Hvers vegna sósíalismi

Albert Einstein

Grein þessi birtist í fyrsta hefti hins bandaríska tímarits Monthly Review í maí 1949

Er ráðlegt að maður sem ekki er sérfræðingur í efnahagsmálum og félagsvísindum tjái skoðun sína á sósíalisma? Ég tel, af ýmsum ástæðum, að svo sé. Íhugum málið fyrst með tilliti til vísindalegrar þekkingar. Svo kann að virðast sem enginn grundvallarmunur sé á þeim aðferðum sem beitt er annars vegar í stjörnufræði og hins vegar í hagfræði: vísindamenn á báðum sviðum reyna að uppgötva ásættanleg lögmál um afmarkaðan hóp fyrirbæra og skýra með þessum lögmálum, eins og framast er unnt, gagnkvæm vensl umræddra fyrirbæra. Í reynd er hins vegar stór munur á starfi þessara tveggja hópa. Uppgötvun lögmála í hagfræði er þeim takmörkum bundin að sýnileg og mælanleg efnahagsleg fyrirbæri mótast af mörgum þáttum sem mjög erfitt er að aðskilja og meta sérstaklega. Þar að auki er það alkunna að frá upphafi svokallaðrar siðmenningar hefur mannleg tilvist að stórum hluta mótast af fjölmörgum þáttum sem ekki eru efnahagslegir nema að litlu leyti. Til dæmis hafa flest stórveldi sögunnar byggt tilveru sína á hernaðarlegum yfirgangi og landvinningum. Herraþjóðir urðu, bæði lagalega og efnahagslega, sú yfirstétt sem síðan drottnaði yfir innfæddum. Þær hrifsuðu til sín og einokuðu jarðnæði. Þær skipuðu úr eigin röðum yfirvald og æðstupresta, sem urðu alls ráðandi í menntamálum og gátu því fest í sessi stéttskiptingu samfélagsins með hugmyndafræði, sem upp frá því mótaði, að miklu leyti ómeðvitað, félagslega hegðun landsmanna.

En við skulum ekki einblína á söguna né binda okkur alfarið við liðna tíð og eigin samtíma. Höfum í huga að hvergi í heiminum eru menn komnir af því skeiði mannlegrar þróunar sem Thorstein Veblen kallaði „skeið ræningjanna”. Þær efnahagslegu staðreyndir sem menn á okkar tímum greina og álykta út frá gilda í mesta lagi á þessu afmarkaða skeiði. Þar eð raunverulegt markmið sósíalismans er að sigrast á og komast af skeiði ræningjanna varpar sú hagfræði sem nú er stunduð litlu Ijósi á samfélag sósíalismans í framtíðinni.

Í annan stað vil ég benda á að sósíalisminn hefur siðræn félagsleg markmið. Vísindin geta ekki sett slík markmið, enn síður fengið fólk til fylgis við þau. Í mesta lagi geta vísindin skapað leiðir að félagslegum markmiðum. En markmiðin sjálf hljóta að vera sett af fólki með háleitar siðfræðilegar hugsjónir, og -séu þessi markmið ekki andvana fædd, heldur lifandi og þróttmikil- öðlast þau stuðning fjöldans sem, að sumu leyti ómeðvitað, ræður hægfara þróun mannlegs samfélags.

Af þessum ástæðum ættum við ekki að ofmeta vísindin og vísindalegar aðferðir þegar kemur að lausn vandamála mannlegrar tilvistar. Og við eigum alls ekki að fallast á að einungis sérfræðingar hafi rétt til að tjá sig um málefni þau er varða gerð þjóðfélagsins.

Um langt skeið hafa þær raddir verið háværar sem segja að mannlegt samfélag gangi nú í gegnum kreppu og sé jafnvel að hruni komið. Við slíkar aðstæður vill það oft gerast að einstaklingar fyllast skeytingarleysi og jafnvel andúð gagnvart eigin samfélagi og meðbræðrum sínum. Máli mínu til skýringar tek ég lítið dæmi úr eigin reynslu. Nýlega ræddi ég við greindan og grandvaran mann um þá hættu sem okkur stafar af hugsanlegri styrjöld stórvelda, sem að mínu viti myndi ógna tilvist alls mannkyns. Ég hélt því fram að eina vörnin gegn slíkri vá sé alþjóðasamtök og samvinna þjóðríkja. Þá mælti viðmælandi minn, rólega og yfirvegað: „Af hverju ertu svona mikið á móti útrýmingu mannkynsins?”

Ég er þess fullviss að fyrir öld síðan hefði engum dottið í hug að segja svona. Þetta eru orð manns sem árangurslaust hefur reynt að öðlast innri frið og jafnvægi, en er nú úrkula vonar um að slíkt megi takast. Þetta er tjáning þeirrar sársaukafullu einsemdar og einangrunar sem hrjáir svo marga á okkar tímum. Hver er orsökin? Finnst bót mála?9-

Slíkum spurningum er ekki auðsvarað. Mér er þó skylt að reyna eftir megni, eins þótt ég viti vel að mannlegar tilfinningar og hvatir eru á tíðum mótsagnakenndar og óskýrar, og verða ekki tjáðar með auðskildum og einföldum formúlum.

Maðurinn er í senn einstaklingur og félagsvera. Sem einstaklingur stendur hann vörð um sitt eigið líf og líf sinna nánustu, jafnframt því sem hann reynir að uppfylla einstaklingsbundnar þarfir og þróa eigin hæfileika. Sem félagsvera reynir hann að öðlast virðingu og vinsemd annara manna, samgleðjast þeim, létta sorgir þeirra og bæta líf þeirra og aðstæður. Jafnvægi og heilbrigði hvers einstaklings, sem og geta hans til að láta gott af sér leiða í þjóðfélaginu, ræðst af tilvist og samspili allra þessara margslungnu og oft mótsagnakenndu hvata. Vel má vera að hlutfallslegur styrkur þessara tveggja drifkrafta ráðist að mestu leyti af erfðum. Hins vegar hlýtur sú persónugerð sem skapast í hverju einstöku tilfelli að ákvarðast að miklu leyti af umhverfi viðkomandi einstaklings, þeirri þjóðfélagsgerð sem hann elst upp við, hefð þess sama þjóðfélags, og hvaða dóm það leggur á margskonar mannlega hegðun. Út frá sjónarhóli hvers einstaklings er þetta óhlutbundna hugtak „þjóðfélag” samanlögð heild allra beinna og óbeinna tengsla hans við allt samtíðarfólk og allt fólk fyrri kynslóða. Hver einstaklingur er vissulega fullfær um að hugsa, finna til, þrá og starfa af eigin rammleik, en samt er hann alltaf svo háður þjóðfélaginu -líkamlega, vitsmunalega og tilfinningalega- að ógerlegt er að ímynda sér hann utan þess. Það er þjóðfélagið sem sér honum fyrir mat, klæðum, heimili, tækjum og tungumáli, ásamt allri formgerð og flestum viðfangsefnum hugsunar hans. Það sem gerir líf hans mögulegt er líf, starf og árangur margra milljóna annara manna í fortíð og nútíð, milljóna sem allar leynast á bak við þetta litla orð „þjóðfélag”.

Það er því óumflýjanleg náttúruleg staðreynd að sérhver mannlegur einstaklingur er háður samfélagi, rétt eins og maurar og býflugur. Munurinn er þó sá að í tilfelli maura og býflugna ákvarðast allt lífsferlið, niður í sérhvert smáatriði, af arfgerðri eðlisávísun, á meðan mannleg félagsgerð og samskiptakerfi eru margslungin, mismunandi og síbreytileg. Minni mannshugans, tungumálið og geta fólks til þess að mynda í sífellu ný tengsl, allt stuðlar þetta að mannlegri þróun sem ekki er ákvörðuð af líffræðilegri nauðsyn. Þessi þróun kemur fram í hefðum, stofnunum, félagasamtökum, vísindum, verkfræði og verkkunnáttu, bókmenntum og listsköpun. Þetta skýrir hvernig maðurinn getur, að vissu marki, ákvarðað eigið líf með eigin athöfnum, og hvernig þetta ferli mótast af meðvitaðri hugsun og væntingum.

Við fæðingu erfir hver maður vissa eðlislæga líffræðilega skipan, sem við getum sagt að sé gefin og óumbreytanleg. Þar á meðal eru þær náttúrulegu hvatir sem einkenna tegundina mann. Til viðbótar öðlast maðurinn á sínum æviferli menningarlega skipan sem hann þiggur frá samfélaginu í gegnum tjáskipti og fyrir kraft margskonar áhrifavalda. Það er þessi menningarlega skipan sem breytist með tíð og tíma og sem ákvarðar að miklu leyti samskipti einstaklings og þjóðfélags. Með samanburði á svokölluðum frumstæðum menningarhópum hafa mannfræðingar nútímans sýnt okkur fram á að félagsleg hegðun fólks er gífurlega fjölbreytileg, að jafnaði háð því menningarlega mynstri og þeirri félagsgerð sem ríkir í hverju samfélagi. Og einmitt á þessu byggja von sína þeir sem bæta vilja mannlífið: mennirnir eru ekki líffræðilega dæmdir til þess að útrýma hver öðrum eða skapa sjálfum sér óbærilega tilvist.

Þegar við spyrjum sjálf okkur hvernig breyta megi þjóðfélagi og menningu svo að mannlífið verði eins ásættanlegt og unnt er, verðum við sífellt að hafa í huga að það eru vissir hlutir sem við getum með engu móti breytt. Eins og fyrr segir, er líffræðilegt eðli mannsins þar á meðal. Auk þess hafa tæknileg þróun og lýðfræðilegar breytingar síðari alda skapað vissar aðstæður sem við verðum að sætta okkur við. Í þéttbýlum samfélögum sem háð eru miklu framboði á neysluvörum eru verkskipting og samræmd framleiðsla stórra eininga óhjákvæmileg. Sá tími -sem við nú sjáum í rómantísku Ijósi- þegar einstaklingar og litlir hópar voru sjálfum sér nógir, er löngu liðinn. Það eru ekki stórar ýkjur að segja að þegar kemur að neyslu og framleiðslu myndi mannkynið núna eitt og óskipt samfélag.

Ég er nú kominn að kjarna þess sem ég álít helsta vanda okkar tíma. Hann varðar samband einstaklings og þjóðfélags. Nú á tímum er hver einstaklingur sér meira meðvitaður en nokkru sinni fyrr um það hversu háður hann er þjóðfélaginu. En því miður upplifir hann þetta ekki sem eitthvað jákvætt, heldur sem árás á hans náttúrulega rétt, eða jafnvel hans efnahagslegu bjargir. Þar að auki verður félagsleg staða hans til að ýta undir þær hvatir sem tengjast eiginhagsmunum og vega að sama skapi að þeim er tengjast félagslegri umhyggju, og eru máske veikari fyrir. Þetta gildir um alla, hvar sem þeir standa í samfélaginu. Ómeðvitað verða þeir fangar eigin sjálfselsku, fyllast óöryggi og einmannakennd, og glata hæfileikanum til einfaldrar og fölskvalausrar lífsgleði. Því tilgang lífsins, eins skammvinnt og áhættusamt sem það er, finnur einstaklingurinn aðeins með því að helga það öðru fólki, helga það mannlegu samfélagi.

Að mínu viti er stjórnleysi kapítalísks samfélag okkar tíma hin sanna rót þessa meins. Við verðum vitni að því hvernig sumir þegnar meina öðrum að njóta ávaxtar sameiginlegrar vinnu þjóðfélagsins – ekki með ofbeldi, heldur með því að fylgja í einu og öllu lögboðnum reglum. Hér skiptir sköpum að í langflestum tilfellum eru framleiðsluöflin -bæði þau er skapa neysluvörur og þau er skapa ný tæki til framleiðslu- lögum samkvæmt í einkaeign.

Til einföldunnar kalla ég „verkafólk” alla þá sem ekkert eiga í framleiðsluöflunum, þótt það sé kannski ekki sá skilningur sem flestir leggja í hugtakið. Eigendur framleiðsluaflanna eru í þeirri aðstöðu að geta keypt vinnuafl verkafólks. Með starfi sínu, með því að nýta framleiðsluöflin, skapar verkafólkið nýjar vörur, sem samstundis verða eign kapítalistans. Það sem hér skiptir mestu máli eru tengslin milli þeirra verðmæta sem verkafólkið skapar og þess sem það ber úr býtum. Í svokölluðum „frjálsum” launasamningum ákvarðast laun  verkafólks alls ekki af verðgildi þess sem það framleiðir, heldur af þeirra eigin lágmarksþörfum ásamt þörfum kapítalismans fyrir vinnuafl og samkeppni verkafólks um atvinnu. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að jafnvel fræðilega séð ákvarðast laun verkafólks aldrei af þeim verðmætum sem það skapar.

Auðmagn í einkaeign þjappast á sífellt færri og færri hendur, að hluta til vegna innri samkeppni kapítalista, að hluta til vegna þess að tækniþróun og aukin verkskipting ýtir undir stórar framleiðslueiningar á kostnað smárra. Afleiðing þessa er ofræði fárra auðmagnseigenda sem fara sínu fram án þess að lýðræðislegar stofnanir þjóðfélagsins fái nokkuð að gert. Þetta er tryggt með því að þeir sem fara með löggjafavald eru tilnefndir af pólitískum flokkum, sem eru að mestu fjármagnaðir og nær alfarið stjórnað af kapítalistum og þeirra fylgifiskum. Með þessu skapast gjá milli löggjafans og kjósenda, sem leiðir til þess að fulltrúar fólksins hunsa að mestu hagsmuni þeirra sem minnst mega sín. Við þetta bætist að við ríkjandi aðstæður stjórna kapítalistar, beint eða óbeint, helstu uppsprettum upplýsinga (fréttablöðum, útvarpi, sjónvarpi og menntakerfi). Fyrir vikið reynist almennum borgurum ákaflega erfitt, í flestum tilfellum ógerlegt, að mynda sér vel grundaðar skoðanir og nýta af skynsemi sín pólitísku réttindi.

Hvað varðar hinn efnahagslega grunn kapítalísks samfélags, þá stjórnast hann af tveimur meginreglum: í fyrsta lagi eru framleiðsluöflin (kapítalið) í einkaeign og eigendur þeirra geta nýtt þau eins og þeim sýnist; í öðru lagi eru launasamnigar frjálsir. Auðvitað má segja að hvergi finnist algjörlega hreinn og ómengaður kapítalismi í þessum skilningi. Einkum skal bent á að með langri og strangri baráttu hefur verkafólki tekist að tryggja betri kjör, alltént fyrir hluta verkalýðsstéttarinnar, en þau sem fást með algjörlega „frjálsum” launasamningum. En samt, sé litið á núverandi hagkerfi í heild sinni, þá er það ekki svo ýkja fjarri „hreinum” kapítalisma.

Framleiðslan miðast við gróða, ekki þarfir. Ekkert tryggir að þeir sem hafa starfsorku og vilja vinna hafi í reynd atvinnu; „herskari atvinnulausra” er nær alltaf til staðar. Verkafólk lifir í stöðugum ótta við að missa vinnu. Þar eð atvinnuleysingjar og illa launað verkafólk mynda ekki gróðavænlegan markað er framleiðsla á brýnustu nauðsynjavörum oft takmörkuð, sem leiðir til harðræðis og vesældar. Tækniframfarir leiða oftast til uppsagna og aukins atvinnuleysis frekar en minna vinnuálags allra. Gróðasókn, sem og innri samkeppni kapítalista, leiðir til óstöðugleika og óvissu hvað varðar upphleðslu og nýtingu auðmagnsins, sem hefur í för með sér sífellt skæðari efnahagskreppur. Óheft samkeppni leiðir til gífurlegrar sóunar vinnuafls, sem og minnkandi félagslegrar vitundar, eins og áður segir.

Það eru þessi neikvæðu áhrif á einstaklinginn sem ég álít versta böl kapítalismans. Allt menntakerfið vinnur að sama marki. Það fyllir nemendur samkeppnisanda og dýrkun á auðsöfnun og framapoti.

Ég er þess sannfærður að leiðin út úr öllu þessu böli sé aðeins ein, sú að koma á fót sósíalísku hagkerfi, styrktu með menntakerfi sem leggur áherslu á félagsleg markmið. Í slíku hagkerfi eru framleiðslutæki í eigu samfélagsins sjálfs og nýtt í samræmi við áætlanir. Áætlunarbúskapur, sem miðar framleiðslu við þarfir þjóðfélagsins, myndi dreifa tilkallandi verkefnum milli allra þeirra sem eru vinnufærir og tryggja lífsafkomu allra, karla, kvenna og barna. Menntun hvers einstaklings myndi miða bæði að því að rækta hans eigin hæfileika og því að þróa með honum ábyrgðartilfinningu gagnvart meðbræðrum sínum, í stað þeirrar dýrkunnar á valdi og frama sem viðgengst í þjóðfélagi samtímans.

Samt ber að hafa í huga að áætlunarhagkerfi eitt og sér er alls ekki það sama og sósíalismi. Áætlunarhagkerfi getur líka viðgengist samfara því að einstaklingar eru sviftir frelsi og kúgbeygðir. Að koma á sósíalisma krefst þess að menn takist á við og leysi ýmis mjög erlið félagsleg og pólitísk vandamál: Hvernig er hægt að koma á miðstýringu pólitísks og efnahagslegs valds, en varna því jafnframt að myndist allsráðandi og skefjalaust skrifræði? Hvernig er hægt að tryggja einstaklingsfrelsi og lýðræði andspænis tilhneigingu til skrifræðis?

Skýr og opin umræða um vandamál sósíalismans hefur einmitt gífurlega þýðingu núna á tímum þjóðfélagsumbrota. Þar eð ríkjandi öfl okkar þjóðfélags reyna jafnan að kæfa frjálsa og óhindraða umræðu um þessi mál, tel ég stofnun þessa tímarits ákaflega gott og þarft framtak til styrktar almannaheill.


Posted

in

by

Tags: