldanna Wordsworths, Coleridge og Southey, ellegar sagnaheim Walter Scotts eins og hann birtist í Ívanhoe eða Ívar hlújárn (1820), Rob Roy (1817), Kenilworth (1821), Quentin Durward (1823) og mörgum fleiri verkum. Morris var örugglega ekki sá eini sem las Scott komplet, þó varla hafi margir fleiri verið búnir að því sjö ára. Bækur Scotts sendu lesendur inn í veröld kóngafólks, krossfara og kastala, riddara og riddaramennsku. Væri það ekki nóg gátu menn sökkt sér ofan í kennslubók Henry Digbys í riddaramennsku, The Broad-Stone of Honour, sem hann samdi sérstaklega fyrir „sjentilmenn Englands“.49Girouard, Mark, The Return to Camelot: Chivalry and the English Gentleman Meðal þeirra ungu ensku sjentilmanna sem hrifust voru meðlimir Settsins, sérstaklega Burne-Jones.50Girouard, Mark, The Return to Camelot: Chivalry and the English Gentleman.(New Haven & London 1981), 63-4. Svo voru þeir sem gengu enn lengra og efndu til burtreiða í miðaldastíl. Þær stærstu voru helgi eina í ágúst 1839, við kastala jarlsins af Eglinton í Ayrshire á Skotlandi, þangað sem 100.000 munu hafa mætt.51Sama heimild, 87-110; Anstruther, Ian, The Knight and the Umbrella: An Account of the Eglinton Tournament 1839 (London 1963). Þetta er hin spaugilega hlið miðaldahyggjunnar. En fyrir sumum var hún dauðans alvara. Þeirra á meðal voru Thomas Carlyle, William Cobbett, Augustus Pugin og John Ruskin.
Thomas Carlyle
Skotinn Thomas Carlyle (1795-1881) var oftast alvarlegur, aldrei beinlínis kátur, en tíðum kaldhæðinn. Í kringum 1840 gaf hann út tvö áhrifamikil rit, Chartism (1839) og Past and Present (1843), þar sem hann deildi hart á tíðarandann og sagði breskri valdastétt óspart til syndanna. Skrif hans, með sinni sérstöku og kaldhæðnu orðkynngi, hreyfði við réttlætiskennd hugsandi fólks og gerði reiða unga menn enn reiðari. Setningar úr ofangreindu bókum „voru á vörum allra ungra manna og höfðu áhrif á daglegt mál.“52Vitnað í Briggs, Victorian Cities (London 1963), 97. Meðal þeirra sem heilluðust voru Morris og Engels. Nú skal strax tekið fram að aðdáun þeirra entist ekki lengi. Chartism og Past and Present eru ádeilur án praktískra lausna. Á þessu stigi forðaðist Carlyle að að útlista náið eigin pólitísku stefnu. En, eins og síðar verður frá sagt, átti eftir að koma í ljós að hann var hið mesta afturhald, imperíalisti og rasisti. Þá snéru fyrrum aðdáendur við honum bakinu. Sem breytir því ekki að í byrjun þóttu skrif hans djörf og róttæk.
Þrátt fyrir nafnið fjallar Chartism ekki beint um Chartismann, frekar um the condition of England almennt, þetta „Englands ásigkomulag“ sem leiddi til eymdar og óánægju alþýðunnar, félagslegrar ólgu, upplausnar og siðrofs. Sökudólgurinn er óheftur laissez-faire kapítalismi sem rústar sjálfu samfélaginu með því að afnema öll æðri gildi, alla samkennd, alla siðferðislegar skyldur: „Ó lesandi góður, hvers megnar það sem kallast Samfélag á öld þegar peningagreiðslur eru einu tengsl manns við mann! Við slíkar aðstæður er Samfélaginu ráðlegast að láta sem minnst á sér bera, minnast ekkert á tilgang sinn, og reyna einfaldlega að tóra. Það er þess þrautaráð.“ 53Carlyle, Thomas, Past and Present (London 1843), 1.
Past and Present hefst með þessum orðum: „Englands ásigkomulag … er með réttu álitið eitt hið óhugnanlegasta og jafnframt eitt hið furðulegasta sem sést hefur í þessari veröld. England býr yfir ógrynni auðs og framleiðir allt til alls, langt umfram það sem telst til mannlegra þarfa. Samt líður landið skort.“[54] Carlyle líkir Englandi við Mídas konung í hinum forngrísku goðsögnum. Mídas óskaði sér að allt sem hann snerti yrði að gulli, og varð að ósk sinni. Það eyðilagði líf hans, drap dóttur hans og gaf honum asnaeyru. Á Englandi, segir Carlyle, ríkir nú „mammonismi með mídasareyru“ (Midas-eared Mammonism).54Carlyle, Past and Present, 29.[55]
Carlyle ber saman ríkjandi ástand og England á miðöldum, nánar tiltekið St. Edmundsbury á 12. öld, þar sem Samson ábóti réði ríkjum. Í lýsingu Carlyles birtist Samson sem hinn fullkomni góði herra sem drottnaði yfir fyrirmyndarsamfélagi á grundvelli persónulegra félagsbanda sem einkenndust af gagnkvæmu trausti: umhyggju yfirstéttar gagnvart alþýðu og hlýðni þegna gagnvart yfirvöldum. England 19. aldar sér Carlyle sem algjöra andstæðu, sem félagslega martröð, einskonar and-samfélag. Lýsing hans á mammonisma 19. aldar gæti allt eins verið lýsing á okkar eigin nýfrjálshyggjutímum:
Það verður að játast að við sem nú erum uppi höfum endað í undarlegri mótsögn. Við þykjumst lifa í Samfélagi, en aðhyllumst engu að síður leikreglur fullkomins aðskilnaðar og einangrunar. Líf okkar er ekki gagnkvæm hjálpsemi heldur gagnkvæmur fjandskapur, uppdubbaður sem „heilbrigð samkeppni“ eða eitthvað annað sem hljómar vel. Við höfum rækilega gleymt því að peningagreiðslur eru ekki einu tengsl manna í milli. Við höldum, þykjumst þess fullviss, að þær losi okkur við og þurrki út allar mannlegar skuldbindingar.55Sama heimild, 126 [56]
Trú og fátækramál
Carlyle leit á mammonismann sem hin raunverulegu trúarbrögð Englendinga, alltént yfirstéttarinnar. Í huga Englendinga, sagði Carlyle, var helvíti það að „græða ekki peninga“.56Sama heimild, 124-6 [57] Í orði kveðnu voru þó nánast allir Viktoríumenn kristnir, það er, tilheyrðu trúflokki eða kirkjudeild sem kenndi sig við Krist. Áætlað er að á hinu eiginlega Bretlandi –England, Wales og Skotland– hafi 98 prósent íbúa verið mótmælendur um aldamótin 1800. Flestir voru þeir Anglíkanar, sem sé, meðlimir Biskupakirkjunnar ensku, Church of England. Aðrir voru einkum meþódistar, presbyterar, baptistar eða kvekarar. Kaþólikkar voru innan við eitt prósent íbúa.57Field, Clive D., „Measuring religious affiliation in Great Britain: the 2011 census in historical and methodological context“, https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/0048721X.2014.903643 [58] Á Írlandi var þessu öfugt farið: þar var obbi landsmanna kaþólskur, þar með talin nær öll alþýða utan nyrsta landsfjórðungsins, Ulster, hvar nær helmingur íbúa samanstóð af presbyterum, afkomendum skoskra og enskra innflytjenda frá 17. öld. Aðeins fámenn ensk-ættuð yfirstétt tilheyrði Biskupakirkjunni sem þar kallaðist Church of Ireland.
Í byrjun 19. aldar nutu kaþólikkar ekki fullra borgaralegra réttinda á við mótmælendur. Þeir höfðu ekki kjörgengi og ekki rétt til margra opinberra embætta. Það var fyrst og fremst að þakka harðri baráttu írskra kaþólikka, baráttu sem ógnaði formgerð og tilvist konungsríkisins, að kaþólikkar fengu svo til full borgaraleg réttindi árið 1829. En alla öldina viðgengust and-kaþólskir fordómar. Í heimsmynd Vigganna var prótestantismi ómissandi partur þeirrar töfraformúlu sem tryggði frelsi og framfarir í heiminum, á meðan kaþólskan var tímaskekkja, hjátrú aftur úr myrkustu miðöldum, aðeins einu stigi ofar hreinræktaðri villimennsku. Of langt mál væri að rekja sögulegar rætur and-kaþólskra fordóma á Englandi. Þær liggja í átökum konungsvalds og kirkju, valdabaráttu evrópskra stórvelda, deilum um erfðir ensku krúnunnar og ekki síst yfirgangi Englendinga á Írlandi. Enda blandaðist and-kaþólskan gjarnan and-írskum rasisma: kaþólskir Írar voru útmálaðir sem latir, ofbeldisfullir og skítugur, í útliti og gáfnafari svipaðir náfrændum sínum órangútum og öðrum mannöpum, drekkandi viskí eins og svampar og alltaf með leirpípur í kjaftinum.58Curtis, L. P., Apes and Angels: The Irishman in Victorian Caricature (Washington D. C. 1996)[59]
Það var í þessu umhverfi sem eitt merkasta sagnfræðirit Englendinga kom út árið 1818, hið mikla verk hins kaþólska prests John Lingards (1777-1851) um sögu Englands frá tímum Rómverja til loka 17. aldar.59Lingard, John, The History of England, from the First Invasion by the Romans to the Accession of William and Mary in 1688. Fyrsta útgáfan var í átta bindum en höfundur endurskoðaði ritið, breytti og bætti við. Síðari útgáfur eru ýmist í tíu eða þrettán bindum. Hér er stuðst við útgáfu frá 1874 (Dublin & London) í tíu bindum[60] Það byggir á allt öðrum söguskilningi en þeim sem Viggar útlistuðu. Lingard gefur sér ekki fyrirfram að mannlegt samfélag sé alltaf á framfarabraut og enn síður að þar gegni Englendingar einhverju forystuhlutverki. Þvert á móti telur hann ensku samfélagi hafa stórhnignað frá 16. öld og kennir um siðaskiptum Hinriks VIII á fjórða áratug þeirrar aldar og þeirri færslu eigna frá kirkju til krúnu sem þeim fylgdu. Þessar breytingar höfðu langvarandi slæm áhrif á lífsafkomu alls almennings og samheldni og umhyggju í ensku þjóðfélagi. Bæði hafði kirkjan verið góður og réttlátur landsdrottinn og eins gegndi hún lykilhlutverki í umönnun fátækra, sjúkra og aldraðra. Siðskiptin rústuðu þessu samfélagi gagnkvæmrar skyldu og samhjálpar og innleiddi ekkert í staðinn.60Sama heimild, Vols. IV-VI [61]
Ríkjandi stefna í fátækramálum var harðlega gagnrýnd af miðaldasinnum, sem og auðvitað sósíalistum og fjölmörgum öðrum. Hin svokölluðu Nýju fátækralög 1834 voru runnin undan rifjum helstu forkólfa hinnar pólitísku hagfræði og nytjahyggjunnar. Þau skilgreindu fátækt sem glæp, ekki glæp samfélagsins gagnvart hinum fátæku heldur glæp hinna fátæku gagnvart ríki og skattborgurum. Aðeins þeir sem ekki gátu séð sér farborða sökum sjúkdóms, bæklunar, elli eða ungs aldurs (the deserving poor) áttu skilyrðislausan rétt á aðstoð. Aðrir (the idle poor) urðu að lúta hinu svokallaða workhouse test. Það var tvíþætt: annars vegar varð hinn snauði að sætta sig við að vera lokaður inni á fátækrahæli (poor house) sem líka var kallað vinnuhæli (workhouse); hins vegar skyldi dvölin þar vera ömurlegri en það líf sem sem lægstu laun úti í samfélaginu buðu upp á.61Sjá: Driver, Felix, Power and Pauperism: The Workhouse System, 1834-1884 (Cambridge 1993); Higginbotham, Peter, The Workhouse Cookbook: A History of the Workhouse and Its Food (Stroud 2008); A Grim Almanac of the Workhouse(Stroud 2013); Life in a Victorian Workhouse (London 2014) [62] Matur var vondur og lítill, t.d. mun minni en tíðkaðist í fangelsum. Við munum öll eftir Olver Twist sem vogaði sér að biðja um meira. Þar sem því var við komið voru vistmenn látnir vinna launalaust obbann úr deginum, einhverja vinnu sem var fullkomlega einhæf og hafði engan sjáanlegan tilgang annan en að láta fólk vinna. Blátt bann var við öllum leikjum, spilum og spaugi, að ekki sé talað um áfengi og kynlíf. Aldurshópar og kyn voru rækilega aðskilin, sem þýddi að fjölskyldur voru leystar upp. Refsingar fyrir andóf og brot á reglum voru tíðar, í formi sveltis, barsmíða og einangrunar. Auk þess lutu vistmenn svokölluðu „alsæi“: flest hælin voru þannig byggð að yfirvöld gátu fylgst með öllum vistmönnum, öllum stundum, úr miðlægum turni. Þannig voru menn alltaf undir smásjá stóra bróður. Þetta voru fangelsi án sektar. Tilgangurinn var að aga vinnuaflið, stjórna vinnumarkaðinum. Kerfi var sagt vera „vinnuhvetjandi“ og koma í veg fyrir að fólk yrði „háð“ opinberri hjálp og letingjar lifðu í lúxus á kostnað heiðarlegra skattgreiðenda. Í reynd var það til þess að margir völdu frekar glæpi og vændi en félagslega aðstoð. Hinn merki hagfræðingur Karl Polanyi sagði: „Ef til vill þekkir nútímasagan engar aðrar jafn miskunnarlausar félagsumbætur … Andlegar pyntingar voru innleiddar á kerfisbundin og fumlausan hátt af góðlyndum mannúðarfrömuðum í þeim tilgangi að smyrja hjól atvinnulífsins.“62Polanyi, Karl: The Great Transformation (Boston 1944), 86[63]
Fátækralögin voru harðlega gagnrýnd í ritum miðaldasinna, þar á meðal Carlyles, Pugins (sjá hér að aftan) og Williams Cobbett (1763-1835). Rit hans A History of the Protestant Reformation in England and Ireland (1824-6) var að mestu byggð á bók Lingards. Það sem Cobbett bætti við var mest vafasöm sagnfræði, stóryrði og upphrópunarmerki. Lingard var lágstemmdur og orðvar, Cobbett hins vegar aldrei vanur að skafa utan af hlutunum. Hann hafði þá þegar setið tvö ár í fangelsi fyrir meiðyrði og tvisvar flúið land til að forðast frekari tukthúsvist. Hin ensku siðaskipti, sagði Cobbett, „komu undir í dýrslegum losta, fæddust full af hræsni og lævi, og voru alin og uppörtuð með þýfi og elfum ensks og írsks blóðs.“63Cobbett, William, A History of the Protestant “Reformation” in England and Ireland (Dublin 1824-6), 106[64] Cobbett lá mikið niðri fyrir, en þess ber að geta að bók hans var fyrst og fremst hugsuð sem innlegg í pólitík líðandi stundar, sem stuðningur við réttindabaráttu kaþólskra Íra.
Var ekki rökrétt að allir miðaldasinnar væru sama sinnis og gerðust kaþólskir? Ef allt var betra á miðöldum (fyrir sirka 1500) hlaut líka allt að hafa verið betra fyrir siðaskiptin (á Englandi fyrir sirka 1530). Það var alltént skoðun Henrys Digby og hins gotneska arkitekts Augustus Pugin, sem báðir snérust til kaþólskar trúar. En ekki gleyptu allir við þeirri lógík. Vatnaskáldin voru til dæmis mjög and-kaþólsk, jafnvel Robert Southey sem þó gerði Thomas More, hinn kaþólska andstæðing og fórnarlamb Hinriks VIII, að málpípu sinni. Sem fyrr segir: and-kaþólskir fordómar og óttinn við „Róm“ áttu sér djúpar rætur og döfnuðu víða. Jafnvel Cobbett vildi ekki ganga svo langt að snúast til kaþólsku.
Tractarians og puseyítar
Samt átti sér stað í tengslum við miðaldahyggjunna greinileg hreyfing í átt að kaþólsku. Þetta var hin svokallaða Oxford hreyfing, sem myndaðist í kringum guðfræðideild Oriel College í Oxford-háskóla upp úr 1830.64Church, R. W., The Oxford Movement 1833-1845 (London & New York 1891);Nockles, P.B., The Oxford Movement in Context: Anglican HighChurchmanship, 1760–1857 (Cambridge 1994); O´Connell, M. R., The Oxford Conspirators: A History of the Oxford Movement, 1833–1845 (Lanham 1991); „What Was the Oxford Movement?“: http://www.puseyhouse.org.uk/what-was-the-oxford-movement.html[65] Meðlimir hennar voru oft kallaðir Tractarians, vegna skrifa þeirra um trúmál sem þeir kölluðu Tracts for the Times. Mál þeirra fékk aldrei mikinn beinan hljómgrunn meðal almennings, nokkuð meiri meðal menntamanna og mestan meðal presta og annara guðsmanna Biskupakirkjunnar. Hreyfingin „sóttist ekki eftir vinsældum; hún ávarpaði ekki fjöldann heldur hina fáu; hún hugðist hvetja og kenna þeim sem kenndu.“65Church, The Oxford Movement, 111[66] Og með þeim óbeina hætti hafði hún töluverð áhrif á trúarlíf og kirkjusiði landsmanna.
Þeim Oxford-mönnum blöskraði hve Biskupakirkjan var orðin steingeld og stofnanavædd. Þeir sögðu klerka hennar upp til hópa þurra, stífa, staglkennda, sjálfsumglaða og andlausa, eins og hver önnur opinber möppudýr. Kirkjan þjónaði ríkisvaldi og ríkjandi kerfi, veitti enga marktæka leiðsögn eða andagift, hróflaði ekki við neinu, stuðaði engan. Trúin hafði engin áhrif á daglega breytni, bara dregin fram á tyllidögum til málamynda. Hvaða tilgang þjónaði slík kirkja? Fyrir hvað stóðu hin ensku Siðaskipti?
Rýnandi í gamla texta komust Tractarians að þeirri niðurstöðu að Biskupakirkjan stæði, eða öllu heldur ætti að standa, miklu nær kaþólskunni og fjær hinum evrópska prótestantisma en ríkjandi yfirvöld vildu viðurkenna. Sumir ályktuðu að sannur Anglikanismi væri hinn gullni meðalvegur, via media, milli hinnar kaþólsku kreddu um óskeikulleika Páfans og einstaklingshyggju mótmælendatrúar. Aðrir gengu lengra og sögðu hann beinlínis kaþólskan, einn af þremur öngum kaþólskunnar, hinir tveir verandi rómversk-kaþólska kirkjan og hin grísk-kaþólska rétttrúnaðarkirkja. Sumir snérust alveg og gengust á hönd páfadóms. John Henry Newman hóf feril sinn sem ofstækisfullur and-kaþólikki sem kallaði Páfann „anti-Krist“ en endaði sem kaþólskur kardináli. Þeir voru þó fleiri sem héldu sig innan Biskupakirkjunnar en færðu predikun sína, messuform og almennt kristnihald mjög í átt að kaþólsku. Þeir voru gjarna kallaðir Puseyítar, eftir leiðtoga þeirra, Edward Pusey.
Oxford hreyfingin varð ekki langlíf. Sem skipulögð hreyfing rann hún sitt skeið á enda í kringum 1850. Liðsmenn hennar voru alltaf í minnihluta innan kirkjunnar. En sá minnihluti var umtalsverður, alltént vel skipulagður, vel mannaður og áhrifamikill. Oxford hreyfingin opnaði áður lokaðar gáttir milli kirkjudeilda og stuðlaði að því að útrýma and-kaþólskum fordómum. Hún færði messuform í átt til kaþólsku, með aukna áherslu á skynræna upplifun, reykelsi, skrautklæði, kirkjugripi, steinda glugga og gotneskan arkitektúr.
Á sama tíma fjölgaði breskum Kaþólikkum jafnt og þétt og þeir urðu stærra hlutfall mannfjöldans. Sem fyrr segir voru þeir innan við eitt prósent landsmanna árið 1800, en voru komnir upp í níu prósent árið 1913.66Field, „Measuring religious affiliation in Great Britain“. [67] Sú aukning hafði þó næsta lítið með Oxford hreyfinguna að gera. Megin ástæðan var stöðugur innflutningur fólks frá Írlandi sem margfaldaðist með Hungrinu mikla 1846-50 og þeim breytingum á írsku efnahagslífi og formgerð írsks samfélags sem hungursneyðin hratt af stað.
Oxford hreyfingin hafði töluverð og langvarandi áhrif á vini okkar Morris og Burne-Jones. Þeir kynntust henni vitaskuld á námsárum sínum í Oxford, þar sem hreyfingin átti uppruna sinn og var enn mjög sterk. Sem fyrr segir glötuðu Morris og Burne-Jones fljótt allri trú á hina opinberu Biskupakirkju. Þeir tóku heilshugar undir gagnrýni Oxford hreyfingarinnar á hina andlausu og formföstu klerkastétt. Þannig prestar skyldu þeir aldrei verða. Það má því segja að puseyisminn hafi markað fyrstu uppreisn þeirra gegn ríkjandi venjum og hugmyndum: áður en þeir höfnuðu kirkju og prestskap alfarið urðu þeir puseyítar. Burne-Jones var það reyndar alla ævi. Þeir höfðu jafnvel uppi plön um að gerast kaþólikkar og stofna klaustur. Þetta skyldi vera menningarlegt klaustur listrænna bræðra í anda hinna þýsku Nazarena (Nazarenes) sem árið 1809 stofnuðu Bræðralag heilags Lúkasar. Auk þess að vera munkar voru þeir listamenn sem endurvöktu gamalt handverk og málaratækni, og máluðu í miðaldastíl. Þótt Morris og Burne-Jones yrðu aldrei munkar fylgdu þeir stefnu Nazarena að miklu leyti þegar þeir hófu sína eigin listsköpun. Oxford hreyfingin tengdist líka náið hinni „gotnesku endurreisn“ í húsagerðarlist sem fljótlega átti hug Morrisar allan og varð stór þáttur í lífi hans og list.
Gotneskan
Í húsagerðalist telst hinn upprunalegi gotneski stíll vera það byggingarlag sem brúkað var víðast í Evrópu við byggingu kirkja, kastala og annara stórhýsa á síðmiðöldum og snemma á nýöld. Ef þetta er þá stíll:
Evrópskur arkitektúr miðalda hafði engan stíl. Réttara er að tala um byggingaraðferð sem grundvallaðist á oddboga, hvelfingu, gafli og veggstuðli. Þessi byggingaraðferð hélst óbreytt frá tólftu öld og fram á þá sextándu, í gegnum mörg söguleg skeið og á mörgum mismunandi svæðum með ólíka menningu. En þetta var ekki stíll í þeim skilningi að hann væri meðvitaður um sjálfan sig sem stíl eða ætti sér eitthvað nafn67Brooks, The Gothic Revival (London 1999), 9.[68]
Nafngiftin kom eftir á, nánar tiltekið á miðri 16. öld. Í bók sinni um „ævi hinna frábærustu málara, myndhöggvara og arkitekta“ dásamaði Ítalinn Giorgio Vasari (1511-1574) klassíkina og stíl renesansinn, en vék síðan lauslega að arkitektúr hinna myrku miðalda og fann honum allt til foráttu. Hann er ekki stundaður af neinum hinna „virtari arkitekta“, sagði Vasari, þeir líta á hann sem „óskapnað og barbarisma“. Hann sagði byggingarlag þetta fundið upp af Gotum sem „fylltu alla Ítalíu með þessum árans hýsum sínum“ eftir að hafa rústað öllum klassískum byggingum og drepið alla arkitekta í stríði barbara og Rómaveldis.68Sama heimild, 10[69] Upp úr þessu var farið að tala ýmist um “germanskan” eða “gotneskan” stíl, og fljótlega varð síðarnefnda hugtakið ofan á.
Hin gotneska endurreisn í arkitektúr hófst á Englandi á síðari hluta 18. aldar. Mörgum þótti arkitektúr þess tíma sem kenndur er við Georgana, númer I, II, III og IV (1714-1837), og sem grundvallast að miklu leyti á nýklassískum stíl, einsleitur, ófrumlegur og andlaus. Það fannst alltént Horace Walpole þegar hann lét reisa kastalann Strawberry Hill í Twickenham (nú innan London) um miðja 18. öld, og er það oft látið marka upphaf hinnar gotnesku endurreisnar. Hún náði svo hámarki um miðja 19. öld, einmitt um það leyti sem William Morris komst til manns og ákvað að verða arkitekt, ekki síst til að praktísera einmitt þennan stíl. Í vinsælli bók frá síðari hluta aldarinnar segir: „Endurlífgun, í landi voru, dálætis á arkitektúr miðalda, og endurkoma þeirra grunnreglna sem hann móta, einkenna eitt áhugaverðasta og merkilegasta skeið í listasögunni.“69Eastlake, Charles L., A History of the Gothic Revival (London & New York 1872), 1[70]Hreyfingin náði til annara landa Evrópu, einkum Frakklands og Þýskalands, og eigum við henni að þakka dómkirkjuna í Köln og verndun og endurbyggingu Notre-Dame kirkjunnar í París.70Sjá: Brooks, The Gothic Revival, 261-88, 348-72, 400-403; Foucart, Bruno (ritstj.), Viollet-le-Duc, 1814-1879 (Paris 1980); Hearn, M. F. (ritstj.), The Architectural Theory of Viollet-le-Duc: Readings andCommentary (Cambridge,Massachusetts 1990); Lewis, Michael J., The Politics of the German Gothic Revival: August Reichensperger (Cambridge, Massachusetts 1993)[71] Hvergi var hreyfingin þó jafn áberandi og á Englandi, þar sem gotneskur stíll hafði reyndar aldrei horfið með öllu. Hinn upphaflegi klassíski stíll fyrirfannst þar ekki, enda höfðu Rómverjar aldrei í raun lagt Bretland undir sig, það er, hvað varðar menningu og samfélagshætti. Nýklassískur stíll renesansins barst seint norður til Englands og blandaðist þar þeim gotneska sem fyrir var, ýmist ómeðvitað eða af ásettu ráði.71Brooks, The Gothic Revival, 23-48; Clark, An Essay in the History of the Gothic Revival, 11-27[72] Margir litu því á gotneskan arkitektúr sem hinn þjóðlega enska stíl. Á tíma Napóleonsstyrjaldanna (1803-1815) komust enskir pótintátar ekki í sínar föstu Evrópureisur (the Grand Tour) að skoða meistaraverk forngrikkja, Rómaveldis og renesansins. Þeir urðu að gera sér að góðu að skrönglast um eigið land og berja augum náttúru þess, fornleifar og gömul hýsi. Hugmyndin um gotneskuna sem hinn þjóðlega enska stíl styrktist enn frekar.
Augustine Pugin og Contrasts
Gotneskan var líka andóf gegn vaxandi nytjahyggju, einstaklingshyggju og markaðshyggju. Hún var krafa um tengsl við fortíðina, ákall um einhver önnur og æðri gildi en eigingirnd og sölumennsku mammonismans. Þannig leit Morris á málið, og líka mikilvirkasti arkitekt hinnar gotnesku endurreisnar, Augustus Pugin (1812-1852). Árið 1836 kvað hann sér ungur hljóðs með bókinni Contrast.[73]72Pugin, Agustus Welby, Constrasts, or the Parallel between the Noble Edifices of the Middle Ages and Corresponding Buildings of the Present Day, Shewing the Present Decay of Taste (Edinburgh 1898) [1836] Hún inniheldur teikningar Pugins af annars vegar byggingum og bæjum í samtímanum víðsvegar á Englandi og hins vegar af sömu byggðum á miðöldum samkvæmt rannsóknum og túlkun Pugins. Þar af leiðir titill bókarinnar: Contrasts. En bókin fjallaði ekki aðeins um húsagerð, heldur einnig, ef svo má segja, um arkitektúr mannlegra samskipta. Myndirnar sýna ekki aðeins húsin heldur líka mannlífið. Lesanda dylst ekki að öllu hefur stórlega hrakað, bæði húsagerðalist og ekki síður meðferð á fólki (sjá mynd). Þótt þessi vinsæla og áhrifamikla bók væri að nafni til um arkitektúr, var hún kannski fyrst og fremst þjóðfélagsádeila og siðfræðilegt rit. Og þannig var henni tekið.
Pugin var þó enginn uppreisnarseggur, þaðan af síður utangarðsmaður. Hann sló flestum við að vinsældum og afköstum. Hans þekktasta bygging er án efa Þinghúsið í Westminster (House of Parliament) með hinum fræga klukkuturni Big Ben, reist 1835-1870. Fyrirtækið sem Pugin starfaði við vann samkeppni um hönnun nýs þinghúss eftir að hið gamla brann árið 1834. Pugin var helsti, en þó ekki eini, arkitektinn á bak við höll þessa, sem er reyndar langt því frá að vera í hreinum gotneskum stíl. Fyrirtækið þurfti að halda þætti Pugins leyndum því hann var einn þeirra miðaldasinna sem gerst hafði kaþólskur, og útilokað þótti að slíku handbendi páfa yrði treyst til að koma nálægt helgustu vé ensks lýðræðis. Það átti eftir að kosta Pugin og afkomendur hans mikið streð, fé og erfiði að fá framlag hans til Þinghússins viðurkennt. Þótt kaþólikkar hefðu öðlast formlegt lagalegt jafnrétti á við mótmælendur var mikill misbrestur á því í reynd.
Þrátt fyrir endurreisn gotnesks stíls varð hann aldrei ríkjandi þegar á heildina er litið. Hans gætti lítið í gerð íbúðarhúsa, nema einstaka kastala, flokkist þeir til íbúðahúsa. Pugin, og Morris seinna, reistu sér reyndar híbýli í gotneskum stíl, en á mjög ólíkan hátt. Hús Pugins var eins og smækkaður kastali, „ekki sérlega praktískt“ eða fjölskylduvænt, með „hringstiga, vindubrú, varðturnum, skrúðhúsi og kapellu“ en „aðeins tveimur svefnherbergjum“.73Hill, Rosemary, God’s Architect: Pugin and the Building of Romantic Britain (London 2007), 135[74] Hvað varðar stórhýsi má segja að hinn gotneski stíll og hinn nýklassíski hafi komist að einskonar málamiðlun. Hinn síðarnefndi sá að mestu um opinberar byggingar ríkis, bæja og sveitafélaga, hinn gotneski um kirkjur, bæði kaþólskar og prótestanskar.74Briggs, Victorian Cities, 44[75] Þetta er við hæfi: hinn klassíski stíll er veraldlegur, formfastur og flatur; hinn gotneski andlegur, furðulegur og teygir sig til himins.
John Ruskin
Einn helsti boðberi og „hugmyndafræðingur“ gotneskunnar og miðaldahyggjunnar, og sá þeirra er mest áhrif hafði á Morris, var John Ruskin (1819-1900). Eins og Morris fæddist Ruskin inn í fjölskyldu burgeisa og lærði í Oxford, útskrifaðist 1842. Eins og Morris átti Ruskin að verða prestur en sveikst um það. En ólíkt Morris var hann alltaf upptekin af trúmálum; var lengi vel heittrúaður og síðan efasemdarmaður sem þjáðist efans vegna. Og ólíkt Morris var hann einbirni, ofdekrað í þokkabót. Og ólíkt Morris var hann alla tíð svo horaður að furðu þótti sæta.
Ævistarfi John Ruskins má skipta í tvennt.75Heildarverk Ruskins, ritstýrð af E. T. Cook og Alexander Wedderburn, kallast Library Edition, í 39 bindum (New York 1903-12). Allar tilvísanir hér eru í þessa útgáfu. Hana má nálgast á vefsíðu Lancaster háskóla: https://www.lancaster.ac.uk/the-ruskin/the-complete-works-of-ruskin/ Flest einstök rit Ruskins eru auk þess til í mörgum sérútgáfum, einkum hans síðari rit sem eru tiltölulega stutt. Flestum ætti að duga John Ruskin, Selected Writings (Oxford 2004[76] Fyrstu tuttugu árin, frá 1840 til 1860, einbeitti hann sér nær alfarið að rannsóknum og skrifum um málaralist og arkitektúr. Þetta gerði hann í krafti ríkidæmis föðurins sem auðgast hafði af innflutningi á sjerrí. Ruskin gat því gert það sem hann vildi og kostað sjálfur útgáfu bóka sinna. Og þær voru engin smásmíði. Modern Painters kom út í fimm bindum 1843-60;76Ruskin, Library Edition III-VII[77] svo kom The Seven Lamps of Architecture árið 1849;77Sama heimild, 126 [78] og síðan annað verk um arkitektúr, The Stones of Venice, í þremur bindum 1851-3.78Sama heimild, 126 [79] Þessi verk voru fyrst og fremst skrifuð fyrir hinar langskólagengnu efri stéttir. Upp úr 1860 varð starf Ruskins mun fjölþættara, hvað varðar málefni, miðlun og félagslegan uppruna viðtakenda. Hann var prófessor í listasögu í Oxford, en kenndi líka í nokkurs konar lýðháskóla, Working Man´s College í London. Hann fjallaði vitaskuld enn um listir og arkitektúr, en einnig um bókmenntir, kennslumál og ekki síst pólitík. Um þann þátt starfs hans verður fjallað síðar. Hér er sjónum beint að listfræði Ruskins.
Henni til grundvallar lá sú krafa til gerandans –listamannsins, handverksmannsins, arkitektsins– að hann reyndi af fremsta megni að tjá fegurð sköpunarverksins á sannan hátt, eins og hann sjálfur skynjaði hana. Sköpunarverkið varð Náttúran eftir því sem trú Ruskins þróaðist frá evangelískum prótestantisma í óræðan panþeisma óháðum trúflokkum. Í huga Ruskins var iðkun listar og handverks umfram allt siðræn athöfn. „Ég neita því alfarið að hugboð okkar um fegurðina séu skynræn“, sagði Ruskin: „Þau eru hvorki skynræn né vitsmunaleg, heldur siðferðisleg.“79Sama heimild, 126 [80] Það sem mestu skiptir þegar list og handverk eru metin er ekki hin endalega útkoma dæmd samkvæmt mælikvörðum staðlaðrar fagurfræði og því síður nytjahyggju; það sem máli skiptir er ferlið sjálft: hugarheimur, trú, lotning, „sannindi“ þess sem skapar. Það var þess vegna sem Ruskin var mjög skeptískur á klassískan og nýklassískan stíl. Hann var enginn aðdáandi hinnar ítölsku endurreisnar, alltént ekki há-renesansins og þeirrar hefðar hans sem mótaði opinbert listalíf víðast hvar í Evrópu, þar á meðal Englandi. Sókn renesansins í fullkomnun hafði, að mati Ruskins, getið af sér formúlulist: allir fylgdu settum reglum um uppstillingu, víddir, hlutföll, liti, áferð og hvaðeina, málandi eða höggvandi hlutina eins og þeim var kennt að þeir ættu að vera. Á miðöldum, aftur á móti, fyrir daga Mikaelangelo og Rafaels, höfðu menn verið trúir sinni eigin upplifun og eigin sýn. „Það stórkostlegasta sem mennsk sál gerir í þessum heimi er að sjá og segja frá því sem augað sér á einfaldan hátt. Hundruðir manna geta talað fyrir hvern einn sem kann að hugsa, en þúsundir geta hugsað fyrir hvern einn sem kann að sjá. Að sjá skýrt er lýrík, opinberun og trú –allt í senn.“80Sama heimild, 126 [81] Þannig mæltist Ruskin í þriðja bindi Modern Painters.
Það mikla verk var annálað fyrir lærdóm og mannvit. Alltént þótti hinum menntuðu efri stéttum við hæfi að kaupa þessa doðranta, stilla upp í hillu og lesa, eða þykjast lesa. Þegar Ruskin hélt fyrirlestra í Oxford komust færri að en vildu, svo hann varð jafnan að halda sama lesturinn oftar en einu sinni og menn þurftu að kaupa miða eins og í leikhús. Meðal stúdenta Ruskins voru Oscar Wilde og „Íslandsvinurinn“ William G. Collingwood, sem skrifaði eina af fjölmörgum ævisögum Ruskins.81Sama heimild, 126 [82] Þar segir Collingwood að öllum hafi skilist að höfundur Modern Painters væri sprenglærður og „vissi eitthvað um viðfangsefnið, jafnvel þótt hann drægi rangar ályktanir.“82Sama heimild, 126 [83] Það var fyrst og fremst Ruskin sem kenndi Englendingum að meta William Turner, sem þeir höfðu hingað til hunsað. Turner var meginefni fyrsta bindis Modern Painters. Um það bindi sagði Charlotte Brontë: „Þessi bók virðist hafa gefið mér augu.“83Sama heimild, 126 [84] Ruskin kenndi Englendingum einnig að meta ítalska list miðalda, hina flæmsku “primitífa” og, eins og brátt skal frá greint, hina ensku for-rafaelíta.
Ruskin fylgdi sömu línu í arkitektúr. Hann tók gotneskan stíl fram yfir alla aðra og mærði sérstaklega gotneskar byggingar Feneyja og norður Ítalíu, þeim sömu og Vasari hallmælti sem mest. En hann var mótfallinn því að menn hermdu eftir þeim hugsunarlaust. Hann hældi arkitektum sem stúderuðu gotneska byggingarlist og nýttu sér hugmyndir hennar og aðferðir til að skapa eitthvað sem vísaði til hefðarinnar en var um leið nýtt og frumlegt. Ber þar helst að nefna William Butterfield, George Edmund Street og Philip Webb. Þeirra list hefur verið kölluð ný-gotneska. En þá sem einfaldlega öpuðu eftir hinni gömlu gotnesku sagði hann dottna í nýja tegund af formúlulist. Honum var sérstaklega illa við Pugin, sem hann sagði að væri „ekki mikill arkitekt, heldur einn lítilsverðasti allra mögulegra og hugsanlegra arkitekta“.84Sama heimild, 126 [85] Hinn starfsami Pugin létt sér þetta í léttu rúmi liggja. „Kallinn ætti að byggja eitthvað sjálfur“, á hann að hafa sagt.85Sama heimild, 126 [86]
PRB
Á sýningu hins virta listaskóla Royal Academy of Art árið 1850 vakti ein mynd meiri hneykslun og fjaðrafoki en menn þar á bæ áttu að venjast. Þetta var olíumálverkið Christ in the House of His Parents. Þar má líta Jesú sem ungan dreng, fjölskyldu hans (þessa jarðnesku) og fleira fólk samankomið á smíðaverkstæði Jósefs. María er að hugga Jesús sem hefur meitt sig í lófa svo úr blæðir. Menn þurfa ekki að vera með doktorsgráðu í symbólisma til að giska á að sárið vísi í tilvonandi krossfestingu. Um myndina skrifaði einn gagnrýnandi:
Í forgrunni smíðaverkstæðisins er einstaklega ófríður, höfuðskakkur grenjandi rauðhærður strákur í náttslopp [Jesús] sem virðist hafa verið laminn í hendina af öðrum strák [Jóhannesi skírara] þegar þeir voru að leika sér í nálægu göturæsi, og réttir strákur fram lúkuna til konu einnar sem þarna krýpur og er svo hræðileg í ljótleika sínum, að hún myndi (að því tilskyldu að hún lifði það af að hafa farið úr hálsliðnum) skera sig úr fjöldanum sem hreinasta skrýmsli í siðspilltasta kabarett í Frakklandi eða sóðalegastu ginbúllu á Englandi [María].
Óvægin gagnrýni þetta, ekki síst þar eð hún kom úr penna ástsælasta rithöfundar þjóðarinnar, sjálfs Charles Dickens. Það var margt í myndinni sem hneykslaði, en þó fyrst og fremst „realisminn“, því eins og orð Dickens gefa til kynna var ekkert verið að fegra mannskapinn, þótt skáldið hafi vissulega ýkt ljótleika hans upp úr öllu valdi. Hvert einasta smáatriði var málað af ýtrustu nákvæmni, hvert hár á höfðum manna, hver æð á handleggjum, hver hefilspónn á gólfinu, skítur undir allra nöglum, neglur frelsarans þar ekki undanskildar. Auk þess braut myndin allar viðteknar venjur um uppstillingu, liti, ljós og skugga.86Gagnrýni Dickens birtist fyrst í tímariti hans Household Words og hefur oft verið höfð eftir síðan. Um þetta málverk, sjá: Barringer, Tim, Reading the Pree-Raphaelites, 39-42; Birchall, Heather, Pre-Raphaelites (Köln 2016), 68-9; Rose, Andrea, The Pre-Raphaelites (New York 1977), 42-3; Heimildarmynd BBC: The Pre-Raphaelites: Victorian Revolutionaries, Part I[87]
Listamaðurinn var einn nemanda skólans, undrabarnið John Everett Millais (1829-1896), sem fengið hafði inngöngu ellefu ára, yngstur allra fyrr og síðar. Millais var einn meðlima fóstbræðralags, the Pre-Raphaelite Brotherhood, sem ætlað var að hrista rækilega upp í stöðnuðu bresku listalífi. Þetta var leynifélag sem oftast var kallað PRB, sem engir nema útvaldir máttu vitta hvað þýddi.87PRB stóð vitanlega fyrir Pre-Raphaelite Brotherhood, en það var líka sagt tákna „Please, Ring Bell“ og „Penis Rather Better“.[88] Bræðralagið var stofnað haustið 1848 af sjö ungum og listrænum eldhugum, en af þeim sjö skiptu þrír öllu máli: umræddur Millais, Dante Gabriel Rossetti (1828-1882) og William Holman Hunt (1827-1910). Hinn síðast nefndi útskýrði seinna: „Pre-Raphaelitism is not Pre-Raphaelism“.88Hunt, William Holman, Pre-Raphaelitsim and the Pre-Raphaelite Brotherhood, Vol. 1 (New York & London 1905), 135[89]Með því átti hann við að þeir félagar hefðu ekkert á móti Rafael (1483-1520) sjálfum, þeim mikla meistara hinnar ítölsku endurreisnar; þvert á móti mátu þeir hann mikils og settu hann á lista yfir 57 „ódauðlega“ snillinga sögunnar á öllum sviðum menningar.89Sama heimild, 159[90] Uppreisn hinna ungu listamanna beindist gegn þeim lærisveinum meistarans sem öpuðu allt eftir honum hugsunarlaust og þeim sem allar götur síðan höfðu gert stíl endurreisnarinnar, svo ágætur sem hann kann að vera, að kreddu sem öllum var skylt að arta. Þetta var sem sé bræðralag þeirra sem vildu gera hlutina eins og þeir voru gerðir fyrir daga fylgjenda Rafaels, þ.e.a.s. á miðöldum. Þeirra menn voru hinir ítölsku Lorenzo Ghiberti (1378-1455) og Fra Angelico (1395-1455), sem og Jan van Eyck (1390-1441) og aðrir flæmskir „primitífar“.
For-rafaelítar brutu sem sé viðteknar venjur. „Voru þeir kallaðir óaldarseggir og taldir hálfgildings afglapar“ sagði Jón Stefánsson.90Jón Stefánsson, Úti í heimi: Endurminningar (Reykjavík 1949), 102[91] Þeir brúkuðu mun skærari og fjölbreyttari liti en sæma þótti, höfðu ekki endilega eina þungamiðju, og jafnvel þótt svo ætti að heita, var oft heilmikið að gerast í bakgrunni; eins og í málverkum miðalda sagði hver mynd margar sögur; þar var oft þröngt á þingi og þar úði og grúði af symbólisma. Hvert smáatriði var málað sérstaklega og af fádæma kostgæfni, með minnsta fáanlega pensli. Einn þumlungur lérefts þótti gott dagsverk. Þetta fór illa með augun eins og Millais og Rossetti áttu eftir að sannreyna.
Í samræmi við þennan realisma sýndu málverk for-rafaelíta alvöru einstaklinga, ekki abstrakt og óljóst fólk. Þrátt fyrir orð Dickens voru konur í myndum for-rafaelíta reyndar oftast forkunnarfagrar, enda módelin valin af kostgæfni, auðvitað úr röðum fátækrar alþýðu, því fyrirseta þótti ekki sæmandi siðprúðum miðstéttajómfrúm. Þetta voru hin margrómuðu Pre-Rapaelite beauties, sem listamennirnir sjálfir kölluðu stunners. Samband þeirra við málarana var með þeim hætti sem nú kallast complicated, en þó mátti ganga að því vísu að þær enduðu í bólinu hjá Rossetti. Framan af voru þær oftast rauðhærðar.91Einkalíf for-rafaelíta var skrautlegt í meira lagi og efni í stórskemmtilega bók: Moyle, Franny, Desperate Romantics: The Private Lives of the Pre-Raphaelites (London 2009).[92]
Við tölum um realisma for-rafaelíta, en hann náði, alltént í byrjun, bara til formsins eða tækninnar, ekki myndefnisins. Þar gilti óforbetranleg rómantík. Myndefnið var að mestu sótt til miðalda, sögurnar um Arþúr konung og riddara hringborðsins, ljóð Tennysons og biblíuna. Þetta breyttist þó nokkuð þegar á leið og myndirnar fengu meiri samfélagslega tilvísun og þá sérstaklega með tilliti til stöðu kvenna, eins og í myndunum The Awakening Conscience eftir Hunt, Mariana eftir Millais og Found eftir Rossetti. Í Work eftir Ford Madox Brown (1821-1893) er stéttakerfið dregið upp á myndrænan hátt með vöðvastælta verkamenn í forgrunni sem hina einu skapendur samfélagslegs auðs.
Brown var nokkuð eldri en meðlimir bræðralagsins, en þeim nátengdur og einskonar lærifaðir. Honum var boðið að gerast stofnfélagi bræðralagsins, sem hann afþakkaði, of gamall, reyndur og ráðsettur fyrir stráksleg leynifélög. Hann hefur verið kallaður fyrstur for-rafaelíta, sem og bæði faðir og þeirra og kóngur.92Barringer, Tim, „Ford Madox Brown (1821-1893)“ í Prettejohn (ritstj.), The Cambridge Companion to the Pre-Raphaelites, 148-63; „The Effects of Industry: Ford Madox Brown and Artistic Identities in Victorian Britain“ í Sidey, Tessa (ritstj.), Ford Madox Brown: The Unofficial Pre-Raphaelite (Birmingham 2008), 16-31; Thirlwell, Angela, „Vieux Fordy: Death of a Modern Man“ í sama riti, 7-15[93] En Ruskin var þeirra guðfaðir og helsti velgjörðamaður. Miðaldadýrkun for-rafaelíta, aðferðir þeirra og viðhorf til listsköpunar voru mjög í anda Ruskins, sem þeir lásu spjaldanna á milli. Rýnandi í hvert smáatriði, var hinn drátthagi for-rafaelíti þessi eini af þúsund sem kunni að sjá.
Enda var það Ruskin sem kom Millais og félögum til varnar þegar Dickens og aðrir krítíkerar helltu yfir þá skömmum. Í maí 1851 skrifaði hann bréf til ritstjóra The Times sem lauk með þessum orðum: „svo kann að fara að með aukinni reynslu leggi þeir, hér á voru Englandi, grunninn að skóla í listum göfugri en heimurinn hefur vottað í þrjúhundruð ár“.93Vitnað í Wildman, Stephen (ritstj.), “A New and Noble School”: Ruskin and the Pre-Raphaelites (London 2012), 56. Í því riti er að finna öll skrif Ruskins um for-rafaelíta[94] Eftir þetta studdi hann for-rafaelíta með ráðum og dáðum. Þriðja bindi Modern Painters fjallar að miklu leyti um þá. Jafnframt varð Ruskin samsamaður for-rafaelítum, var talinn einn af þeim. Orð Ruskins vógu þungt og fór hróður þeirra fóstbræðra nú heldur betur vaxandi, alla vega snillinganna tveggja Millais og Hunts. Þeir seldu myndir fyrir hærri upphæðir en nokkrum hafði hingað til komið til hugar. Hin iðnvæddi kapítalismi gat af sér flokk nýríkra burgeisa sem voru til í að eyða miklum pening í að sanna að þeir hugsuðu um eitthvað annað en peninga. En þegar velgengnin óx rýrnaði uppreisnarandinn, sérstaklega í Millais. Hann varð fljótlega „kerfiskall“, og það, ásamt versnandi sjón, varð til þess að list hans hrakaði, þótt enn seldist hún vel og var meira að segja notuð í auglýsingar. Rossetti stóð aldrei í slíku. Evelyn Waugh sagði hann hafa verið, „á sinn sérstæða hátt, svo sannur listamaður“ að þrátt fyrir öll sín uppátæki og ólíkindi, hafi hann einn, af öllum lukkuriddurum listagyðjunnar á 19. öld, „aldrei verið, að neinu ráði, húmbúkk.“94Waugh, Evelyn, Rossetti: His Life and Work (London 1928), 12[95] Eigum við ekki að segja að þetta sé hrós?
Dante Gabriel Rossetti
Frá náttúrunnar hendi taldist Dante Gabriel Rossetti hafa minni hæfileika en Millais og Hunt; hann þroskaðist seinna og naut ekki sömu veraldlegu velgengni. Hins vegar reyndist hann þeirra hugmyndaríkastur og, þegar til lengri tíma er litið, áhrifamestur. Hann var svo sem aldrei á flæðiskeri staddur, hafði sína föstu kúnna sem mátu hann mikils og borguðu vel. Slæm reynsla hans af krítíkerum við upphaf ferilsins olli því hins vegar að hann hætti snemma að sýna á almannafæri, ekki nema 22ja ára. Strax þá varð hann þjóðsagnapersóna og hefur verið síðan. Í hugum manna varð ævi hans einhverskonar „runa af táknum hins frumlega listamanns: ungstirnið, uppreisnarseggurinn, hinn misskildi snillingur, hinn sévitri einfari, hinn ástríðufulli elskhugi, hinn uppdópaði sjáandi“. Og þessi sem að lokum sturlaðist og dó ungur.95Prettejohn, Elizabeth, Rosetti and His Circle (New York 1997), 9[96]
Hann var skírður Gabriel Charles Dante, en breytti því í Dante Gabriel og lét Gabriel nægja hvunndagslega.96Hér er einkum stuðst við: Marsh, Jan, The Pre-Raphaelite Circle (London 1998); Moyle, Desperate Romantics; Prettejohn, Rosetti and His Circle (New York 1997); The Cambridge Companion to the Pre-Raphaelites; Roe, Dinah, The Rossettis in Wonderland: A Victorian Family History (London 2011); Rossetti, William, Dante Gabriel Rossetti as Designer and Writer (London 1880); Tickner, Lisa, Dante Gabriel Rossetti (London 2003); Waugh, Rossetti: His Life and Work; heimildarþáttur: https://www.youtube.com/watch?v=Omu1mZNYQGQ[97] Gabriel hét hann eftir föður sínum Gabriele Rossetti, sem var ítalskur útlagi; Dante hét hann eftir Dante Alighieri, sem ásamt frelsun Ítalíu undan oki Ferdínands II var helsta ástríða þess sama föður. Móðirin var líka ítölsk, Francesca eða Frances Polidori.97Systir John Polidori sem var um skeið með Byron og Shelley á Ítalíu og skrifaði hrollvekjuna The Vampyre[98] Dante Gabriel var elstur fjögurra systkina. Hin voru bróðirinn William Michael og systurnar María og Christina. „Nánast allir Ítalir í London“ urðu fastagestir á heimili fjölskyldunnar, „menntamenn, götutónlistarmenn, aðalsmenn í útlegð“, allir mættu þeir „til að harma örlög lands síns og brugga launráð á fjórum tungumálum“.98Waugh, Rossetti,16-17[99]
Dante Gabriel ólst því upp við alls kyns „plott“ og leynifélög, enda var það var hann sem átti hugmyndina að Pre-Raphaelite Brotherhood. William bróðir hans var einnig meðal stofnfélaga, sá eini sem ekki var sjálfur listamaður. Hann vann á skattstofu á daginn en þar fyrir utan skrifaði hann um bókmenntir og aðrar listir, gaf meðal annars út bækur um Walt Whitman og Shelley. Hann fúnkeraði einnig sem einskonar framkvæmdarstjóri for-rafaelíta og allsherjar „reddari“, bæði þeirra og fjölskyldunnar, ekki síst Dante Gabriels. Þeim manni þurfti oft að redda.
Allir hinir upphaflegu for-rafaelítar voru karlmenn – þetta var bræðra-lag-lag– og allir nema William myndlistamenn eða höggmyndamenn. En sá hópur leystist fljótlega upp; bræður helltust úr lestinni, að lokum allir nema þeir Rossettibræður. En maður og kona koma í manns stað og kringum Gabriel myndaðist nýr hópur, af báðum kynjum og ekkert síður ljóðskáld en myndlistamenn. Þetta var hin svokallaða „önnur kynslóð for-rafaelíta“, sú sem William Morris og Edward Burne-Jones tilheyrðu.
Rossetti hafði óhemju karisma og kvenhylli. Eins og fyrr sagði, svaf hann hjá nánast öllum kvenkyns fyrirsætum for-rafaelíta, og lét ekkert af þeirri iðju þótt hann kvæntist einni þeirra, Elizabeth, eða Lizzie Siddal. Hún var sjálf efnilegur listmálari og gott ljóðskáld, en öðlaðist hvorki gæfa né aldur til að vinna sem skyldi úr þeim hæfileikum. Hjónaband hennar og Gabriels var ástríðufullt og stormasamt en aldrei hamingjusamt. Hún ánetjaðist laudanum sem er áfengur drykkur er inniheldur einnig ópíum. Læknar Viktoríutímans skrifuðu gjarnan lyfseðla upp á laudanum handa konum sem þeir kunnu ekki að sjúkdómsgreina öðru vísi en að þær væru farnar á taugum og orðnar móðursjúkar. Í febrúar 1862, níu mánuðum eftir að hún fæddi andvana dóttir, tók Lizzie inn of stóran skammt sem varð henni að aldurtila. Það varð aldrei ljóst hvort þetta var sjálfsvíg eða misgáningur.
Eftir fráfall Lizzie hreiðraði Gabriel um sig þar sem hét Tudor House í Chaney Walk í borgarhlutanum Chelsea. Þar bjó hann ásamt hópi leigjenda sem allir nema William bróðir hans áttu það sameiginlegt að vera minni borgunarmenn en bóhemar. Þeir helstu voru skáldin Algernon Swinburne og George Meredith og málararnir Frederick Sandys og Simeon Solomon. Auk þess safnaði hann í kringum sig skrautlegu safni „gæludýra“. Auk hinna vanalegu eins og hunda, katta, músa, kanína og talandi páfagauka, „átti hann á einhverju stigi málsins … íkorna, moldvörpu, kameljón, broddgelti … salamöndrur, dádýr, vallabíu, fleira en eina kengúru, tvo vamba, tvö múrmeldýr … beltisdýr, þvottabjörn, indverskt naut, asna … Allt stóð þetta í stöðugum slagsmálum og gripdeildum innandyra eða úti í garði ellegar í görðum nágrannanna.“99Sama heimild, 117[100] Frægastur var vambinn Top. Rossetti ortu um hann drápur og hann fékk skráða sína eigin ævisögu.100Simons, John,Rossetti’s Wombat: Pre-Raphaelites and Australian Animals in Victorian London (London 2008)[101] Hvernig sem hann fór að því átti Rossetti líka flottasta safn postulínsdiska og bollastella í London.
Bloomsbury
Við skildum við Morris og Burne-Jones í bræðralagi menningarvita, gefandi út tímarit og hafandi uppi stór áform á þá lund að annar yrði arkitekt og hinn listmálari. Þeir létu ekki sitja við orðin tóm. Strax eftir útskrift fór Morris í læri á arkitektastofu George Edmund Streets. Það var engin tilviljun að Morris valdi sér Street sem læriföður. Street var einn virtasti og frumlegasti enskra „gotneska“ arkitekta. Byggingar hans „sóttu innblástur sinn sérstaklega í franskan gotneskan stíl þrettándu aldar, með skýra formgerð og hreinar línur … einfaldar skreytingar og ögrandi myndir höggnar og útskornar.“101Brooks, The Gothic Revival, 319. Meðal þekktustu bygginga Streets eru Royal Courts of Justice í London, Christ Chruch Cathedral í Dublin og American Cathedral í París[102] Þetta var einmitt sá stíll sem hvað mest hafði hrifið Morris í Frakklandi. Auk þess var ekki langt að fara; skrifstofa Streets var í Oxford. Þarna kynntist Morris öðrum lærlingi og upprennandi meistara hins gotneska stíls, Philip Webb. Tókst með þeim ævilöng vinátta.
Á meðan flutti Burne-Jones til London og leitaði uppi átrúnaðargoðið Dante Gabriel Rossetti, „lagði hann nánast í einelti,“102MacCarthy, The Last Pre-Raphaelite, 59[103] og tókst að fá hann til að taka sig sem einkanemanda. Það hjálpaði til að Rosetti vissi nokkur deili á Burne-Jones og Morris í gegnum í The Oxford and Cambridge Magazine. Á þeim grundvelli fullyrti hann að Morris væri upprennandi stórskáld, og um leið og hann sá fyrstu skissur síns nýja nemandi vissi hann að hér var efni í annan snilling. Í bréfi til vinar síns skrifaði Rossetti: „Tveir ungir menn … eru nýkomnir í bæinn frá Oxford og hefur tekist með okkur náin vinátta. Þeir heita Morris og Jones … báðir búa þeir yfir sannri snilligáfu.“103Vitnað í MacKail, The Life of William Morris, Vol. 1, 110[104]
Haustið 1856 flutti E. G. Street starfsemi sína til London, og Morris fylgdi auðvitað með. Hann og Burne-Jones bjuggu saman í Bloomsbury-hverfinu, sem var nú að fá á sig orð sem byggð listamanna, skálda, róttæklinga og utangarðsmanna. Morris fór að eyða drjúgum tíma á vinnustofu þeirra Rossettis og Ford Madox Brown. Hinn fyrrnefndi reyndi að sannfæra Morris um að hætta námi í arkitektúr og gerast málari. Rossetti gat aldrei skilið að nokkur maður gæti hugsað sér að verða nokkuð annað en listmálari. Hann sagði líka að allir gætu orðið miklir málarar ef þeir bara vildu, nenntu og reyndu. Alltént allir skáldlegir menn, sem Morris augljóslega var. Þeir félagar höfðu nokkrar áhyggjur af því að þeir væru orðnir of gamlir til að nema jafn strembna kúnst og málaralist. Byrjuðu ekki allir snillingar sem kornung undrabörn? Þeir spurðu Madox Brown, sem þótti oft skapstirður og fámáll, hvað honum fyndist um þetta mál. „Ó nei!“, svaraði hann, „ég þekki mann sem byrjaði eldri en þið.“ Og bætti við eftir smá stund: „Hann skar sig á háls um daginn.“104Waugh, Rossetti, 83-4[105] Þetta sló þó ekkert á áhugann. Smátt og smátt þróaðist það svo að Morris varð annar lærlingur Rossettis og fór um um leið að slá slöku við arkitektsnámið. Hann gaf það endanlega upp á bátinn snemma árs 1858. Það var Rossetti sem ákvað að Ted Burne-Jones skyldi kallast Ned og þar við sat æ síðan. Topsy var áfram Topsy.
Herförin káta
Sumarið 1857 virkjaði Rossetti þá Ned og Topsy sem og ýmsa aðra vini og vandamenn í stórt verkefni sem var að myndskreyta hinn nýja kappræðusal Oxfordháskóla (Debating Hall, Oxford Union Building). Sjö listmálarar og málaranemar voru þarna í fullri vinnu, og margir aðrir hjálpuðu til öðru hvoru eða voru eitthvað viðloðandi hópinn. Þeirra á meðal fyrrum meðlimir Settsins sem og skáldin Algernon Swinburne og Coventry Patmore. Þetta voru nánast allt karlmenn, og eins og gengur á slíkum vinnustöðum var mikið spaugað, brandarar látnir fjúk, hrekkir fastir liðir og búkhljóð tíð. Hrekkirnir bitnuðu oftar en ekki á Morris, sem sökum skapbræði og úthverfs persónuleika var tilvalið skotmark. Swinburne, sem þarna sá Morris í fyrsta sinn, sagði: hann „blótar ferlega, með vaggandi göngulag eins og hann sé rallhálfur.“105Vitnað í MacCarthy, William Morris, 135 [106] Allt ku þó hafa flokkast undir græskulaust gaman. Fyrir vikið var verkefnið kallað „herförin káta“ (the jovial campaign) og fékk með tímanum á sig þjóðsagnablæ.
Þemað verksins var Arþúr konungur og riddarar hringborðsins. Þeir voru mjög í tísku um þessar mundir. Árið áður hafði ný ensk útgáfa af Le Morte d´Arthur (dauði Arþúrs), verki sömdu á 15. öld af Thomas Malory, gert mikla lukku og hinir rómantísku for-rafaelítar rifið það í sig. Bókin var reyndar svo dýr að sá eini þeirra sem hafði efni á henni var Morris. Vegmyndirnar þóttu fagrar mjög og hrifu þá sem sáu. Coventry Patmore kvað þær hafa „munaðarfulla útgeislun“.106Sama heimild, 133[107] Hins vegar entust þær ekki lengi. Myndirnar voru málaðar beint á vegginn án nokkurs grunnlags eða annars undirbúnings. Það var raki í veggnum og myndirnar fölnuðu fljótt og voru nánast horfnar eftir hálft ár. Sumar voru heldur aldrei kláraðar. Evelyn Waugh skrifaði: „Enginn á Englandi á þessum tíma vissi mikið um þá tækni sem þarf til varanlegra veggmynda; enginn vissi minna en þessir spaugsömu for-Rafaelítar … Myndirnar molnuðu og fölnuðu áður en þær voru fullkláraðar; listamennirnir pökkuðu niður og voru farnir.”107Waugh, Rossetti, 86[108] Nokkrar myndirnar mátti þó endurvinna seinna og færa í að einhverju leyti í upprunalegt form.
Rossetti hafði nú safnað í kringum sig nýrri hirð listamanna sem var að mörgu leyti merkari en hið upprunalega Bræðralag for-rafaelíta. Alltént var það fjölbreyttara hvað varðar bæði kyn og listgreinar. Helstar kvenna voru systir Gabríels, Christina, og spúsa hans, Elizabeth Siddell, enn á lífi þegar hér er komið sögu. Christina var merkilegt ljóðskáld og höfundur hinna vinsælu bókar Goblin Market (1862). Lizzie bæði málaði og orti. Helstu málarar voru, auk Rossettis og Burne-Jones, áðurnefndir Ford Madox Brown, Frederick Sandys og Simeon Solomon, sem og William Bell Scott og hinn bandaríski James McNeill Whistler, sem málaði móður sína eins og frægt er. Af skáldum má nefna Swinburne, Meredith, Patmore, Arthur O’Shaughnessy og hinn írska William Allingham. Reyndar fengust málararnir flestir líka eitthvað við ljóðagerð, og þá helst þeir Bell Scott og Rossetti sjálfur. Það gerði og William bróðir hans, sem þó, eins og fyrri daginn, fúnkeraði mest sem fræðingur og allsherjar reddari frekar en listamaður. Og svo var Morris. Hvað var hann þegar hér var komið sögu? Þau hin sáu hann fyrst og fremst sem ljóðskáld, líkast til upprennandi þjóðskáld. Auk þess var hann að reyna að verða listmálari, en gekk alls ekki eins vel og vonir höfðu til staðið. Honum gekk sérstaklega illa að mála líkama og tjá hreyfingu. Honum skildist fljótlega að í þessari list myndi hann alltaf standa langt að baki Rossetti, Madox Brown og sínum gamla vini Ned Burne-Jones, sem jókst af íþrótt og frægð með degi hverjum. En þess var ekki langt að bíða að Morris fyndi sína fjöl, eða öllu heldur sínar mörgu fjalir, sem gerðu hann líkast til að mesta listamanni hópsins, alltént þeim sérstæðasta, fjölþættasta, ástsælasta og áhrifamesta.
Janey og Rauða húsið
Í lok árs 1857 hitti William Morris og varð ástfanginn af Jane Burden. Rossetti og Burne-Jones höfðu komið auga á hana á leiksýningu í Oxford sumarið áður, í miðri herförinni kátu. Rosetti, alltaf á höttunum eftir stunners sem módelum, fékk Jane, með leyfi foreldra, til að sitja fyrir hjá þeim félögum. Morris málaði hana sem Ísól, í myndinni La Belle Iseult. Og varð ástfanginn í miðjum klíðum. Þau trúlofuðu sig vorið 1858 og giftust í apríl árið eftir. Athöfnin fór fram í Oxford og einn út Settinu gaf þau saman: Richard Watson Dixon, núorðinn kapellán.
Jane, eða Janey eins og hún var oftast kölluð, bjó yfir sérstæðri og framandi fegurð. Hún var hávaxinn og mjög grönn og beinaber; hrokkinhærð með tinnusvart hár og óvenju dökk á hörund. Hún var fyrsti „stunnerinn“ sem ekki var með rautt hár. Hún var sögð mjög „óensk“ í útliti og ýmsir héldu því fram að hún væri komin af sígaunum. Hún virkaði síalvarleg, dularfull og stolt, jafnvel þóttafull. Þetta gat stuðað „ólistrænni sálir“, en hreif hina rómantísku for-rafaelíta; gerði hana að „for-rafaelísku íkoni“.108MacCarthy, William Morris, 137 Hún var „annáluð fyrir fegurð“ sagði Jón Stefánsson, og þegar hún birtist „var engu líkara en þar kæmi gyðja ofan af Ólymp og settist meðal mennskra manna.“109Jón Stefánsson, Úti í heimi, 103[110] Dagblaðið Vísir tók í sama streng: „Hún var lengi talin fegursta kona heimsins.”110Vísir, 15.02.1914, 2[111]
Janey var af allt annarri stétt en William Morris. Faðir hennar var hestasveinn. Fjölskyldan bjó í smábæ skammt frá Oxford, heimilið var fátækt og húsmóðirin ólæs. Fiona MacCarthy segir engar heimildir fyrir því hvernig móður Williams leist á ráðahaginn, en telur víst að hún hafi brugðist illa við.111MacCarthy, William Morris, 136[112] Fyrst hætti sonurinn við að verða prestur, síðan hætti hann við að verða arkitekt, og loks kvæntist hann „niður fyrir sig“. Enginn úr fjölskyldu Williams mætti í brúðkaupið.112Sama heimild, 151[113]
Hjónabönd eða langtímasambönd karla úr efri stéttum og kvenna úr lágstéttum voru sjaldgæf í þessa tíð, en þó tiltölulega algeng meðal listamanna, einkum myndlistarmanna. Menn sem höfðu kost á listnámi voru flestir úr yfirstétt eða miðstétt, en um leið kannski ekki þeir sem mesta rellu gerðu út af siðum og væntingum samfélagsins. Fyrirsætur voru hins vegar nær alfarið af lægri stéttum, enda áleit fína fólkið starfið jaðra við vændi og ekki hæfandi siðprúðum heldri konum. Módel og málarar eyddu miklum tíma saman við aðstæður sem oft voru þrungnar erótík. Hjónaband Rossettis og Lizzie Siddell, samband Holman Hunts og Annie Miller, og nú hjónaband Williams og Janey, voru allt dæmi um slíka ráðahagi. Í þess háttar tilfellum þótti tilhlýða að hin útvalda reyndi að „bæta sig“: auka menntun sína og almenna þekkingu, breyta framkomu, orðafari og málhreim, helst að taka upp einhverja listgrein eða menningarlegt áhugamál. Þær urðu, í menningarlegum skilningi, að færa sig upp um stétt. MacCarthy talar um Pygmalion factor í þessu sambandi, og vísar í gömlu grísku mýtuna um myndhöggvarann sem bjó til styttu af konu og varð svo ástfanginn af styttunni, ástfanginn af þeirri kvenímynd sem hann sjálfur skapaði. George Bernard Shaw notaði þetta minni í leikriti sínu Pygmalion, sem seinna varð kvikmyndin My Fair Lady. Shaw var nákunnugur Morris, og MacCarthy spyr hvort svo geti verið að hann hafi fengið hugmyndina frá sambandi Williams og Janey og jafnvel kvennamálum for-rafaelíta almennt.113Sama heimild, 137-8[114] Sá eini í þeirra hópi sem kannski má segja að hafi kvænst „upp fyrir sig“ var Burne-Jones. Í júní 1860 gekk hann að eiga Georgiana MacDonald, dóttir meþódistaprests. Fjölskylda Georgie, eins og hún var oftast kölluð, taldist varla auðug, en tengd inn í „fínar“ ættir.114Georgiana var frænka Rudyard Kiplings og Stanley Baldwins forsætisráðherra. Hvorugur þeirra var þó fæddur þegar hér var komið sögu[115]
Hafandi krækt í kvonfang lá næst fyrir að byggja hús. Þetta var hið svokallaða Rauða hús, hannað af vini Morrisar, Philip Webb. Það var byggt 1858-60 og var fyrsta hús Webbs eftir að hann útskrifaðist sem arkitekt. Húsið er mjög í anda for-rafaelíta og Ruskins. Því hefur verið lýst sem ný-gotnesku: það ber ýmsa þætti gotnesks byggingarlags, en þó frumlegt og að sumu leyti nútímalegt. Það minnir á miðaldir en er samt –í algjörri andstæðu við mini-kastala Pugins– praktískt og fjölskylduvænt. Morris og Webb voru meðal þeirra fyrstu sem vildu fækka óþarfa veggjum innanhúss, hafa alrými og færri, en stærri, stofur og herbergi. Húsið er undir sterkum áhrifum frá Street, og ekki síður frá William Butterfield, og minnir mikið á hina frægu kirkju Butterfields, All Saints í Margaret Street í London. Þessar tvær byggingar eru að margra mati fegurstu dæmi ný-gotnesks arkitektúrs á síðari hluta 19 aldar. Báðar eru úr rauðum múrstein. Rauða húsið ber því nafn með rentu.
Að innan var húsið veglega skreytt, og alfarið af Morris og félögum. Burne-Jones málaði veggmynd sem þakti alla veggi setustofunnar. Hún var byggð sögum frá 15. öld um riddarann Sir Degrevaunt. Hér gilti reyndar hið sama og um myndarnar Oxford: málað var beint á vegginn án grunns og annars viðeigandi undirbúnings, og myndirnar fölnuðu því fljótt. Enn mótar þó fyrir þeim. Í stofunni var líka stór trébekkur skreyttur af Rossetti með myndum af Dante og Beatrís. Öll gluggatjöld, veggteppi og önnur klæði voru unnin af Morris, Janey, Georgie og Bessie, systur Janey. Hér hafði Morris langmestu færni og reynslu. Hann hafði kynnt sér útsaum að fornu og nýju og vissi allt um hefðir hans, aðferðir og meðferð. Það var því hann sem stjórnaði verkinu og kenndi kvinnunum. Georgie kvað leiðsögn hans hafa „í engu verið ábótavant, og illa fór væri þeim ekki fylgt.“115Vitnað í MacCarthy, William Morris, 160[116] Borðstofan var skreytt með sjö eða átta veggteppum úr hör, með kvenmyndum byggðum á The Legend of Good Women eftir Chaucer. Morris vildi gera Rauða húsið að „fallegasta stað á jarðríki“116Sama heimild, 158[117]og Rossetti sagði það vera „frekar ljóð en hús“.117Roe, The Rossettis in Wonderland, 213[118] Það hlýtur að vera gott að búa í ljóði.
Firmað
Með herförinni kátu og skreytingu Rauða hússins hafði skapast samstilltur og lífsglaður hópur færustu listamanna sem þegar hafði nokkra reynslu af því að sameina akademíska list annars vegar og hönnun og handverk hins vegar. Nú fæddust stórar hugmyndir, enda hugarnir frjóir. Og nú fæddist það firma sem dags daglega kallaðist bara Firmað (the Firm) en hét opinberlega Morris, Marshall, Faulkner & Co, stofnað í apríl 1861. Stofnendur og hluthafar voru sjö: William Morris, Charles Faulkner, Peter Paul Marshall, Ford Madox Brown, Edward Burne-Jones, Dante Gabriel Rossetti og Philip Webb. Stór hluti stofnfés kom í formi láns frá Emmu Morris, móður Williams. Firmað tók að sér innréttingar og skreytingu stærri húsa á borð við kirkjur, samkomuhús og ríkmannlegri heimili, auk þess að framleiða húsgögn og skrautmuni. Skömmu eftir opnun auglýsti Firmað „handmáluð húsgögn, veggmyndir, skrautmuni úr málmi og gleri, útsaum, veggtjöld, gluggatjöld, skartgripi og handmálaðar flísar.“118Vitnað í MacCarthy, Fiona, „William Morris (1834-1896) “, 319, Oxford Dictionary of National Biography,39 (Oxford 2004), 317-24[119] Framleiðsla á veggfóðri, þeirri hönnun sem Firmað og Morris eru frægust fyrir, hófst ekki fyrr en árið eftir, 1862. Þetta var bissness en um leið hinn nýi draumur for-rafaelíta: að sameina listir og handverk, skreytilist og arkitektúr, fagurfræði og heimilishald; „innréttingar skyldu verða listaverk“, það átti „að endurskapa hversdagsleikann“.119Roe, The Rossettis in Wonderland, 214[120]
Þetta var ekki eina eða fyrsta firma landsins með álíka metnað og álíka fjölbreytni í vöruvali og þjónustu. Fyrstu tilraunir í þessa átt voru gerðar um miðjan fimmta áratuginn, meðal annars af áðurnefndum Augustus Pugin. En Firmað varð fljótlega frægasta fyrirtæki landsins á sviði innréttinga og húsmuna, „samheiti góðs smekks meðal hinna menntuðu stétta“.120MacCarthy, William Morris, 166[121] Þeim og öðrum gaf Morris þetta heilræði: „Hafðu ekkert í húsi þínu nema það sem þú veist vera nytsamlegt eða álítur fallegt.“ Reyndar hefur verið sagt að efnaðir Englendingar Viktoríutímans hafi gjarnan rangtúlkað eða misskilið þetta mottó, litið á það sem „carte blanche til að fylla heimili sín með smekklausu drasli“ á þeim forsendum að þeim þætti það sjálfum fallegt.121Sweet, Mathew, Inventing the Victorians (London 2001), 134[122]
Í upphafi voru allir stofnfélagar líka starfsmenn, Morris í fullu starfi, aðrir að hluta. Madox Brown, Burne-Jones og Rossetti voru slíkir listamenn að allt lék í höndunum á þeim. Webb var útlærður og óhemju snjall arkitekt. Bókhald og önnur praktískari mál vildu lenda á verkfræðingnum Marshall og stærðfræðingnum Faulkner. Báðir voru þó málarar í frístundum og vel brúklegir til einfaldari skreytinga. Morris sjálfur var líf og sál Firmans, sem og andlit þess út á við. Rossetti gerði góðlátlegt grín að tvíþættri stöðu hans sem skáldi og bissnessmanni. Morris nam allt handverk sem iðkað var innan Firmans, allt það sem áður var upptalið og meira til. Hann náði ótrúlegri tæknilegri færni auk þess sem hann vissi allt um sögu viðkomandi handverks og allar kenningar þar að lútandi. Oft var þetta handverk sem var öllum þálifandi þegnum Bretaveldis löngu gleymt og grafið, svo Morris þurfti að stúdera fornar skræður ellegar leggjast í langför til meginlands Evrópu. Auk hluthafa hafði Firmað á annan tug starfsmanna. Það hafði aðsetur í Red Lion Square í Bloomsbury, þar sem Morris og Burne-Jones höfðu búið fyrst þegar þeir fluttust til London.
Helstu kúnnar Firmans voru kirkjur, bæði kaþólikka og mótmælenda. Fjölgun kaþólikka og Puseyisminn skiluðu sér í dágóðum bissness fyrir Firmað. Kaþólikkar þurftu fleiri kirkjur og mótmælendur vildu fegurri kirkjur sem höfðuðu meira til skynrænnar upplifunar. Morris og Burne-Jones urðu aldrei prestar en þeir höfðu svo sannarlega ekki sagt skilið við guðshús. Þeir steindu kirkjugluggar sem þeir og Philip Webb hönnuðu þóttu bera af og það var á því sviði sem Firmað sló fyrst í gegn. Þessi forna list var nánast gleymd og grafin á Englandi. Nú var hún endurlífguð og hafin til vegs og virðingar. Morris og félagar voru ekki einu aðilarnir sem að því stóðu. En þeir voru í fararbroddi og þóttu öðrum snjallari.
Merton Abbey
Árið 1874 var svo komið að Morris fannst þörf á að stækka Firmað, auka starfsvið þess og komast í stærra húsnæði. Hann vildi einnig koma því alfarið undir sína stjórn og í sína eigu, ná í það minnsta meirihlutaeign. Þegar hér var komið sögu störfuðu aðrir hluthafar enda lítið innan Firmans og höfðu engin bein afskipti af rekstri þess. Þessi áætlun hans mætti andstöðu af hálfu Rossettis, Madox Brown og Marshall, svo úr varð nokkur rekistefna, en sættir náðust þó án þess að til málaferla kæmi. Svo fór að í mars 1875 keypti Morris hlut hinna og Morris, Marshall, Faulkner & Co varð Morris & Co. Til kaupanna nýtti Morris arð af hlutabréfum sínum í Devon Great Consols, fyrirtæki foreldra sinna. Að því búnu seldi hann þau bréf öll og kvaðst nú ekki lengur búa að erfðagóssi. Því til áréttingar settist hann ofan pípuhatt sinn og henti honum útflöttum í ruslið.
Morris flutti nú framleiðsluna í stærra húsnæði, þar sem heitir Merton Abbey í suðurhluta London. Hann var líka með verslun og sýningarsal á besta stað í London, í Oxfordstræti. Árið 1883 breiddi Firmað úr sér til Manchester, opnaði þar tvær búðir og tréssmíðaverkstæði fyrir innréttingar og húsgögn. Sama ár tók það þátt í stórri alþjóðlegri vörusýningu í Boston. Það var völlur á Morris. Eftir þrjú ár var hann kominn með yfir hundrað manns í vinnu. Margir af starfsmönnum Firmans –líklega meirihluti– komu frá stofnun fyrir heimilis- og munaðarlausa pilta, sem sett var á laggirnar 1858 af W. J. Gillum, sem var breskur offursti kominn á eftirlaun. Gillum var gamall vinur Rosettis og einn af fyrsti kúnnum Philip Webbs. Í gegnum Firmað fengu piltungarnir atvinnu og það góða veganesti í lífinu að nema og verða fullnuma í hinu og þessu handverki. Margir héldu langvarandi tryggð við Firmað. Sagt var að enginn sem vann hjá Morris dytti í huga að fara eitthvað annað kæmist hann hjá því.122MacCarthy, William Morris 354[123]. Enda voru vandfundnir betri vinnustaðir. Vinnudagur var aldrei lengri en átta tímar og laun mun hærri en almennt gerðist. Umhverfið var fallegt, og utanfrá frá minnti Merton Abbey meira á bóndabæ en verksmiðju. Húsið stóð við bakka árinnar Wandle þar sem syntu endur og silungar. „Herra Morris treystir okkur til að nota höfuðið ekki síður en hendurnar og vill ekki breyta okkur í vélar“, er haft eftir einum starfsmanni.123Sama heimild, 353[124] Margir starfsmenn voru handverksmenn sem fengu alfarið frjálsar hendur. Það átti þó ekki við um alla. Margt var unnið eftir forskrift Morrisar og sumt í vélum. Þótt Morris væri illa við vélar var hann ekki alfarið á móti þeim þegar kom að leiðigjarnri og einhæfri vinnu. Í þeim tilfellum notaði hann vélar, til dæmis við litun klæða og gólfteppa. En vinnu við vélar var dreift á milli manna og lagt var upp úr því að gera starf allra sem fjölbreyttast.
Á þessum tíma kenndi Morris sjálfum sér vefnað og þá kúnst að handhnýta teppi. Eftir mikið grúsk og margar ferðir til Frakklands áréð hann að vefa veggteppi, en þau kvað hann vera hámark skreytilistar híbýla. Þegar hann fékk Burne-Jones í lið með varð árangur stórglæsilegur (sjá mynd). Hér var ein önnur listgrein sem var horfin og gleymd og svo endurlífguð af Morris. Hann lærði líka litun alls vefnaðar og hóf framleiðslu á eigin litum. Blátt var alltaf hans uppáhald, hvort sem var á voð eða í bókmennt. „Í ljóðum hans og skáldsögum er það litur hamingju, áhyggjuleysis, frítíma.“124Sama heimild, 353[125] Sökum litaframleiðslu var hann oft allur bláleitur, föt, hendur, jafnvel andlit, eins og strumpur. Og varð ekkert minna blár þótt hann yrði sósíalisti. George Bernard Shaw lýsti því hvernig hann birtist sér á sósíalistafundum:
Hérna, sem sé, var Morris mættur í bláum buxum og jakka, og í enn blárri skyrtu, með úfinn makka sem gaf til kynna að óbeit hans á gleraugum gilti líka um greiður og bursta, og þann vana sinn, þegar einhver misvitur ræðumaður hafði orðið, að rífa með þjósti einstök hár úr skeggi sínu og urra „bölvaður asni“.125Shaw, George Bernard, Morris as I Knew Him (London 1966), 15[126]
Kelmscott Press
Það hefði hann örugglega ekki sagt um hann Hallbjörn Halldórsson (1888-1959). Hallbjörn vissi manna mest um prentlistina og sögu hennar. Fimmtán ára hóf hann nám í prentiðn sem varð hans ævistarf. Þegar tímaritið Prentarinn hóf göngu sína 1910 varð Hallbjörn einn þess helsti skríbent og seinna ritstjóri í áraraðir. Hann var líka ritstjóri Alþýðublaðsins um fimm ára skeið.126„Merkisafmæli: Meistari Hallbjörn prentari í fimmtíu ár“, Prentarinn, 1954, 32 (5-6), 22-3; Ellert Á. Magnússon, „Hallbjörn Halldórsson sjötugur“, Alþýðublaðið, 03.07.1958, 4; Þorvaldur Kolbeinsson, „Hallbjörn Halldórsson sjötugur“, Prentarinn, 1958-9, 36 (4-5), 16-17, „Hallbjörn Halldórsson“, Alþýðublaðið, 29.10.1959, 10-11; Magnús Ástmarsson, „Hallbjörn Halldórsson“, Prentarinn, 1959-60, 37 (4-5), 14-16[127] Hann skrifaði margar greinar um sögu prentlistarinnar og þar leikur Morris ætíð stórt hlutverk.127Hallbjörn Halldórsson, „Iðnarmál prentara“, Prentarinn, 1916, 5 (1-8), 5-26; „Fegurðarfræði prentlistarinnar, í ágripi og drögum“, Prentarinn, 1917, 6 (1-8), 3-14; „Fimmtíu ára afmæli hrað-pressunnar á Íslandi“ Prentarinn, 1929, 9 (3), 9-10; „Nýja prentlistin“, Prentarinn, 1930, 10 (6), 21-24; „Stuttleg saga prentlistarinnar“, Prentarinn, 1958-9, 36 (1-3), 9-11[128] Enn fremur skrifaði hann grein um ævi Morrisar.128Hallbjörn Halldórsson, “William Morris, hundrað ára minning”, Prentarinn, 1934-5, 14 (1-2), 1-2, 7[129] Hallbjörn var sannur sósíalisti, og ofangreind skrif hans, sem og lýsing Halldórs Laxness á þessum æskuvini sínum, bera þess vitni að hann líktist um margt Morris hvað varðar lífsspeki og viðhorf til lista, handverks og þjóðfélagsmála.129Halldór Kiljan Laxness, „Einn af jógínum verksins: Hallbjörn Halldórsson in memoriam“, Tímarit Máls og menningar, 1959, 20 (2), 101-3 [130] Hallbjörn endaði gjarnan greinar sínar á „Listin lifi!“
Í grein frá 1930 lýsir Hallbjörn hnignun prentlistar frá 16. öld til 19. aldar, og segir svo:
Þegar hér er komið sögu, gerist atburður, sem sýnir betur en flest annað og jafnframt á skemmtilega einkennilegan hátt, hversu nátengdar listrænar hreyfingar eru framleiðsluskilyrðum hvers tíma. Einn af aðal uppreistarmönnum síðustu aldar gegn auðvaldsskipulaginu, jafnaðarmaðurinn og skáldið William Morris, réðst einnig af miklum móði gegn spillandi áhrifum þess á prentlistina og aðrar nytjalistir.130Hallbjörn Halldórsson, „Nýja prentlistin“, 21[131]
Hér vísar Hallbjörn meðal annars til stofnunnar Kelmscott Press árið 1891 og þær merku nýjungar sem Morris innleiddi á sviði leturgerðar og útlit bóka. Morris hafði aldrei verið allskostar ánægður með hönnun þeirra ljóðabóka sem út höfðu komið eftir hann. Þegar hann hóf að skrifa skáldsögur í kringum 1890 sá hann að nú þýddi ekkert annað en að gera hlutina sjálfur, að hanna, prenta og gefa út eigin bækur og þá um leið önnur þau verk er honum þótti sæmandi. Nú dugði ekkert minna en að stofna eigin prentsmiðju og forlag. Sem þjónaði vitaskuld engum tilgangi nema hann gerði hlutina öðruvísi og betur an allir hinir. Að búa til fallega hluti var alltaf hans eini hvati. Hann varð að gera eitthvað alveg nýtt, eða öllu heldur endurlífga eitthvað gamalt: eins og fyrri daginn, innleiða nýjung sem byggði á fornri hefð. Líkt og öll önnur iðn hafði prentlistin risið hæst á miðöldum, hnignað svo, og mest upp á síðkastið, og var nú ekki svipur hjá sjón. Um það voru þeir Morris og Hallbjörn sammála og beittu sömu greiningu hvað varðar ástæðuna:
Við upplausn iðngildanna kom auðvaldið klónum á prentlistina eins og flestar iðnir og listiðnir, og þá var ekki að sökum að spyrja. Í stað hugsjónar fornmeistarans, að leiða fram mörg eintök sama prentgrips jafnfullkominn beztu handritum bókritunarlistarinnar … kom nú keppikeflið, að búa til sem flest eintök með sem minnstum tilkostnaði á sem stytztum tíma við … til þess að virðismunur kostnaðar- og söluverðs yrði sem mestur.131Hallbjörn Halldórsson, „Stuttleg saga prentlistarinnar“, 9[132]
Morris fékk til liðs við sig prentarann Emery Walkers og hófu þeir að stúdera gamlar skruddur í leit að ásættanlegri leturgerð.132Það sem hér fer á eftir byggir mest á ofangreindum greinum Hallbjörns, bæklingi eftir Þorsteinn Þorsteinsson, Morris og Kelmscott (Reykjavík 1996), sem og MacCarthy, William Morris, 608-26[133] Að þeirra áliti hafði prentlistin risið hæst á 15. öld og þangað héldu þeir. Þar fundu þeir fornaletur Nicolaus Jensons í Feneyjum og þróuðu út frá því sína eigin leturgerð, Golden, sem var dekkri en öll önnur letur sem þá voru í notkun. Troy og Chaucer voru „hálf-gotneskt letur“ byggð á 15. aldar fyrirmyndum frá Augsburg og Strassburg. Þessum letrum var þrykkt á fyrsta flokks handunninn pappír. Morris, verandi Morris, tók ekki annað í mál. Sá pappír var reyndar vandfundinn, rétt eins og boðlegur farfi. Bækurnar voru „bundnar í mjúkt pergament og hnýttar aftur með silkibendlum. Með aldrinum hefur pergamentið hins vegar harnað svo nú er erfitt að opna sumar þeirra svo vel sé.“133Þorsteinn Þorsteinsson, Morris og Kelmscott, 5[134]
Helstu reglur Morrisar varðandi frágang bóka voru þessar: stafir skyldu vera jafnir að gildleika og alls ekki of mjóir, eins og þá var tíska; leturflöturinn átti að vera dökkur og áferð hans sem jöfnust; skraut mátti nota, en það var þó engin skylda og mátti ekki vera í óhófi; orðabil átti að vera stöðugt og alls ekki of stórt; hið sama gilti um línubil; spássíur áttu heldur ekki að vera of stórar, neðri spássía stærst, ytri spássía næststærst, efri spássía minni, og innri spássía minnst.
Kelmscott Press starfaði í þau rúm fimm ár sem Morris átti eftir ólifað og tvö ár í viðbót eftir hans daga. Á þessum tíma gaf forlagið út 52 verk í 66 bindum. Meðal þeirra voru skáldsögur Morrisar sjálfs eins og News from Nowhere (1992), The Well at the World´s End (1896) og The Water of the Wondrous Isles (1897). Forlagið gaf einnig út miðaldatexta og ljóðasöfn eftir Shelley, Keats, Coleridge and Swinburne. Ein bók Kelmscott Press er til á Íslandsdeild Landsbókasafnsins, Sidonia the Sorceress (1893), gefin og árituð af Morris: „Given to the Public Library Reykjavík by William Morris, October 1894“. Mesti dýrgripurinn er þó án efa útgáfa Kelmscott Press á Kantaraborgarsögum Geoffrey Chaucers (1896), oft kölluð The Kelmscott Chaucer, veglega skreytt með gotneskum mynstrum og 87 myndum eftir Edward Burne-Jones.
„Óendanleg melódía línunnar“
Hvað hönnun og híbýli varðar tengja menn nú til dags nafn Morris oftast við veggfóður. Enda voru þau stór hluti af varningi og þjónustu Firmans. Ný mynstur birtust árlega, stundum mörg á ári. Sum þeirra eru enn framleidd. Flest voru unnin í pappír, en sum í bómullarefni (chintzes). Hversu mörg mynstur hannaði Morris og framleiddi? May Morris, dóttir hans, sagðist hafa heimildir fyrir 45 grunnmynstrum og átti þar einungis við veggfóður unnin í pappír. Öll þeirra voru til í mörgum litasamsetningum, sum í mismunandi afbrigðum að öðru leyti en lit.134Morris, May, „Introduction“, í William Morris, Artist, Writer, Socialist, Vol. 1,39 (Oxford 1936), 1-99[135] Til samans nafngreina Fiona MacCarhy og Fiona Clark 70 mynstur, unnin í pappír og/eða bómullarefni.135Clark, Fiona, William Morris: Wallpaper and Chintzes (New York & London 1973); MacCarthy, Anarchy & Beauty, 131-5 [136] MacKail setur hins vegar fram mun hærri tölu. Hann talar um milli 70 og 80 grunnmynstur í pappír og nærri 40 í bómullarefni. Heildartölu allra afbrigða þessara grunnmynstra segir hann vera í kringum 400.136MacKail, The Life of William Morris, Vol. 2, 57-8[137] Hversu mörg sem mynstrin voru verður að taka fram að fleiri komu að hönnun þeirra og framleiðslu en Morris einn. Hin upprunalega hugmynd, sem og hin fyrstu mynstur, voru afrakstur samstarfs hans og Rossettis. Morris naut líka aðstoðar Webbs og Burne-Jones. Og svo var það hinn eiginlegi framleiðandi og starfsmenn hans. Firmað framleiddi sjálft aldrei umrætt veggfóður, heldur undirverktakinn Jeffrey & Co. Þetta var óvenjulegt og stafaði fyrst og fremst af því að hér var Firmað einstaklega heppið með samstarfsaðila sem stóðst allar þær háu kröfur sem Morris setti.
Mynstur þessara veggfóðra byggja nær alfarið á flóru náttúrunnar: blómum og laufum, stundum að viðbættum ávöxtum og hnetum og einstaka sinnum fuglum og öðrum smádýrum. Morris útlistaði þá hugmyndafræði sem að baki bjó í merkilegum fyrirlestri sem hann hélt í Working Man´s College í London í desember 1881.137Morris, William, Some Hints on Pattern Designing (1881). Hér er vitnað í útgáfu frá 1936 (San Fransisco), aðgengileg ánetinu: https://archive.org/details/somehintsonpatte00morrrich/page/n3/mode/2up. Sjá einnig: https://www.marxists.org/archive/morris/works/1881/hints.htm[138] Þar byrjar hann á því að útskýra að með hugtakinu mynstur eigi hann við þess háttar skreytingu yfirborðs sem ekki er ætlað að líkja beint eftir fyrirmynd eða vísa í tiltekinn atburð, „þess vegna er þessi list kölluð skreytilist, þótt vissulega sé öll sönn list til skrauts. “138Sama heimild, 1[/mfn[139] Hann gerir greinarmun á hinum æðri og hátíðlegri listum og þess háttar skreytilist sem okkur er ætlað að hafa fyrir augunum dags daglega og það flestar stundir dagsins. Hann segir mannssálinni hafa þörf á því að hafa í kringum sig það sem minnir hana á líf og fegurð, og „þess vegna er okkur hollt að láta hina óæðri list (ég segi ekki verri) umlykja hvunndaginn, vinnustundir og frístundir“, list sem minnir okkur á náttúruna og tjáir grósku jarðar.138Sama heimild, 4[140] En um leið má þessi list ekki vera um of krefjandi, ekki kalla á stöðuga og fulla athygli, ekki vekja of margar spurningar, ekki valda þrá og efa, ekki koma róti á hugann, heldur mynda traustan og róandi bakgrunn okkar daglega lífs. Til þess að skapa slík hughrif verður skreytilistin að byggja á reglufestu (order), fegurð og ímyndunarafli.139Sama heimild, 7[141]
Á tvennt lagði Morris mikla áherslu: Annars vegar ber að iðka ítrustu nákvæmni og forðast óskýrleika og fálmkennd. Hins vegar skal leitast við að tjá lífsorku, hreyfingu og grósku, að skapa í huga þess er á horfir vissu eða hugboð um varanleika náttúru og lífríkis óháð hinu einstaka og öllu mannanna brölti. Endurtekning mynsturs er ein leið til að ná fram slíkum hughrifum, en þó er enn áhrifameira, betra og göfugra, að brúka órofa sveigjanlegar línur sem liðast í allar áttir án sjáanlegs upphafs eða endis. Það er þetta sem hann segir vera sérstakt einkenni gotneskar listar miðalda –skreytilistar, arkitektúrs og bókmennta– hennar helsta styrk og það sem mest heillar hann sjálfan:
Í fyrsta sinn sem þessa verður vart er í einstaka byggingum snemma á sjöttu öld, þegar arkitektúr virðist hafa tekið stórt og skyndilegt stökk, í raun og sann flúið dauðann og endurfæðst. Hvað varðar formgerð mynsturs var breytingin einfaldlega þessi: órofin gróska boginna lína kom í stað þess sem var einungis endurtekning eða samfléttun beinna lína.140Sama heimild, 15[142]
Hér er hann að benda á einn helsta mun gotnesks stíls og klassísks stíls og, að hans mati, yfirburði hins fyrrnefnda. Það er athyglisvert að greining Morrisar minnir um margt á kenningar þær sem þýski heimspekingurinn og listfræðingurinn Wilhelm Worringer (1881-1965) átti síðar eftir að þróa um „formvilja“ (form-will) listrænnar sköpunar.141Worringer, Wilhelm, Abstraction and Empathy: A Contribution to the Psychology of Style (New York 2004 [1953]; Form Problems of the Gothic (New York 1918). Þess má geta að skrif Worringers höfðu áhrif á framgang “abstrakt” listar og módernismanns á fyrri hluta 20. aldar og þeim hefur nýlega verið hampað af höfundum eins Deleuze og Guattari og Mark Fisher. Jones, A. R., „T. E. Hulme, Wilhelm Worringer and the Urge to Abstraction“, The British Journal of Aesthetics, 1 (1), 1960, 1-6; Ulmer, G. L., „D. H. Lawrence, Wilhelm Worringer and Aesthetics of Modernism“, D. H. Lawrence Review, 10 (2) 1977, 165-81; Williams, R. W., „Wilhelm Worringer and the Historical Avant-Garde“ í Scheuneman, Dietrich (ritstj.), Avant-Garde/Neo- Avant-Garde (Amsterdam & New York 2005), 49-62; Deleuze, Gilles & Félix Guattari, A Thousand Plateaus: Capitalism and Schizophrenia (London & New York 2013) [1988], 479-83, 572-9; Fisher, Mark, Flatline Constructs: Gothic Materialism and Cybernetic Theory-Fiction (London 2018), 1-8[143] Samkvæmt Worringer leitar list ólíkra menningarsamfélaga einkum í tvær andstæðar áttir, annað hvort til hins óhlutbundna (abstraction) eða til hluttekningar (empahty).142Worringer, Abstraction and Empathy[144]Sú fyrrnefnda leitar að meiningu í illskiljanlegum, fjandsamlegum og óendanlegum heimi. Hún snýst um hið almenna og óhlutbundna, og kemur gjarnan fram sem mynstur byggt á abstrakt línu sem sveigist og liðast í allar áttir og tengir þar með alla einstaka parta verksins í eina heild. Þannig er til dæmis list „frumstæðra“ þjóðflokka, hinna fornu evrópsku barbara og austræn list. List hluttekningar snýst um hið einstaka og leitast við að líkja eftir afmörkuðum fyrirbærum hins ytri veruleika sem eru sett í forgrunn. Hún er fígúratíf, dregur fram það sem mannsaugað sér, enda liggur til grundvallar sú vissa að maðurinn sé miðpunktur heimsins, mælikvarði allra hluta og hafi ekkert að óttast af hálfu hins stóra alheims. Hún hefur enga þörf fyrir langar bugðóttar línur. Þetta er hin klassíska list forngrikkja, Rómaveldis og renesansins. Gotnesk list, sem hjá Worringer og Morris inniheldur forna norræna list, stendur þarna einhvers staðar mitt á milli. Hún er að upplagi óhlutbundin list hinnar bugðóttu línu, en fer smátt og smátt að vera fígúratíf. Ólíkt fígúrum hinnar klassísku listar ná hinar gotnesku fígúrur samt aldrei alveg að slíta sig frá línunni, ná aldrei að komast í forgrunn, þannig að miðað við klassíska list skortir hina gotnesku þrívíddaráhrif.143Sama heimild, 106-21; Form Problems of the Gothic[145] Worringer talar um „hina óendanlegu melódíu hinnar gotnesku línu“ sem tjáir eitthvað sem er stöðugt, áframhaldandi og sívaxandi, gefur til kynna hið eilífa og óendanlega. „Óendanleg melódía línunnar sveimar fyrir augum hins norræna manns“.143Worringer, Form Problems of the Gothic, 52[146] Samkvæmt Worringer gegna hvelfingin og oddboginn í gotneskum arkitektúr, skólaspekin í kristinni trú, og kenningar og stuðlasetning í fornnorrænum kveðskap sama hlutverki og hin bugðótta órofa lína í gotneskri skreytilist.144Sama heimild, 67, 84-96, 115-31, 133-6. Hann ýjar og að því að drykkjuskapur og fylliríisröfl gegni sama tilgangi í hinni norrænu sál. Sama heimild, 66, 73-4. Svipuð greining og hjá Worringer, byggð á anda hins norræna manns, liggur til grundvallar umfjöllunar Broby Johansen á gotneskum stíl í bók hans Heimslist-Heimalist: Yfirlit evrópskrar listasögu (Reykjavík 1977), 110-19. Björn Th. Björnsson þýddi.[147] Skilningur Worringers og Morrisar er ekki að öllu leyti sá sami, en báðir gætu þó samþykkt að veggfóður hins síðarnefnda er í hæsta máta gotneskt. Þeir sem fá sér veggfóður með mynstri frá Morris ættu að hafa þetta í huga.
Gotneskunnar náttúra
Sem fyrr segir skrifaði John Ruskin mikla doðranta um húsagerðalist, The Seven Lamps of Architecture og The Stones of Venice. Í síðarnefnda ritinu er kafli sem heitir „On the Nature of the Gothic“.145Ruskin, Library Edition, X, 180-269[148] Eins og nafnið bendir til, fjallar hann um gotneskunnar náttúru, eðli gotneskrar húsagerðarlistar. Eins og fyrri daginn er það sköpunarferlið sem skiptir Ruskin mestu máli, ekki einhver fegurðarformúla, enn síður nytsemi og hagkvæmni. Gotnesk fegurð byggir á heilindum: hún er tjáning þess manns sem fær að ígrunda þá sýn sem hann vill skapa, framkalla hana í huga sér, og síðan, í ró og næði, hlutgera með eigin höndum í krafti kunnáttu sinni og verklagni. Þetta er hinn gotneski húsasmiður miðalda. Andstæða hans er verkmaður í nútímasamfélagi. Sköpunargáfa hans er drepin í dróma og hann gerður að engu öðru en tannhjóli í vél framleiðslunnar. „Nú er það svo að í gerð og náttúru sérhvers óbreytts verkamanns, hversu grófur eða einfaldur hann kann að vera, leynist afl til æðri hluta; ímyndunarafl, kannski tregt; tilfinningalíf, kannski dofið; skref í átt að hugarflugi, kannski silalegt … og í flestum tilfellum eru treginn, dofinn og silagangurinn sök samfélagsins.“146Sama heimild, 191[149]Í nútímasamfélagi er sköpunarmáttur verkfólks, þorra þegnanna, sem sé drepinn í fæðingu og slíkt megum við alls ekki láta við gangast. Við verðum finna gáfu sérhvers einasta manns og leyfa henni að njóta sín, jafnvel þótt það taki langan tíma, mörg mistök, sem og minni og oft „verri“ framleiðslu. „Því takið eftir“, segir Ruskin, „þér hafið þennan valkost: annað hvort gerið þér úr honum tól eða mann. Hann getur ekki verið bæði.“ Ef þér ætlist til þess að fingur manna „vinni sem tannhjól og hendur þeirra sem sirkill verðið þér að afmennska þá.“147Sama heimild, 192[150]
Ruskin vitnar í nálaverksmiðju Adams Smiths og segir síðan:
Vér höfum á síðari tímum mikið stúderað og fullkomnað hina miklu uppfinningu vorar siðmenningar sem kallast verkaskipting. En nafnið er alrangt. Sannleikurinn er sá að það er ekki verk sem eru bútuð niður í smærri einingar heldur maðurinn sjálfur: menn eru smækkaðir niður í lítil brot af manni, litla mola af mannslífi, þannig að hvert brot fær ekki einu sinni að búa til nál eða nagla heldur eyðir allri lífsorku sinni í að slípa nálarodda eða gera hausa á nagla.148Sama heimild, 196[151]
Orð Ruskins minna óneitanlega á orð Engels í lýsingu hans á stöðu bresks verkafólks: „Verkaskiptingin hefur gert nauðung launavinnunnar enn grimmúðlegri en fyrr. Í flestum greinum er athöfn hvers verkamanns bundin við einhverja smávægilega og algjörlega vélræna hreyfingu, sem er endurtekin mínútu eftir mínútu og óbreytt ár eftir ár.“ Engels spyr hvað verði um mannlegar tilfinningar, getu og hæfileika þess sem hefur þrjátíu ár, allt frá barnæsku, tólf tíma á dag, gert ekkert nema að búa til nálarodda.149Engels, „The Condition of the Working Class in England”, 415[152]
Það er harla ólíklegt að Ruskin hafi haft eitthvað veður af Engels eða Marx. Hann minnist heldur hvergi á kapítalisma eða firringu. Þó vænti ég að einhverjir glöggir lesendur hafa nú þegar séð samsvörun með málflutningi hans og firringarkenningu Karls Marx. Samkvæmt Marx er firring verkamannsins í kapítalísku samfélagi fjórföld: Hann er í fyrsta lagi firrtur afurð vinnu sinnar: hún er ekki eign hans sjálfs heldur kapítalistans, og verður, í formi kapítals, kúgunartæki sem beinist að honum sjálfum. Í öðru lagi er hann firrtur náttúrinni sem birtist honum aðeins sem hráefni og orka. Í þriðja lagi er hann firrtur eðlilegum samskiptum við annað fólk sökum verkaskiptingar og þess að mannlegum samskiptum hefur verið breytt í markaðsviðskipti. Í fjórða lagi er hann firrtur sköpunarmætti og þar með sínu sérmannlega eðli –það sem á ensku hefur verið nefnt species-being. Tegundin maður er hugsandi og skapandi vera. Þessi vera er fær um að kalla fram hugsýn sem hún leitast svo við að raungera með athöfnum sínum, það er, skapa. Hugsýnin getur verið margs konar: myndlistaverk, fagurt húsgagn eða klæði, fallegur garður, ritverk, eða tónverk. Þessi sköpunargeta er tegundarvera mannsins, mennska hans, það sem skilur hann frá öðrum dýrum. Framleiðsluhættir kapítalismans firra hann þessu eðli sinnar eigin tegundar, afmennska hann. Verkafólkið selur sjálft sig stóran hluta dagsins, lifir þá „á tíma“ atvinnurekandans. Á þeim tíma hættir hann að vera skapandi maður, ræður engu um gerðir sínar, gerir það sem aðrir ákveða, eins og hvert annað húsdýr eða vél. Hann er firrtur mennsku sinni.150Sjá einkum Marx, Karl, “Economic and Philosophic Manuscripts of 1844”, 270-80, í Marx, Karl & Frederick Engels, Collected Works, Vol. 3, 229-346[153]
Það er næsta víst að Ruskin þekkti ekkert til Marx og hafði ekkert lesið eftir hann. Marx hlýtur að hafa þekkt Ruskin og verk hans af afspurn en varla mikið meira. Hann kemur hvergi fyrir í skrifum Marx. Hvorugur hefði glaðst yfir því að vera líkt við hinn. Hugmyndir þeirra um eðli vinnunnar í kapítalísku samfélagi eru þó sláandi líkar.
SANNLEIKURINN ER SÁ AÐ ÞAÐ ERU EKKI VERK SEM ERU BÚTUÐ NIÐUR Í SMÆRRI EININGAR HELDUR MENNIRINIR SJÁLFIR: HVER MAÐUR ER SMÆKKAÐUR NIÐUR Í LÍTIÐ BROT AF MANNESKJU, LÍTINN MOLA AF MANNSLÍFIWILLIAM MORRIS OG SÓSÍALISMINN
JOHN RUSKIN
Svo mikla athygli vakti þessi kafli um eðli gotneskunnar að hann var fljótlega, og oft síðan, gefinn út sem sérstakt rit. Þegar Working Man´s College var stofnaður 1854 var kafli þessi, með leyfi Ruskins, prentaður og honum dreift sem einskonar manifestó skólans. Þetta annað bindi The Stones of Venice, útgefið 1853, hafði gífurleg áhrif á Morris sem þá var stúdent í Oxford. Það varð honum einskonar vitrun eða biblía. Settið fór ekki varhuga af þessu. Richard Dixon sagði: „Morris las oft Ruskin upphátt. Hann hafði kraftmikla syngjandi rödd, og tónaði frekar en las þennan ólgandi hafsjó orðkynnginnar.“151Vitnað í Thompson, William Morris, 33 [154]Upp frá þessu og til æviloka mótaði Ruskin að stóru leyti hugmyndir Morrisar um handverk, listir og vinnu.152Um þetta fjallar Thompson nokkuð ítarlega. Sama heimild, 32-9. Sjá einnig: Hewison, Ruskin and His Contemporaries, 86-7[155]Kelmscott Press gaf út kaflann um gotneskuna sem fallega skreytta litla bók. Þar segir Morris í formála: „Að mínu viti, og líklega margra annara, er þetta eitt það mikilvægasta sem höfundurinn hefur gefið frá sér, og mun í framtíðinni verða einn af fáum textum okkar aldar sem þykir ómissandi lesning.“153William Morris, Artist, Writer, Socialist, 292[156]
Arftakar
Það voru ýmsar þversagnir í lífi Morrisar, eins og hann sjálfur vissi manna best. Hann var í senn kommúnisti og kapítalisti, reyndar hvorki sá fyrst né síðasti, þetta er algengari blanda en flesta grunar. Önnur var sú að einungis þær efri stéttir sem hann vildi afnema höfðu efni á því sem hann framleiddi. Hann bjó til handunnar gæðavörur í allt öðrum verðflokki en billeg framleiðsla verksmiðjanna. Kúnnar Firmans voru kirkjur og efnamenn, jafnvel kóngafólk. Árið 1866, að beiðni Viktoríu drottningu, gerði Morris sérhannað veggfóður fyrir St. James´s Palace í London, eina af fjölmörgum höllum hennar hátignar. Einhverju sinni þegar hann var að innrétta hús eins forríks verksmiðjueiganda hafði hann allt á hornum sér og virtist að því kominn að springa úr reiði. Ríkisbubbinn spurði hann hverju sætti. Morris rauk í hann „eins og villt dýr“ og öskraði: „Það er af því að ég þarf að eyða ævinni í að sinna svínslegum lúxus hinna ríku“154Vitnað í Lethaby, W. R., Philip Webb and His Work (London 1935), 155159.
Morris skrifaði greinaflokk þar sem hann lýsti hinni sósíalísku verksmiðju, eins og hann ímyndaði sér að hún yrði í framtíðinni.155„The Factory as It Might Be, 1“, í William Morris, Artist, Writer, Socialist, Vol. 2, 130-33; „The Factory as It Might Be, 2“, Sama heimild, 33-5; „The Factory as It Might Be, 3“, Sama heimild, 135-40. Sjá einnig greinina „Useful Work versus Useless Toil“ í Political Writings of William Morris, 86-108. Hún birtist þýdd í þessu blaði sem „Þörf vinna og þarflaust streð“160 Verksmiðjan er sameign þeirra sem þar vinna, sem allir eru skapandi handverksmenn. Allir standa sína plikt við vélarnar ásamt því að stunda handverk sitt. Í heildina er vinnudagurinn stuttur, fjórir tímar eða svo. Menn rækta líka jörðina og sinna sínum ýmsu áhugasviðum: einhverjum fræðum eða vísindum, kannski tónlist eða bókmenntum. Félagslíf er fjörugt, fyrirlestrar tíðir, bókasafnið stórt, leikfélagið öflugt. Þessari sýn hrinti Morris sjálfur aldrei í framkvæmd. Vissulega var Firmað til fyrirmyndar miðað við það sem almennt gerðist. Það var gott stigveldi, ef svo má segja, en það var ekki sósíalismi. Það var í einkaeign, ekki sameign starfsmanna. Morris var sósíalisti aðeins á seinni hluta ævi sinnar og á þeim tíma treysti hann sér ekki til að umbreyta eigin atvinnurekstri. En ýmsir arftakar hans stigu lengra skref í þá átt og mynduðu iðngildi eða kommúnur sem innleiddu sumar hugmyndir Morrisar. Þessi hreyfing hófst meðan Morris var enn á lífi.
Þessi nýju gildi voru um margt ólík gildum miðalda. Þau voru þverfagleg og sóttust ekki eftir að einoka handverk eða setja því lög og reglur. Þetta voru samvinnufélög handlistamanna sem enn fremur tóku til sín lærlinga og héldu almenn námskeið. Árið 1882 stofnaði arkitektinn Arthur H. MackMurdo The Century Guild, sem lagði mest stund á innanhúsarkitektúr, húsgögn og húsbúnað. The Art Workers Guild var stofnað 1884 og hafði svipað starfssvið. Það starfar enn og inniheldur 350 meðlimi.156https://www.artworkersguild.org/161 Árið 1888 stofnaði arkitektinn Charles Robert Ashbee The Guild and School of Handicraft í London, og árið 1920 stofnaði Eric Gill, arkitekt og myndhöggvari með meiru, The Guild of Saint Joseph and Saint Dominic. Gill var sá arftaki Morrisar næst honum komst í fjölhæfni.157MacCarthy, Fiona, Eric Gill (London 2020), 162 Tvö síðastnefndu gildin voru jafnframt kommúnur, lítil samfélög handverksmanna sem meðfram listum sínum ræktuðu jörðina.
The Guild and School of Handcraft er líklega merkast þessara gilda og mest í anda Morrisar. Það var fyrst staðsett í fátækrahverfi í austurhluta London og þá sem handverksskóli. Allir nemendur bjuggu í næsta nágrenni og voru fátækt verkafólk, jafnvel betlarar og útigangsmenn. Þarna fengu þau tækifæri á fagmenntun og öruggu framtíðastarfi. Eftir námið gátu nemendur orðið meðlimir gildisins. Árið 1902 fluttist starfsemin til þorpsins Chipping Campden í sveitinni Cotswold í Gloucesterskíri. Í gildinu voru meðal annars gull- og silfursmiðir, járnsmiðir, bókbindarar og húsgagnasmiðir, alls 150 manns. Félagslíf var fjölbreytt: gönguferðir og útilegur, hjólreiðatúrar, tónleikar og samsöngur, leikrit og fyrirlestrar, sund og leikfimi. Einn meðlimur gildisins var af mörgum álitinn fremsti silfursmiður landsins. Hann hafði áður verið útigangsmaður sem sá fyrir sér með því að betla og selja kattamat.158MacCarthy, Anarchy & Beauty, 66-7163
Auk gilda og kommúna spruttu fram ógrynni snjallra handverksmanna sem störfuðu sjálfstætt eða stofnuðu smáfyrirtæki. Thomas James Cobden-Sanderson þótti fremstur allra bókbindara. Hann hafði áður verið stöndugur lögfræðingur, en Janey Morris sannfærði hann um heimurinn þarfnaðist miklu frekar góðra bókbindara. Bóndi hennar hafði lengi kvartað yfir enskum bókbindurum og gengið svo langt að kalla þá „óvini bóka (og mannkyns alls)“.159Þorsteinn Þorsteinsson, Morris og Kelmscott, 5164 Cobden-Sanderson hóf feril sinn hjá Kelmscott Press og ein fyrsta bókin sem hann batt var eintak Morrisar af Auðmagni Karls Marx, á frönsku. Walter Crane hóf einnig feril sinn undir handarjaðri Morrisar. Hans myndskeyttu bækur sem þykja fádæma listaverk. Á Írlandi stofnuðu systurnar Lily og Lollie Yeats hið merkasta fyrirtæki, mannað einungis konum, sem stundaði vefnað, útsaum og skreytingar híbýla, sem og forlagið Cuala Press, sem gaf út sérlega fagrar bækur, meðal annars eftir John Millington Synge, Ezra Pound og bróður systranna, William Butler Yeats. Lily hafði numið hjá May Morris, dóttur Williams, en þessum heiðurskonum kom reyndar mjög illa saman.
Kennslumál voru stór hluti þessarar nýju bylgju hins forna handverks. Bæði gildin og einstakir listamenn tóku til sín lærlinga og héldu námskeið. Árið 1883 var stofnað Home Arts and Industries Association til þess að kenna og útbreiða gamalt handverk. Árið 1889 héldu samtökin 450 námskeið um land allt, sótt af 5.000 nemendum.160Naylor, Gillian, The Arts and Crafts Movement: A Study of Its Sources, Ideals and Influence on Design Theory (London 1971), 120165 Einn af stofnendum Art Workers Guild, arkitektinn og listfræðingurinn William Lethaby, stofnaði Central School of Arts and Crafts í London 1898.
Árið 1887 voru stofnuð einskonar regnhlífarsamtök allra þessara ólíku aðila, Arts and Crafts Exhibition Society, sem hélt sína fyrstu sýningu árið eftir. Sem skipulögð samtök –sýninga, hagsmuna, kennslu og útbreiðslustarfs– var félag þetta virkt fram að fyrri heimstyrjöld. Eftir það er réttara að tala um almenna óskipulagða hreyfingu eða vakningu sem breiddi úr sér víða utan Bretlands, á meginlandi Evrópu og ekki síst í Bandaríkjunum. Þetta er kallað The Arts and Crafts Movement og má segja að hennar gæti enn þann dag í dag.161Sjá: MacCarthy, Anarchy and Beauty; Naylor, Gillian, The Arts and Crafts Movement166
Bauhaus
Í The Age of Empire segir Eric Hobsbawm að eins þversagnakennt og það kunni að hljóma liggi rætur módernismans í „gotneskunni“ á Englandi:
Í þessari reykmenguðu smiðju heimsins, samfélagi sjálfselsku og fagurfræðilegra skemmdarverka, þar sem hinir smátæku handiðnaðarmenn sem enn fundust annars staðar í Evrópu voru löngu horfnir í reykmökk verksmiðjanna, litu menn til baka, á smábændur og handverksmenn miðalda, og fundu þar fyrirmynd gjöfulla og betra lífs, bæði hvað varðar félagsleg tengsl og skapandi starf … Hinn mikli áhrifamáttur Morrisar og þeirrar hreyfingar lista og handverks sem honum tengdist lá umfram allt í hugmyndafræðinni, frekar en í hinum undraverðu og margbrotnu hæfileikum hans á sviði lista, handverks og hönnunar. Því þessi hreyfing … leitaðist við að endurskapa tengsl listar og verkamannavinnu, og að því að gjörbreyta umhverfi daglegs lífs, híbýlum manna að innan sem utan, jafnvel heilum þorpum og borgum, að endurmeta tengsl byggðar og landslags … 162Hobsbawm, Eric, The Age of Empire 1875-1914 (London 1987), 228-9167
Áhrif Morrisar á Walter Gropius og Bauhaus eru ótvíræð. Listfræðingurinn Nikolaus Pevsner segir: „Morris lagði grunninn að stíl nýtíðar; með Gropius voru einkenni hans endanlega ákvörðuð.“163Pevsner, Nikolaus, Pioners of Modern Design from William Morris to Walter Gropius (London 1960) [1936], 39168 Í bók sinni Aldateikn fjallar Björn Th. Björnsson á skemmtilegan hátt um þetta samband Morrisar og Bauhaus.164Björn Th. Björnsson, Aldateikn (Reykjavík 1973), 179-200169 Það gerir Gropius sjálfur einnig í grein sem birtist í tímaritinu Byggingarlistin árið 1960.165Gropius, Walter, „Tildrögin að hugmynd minni um ,Bauhaus ̒-skólann“, Byggingarlistin, 1930, 3 (1), 25-7170 Þar segir hann:
Þegar vélframleiðslan virtist leggja undir sig heiminn á síðustu öld, urðu þröng kjör hjá handiðnaðarmönnum og listamönnum. Út af því myndaðist eðlileg gagnhreyfing gegn því að yfirgefa formið og framleiða lakari vörur. Ruskin og Morris snérust fyrstir manna á móti straumnum, en andstaða þeirra gegn vélmenningunni megnaði ekki að stöðva hann. Það var ekki fyrr en miklu síðar, að þeir menn, sem létu sér þróun formsköpunarlistarinnar máli skipta, fóru að átta sig og gerðu sér það ljóst, að það myndi aðeins vera hægt að sameina list og framleiðslu með því móti að viðurkenna vélmenninguna sem staðreynd og taka hana í þjónustu hugans. 166Sama heimild, 26171
Það sem Morris og Gropius greindi á um var hvernig bregðast ætti við vélmenningu. Sem fyrr segir var Morris ekki alfarið á móti vélum, heldur amaðist við því á hvern hátt og í hvaða tilgangi þær voru notaðar. Hann vildi nýta þær einungis í leiðinleg og erfið störf sem höfðu enga þýðingu hvað varðar hönnun og listrænt gildi. Gropius taldi að vélar mætti aðlaga list og hönnun, að þær byðu upp á nýja möguleika á því sviði. Þeir voru hins vegar sammála um að brúa skyldi bilið milli listar, hönnuðar, handverks og daglegs lífs; að híbýli fólks og annað umhverfi ætti að samanstanda af fallegum hlutum gerðum af skapandi handlistamönnum, og þannig skildi listin vera hluti af lífi alþýðunnar; að framleiðsluferlið ætti að vera í formi samvinnu sjálfstæðra, skapandi handverksmanna og hönnuða, og að þannig gæti hinn vinnandi maður endurheimt vinnugleði og sköpunarkraft.
Hugsýn handverksins
Að mörgu leyti njótum við enn góðs af starfi Morrisar. Hann gaf nýtt líf handverk og skreytilist sem ella hefðu glatast. Hann var fyrirmynd og hvati hreyfinga á borð við Arts and Crafts og Bauhaus sem skiluðu arfleið hans til nýrra kynslóða. Handverk og listræn hönnun okkar tíma hvílir á þeim grunni sem Morris lagði. Arfleifð hans skreytir enn fjölda heimila og fegrar umhverfi, og kannski líf, margra. Við stöndum í þakkarskuld við Morris.
Á hinn bóginn hefur hin stóra mynd lítið breyst. Kapítalisminn er enn við lýði og með honum firring og nauð vinnunnar. Fæstir hafa nokkurn áhuga á þeirri vinnu sem þeir stunda daglega, mörgum er hún kvalræði og ófáir sjá í henni akkúrat engan samfélagslegan tilgang. Þetta sýna alþjóðlegar rannsóknir glögglega, eins þótt vinnublæti kapítalismans valdi því að fæstir voga sér að viðurkenna slíkt opinberlega.167Sama heimild, 126 172 Í nútímaþjóðfélagi er vinnan tabú; hún er sögð blessun í sjálfu sér, jafnvel þótt hún hafi enga samfélagslega þýðingu og sé til skaða þeim er hana stunda, þjóðfélaginu í heild og lífríki jarðar.
Morris var algjörlega mótfallinn þess háttar vinnudýrkun, eins og kemur fram í grein hans „Þarft verk og þarflaust streð“. Þar segir hann að það sé manndómur að gera ekki neitt og harðneita að vinna frekar en að stunda fráleita og skaðlega vinnu. En enginn gat sakað Morris um leti, svo mikið er víst. Þvert á móti var iðjusemi hans annáluð, hann var hamhleypa til allra verka eins og hans mikla ævistarf ber með sér. Guðrún Jóhannsdóttir frá Ásláksstöðum kynntist dóttur Williams Morris, og sagði svo frá:
Það sagði mér May dóttir hans, að venjulega hefði faðir sinn farið á fætur kl. 5-6 á morgnana og tekið til starfa, annaðhvort við skriftir, teikningar eða sezt í vefstólinn. – Hann var morgunmaður, sem hafði „aukið degi í æviþátt, aðrir þegar komu á fætur“. Morris sagði, að listin væri ein. Hún væri gleði lífsins og uppfylling. Allt, sem unnið er átti að bera aðalsmerki hennar. 168Guðrún Jóhannsdóttir frá Ásláksstöðum, „William Morris“, 273, Lesbók Morgunblaðsins, 15.04.1954, 272-3173
Starfsgleði Morrisar stafaði einmitt af þessu: vinna hans bar „aðalsmerki“ listarinnar. Hún var þörf, skapandi, gefandi og vonglöð. Von hans var að öllum mætti einhvern tíma njóta slíkrar vinnu, að allir yrðu á sinn hátt listamenn eða handverksmenn. Hvort orðið við notum skiptir ekki öllu; á þeim var lítill munir í huga Morrisar. Þetta er annað sem Morris gaf okkur: „hugsýn handverksins“, hugmynd um góða vinnu.
Um þá hugsýn, the ideal of craftsmanship, fjallar hinn bandaríski félagsfræðingur C. Wright Mills í bók sinni White Collar frá 1951. 169Mills, C. Wright, White Collar: The American Middle Classes (Oxford & New York 1951), 220-24 174 Hann tekur upp þráðinn frá Morris og Ruskin og vitnaði í þá báða, meðal annars í meðfylgjandi grein Morrisar, „Þarft verk og þarflaust streð“. Hugsýn handverksins, segir Mills, er eitthvað sem nánast enginn í kapítalísku samfélagi eða ríkisreknum sósíalisma þekkir lengur: ekki verkafólk, auðvitað ekki auðvaldið, og ekki hinn nýja millistétt, hvítflibbar kontóranna. Hann dregur fram helstu þætti þessarar hugsýnar: (1) Von um ánægjulegan og skapandi vinnudag, góðan grip og góða hvíld að starfi loknu. (2) Sjálfseign handverksmannsins. Hann á sjálfur afrakstur vinnu sinnar. Hann getur vissulega selt hann, eða gefið, en það er hans að ákveða slíkt. Sjálfseignin getur líka verið í formi sameignar hans og kollega hans. En framleiðslan og þær tekjur sem hún gefur eru ekki eign utanaðkomandi aðila, það er, eiganda fjármagns, kapítalistans. (3) Sjálfræði handverksmannsins sem stjórnar sínum vinnudegi, einn eða í samráði við samstarfsmenn. Enginn ræður yfir honum; það er enginn atvinnurekandi, enginn þrælapískari, enginn stjóri-eitthvað. (4) Tjáning handverksmannsins sem setur hug sinn, kunnáttu og verklagni í framleiðsluferlið. Útkoman er hans sköpun, tjáir hann sem mann. (5) Samþætting vinnu og leiks. Það eru engin skýr mörk milli vinnu annars vegar og frístunda og leiks hins vegar. Sem skapandi ferli er vinnan hugðarefni handverksmannsins. (6) Ástríða handverksmannsins. Hann er listamaður. Handverkið er ástríða lífs hans.
Allt þetta átti svo sannarlega við Morris, ekki síst hið síðastnefnda. Þessi lýsing Mills á starfi handverksmannsins er hann að lýsa starfi Morrisar:
Enginn hvöt liggur að baki starfsins nema afrakstur þess og sköpunarferlið sjálft … Handverksmaðurinn býr við það frelsi að stjórna sjálfur sínum vinnudegi. Hann dregur lærdóma af sínu daglega starfi og þróar þannig sífellt getu sína og handlagni. Fyrir honum er enginn munur á starfi og leik, eða starfi og menningu. Lifibrauð handverksmannsins mótar hans lífshátt og lífsviðhorf.170Sama heimild, 220 175
Oscar Wilde sagði við Morris: „Mér hefur ætíð virst að allt þitt starf byggist á þeirri unun sem fylgir því að búa til fallega hluti –að þín freisti engar annarlegar hvatir.“171Vitnað í MacCarthy, Anarchy and Beauty, 56176 Með „annarlegum hvötum“ átti hann ugglaust við samkeppni og gróðasókn, hreyfiöfl kapítalismans.
Niðurlag
Þegar riddarinn ungi reið í Eppingskóg var það meira en bernskubrek. Krossförin mikla var hafin, ævilöng barátta fyrir fegurra mannlífi. Þessi för leiddi hann að lokum til sósíalismans. Leiðin sú var löng og krókótt og ekki sú fjölfarnasta; ekki leið brauðstrits og verkalýðsbaráttu, sem Morris þekkti lengi aðeins af afspurn skáldsagna, enda alinn upp við auðlegð og forréttindi. Leið Morrisar var leið hins rómantíska fagurkera og listamanns, í gegnum miðaldahyggju, for-rafaelítisma og „gotnesku“. Þótt engin væri alfaraleið var hún heldur ekkert einsdæmi, alltént ekki í kreðsum Morrisar. Charles Faulkner, Philip Webb, Ford Madox Brown og hinn minna frægi Rossetti, William Michael, fetuðu allir þessa sömu braut til sósíalismans. Það var varla hægt að ætlast til að bóhem á borð við Dante Gabriel skipaði sér í flokk eða undir merki heilsteyptrar stjórnmálastefnu, en þeir sem þekktu hann best sögðu hann hafa hjartað á réttum stað, það er, vinstra megin. Sósíalismi Morrisar bíður seinni greina, en út frá því sem nú þegar er tíundað ætti engum að koma á óvart að hann var ekki sósíalismi miðstýringar, skrifræðis, hagvaxtarblætis, stóriðju og fimm ára áætlana. Hann passaði illa við svokölluð „sósíalísk“ ríki 20. aldar, það sem kallað hefur verið really existing socialism til aðgreiningar frá hinni upprunalegu hugsjón. Hann var líka alltof róttækur fyrir sómakæra krata og aðrar nytjahyggjuafturgöngur. Hann var frá upphafi eitthvað „öðruvísi“, villtari, lífrænni, litaður af anarkisma og töluvert „hippalegur“. það er í samræmi við þessar rómantísku krókaleiðir. Að fara hinn fáfarnari veg ku gera gæfumuninn. Sósíalismi Morrisar var og er sósíalismi valddreifingar, þátttökulýðræðis, sjálfbærni, ekólógíu, lókalisma, listfengis, handverks og óþrjótandi ímyndunarafls: þess raunsæis er krefst hins ógerlega. Í þessum greinaflokki er því haldið fram að þetta sé einmitt sá sósíalismi sem heimurinn þarfnast núna. Barátta Morrisar fyrir fegurra mannlífi hlaut fyrr eða síðar að gera hann andsnúinn auðvaldinu. Það fyrsta sem Morris lærði um kapítalismann var að hann er ljótur. Bókstaflega: hann sker í augun. Samtíminn, það er, kapítalisminn, sagði Morris, býr til ljót hús, ljóta hluti og ljóta hugsun, billegt skran í reykspúandi og mannskemmandi fabrikkum. Hann mengar allt sem hann snertir: loft, lög, láð og mannssálina. Hann drepur lífríkið og listina, tekur frá okkur fegurðina. Hann sviptir okkur sköpunarmætti og gerir okkur að vélmennum kapítalsins. Í staðinn lofar hann frelsi og upplýsingu. Loforð sem reynist fals og lygi. Ekki við öðru að búast úr þeirri átt. Eftir sitja aumir menn, verr settir en nokkurn tíma áður, á kafi í skrani og ljótleika. En samt, eða kannski einmitt þess vegna, er enn von:
Við gáfum frá okkur listina fyrir það sem við héldum vera ljós og frelsi, en bárum skertan hlut frá borði: ljósið upplýsti aðeins þá fáu efnamenn sem um það kærðu sig; frelsið var frelsi þeirra efnamanna sem létu sér frelsi varða. En þetta er lítill hópur. Alþýðunni sýndi ljósið aðeins vonleysi, og það frelsi sem hún fékk var frelsi til að þiggja lúsarlaun fyrir þrælavinnu og svelta ella. En einmitt í þessu felst von okkar. Það fullyrði ég. Hefðu kaupin verið sanngjörn hefðum við getað jarðað listina og gleymt fegurðinni. En kaupin voru ekki sanngjörn. Þess vegna á listin sér bandamann: þrá alþýðunnar til þess góða lífs sem hún var svikin um. Þetta er okkar von: málstaður listarinnar er málstaður fólksins.
Heimildir og tilvísanir
- 1Morris, William, „How I Became a Socialist“, 244, í Morris, William, Political Writings of William Morris (New York & Berlin 1973), 241-6. Ritstjóri: A. L. Morton.
- 2Rossetti, William Michael, Some Reminiscences, Vol. 1 (London 1906), 214.
- 3Í ljóðinu, „Vilhjálmur Morris“. Ljóðið er að finna í Matthías Jochumsson, Ljóðmæli – fyrri hluti: frumort ljóð (Reykjavík 1956), 567-71; einnig í Eimreiðinni, 1923, 29 (5-6), 257-61.
- 4Fjallkonan, 28.10.1896, 171.
- 5Fjöldi ævisagna Morrisar hafa komið út í gegnum tíðina. Hér skal aðeins bent á þær bitastæðustu: Henderson, Philip, William Morris, His Life, Work and Friends (London 1967); MacCarthy, Fiona, William Morris: A Life for Our Time (London 1994); Anarchy and Beauty: William Morris and His Legacy (London 2014); MacKail, J. W., The Life of William Morris, Vol. 1-2 (London, New York & Bombay 1899); Thompson, E. P., William Morris, Romantic to Revolutionary (London 1955). Töluvert hefur verið skrifað um Morris á íslensku, mest í formi blaða- og tímaritsgreina. Þeim skrifum verða gerð skil í næstu grein í tengslum við afskipti Morrisar af Íslandi og íslenskri menningu.
- 6Matthías Jochumsson, „Vilhjálmur Morris“.
- 7MacCarthy, William Morris, 409
- 8Briggs, Asa, The Age of Improvement 1783-1867 (London & New York 1959), 446.
- 9Hood, Edwin Paxton, The Age and Its Architect: Ten Chapters on the English People (London 1852), 73.
- 10MacCarthy, William Morris (London 1994), 5. Bara skáldsögurnar, smásagnasöfnin og leikritin eru 32 að tölu. Þá eru ótalin ljóðasöfn, þjóðlegur fróðleikur og ritgerðir
- 11Verkaik, Robert, Posh Boys: How the English Public Schools Run Britain (London 2018), 270. Á skrá yfir þekkta fyrrum nemendur Marlborough-skólans er fjöldinn allur af þingmönnum og ráðherrum Íhaldsflokksins og aragrúi krikket-spilara. En líka normal fólk inn á milli.
- 12Vitnað í MacCarthy, William Morris, 35. Frá 1968 hefur skólinn líka tekið við dætrum hinna ríku. Ein heimavist stúlknanna heitir eftir Morris.
- 13Vitnað í MacCarthy, Anarchy & Beauty, 11.
- 14Vitnað í MacCarty, William Morris, 34. Kannski var það þess vegna sem annar nemandi skólans, listfræðingurinn Anthony Blunt, njósnaði fyrir Sovétríkin um miðja síðustu öld.
- 15MacKail, The Life of William Morris, Vol. 1, 33.
- 16Yeats, William Butler, Autobiographies (New York 1999), 131-2.
- 17Jón Stefánsson, „William Morris (1834-1896)“, 126, Eimreiðin, 1897, 3 (2), 124-6.
- 18MacCarthy, William Morris, 77.
- 19MacKail, The Life of William Morris, Vol. 1, 17.
- 20Matthías Jochumsson, „Höfuðskáld Englendinga“, 93, Norðri, 17.06.1909, 93-4.
- 21MacCarthy, Fiona, The Last Pre-Raphaelite: Edward Burne-Jones and the Victorian Imagination (London 2011), 2.
- 22MacCarthy, William Morris, 65
- 23Sama heimild, 98.
- 24Mumford, Lewis, The Culture of Cities (New York 1938), 148.
- 25Bókin kom fyrst út í Þýskalandi árið 1845 sem Die Lage der arbeitenden -+ Klasse in England. Engels, Frederick, „The Condition of the Working Class in England“ í Marx, Karl and Frederick Engels, Collected Works, Vol. 4 (Moscow 1975), 295-596.
- 26Gaskell, Peter, The Manufacturing Population of England, Its Moral, Social and Physical Conditions (London 1833); Alison, William P., Observations on the Management of the Poor in Scotland and Its Effects on the Health of the Great Towns (Edinburgh 1840).
- 27Sjá: Donnelly, James S, Jr., The Great Irish Potato Famine (Stroud 2008); Gray, Peter, Famine, Land and Politics: British Government and Irish Society, 1843-50 (Dublin 1999),
- 28Briggs, The Age of Improvement,295
- 29MacCarthy, William Morris, 25.
- 30Gaskell, Elizabeth, Mary Barton, Kafli VIII. Margar skáldsögur eru til í ótal ólíkum útgáfum, þannig að merkingarlaust er að tilgreina blaðsíðu. Í slíkum tilfellum læt ég nægja að geta kafla.
- 31Marx, Karl, „The English Middle Class“, 664, í Marx & Engels, Collected Works, Vol. 13, 663-5.
- 32Smith, Adams, An An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations, bók 1, kafli 1: online-literature.com/adam_smith/wealth_nations/1/.
- 33Bentham, Jeremy, An Introduction to the Principles of Morals and Legislation (London 1780).
- 34Dickens, Charles, Hard Times, Fyrsta bók, Kafli I.
- 35Marwick, Arthur, The New Nature of History: Knowledge, Evidence, Language (Basingstoke 2001), 74
- 36Söguskilningur Vigganna kemur glöggt fram í riti hans Constitutional History of England, from the Accession of Henry VII to the Death of George II.
- 37Vitnað í Chandler, Alice, A Dream of Order: The Medieval Ideal in Nineteenth-Century Literature (London 1971), 89.
- 38Hood, The Age and Its Architects, 18.
- 39Hans helsta sagnfræðiverk er The History of England from the Accession of James the Second (London 1848).
- 40Sjá t.d.: Viswanathan, Gauri, Masks of Conquest: Literary Study and British Rule in India.
- 41Sama heimild, 16-17.
- 42Chandler, A Dream of Order, 1.
- 43Southey, Robert, Colloquies on Society (London & Paris 1887) [1824], 78-9.
- 44„The Song of the Happy Shephard“ er eitt af fystu ljóðum Yeats og það sem hann valdi sem fyrsta ljóð í heildarsafni ljóða sinna. Það er ort þegar Yeats er uppfullur af rómantískri fortíðarþrá og undir áhrifum frá meðal annars Tennyson og Morris.
- 45Heine, Heinrich, The Works of Heinrich Heine, Vol. 1 (London 1903), 51-2. Þýðandi: Charles Godfrey Leland.
- 46Marx, Karl & Friedrich Engels, Kommúnistaávarpið (Reykjavík 2008) [1949], 178-9. Íslensk þýðing: Sverrir Kristjánsson.
- 47Sama heimild, 180.
- 48Mín eigin þýðing. Þessa frægu setningu er reyndar ekki að finna í hinni upprunalegu útgáfu Kommúnistaávarpsins á þýsku, og því heldur ekki í þýðingu Sverris Kristjánssonar. Hún kemur fyrst fyrir í enskri þýðingu ávarpsins 1888. Þá þýðingu gerði Samuel Moore, en hún var lesin yfir og „vottuð“ af Engels. Marx, Karl & Frederick Engels, „The Manifesto of the Communist Party”, 487, í Marx & Engels, Collective Works, Vol. 6, 477-519.
- 49Girouard, Mark, The Return to Camelot: Chivalry and the English Gentleman
- 50Girouard, Mark, The Return to Camelot: Chivalry and the English Gentleman.(New Haven & London 1981), 63-4.
- 51Sama heimild, 87-110; Anstruther, Ian, The Knight and the Umbrella: An Account of the Eglinton Tournament 1839 (London 1963).
- 52Vitnað í Briggs, Victorian Cities (London 1963), 97.
- 53Carlyle, Thomas, Past and Present (London 1843), 1.
- 54Carlyle, Past and Present, 29.
- 55Sama heimild, 126
- 56Sama heimild, 124-6
- 57Field, Clive D., „Measuring religious affiliation in Great Britain: the 2011 census in historical and methodological context“, https://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/0048721X.2014.903643
- 58Curtis, L. P., Apes and Angels: The Irishman in Victorian Caricature (Washington D. C. 1996)
- 59Lingard, John, The History of England, from the First Invasion by the Romans to the Accession of William and Mary in 1688. Fyrsta útgáfan var í átta bindum en höfundur endurskoðaði ritið, breytti og bætti við. Síðari útgáfur eru ýmist í tíu eða þrettán bindum. Hér er stuðst við útgáfu frá 1874 (Dublin & London) í tíu bindum
- 60Sama heimild, Vols. IV-VI
- 61Sjá: Driver, Felix, Power and Pauperism: The Workhouse System, 1834-1884 (Cambridge 1993); Higginbotham, Peter, The Workhouse Cookbook: A History of the Workhouse and Its Food (Stroud 2008); A Grim Almanac of the Workhouse(Stroud 2013); Life in a Victorian Workhouse (London 2014)
- 62Polanyi, Karl: The Great Transformation (Boston 1944), 86
- 63Cobbett, William, A History of the Protestant “Reformation” in England and Ireland (Dublin 1824-6), 106
- 64Church, R. W., The Oxford Movement 1833-1845 (London & New York 1891);Nockles, P.B., The Oxford Movement in Context: Anglican HighChurchmanship, 1760–1857 (Cambridge 1994); O´Connell, M. R., The Oxford Conspirators: A History of the Oxford Movement, 1833–1845 (Lanham 1991); „What Was the Oxford Movement?“: http://www.puseyhouse.org.uk/what-was-the-oxford-movement.html
- 65Church, The Oxford Movement, 111
- 66Field, „Measuring religious affiliation in Great Britain“.
- 67Brooks, The Gothic Revival (London 1999), 9
- 68Sama heimild, 10
- 69Eastlake, Charles L., A History of the Gothic Revival (London & New York 1872), 1
- 70Sjá: Brooks, The Gothic Revival, 261-88, 348-72, 400-403; Foucart, Bruno (ritstj.), Viollet-le-Duc, 1814-1879 (Paris 1980); Hearn, M. F. (ritstj.), The Architectural Theory of Viollet-le-Duc: Readings andCommentary (Cambridge,Massachusetts 1990); Lewis, Michael J., The Politics of the German Gothic Revival: August Reichensperger (Cambridge, Massachusetts 1993)
- 71Brooks, The Gothic Revival, 23-48; Clark, An Essay in the History of the Gothic Revival, 11-27
- 72Pugin, Agustus Welby, Constrasts, or the Parallel between the Noble Edifices of the Middle Ages and Corresponding Buildings of the Present Day, Shewing the Present Decay of Taste (Edinburgh 1898) [1836]
- 73Hill, Rosemary, God’s Architect: Pugin and the Building of Romantic Britain (London 2007), 135
- 74Briggs, Victorian Cities, 44
- 75Heildarverk Ruskins, ritstýrð af E. T. Cook og Alexander Wedderburn, kallast Library Edition, í 39 bindum (New York 1903-12). Allar tilvísanir hér eru í þessa útgáfu. Hana má nálgast á vefsíðu Lancaster háskóla: https://www.lancaster.ac.uk/the-ruskin/the-complete-works-of-ruskin/ Flest einstök rit Ruskins eru auk þess til í mörgum sérútgáfum, einkum hans síðari rit sem eru tiltölulega stutt. Flestum ætti að duga John Ruskin, Selected Writings (Oxford 2004
- 76Ruskin, Library Edition III-VII
- 77Sama heimild, 126
- 78Sama heimild, 126
- 79Sama heimild, 126
- 80Sama heimild, 126
- 81Sama heimild, 126
- 82Sama heimild, 126
- 83Sama heimild, 126
- 84Sama heimild, 126
- 85Sama heimild, 126
- 86Gagnrýni Dickens birtist fyrst í tímariti hans Household Words og hefur oft verið höfð eftir síðan. Um þetta málverk, sjá: Barringer, Tim, Reading the Pree-Raphaelites, 39-42; Birchall, Heather, Pre-Raphaelites (Köln 2016), 68-9; Rose, Andrea, The Pre-Raphaelites (New York 1977), 42-3; Heimildarmynd BBC: The Pre-Raphaelites: Victorian Revolutionaries, Part I
- 87PRB stóð vitanlega fyrir Pre-Raphaelite Brotherhood, en það var líka sagt tákna „Please, Ring Bell“ og „Penis Rather Better“.
- 88Hunt, William Holman, Pre-Raphaelitsim and the Pre-Raphaelite Brotherhood, Vol. 1 (New York & London 1905), 135
- 89Sama heimild, 159
- 90Jón Stefánsson, Úti í heimi: Endurminningar (Reykjavík 1949), 102
- 91Einkalíf for-rafaelíta var skrautlegt í meira lagi og efni í stórskemmtilega bók: Moyle, Franny, Desperate Romantics: The Private Lives of the Pre-Raphaelites (London 2009).
- 92Barringer, Tim, „Ford Madox Brown (1821-1893)“ í Prettejohn (ritstj.), The Cambridge Companion to the Pre-Raphaelites, 148-63; „The Effects of Industry: Ford Madox Brown and Artistic Identities in Victorian Britain“ í Sidey, Tessa (ritstj.), Ford Madox Brown: The Unofficial Pre-Raphaelite (Birmingham 2008), 16-31; Thirlwell, Angela, „Vieux Fordy: Death of a Modern Man“ í sama riti, 7-15
- 93Vitnað í Wildman, Stephen (ritstj.), “A New and Noble School”: Ruskin and the Pre-Raphaelites (London 2012), 56. Í því riti er að finna öll skrif Ruskins um for-rafaelíta
- 94Waugh, Evelyn, Rossetti: His Life and Work (London 1928), 12
- 95Prettejohn, Elizabeth, Rosetti and His Circle (New York 1997), 9
- 96Hér er einkum stuðst við: Marsh, Jan, The Pre-Raphaelite Circle (London 1998); Moyle, Desperate Romantics; Prettejohn, Rosetti and His Circle (New York 1997); The Cambridge Companion to the Pre-Raphaelites; Roe, Dinah, The Rossettis in Wonderland: A Victorian Family History (London 2011); Rossetti, William, Dante Gabriel Rossetti as Designer and Writer (London 1880); Tickner, Lisa, Dante Gabriel Rossetti (London 2003); Waugh, Rossetti: His Life and Work; heimildarþáttur: https://www.youtube.com/watch?v=Omu1mZNYQGQ
- 97Systir John Polidori sem var um skeið með Byron og Shelley á Ítalíu og skrifaði hrollvekjuna The Vampyre
- 98Waugh, Rossetti,16-17
- 99Sama heimild, 117
- 100Simons, John,Rossetti’s Wombat: Pre-Raphaelites and Australian Animals in Victorian London (London 2008)
- 101Brooks, The Gothic Revival, 319. Meðal þekktustu bygginga Streets eru Royal Courts of Justice í London, Christ Chruch Cathedral í Dublin og American Cathedral í París
- 102MacCarthy, The Last Pre-Raphaelite, 59
- 103Vitnað í MacKail, The Life of William Morris, Vol. 1, 110
- 104Waugh, Rossetti, 83-4
- 105Vitnað í MacCarthy, William Morris, 135
- 106Sama heimild, 133
- 107Waugh, Rossetti, 86
- 108MacCarthy, William Morris, 137
- 109Jón Stefánsson, Úti í heimi, 103
- 110Vísir, 15.02.1914, 2
- 111MacCarthy, William Morris, 136
- 112Sama heimild, 151
- 113Sama heimild, 137-8
- 114Georgiana var frænka Rudyard Kiplings og Stanley Baldwins forsætisráðherra. Hvorugur þeirra var þó fæddur þegar hér var komið sögu
- 115Vitnað í MacCarthy, William Morris, 160
- 116Sama heimild, 158
- 117Roe, The Rossettis in Wonderland, 213
- 118Vitnað í MacCarthy, Fiona, „William Morris (1834-1896) “, 319, Oxford Dictionary of National Biography,39 (Oxford 2004), 317-24
- 119Roe, The Rossettis in Wonderland, 214
- 120MacCarthy, William Morris, 166
- 121Sweet, Mathew, Inventing the Victorians (London 2001), 134
- 122MacCarthy, William Morris 354
- 123Sama heimild, 353
- 124Sama heimild, 353
- 125Shaw, George Bernard, Morris as I Knew Him (London 1966), 15
- 126„Merkisafmæli: Meistari Hallbjörn prentari í fimmtíu ár“, Prentarinn, 1954, 32 (5-6), 22-3; Ellert Á. Magnússon, „Hallbjörn Halldórsson sjötugur“, Alþýðublaðið, 03.07.1958, 4; Þorvaldur Kolbeinsson, „Hallbjörn Halldórsson sjötugur“, Prentarinn, 1958-9, 36 (4-5), 16-17, „Hallbjörn Halldórsson“, Alþýðublaðið, 29.10.1959, 10-11; Magnús Ástmarsson, „Hallbjörn Halldórsson“, Prentarinn, 1959-60, 37 (4-5), 14-16
- 127Hallbjörn Halldórsson, „Iðnarmál prentara“, Prentarinn, 1916, 5 (1-8), 5-26; „Fegurðarfræði prentlistarinnar, í ágripi og drögum“, Prentarinn, 1917, 6 (1-8), 3-14; „Fimmtíu ára afmæli hrað-pressunnar á Íslandi“ Prentarinn, 1929, 9 (3), 9-10; „Nýja prentlistin“, Prentarinn, 1930, 10 (6), 21-24; „Stuttleg saga prentlistarinnar“, Prentarinn, 1958-9, 36 (1-3), 9-11
- 128Hallbjörn Halldórsson, “William Morris, hundrað ára minning”, Prentarinn, 1934-5, 14 (1-2), 1-2, 7
- 129Halldór Kiljan Laxness, „Einn af jógínum verksins: Hallbjörn Halldórsson in memoriam“, Tímarit Máls og menningar, 1959, 20 (2), 101-3
- 130Hallbjörn Halldórsson, „Nýja prentlistin“, 21
- 131Hallbjörn Halldórsson, „Stuttleg saga prentlistarinnar“, 9
- 132Það sem hér fer á eftir byggir mest á ofangreindum greinum Hallbjörns, bæklingi eftir Þorsteinn Þorsteinsson, Morris og Kelmscott (Reykjavík 1996), sem og MacCarthy, William Morris, 608-26
- 133Þorsteinn Þorsteinsson, Morris og Kelmscott, 5
- 134Morris, May, „Introduction“, í William Morris, Artist, Writer, Socialist, Vol. 1,39 (Oxford 1936), 1-99
- 135Clark, Fiona, William Morris: Wallpaper and Chintzes (New York & London 1973); MacCarthy, Anarchy & Beauty, 131-5
- 136MacKail, The Life of William Morris, Vol. 2, 57-8
- 137Morris, William, Some Hints on Pattern Designing (1881). Hér er vitnað í útgáfu frá 1936 (San Fransisco), aðgengileg ánetinu: https://archive.org/details/somehintsonpatte00morrrich/page/n3/mode/2up. Sjá einnig: https://www.marxists.org/archive/morris/works/1881/hints.htm
- 138Sama heimild, 1[/mfn[139] Hann gerir greinarmun á hinum æðri og hátíðlegri listum og þess háttar skreytilist sem okkur er ætlað að hafa fyrir augunum dags daglega og það flestar stundir dagsins. Hann segir mannssálinni hafa þörf á því að hafa í kringum sig það sem minnir hana á líf og fegurð, og „þess vegna er okkur hollt að láta hina óæðri list (ég segi ekki verri) umlykja hvunndaginn, vinnustundir og frístundir“, list sem minnir okkur á náttúruna og tjáir grósku jarðar.138Sama heimild, 4
- 139Sama heimild, 7
- 140Sama heimild, 15
- 141Worringer, Wilhelm, Abstraction and Empathy: A Contribution to the Psychology of Style (New York 2004 [1953]; Form Problems of the Gothic (New York 1918). Þess má geta að skrif Worringers höfðu áhrif á framgang “abstrakt” listar og módernismanns á fyrri hluta 20. aldar og þeim hefur nýlega verið hampað af höfundum eins Deleuze og Guattari og Mark Fisher. Jones, A. R., „T. E. Hulme, Wilhelm Worringer and the Urge to Abstraction“, The British Journal of Aesthetics, 1 (1), 1960, 1-6; Ulmer, G. L., „D. H. Lawrence, Wilhelm Worringer and Aesthetics of Modernism“, D. H. Lawrence Review, 10 (2) 1977, 165-81; Williams, R. W., „Wilhelm Worringer and the Historical Avant-Garde“ í Scheuneman, Dietrich (ritstj.), Avant-Garde/Neo- Avant-Garde (Amsterdam & New York 2005), 49-62; Deleuze, Gilles & Félix Guattari, A Thousand Plateaus: Capitalism and Schizophrenia (London & New York 2013) [1988], 479-83, 572-9; Fisher, Mark, Flatline Constructs: Gothic Materialism and Cybernetic Theory-Fiction (London 2018), 1-8
- 142Worringer, Abstraction and Empathy
- 143Sama heimild, 106-21; Form Problems of the Gothic[145] Worringer talar um „hina óendanlegu melódíu hinnar gotnesku línu“ sem tjáir eitthvað sem er stöðugt, áframhaldandi og sívaxandi, gefur til kynna hið eilífa og óendanlega. „Óendanleg melódía línunnar sveimar fyrir augum hins norræna manns“.143Worringer, Form Problems of the Gothic, 52
- 144Sama heimild, 67, 84-96, 115-31, 133-6. Hann ýjar og að því að drykkjuskapur og fylliríisröfl gegni sama tilgangi í hinni norrænu sál. Sama heimild, 66, 73-4. Svipuð greining og hjá Worringer, byggð á anda hins norræna manns, liggur til grundvallar umfjöllunar Broby Johansen á gotneskum stíl í bók hans Heimslist-Heimalist: Yfirlit evrópskrar listasögu (Reykjavík 1977), 110-19. Björn Th. Björnsson þýddi.
- 145Ruskin, Library Edition, X, 180-269
- 146Sama heimild, 191
- 147Sama heimild, 192
- 148Sama heimild, 196
- 149Engels, „The Condition of the Working Class in England”, 415
- 150Sjá einkum Marx, Karl, “Economic and Philosophic Manuscripts of 1844”, 270-80, í Marx, Karl & Frederick Engels, Collected Works, Vol. 3, 229-346
- 151Vitnað í Thompson, William Morris, 33
- 152Um þetta fjallar Thompson nokkuð ítarlega. Sama heimild, 32-9. Sjá einnig: Hewison, Ruskin and His Contemporaries, 86-7
- 153William Morris, Artist, Writer, Socialist, 292
- 154Vitnað í Lethaby, W. R., Philip Webb and His Work (London 1935), 155
- 155„The Factory as It Might Be, 1“, í William Morris, Artist, Writer, Socialist, Vol. 2, 130-33; „The Factory as It Might Be, 2“, Sama heimild, 33-5; „The Factory as It Might Be, 3“, Sama heimild, 135-40. Sjá einnig greinina „Useful Work versus Useless Toil“ í Political Writings of William Morris, 86-108. Hún birtist þýdd í þessu blaði sem „Þörf vinna og þarflaust streð“
- 156https://www.artworkersguild.org/
- 157MacCarthy, Fiona, Eric Gill (London 2020),
- 158MacCarthy, Anarchy & Beauty, 66-7
- 159Þorsteinn Þorsteinsson, Morris og Kelmscott, 5
- 160Naylor, Gillian, The Arts and Crafts Movement: A Study of Its Sources, Ideals and Influence on Design Theory (London 1971), 120
- 161Sjá: MacCarthy, Anarchy and Beauty; Naylor, Gillian, The Arts and Crafts Movement
- 162Hobsbawm, Eric, The Age of Empire 1875-1914 (London 1987), 228-9
- 163Pevsner, Nikolaus, Pioners of Modern Design from William Morris to Walter Gropius (London 1960) [1936], 39
- 164Björn Th. Björnsson, Aldateikn (Reykjavík 1973), 179-200
- 165Gropius, Walter, „Tildrögin að hugmynd minni um ,Bauhaus ̒-skólann“, Byggingarlistin, 1930, 3 (1), 25-7
- 166Sama heimild, 26
- 167Sama heimild, 126
- 168Guðrún Jóhannsdóttir frá Ásláksstöðum, „William Morris“, 273, Lesbók Morgunblaðsins, 15.04.1954, 272-3
- 169Mills, C. Wright, White Collar: The American Middle Classes (Oxford & New York 1951), 220-24
- 170Sama heimild, 220
- 171Vitnað í MacCarthy, Anarchy and Beauty, 56